Jóhannes 13:1-15
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
I.
Svik eru orð dagsins. Menn safnast saman í litlum og stórum hópum og beita þrýstingi. Ýmiss konar hrossakaup fara fram og veigamiklir hagsmunir lagðir á vogarskálarnar. Jafnvel keikustu menn lúffa og hrasa, flækja sig í sínum eigin röksemdafærslum, láta undan hræðsluáróðri, byrja að semja um það sem er þeim óendanlega mikils virði. Og síðan eru ákvarðanirnar teknar, ákvarðanir þar sem skammtímahagsmunirnir hinir minni eru teknir fram fyrir langtímahagsmunina hina meiri.
Svik eru orð dagsins. Maður verður þreyttur á vini sínum. Honum finnst vinurinn vera óraunsær. Honum finnst vinurinn standa í vegi fyrir framförunum, að boðskapur hans og hegðun séu í engu samræmi við drauma hans sjálfs. Hann talar ekki við vininn um áhyggjur sínar og efasemdir, heldur fer einförum og gengur síðan á fund þeirra sem hann og vinurinn höfðu helst barist gegn. Hann lætur af hendi viðkvæmar trúnaðarupplýsingar um vin sinn. Hann treystir þeim betur en honum.
Svik eru orð dagsins. Maður kemst að því að verið er að úthúða vini hans, hann er ofsóttur og hefur verið rænt. Hann eltir hann uppi en kemst hvergi nærri honum. Hann er spurður hvort hann þekki þennan vandræðagemling, en maðurinn svarar því til að hann hafi aldrei verið sérstaklega hrifinn af honum eða þekkt hann vel. Hann vill hvergi við hann kannast.
Svik eru orð dagsins. Manneskja sem brotið hefur verið á er flutt fyrir valdsmann sem hefur öll úrræði í hendi sér. Valdsmaðurinn forðast að taka afstöðu. Hann veit ekkert hvað hann á að gera og endar á að vísa málinu til dómstóls götunnar. Hann þvær hendur sínar af þeim sem fyrir brotinu varð.
Svik eru orð skírdagsins, dularfullar hræringar sem eiga sér upptök annars staðar en hjá persónum og aðalleikendum, undiröldur sem hafa átt sér langan aðdraganda, varnarviðbrögð sem að þessar tilteknu aðstæður leysa úr læðingi. Atburðir skírdagskvölds og föstudagsins langa eru hápunktur dramans sem hin kristna upprisufrásögn byggir á.
Þetta drama fjallar um svik, um einmanaleika, um skort á kjarki og hugsjón, um hjarðhugsun, undirlægjuhátt og hjarðótta, um málamiðlanir og hrossakaup, um að láta plata sig og nota sig, um vináttu sem glataðist, um mannréttindabrot, um niðurlægingu og hrikalega meðferð á fólki um skort á ábyrgðartilfinningu og kærleika, um að horfa í hina áttina þegar brotið er á öðrum.
II.
Svik voru orð hins fyrsta skírdags og margur upplifir sömu stef svika í lífi sínu. Svik geta ekki orðið nema að traust hafi verið til staðar fyrst. Þegar við ræðum um svik, þá syrgjum við ekki aðeins undanbrögð, mistök og fals. Við syrgjum líka traustið sem er horfið.
Við sem erum manneskjur svíkjum og erum svikin. Þessi svik koma fram í samskiptum okkar við börn, maka og foreldra, á vinnustaðnum, í vinahópnum, í samfélaginu. Höfnunin sem við upplifum getur verið kynferðisleg og tilfinningarleg eða átt sér stað í nánum samskiptum vina og fjölskyldu, í skakkaföllum í lífi og starfi sem okkur finnast ósanngjörn og ræna okkur trausti á manneskjur og gifturíka framtíð. Mörg manneskjan hefur varið gjörvöllu lífi sínu í að takast á við slíkar traustsglímur. Hún hefur þurft að læra að treysta upp á nýtt, að læra að taka eigin ákvarðanir, að standa með sjálfri sér, að setja öðrum mörk, að axla ábyrgð og ætlast til þess sama af öðrum. Við getum verið bæði svikin og svikul sem manneskjur og erum það iðulega.
Það er ólga í samfélaginu í þessari dymbilviku, mörg heimili berjast í bökkum fjárhagslega og atvinnulífið er ekki eins sterkt og áður. Fyrir tveimur dögum kom út skýrsla innanríkisráðherra um Guðmundar og Geirfinnsmál, þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að stærstu mannréttindabrot í sögu íslenska lýðveldisins hafi verið framin af yfirvöldum gegn sakborningunum í málinu, með pyntingum, ómannúðlegum einangrunarvistum, illri meðferð, kynferðislegri misnotkun, þvinguðum játningum og dómum sem reistir voru á ónógum grunni. Skýrslan er áfall fyrir Ísland sem réttarríki og því sem við sem lýðræðisþjóð höfum viljað standa fyrir. Yfirvofandi þinglok og komandi kosningar hafa líka sett svip sinn vikuna, ekki síst í gærkvöldi, þar sem stórar ákvarðanir voru teknar á lokaspretti þingsins, m.a. í stjórnarskrármálinu og stóriðjumálinu. Sumum voru þessar niðurstöður merki um farsælar lyktir í anda atvinnuuppbyggingar. Önnur upplifa það að stór baráttumál hafi verið verið svikin.
Það er skírdagur í dag, ekki beinlínis hátíðardagur, heldur minningardagur um borðsamfélag, ólgu og svik. Sumir kvarta yfir þessum döpru, fjólubláu minningardögum kristninnar, skírdegi og föstudeginum langa, dögum sem eru sorglegir og tilfinningaþrungnir, helgaðir allsleysi, kveðjum, þunga og svikum. Hafa slíkir dagar einhvern boðskap að bera okkur manneskjunum í baráttu fyrir framtíð í gnægð, friði og trausti? Í dymbilvikunni standa okkur tákn kristninnar skýrt fyrir hugskotssjónum. Júdasarkossinn, silfurpeningarnir þrjátíu, Pílatus sem þvær hendur sínar, æðstuprestar og farísear sem réðu ráðum sínum, Pétur sem ekki kannaðist við vin sinn, og síðan pyntingin, þjáningin og dauðinn. Þessi tákn eru beintengd inn í orðaforða okkar, hina íslensku þjóðarsál og hinn vestræna arf. Þau eru hluti af menningararfleifð okkar, hvort sem við játum kristinn sið eða ekki og við grípum nánast ósjálfrátt til myndanna af hinum þjáða og beygða þegar við lýsum tilfinningum okkar af svikum.
III.
Tilfinningar um svik og traust eru hluti tilvistar okkar, eitthvað sem við lifum við sem brotnar og breyskar manneskjur. Við upplifum öldu reiði og vonleysis. Við getum lesið tilfinningar okkar inn í píslarsöguna vegna þess að það hefur fólk gert á öllum tímum, meðvitað og ómeðvitað. Atburðir hins fyrsta skírdagskvöld endurspeglar þannig ekki aðeins atburði sem að einhverju leyti eru sögulegir, heldur hafa að gera með það hvernig við upplifum og túlkum hið daglega líf.
Guðspjall skírnarkvöldsins dregur okkur aftur til borðsins þar sem Jesús situr með lærisveinum sínum við síðustu kvöldmáltíðina. Það er undiralda í hópnum, og einhvers staðar í öðru húsi eru æðstuprestarnir og farísearnir að brugga Jesú launráð. Júdas er þegar búinn að selja hann og bíður bara eftir tækifæri á afviknum stað. Í kring sitja brokkgengir vinir sem munu yfirgefa Jesú við fyrsta tækifæri. Einn af þeim mun afneita honum.
Það merkilega er að tákn skírdagskvöldsins fjalla ekki bara um svik.
Þau færa okkur líka matarborðið og vatnsfatið, næringuna, umhyggjuna og hreinsunina. Jesús tekur fram fat með vatni og þvær fætur vina sinna og í guðspjalli dagsins í Jóhannesarguðspjalli er þessari athöfn lýst af nákvæmni, þvotti Jesú, hvernig hann breiðir þerridúkinn og þurrkar fæturna, undrun lærisveinanna, mótmælum Péturs. Síðan talar Jesús um nauðsyn þess að elska hvert annað og að á því muni allir þekkja hverjir séu lærisveinar hans. Hann etur með þeim og drekkur hina síðustu kvöldmáltíð, biður þau að minnast sín og sjá í brauðinu og víninu líkama sinn og blóð sitt.
Í orðum Jesú og gjörðum þetta einstaka kvöld endurspeglast eitthvað sem hljómar inn í hinn sára skort traustsins sem hrjáir okkur sem manneskjur og þjóð. Þetta atferli, þessi þvottur og þessi orð mynda enga andstæða þjáningarinnar. Það helgar heldur ekki þjáninguna eða festir hana í sessi. í staðinn má með atferlinu leitast við að lifa með þjáningunni, mistökunum og svikunum vegna þess sem við höfum gert og það sem brotið er á okkur. Jesús guðspjallsins situr mitt í þessu drama hinna sviknu og hinna svikulu og gerir eitthvað. Hann þjónar fólki og allar manneskjur af öllum kynþáttum stærðum og gerðum sitja við borðið hans. Hann fæðir það. Hann stofnar til samfélags. Hann segir fólki að þjóna hvert öðru, gefa hvert öðru að borða. Honum þykir raunverulega vænt um lífverur og hann ætlast til þess að við gerum slíkt hið sama. Guð sem býður okkur til borðsins er Guð sem elskar fólk.
Það er á þeirri forsendu sem fótaþvottur og kvöldmáltíðin getur talað svo sterkt inn í hina pólitísku vídd og öldu lífsbaráttunnar sem við upplifum í dag. Þessar athafnir tala inn í andrúmsloft tortryggni. Þær fjalla um brothætt traust og umhyggju einmitt á þeim stað þar sem fólk hefur lítið milli handa, treystir æ minna stofnunum og stjórnvöldum eða bíður skipbrot í nánum samböndum. Þá er gott að minnast kvöldsins þegar Jesús kvaddi vini sína og hugsanlega vinkonur. Hann kraup hjá þeim, þvoði óhreinindin sem þeir höfðu stigið í, snerti þau, þerraði fætur þeirra og þjónaði þeim. Slíkar athafnir skapa von og nánd, þar sem tortryggni og fjarlægð ríkja.
Vonin er dýrmæt og vonin bindur okkur við aðrar mannverur og framtíðina með þeim. Þessi von birtist í samfélagi um mat og drykk og umhyggju hvert fyrir öðru. Hún birtist í guðdómi sem er nálægur í okkar daglega brauði, mat og drykk og stýrir fæti okkar á friðarveg. Hún gefur okkur kraft til að læra af því þegar traustið hverfur og byggja nýjar brýr í miskunn en ekki meðvirkni.
Svik eru orð dagsins með öllu fólkinu sem sveik Jesú og sveik hvert annað. En traust er líka orð dagsins vegna hans sem gefur brauð og vín, þvær fætur okkar og aldrei svíkur.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen