Á sama báti á sama sjó

Á sama báti á sama sjó

Hafið auðuga sem umlykur landið okkar ætti að vera okkur sístæð áminning um lífið sem Guð gefur okkur: þetta undursamlega, fagra, djúpa, leyndardómsfulla, síbreytilega og auðuga líf. Hafið ætti að minna okkur á að við erum öll á sama báti á þeim sama sjó.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
11. júní 2006
Flokkar

 

Nú fór hann í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gjörði svo mikið veður á vatninu, að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: Herra, bjarga þú, vér förumst. Hann sagði við þá: Hví eruð þér hræddir, þér trúlitlir? Síðan reis hann upp og hastaði á vindinn og vatnið, og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.  Matt. 8.23-27

 

“Föðurland vort hálft er hafið,” sungum við hér áðan, eins og jafnan á sjómannadegi í hinum fagra sjómannasálmi Jóns Magnússonar. “Föðurland vort hálft er hafið,” það er svo satt. Hafið sem umlykur landið okkar fagra, góða, uppspretta þjóðarauðs og  hagsældar. Á sjómannadegi færum við fram þökk fyrir það, og fyrir þá sem fara hafsins vegu og draga björg í bú. Héðan úr Dómkirkjunni í Reykjavík sendum við hlýjar kveðjur til sjómanna um land allt og fjölskyldna þeirra.  Í nafni alþjóðar flytjum við fyrirbæn og þakkargjörð fyrir sjómennina okkar, framlag þeirra og fórnir í sögu og samtíð. Og hér minnumst við þeirra sem hlutu hina votu gröf og tjáum sorg og samhug alþjóðar. Aftur og aftur erum við minnt á hætturnar sem á hafinu leynast og fórnirnar dýru sem þar eru færðar. Og það er svo satt sem segir í sálminum: “þegar hendir sorg við sjóinn, syrgir, tregar þjóðin öll.”

Ritningarlestrana hér áðan lásu fulltrúar Landhelgis gæslunnar. Við minnumst sérstaklega í þökk og fyrirbæn Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita um land allt, sem leggja fram sína góðu krafta til bjargar mannslífum, og eins þeirra sem sinna slysavörnum og öryggismálum til sjós og lands. Guð launi það og blessi.

Hafið auðuga sem umlykur landið okkar ætti að vera okkur sístæð áminning um lífið sem Guð gefur okkur: þetta undursamlega, fagra, djúpa, leyndardómsfulla, síbreytilega og auðuga líf. Hafið ætti að minna okkur á að við erum öll á sama báti á þeim sama sjó.

Nábýlið við afl og ógn náttúruaflanna setur mark sitt á íslenska sjálfsmynd. Andstæður íss og elds, hafið og ægikraftar þess,  hafa kennt okkur sitthvað um styrk manns, þrautsegju, þrek. En líka um veikleik hans og vanmátt, um æðruleysi, um aðgát og fyrirhyggju, um að treysta á sjálfan sig, um mikilvægi samhjálparinnar, um virðingu fyrir því veika og varnalausa. Styrkur manns felst ekki endilega í hæfileikanum að vinna stærri sigra, auka aflann, sækja lengra, víkka mörkin. Það er annað sem gildir. 

Varnarleysi og vanmáttur mannsins er ekki veikleiki, mildin og miskunnsemin er styrkur manns. Hógværð og lítillætið aðalsmerki hans. Það kennir Jesús Kristur.  Í huga hans er hógværð, lítillæti og auðmýkt ekki vanmetakennd, ekki uppgjöf hins vonsvikna og sigraða. Auðmýkt er penninn í hendi skrifarans, leirinn í höndum listamannsins, moldin sem hlúir að sáðinu og tekur við sól og regni, seglið sem vindurinn fyllir og hrærir og knýr.

Gæfuleiðin er að leita þeirrar auðmýktar, að leyfa Drottni að leiða sig.

Hin auðmjúka meðvitund um varnaleysi og vanmátt manns skerpir heyrn og næmi fyrir gráti særðrar jarðar og stunum brotinnar mennsku. Slík auðmjúk meðvitund skerpir sjón fyrir því að við erum öll á sama fleyi á sama sjó, undir sömu sök seld.

Hrollvekjandi eru hrakspárnar um hvernig hafið mun ganga á land vegna hlýnunar andrúmsloftsins, gróðurhúsaáhrifin munu valda hækkun yfirborðs sjávar, sem færa muni borgir og lönd í kaf. Fólk flykkist í  bíó til að sjá dómsdagsmyndir um stórslys og hamfarir, um heim á heljarþröm, já, og svo um afhjúpun huldra dóma og samsæriskenningar um lygavefi sem kirkjan hafi í aldanna rás spunnið upp. Víst er að tímar öryggisleysis og upplausnar mynda ævinlega frjósaman jarðveg fyrir samsæriskenningar af öllu tagi. Og nauðsynlegt þykir að afhjúpa allt kennivald og afbyggja öll gefin viðmið. Tortryggnin og vænisýnin haldast í hendur við skefjalausa trúgirni. Hrollvekjurnar og samsæriskenningarnar eru á góðri leið með að verða grundvallarfrásaga menningar okkar, og grafa undan trausti og öryggi. Hin neikvæða, bölsýna mynd af framtíð manns og heims, hryðjuverk og hamfarir, farsóttir, hörmungar og lymsku- og lygavefir vondra manna og máttarvalda.

Í sögunni af Jesú og í bæninni í nafni hans fáum við að skynja birtu nýrrar framtíðar sem er á valdi hans. Lífið á ávallt og ævinlega í vök að verjast og heimurinn er á heljarþröm. Af því að syndin er að verki í mannlífinu, og dauðinn krefst alls sem lifir. Lífinu er ætíð ógnað, það þarf alltaf að berjast fyrir því. Heljarbylgjan rís og slær. Og við missum móðinn, trúin bilar, vonin bregst. Í skelfingu okkar hrópum við upp í dimman himinn: Hvar er Guð og verndin hans? Sefur hann, eða lætur sér fátt um finnast? Það er hinn skelfilegi möguleiki sem við blasir andspænis ógn og hel.

En hann sem kyrrir vind og sjó sýnir okkur það sem aldrei bilar og engum bregst. Trúin á hann er ekki andstæða efans, heldur óttans, hún er traust til þess máttar sem yfir okkur vakir og elskar. Og megnar að leiða gegnum það allt sem skelfir, eyðir og deyðir.

Trúin á Jesú Krist gefur von sem eflir lífsþróttinn, gefur styrk til að lifa við áhyggjur og erfiðleika, vonbrigði og vanmátt: Að lifa hugrökk með gleði, að þekkja sjálfan sig og takmörk sín, að reiða sig á máttinn sem fullkomnast í veikleika, að elska Guð, lífið og náungann í vitund þess hve við erum öðrum háð og eigum ótal margt að þakka. Raunaspurnirnar fá ef til vill ekki svör. Nema þá svör og huggun umhyggjunnar, eins og móðir nokkur, sjómannsekkja, sagði forðum við harmi lostinn son sinn: “Guð er góður, drengurinn minn, þótt hann komist stundum ekki hjá því að hryggja börnin sín. Reyndu aðeins að lifa svo sjálfur að hið góða fylgi þér, láttu það finnast að Guð hafi gefið þér góða hönd og gott hjarta og þá mun samviska þín aldrei efast um gæsku Guðs og hugur þinn aldrei missa hans og þá er öllu borgið, hvað svo sem annað kann að gerast.” Þetta eru holl heilræði og í fullu gildi. 

  Margir náttúruvísindamenn eru sannfærðir um að allt stefni í óefni, við blasi ragnarök af mannavöldum. Það sé þó ekki of seint að snúast til varnar lífríkinu, en við megum engan tíma missa. Við hljótum að gefa gaum að tímanna táknum og hlusta á viðvaranir!  Við verðum að horfast í augu við það að við göngum of nærri auðlindum jarðar. Gengdarlaus orkusóunin er komin út yfir öll mörk. Og þar er ekki aðeins við stjórnvöld að eiga eða hina stóru og voldugu og auðugu þessa heims. Þetta eru ekki aðeins pólitísk viðfangsefni, þó að við hljótum að gera kröfur til stjórnmálamanna okkar og leiðtoga að gefa þessum málum aukinn gaum. Við erum ekki áhorfendur, við erum ábyrgar manneskjur en ekki fórnarlömb og leiksoppar utanaðkomandi afla og áhrifavalda. Við sem þegnar, neytendur, manneskjur, við berum ábyrgð hvert og eitt og getum ýmislegt gert í okkar nánasta umhverfi til að endurmeta lífsstíl og umgengni við verðmæti sem vegur býsna þungt í þessum efnum. Umhverfismálin, náttúruverndin, umgengnin við landið, hafið, lífríkið, umhverfið, það eru andleg og siðferðileg málefni, en ekki aðeins efnahagsleg og pólitísk. Við erum öll ábyrg, á sama fleyi, á sama sjó.

Við göngum freklega gegn lífríki jarðar með græðgi okkar og yfirgangi og rányrkju, spillum, sóum, mengum. “Lengi tekur sjórinn við” höfum við sagt. En gefum síður gaum að afleiðingunum. Þó hefur mikið áunnist með samstilltu átaki  að bæta umgengni. En betur má ef duga skal, eins og sjá má  um allan sjó og strendur. En ekki bara þar. Meðfram vegum landsins hvarvetna. Og þegar gengið er um götur höfuðborgarinnar td blöskrar manni sóðaskapurinn sem hvarvetna blasir við, veggjakrot, skemmdarverk, rusl, hrákar, tyggjóklessur við fótmál hvert. Erlendur ferðamaður benti á klessurnar á gangstéttinni og spurði: Hvað er þetta? Er enginn sem kennir fólki hér að nota ruslafötur? Sóðaskapurinn á almannafæri er vísbending  um menningarstig og uppeldi þjóðar og virðingarleysi fyrir eigum annarra, umhverfi, landi. Og hvað á að segja um orðbragðið og sóðakjaftinn sem nú þykir helst mannsbragur að, þar sem engin mörk virðast virt, ekkert velsæmi megi verja? Það virðist bera að sama brunni virðingarleysisins. Menning sprettur af uppeldi í virðingu fyrir sjálfum sér, lífinu, náunganum, og því sem æðra er. 

“Nú þarf ekki Guð, ég gat!” sagði karlinn í þjóðsögunni. Þannig höfum við hagað okkur. Það kann ekki góðri lukku að stýra.  Við þurfum að læra að hafið er ekki aðeins auðlind og forðabúr, jörðin er ekki bara hráefni, hafið, jörðin, lífið er okkur léð til að gæta, rækta, bæta, sem samverkamenn skaparans, lausnarans, verkfæri lífsins anda. “Enginn lifir sjálfum sér....” segir Páll postuli. Vissulega er hann að tala um hjónabandið en beinir athyglinni að þeirri frumstaðreynd að allt líf er sam-líf. Enginn lifir sjálfum sér. Við eigum samleið, við erum öll á sama báti, hvert öðru háð. Og umhugsunarverð eru orð Lúthers þegar hann var spurður hvað hann myndi gera ef hann vissi að dómsdagur yrði á morgun. Hann svaraði því til að hann myndi fara út í garð og gróðursetja eplatré. Hvað á hann við? Ég held hann sé að segja það að hvað sem spádómum líður þá eru frumskyldur okkar við lífið og heill þess hér og nú. Eplatré er plantað til að bera ávöxt, og það er þolinmæðisverk, því sá sem plantar eplatré fær ekki endilega að njóta ávaxta þess. Það er verknaður niðjunum, framtíðinni til hagsbóta. Við sem erum svo upptekin af skyndilausnum og skjótfengnum árangri og gróða, ættum að hugsa til þeirra viðfangsefni á lífsfleyinu sem við sjáum sjálf ef til vill engan árangur af eða getum grætt á, en sem stuðlar að heill og heilbrigði og viðgangi lífsins.

Hrollvekjuspárnar skelfilegu eru reiknaðar út á forsendum reiknilíkana. Það vantar samt eitt í þau reiknilíkön, eina stærð, sem okkur leyfist ekki að horfa fram hjá. “Himinn og jörð munu líða undir lok,” segir Jesús. En bætir svo við: “EN orð mín munu alls ekki undir lok líða.”

Öfl og áhrif hins illa fara ekki fram hjá neinum, upplausn og eyðing, EN Guð er að verki, afl og áhrif lífsins er að ryðja sér braut. Heimurinn er ekki aðeins heimur á heljarþröm á hraðfara glötunarvegi, heldur hólpinn heimur, sem Guð elskar og frelsar. Drottinn er um borð, og hann sefur ekki. Orð hans og andi er að verki, hann sem kyrrði vind og sjó þarna forðum, hann er að verki í heiminum okkar, ávarpar okkur, og kallar til fylgdar í trú, von og kærleika. Fyrir það stendur kirkjan, öll iðkun og atferli hennar, á grundvelli þessa biður þú þitt Faðir vor, og leggur líf þitt og börn og samferðarmenn þar í: það er þessi oft gleymdu stærð og staðreynd, þetta EN. Orðið sem aldrei mun undir lok líða, viljinn góði og valdið milda sem mun um síðir sigra, lækna, blessa allt.

 Við hljótum að hlusta eftir því sem frelsarinn segir: „Hví eruð þér hræddir, trúlitlir?” Í hans hendi er líf og framtíð manns og heims. Og þú ert barn hans, barn ljóssins og dagsins, kallaður til að bera vitni um sigur hans og líf.

***

Hér í Dómkirkjunni er í dag, á sjómannadegi fáni með fimm stjörnum, fimm fórust á sjó á umliðnu ári. Fimm stjörnur sem minna á hörmuleg slys, sem vöktu óhug og harm í hugum okkar allra, fimm einstaklinga sem svipt var burt frá okkur. Nöfn þeirra og líf er geymt í föðurhjarta Drottins. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra og sendum hugheilar samúðarkveðjur þeim og öllum sem syrgja og sakna. 

 Á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði  í virðingu, þökk og samúð.  Rísið úr sætum og við lútum höfðum í þögn.

Veit þeim, ó Drottinn, þína eilífu hvíld, og lát þitt eilífa ljós lýsa þeim. Þeir hvíli í þínum friði. Hugga þau sem eiga um sárt að binda, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra hvert tár.

Í Jesú náðar nafni. Amen.