Hér er kall, um köllun frá konum til kalla

Hér er kall, um köllun frá konum til kalla

Ung kona leggst til svefns eftir annasaman dag. Hún býr ein í íbúð í stórborginni. Henni finnst það gott. Hún er rétt að festa blund þetta kvöld þegar hún heyrir þrusk. Það er eins og eitthvað hafi verið að detta. Eitthvað þungt. Hún spennist upp. Hvað er í gangi? Skyndilega kviknar eldur og rödd heyrist úr eldinum miðjum: „Ég er Metatron, sendiboði hins heilaga Guðs.“

Dogma

Ung kona leggst til svefns eftir annasaman dag. Hún býr ein í íbúð í stórborginni. Henni finnst það gott. Hún er rétt að festa blund þetta kvöld þegar hún heyrir þrusk. Það er eins og eitthvað hafi verið að detta. Eitthvað þungt. Hún spennist upp. Hvað er í gangi? Skyndilega kviknar eldur og rödd heyrist úr eldinum miðjum: „Ég er Metatron, sendiboði hins heilaga Guðs.“

Hvað skyldi konan gera? – Hafið í huga að þetta er sjálfstæð nútímakona. Hún sækir auðvitað slökkvitækið og tæmir úr því yfir eldinn.

Hvað stendur þá eftir? Engillinn Metatron, rödd Guðs, sem er kominn til að færa henni skilaboð. Fela henni verkefni – kalla hana til þjónustu. Um það fjallar kvikmyndin Dogma sem hefst á þessari senu, þessari köllunarsögu.

Köllun?

Hvað merkir þetta orð,? Þetta er eitt af orðunum sem við prestarnir notum iðulega. Er það kannski eitt af orðunum sem við sem erum guðfræðimenntuð höfum á hraðbergi og skiljum, en aðrir ekki.

Er þetta orð á pari við fráfærsla (sem er hreyfing líkamshluta – íðorðasafn um líffræði), afsvæðavæðing (sem lýsir því þegar heimsskipan riðlast og mörk milli áður aðgreindra svæða verða óljós – íðorðasafn um stjórnmálafræði) og verðbólgumarkmið sem við kynntumst reyndar í Hruninu?

Þessi orð sem geta við ákveðnar aðstæður fallið undir það sem er kallað er tæknibull og heitir á ensku technobabble og hefur iðulega verið tengt við sjónvarpsþætti eins og Star Trek. Þar eru íðorðin notuð til að ljá samtölum yfirbragð fagþekkingar og dýptar. Hvað sem þau svo merkja.

Er köllun slíkt orð?

Köllun er vissulega íðorð, eins og fráfærsla, afsvæðavæðing og verðbólgumarkmið. Orðið má vissulega nota orðið til að skapa ásýnd fagmennsku án þess að meira nokkuð búi undir. En það er, eins og hin íðorðin sem ég nefndi, notað til að lýsa ákveðnum veruleika sem snertir okkur öll. Þetta er greiningarhugtak og það skiptir máli, sérstaklega þegar það er notað í samhengi lútherskrar kirkju og guðfræði.

Ég skal útskýra af hverju.

Lúther og köllunin

Á tíma siðbótarinnar á 16. öld gekk fjöldi fólks til liðs við kirkjuna með því að ganga í klaustur og gerast munkar eða nunnur og með því að gerast prestar. Á þessum tíma fylgdi það munkum í ákveðnum klausturreglum að þeir tóku jafnframt prestsvígslu – það gilti að sjálfsögðu ekki um nunnurnar, þær fengu á þessum tíma ekki að þjóna sem prestar og svo er reyndar enn í sumum kirkjudeildum, þ.á.m. þeirri rómversk-kaþólsku.

Ein hugmyndin sem sumir kirkjunnar menn héldu fram á þessum tíma var sú að með því að ganga í klaustur og með því að taka prestsvígslu kæmust þeir nær Guði. Væru heilagari og jafnvel nokkuð merkilegri. Þetta rataði meira að segja inn í byggingarlistina. Ef þið komið í gamlar kirkjur eins og dómkirkjuna á Hólum í Hjaltadal þá er þar kórþil, eins konar girðing, sem aðgreinir svæðið kringum altarið frá kirkjuskipinu sjálfu. Þangað fór ekki hver sem er. En nú er öldin önnur.

Nema hvað.

Það var eitt af grundvallaratriðunum í guðfræði Lúthers að það væri ekkert merkilegra gagnvart Guði að vera prestur eða nunna eða biskup eða páfi. Þú kæmist ekkert nær. Við gætum öll staðið frammi fyrir Guði og beðið fyrir náunganum. Þetta – og hér er ég að einfalda svolítið – leiddi til þess að klaustrin tæmdust. Um leið var Lúther að minna á að hvert starf er merkilegt. Þannig erum við, sagði hann, kölluð til að vera skósmiðir, skrifstofumenn, prestar, lögfræðingar, gullsmiðir, leikskólakennarar, læknar o.s.frv.

En það er meira.

Lúther sagði líka að við værum kölluð til ólíkra hlutverka í lífinu. Svo ég taki dæmi af sjálfum mér þá er ég ekki aðeins kallaður til að vera prestur heldur líka til að vera faðir, eiginmaður og samfélagsþegn.

Þar er útgangspunkturinn líka sá sami og þegar kemur að vinnunni: Eitt er ekki yfir annað hafið.

En það leynast enn freistingar í samfélagsgerðinni okkar. Þeirra mest er vinnufreistingin sem er sú að líta á vinnuköllunina sem æðri öðrum. Æðri fjölskyldu, börnum, samfélagsskyldum. Kannski helst þetta í hendur við mikilvægi peninga í samfélaginu okkar. Af því að vinnan gefur peninga en það gera ekki maki, börn eða samfélag - að minnsta kosti ekki í sama mæli. Þessar freistingar sem virðir ekki mörkin milli ólíkra hlutverka sem við erum kölluð til að sinna er jafn gagnrýni verð núna og hún var á 16. öldinni.

Köllunarsögur

Lestrar þessa sunnudags í kirkjunni eru köllunarsögur eða byggja á þeim. Við lesum um sveininn Samúel sem var kallaður á barns aldri til þjónustu. Ferillinn hans átti eftir að verða langur. Hann vissi semsagt snemma hvað lá fyrir. Við lesum um Pál postula sem fjallar um ólíka hópa en á magnaða köllunarsögu sjálfur. Hann ofsótti kristna menn, var sleginn blindu og snerist á vegi sínum. Svo var það Sakkeus sem stóð utan hópsins og fannst hann kannski vera svolítið yfir annað fólk hafinn, en langaði líka að tilheyra, mætti Jesú og breytti algjörlega um stefnu.

Við erum alltaf að lesa, heyra, sjá svona sögur – hvort sem þær eru kallaðar köllunarsögur eða ekki. Sögur eins og þá sem ég hóf þessa prédikun á. Stundum sjáum við okkur sjálf í þessum sögum. Íhugum eigin köllun.

Til hvers ert þú kallaður - kölluð – í þínu eigin lífi? Til hvers konar vinnu? Til hvers konar fjölskyldu? Til hvers konar persónulegra tengsla? Til að byggja upp hvers konar samfélag?

Skírnin

Við erum heppin í dag. Hér var lítill drengur borinn til skírnar. Við nefndum nafnið hans Rafaels Arons og þökkuðum fyrir lífið hans og fyrir líf fjölskyldunnar hans. Þau eru kölluð til að reynast honum vel. Kenna honum að elska Guð og náungann eins og við segjum í skírninni. Það er líka köllun að vera móðir og faðir, bróðir, frændi, frænka, afi, amma. Og öll þessi hlutverk eru mikilvæg.

Og við viljum lyfta því fram í samhengi dagsins. Við skírum börn af því að þau skipta okkur máli, af því að Guð skiptir okkur máli. Af því að trúin er mikilvæg.

Trúin tengist líka kölluninni? Og kirkjunni. Hvernig er þín kirkjuköllun? Hvenær fannstu þig kallaða til kirkjunnar? Var það í fermingarfræðslu? Á eldri árum? Kannski ungabarni sem þú þurftir að ala upp? Var það þegar eitthvað bjátaði á?

Jesús kallar þig

Jesús kallar. Hann kallar okkur. Hann kallar þig. Til hvers?

Unglingarnir í kirkjunni hafa sagt: hann kallar okkur til að vera hendur Guðs til góðra verka. Lestrar þessa dags minna okkur á að hafa eyrun opin – því Guð gæti verið að tala og fylgjast með því sem er að gerast því Guð gæti verið í bænum. Sakkeus náði því að hann þurfti að breyta um forgangsröðun. Köllun er nefnilega spurning um forgangsröðun.

Hugsaðu um þína. Og hlustaðu. Kannski er Guð að tala til þín. Einmitt núna.