Predikun. Mark. 8.1-9
Í guðspjalli dagsins fer Markús með okkur inn í kunnuglega sögu. Mettun þúsundanna.
Þetta er svipuð saga og við sjáum í öðrum guðspjöllum. Svangt og umkomulaust fólk verður satt. Hér af brauði einu, annars staðar bætist fiskur við.
Þeir fóru af stað með honum, þeir sem hann vitjaði við vatnið. Fiskimennirnir sem hann sagði að leggja frá sér netin og halda út í óvissuna. Lærisveinar, síðar nefndir postular.
Nú eiga þeir menn veiða menn. Það er ærið verk. Að ná tangarhaldi á fólki.
Til þess þarf sannfæringarkraft. Persónutöfra. Að laða að sér fólk er ekki öllum gefið. En meðölin eru ýmisleg.
Mörg eru hin grimmu og guðlausu hjörtu sem skeyta engu um umhverfi sitt eða annað fólk.
Valdsmenn af mörgum toga, hafa skreytt sig með falsfjöðrum, slegið blindu í augu fólks, teymt lýðinn auðsveipa yfir í heljarlönd
- gefið út ávísanir gylltar og logandi af fögrum fyrirheitum, innistæðulausa tékka sem falla - eftir standa fórnarlömbin í eymd og umkomuleysi.
Jesús er ekki úlfurinn i sauðargæru, sá er afvega leiðir lýðinn líkt og valdsmenn gyðinganna héldu fram, þótt sjálfsagt hafi þeir vitað hið sanna innst inni.
Ég kenni í brjósti um mannfjöldann - segir Jesús við lærisveinana.
Ekkert til matar, langt að sækja skjól og næringu. Þau munu örmagnast.
Hvað er til ráða, spyr hann menn sína. Góð ráð dýr.
Brauðin sjö eru dregin fram og í höndum Jesú, fyrir þakkargjörð hans og blessun verða þau nóg.
Og gott betur. Hann lætur menn sína taka saman leifarnar, svo að ekkert spillist.
Þar býr hentug áminning til okkar sem allt eigum og höfum.
Við erum meistarar í að fleygja og sóa. Matarsóun er ótrúlegt hneyksli. Til skammar fyrir ríka heiminn og háðung okkur Íslendingum.
Hugsunarlaust förgum við verðmætum sem hafa kostað orku, tíma og jarðargæði.
Við fleygjum líka plasti, dósum, hverju sem er, erum dæmalausir umhverfissóðar; látum oft eins og þessi jörð og afurðir hennar séu einnota, og það komi engum við hvernig við látum
Hann læknar sundurkramin hjörtu segir í Davíðssálminum sem er lexía dagsins. Til þess er hann kominn.
Jesús hneykslar sitt heimafólk í Nasaret er hann les úr ritningunni - hann gunngjörir náðarár drottins, gefur bandingjum lausn.
Það er aldeilis að hann gerir sig breiðan. Og hann er hrakinn með grjótkasti úr heimabyggð sinni. Engin er spámaður í sínu föðurlandi.
En hann er kominn til að gera bandingja frjálsa.
Hann talar um hina minnstu bræður. Við okkur segir hann: Allt gott sem þið gerið þeim, það gerið þið mér.
Fjallræðan í Mattheusarguðspjalli geymir mikla opinberun. Hún svarar því, í það minnsta að hluta: Hver er Jesús. Hvað þurfa þeir að vera sem eru hans. Og hvert er hlutskipti þeirra.
Sælir eru fátækir… Sælir eru hógværir.
Þetta er vissulega texti sem hefur verið notaður til að segja að himnasælan, eða sælustraffið, eins og Þórbergur orðaði það, muni gera meira en að bæta þjáningu í táradalnum, og að ekki skuli gera miklar kröfur um réttlæti eða mannsæmandi laun.
Þannig má snúa öllu má á hvolf. Kirkja og valdhafar hafa iðulega verið í innilegu og vanheilögu sambandi um óréttvísi.
Kirkjan þá brúkuð eins og tæki til að gangsetja og viðhalda heljartaki valdhafa á fátæku fólki sem á sér enga málsvara.
En kirkjan hefur líka borið gæfu til þess að eiga innan sinna raða spámenn og siðbótarfólk sem hefur lesið ritninguna óbrjáluðum augum
– og víða höfum við sterk og áhrifarík dæmi um jákvæð áhrif kirkju og kristindóms á samfélagsmál.
Í Gamla testamentinu eru dómsspámennirnir fyrirferðamiklir.
Þeir eru ósparir á stóru orðin er þeir hvetja þjóð sína til að iðka réttlæti - sýna mannúð og umhyggju þeim sem ekkert eiga - hýsa bágstadda og hælislausa.
Og Jesús fer víða og talar margt um hinn minnsta bróður.
Þekkt er dæmisagan af miskunnsama Samverjanum, sennilega fáar örsögur sem hafa haft jafn rík áhrif.
Hver er lærdómurinn af henni? Við erum kölluð til að hjálpa fólki í nauðum. Það er okkar skylda, ekki fengur eða afrek, heldur það að vera drottins.
Við vitum ekki hver verður á vegi okkar - og við veljum okkur ekki náungann.
Ítrekað sjáum við það í orðum og gjörðum Jesú frá Nazaret.
Lærdómurinn er sá, að þjóðerni, kynþáttur, trú eða lífsskoðun. Allt er það léttvægt er við komum að fólki í nauðum.
Hælisleitendur, flóttafólk, fólk á flóttamannsveginum. Þar fer náungi okkar.
Nú eru uppi áður óþekktar aðstæður í Evrópu.
Vesturlönd stenda frammi fyrir mikilli áskorun. Harmlegu hlutskipti flóttamanna sem knýja á dyr okkar. Hvað viljum við vera í þessum veltingi öllum ?
Síðari hluta síðustu aldar nutu Íslendingar velvilja og stuðnings annarra þjóða og urðu ríkir og velmegandi.
Tími er kominn til að við látum af þeim ósið og leggjum frá okkur þá ómenningu sem plagað hefur samfélag okkar allt of lengi - að líta á útlönd og útlendinga, einvörðungu sem eitthvað sem hægt er að græða á.
Þannig getum við verið upprétt í samfélagi þjóða
Íslenskt fólk flúði vísan dauða á nítjándu öld og fékk land og skjól í Norður Ameríku. Það er þakkarefni.
Lítum í auðmýkt, í á kjör og hlutskipti bræðra og systra. Þau eru okkar, þau er þjást, heimilislaus, á flótta – auðútsett fórnarlömb glæpa og mannvonsku.
Þau eru við. Burtséð frá þjóðerni, trú eða sannfæringu. Öll erum við sköpuð í Guðs mynd.
Þau biðja um skjól og daglegt brauð.
Það er ekki einfalt; það mun kosta að taka á móti flóttafólki og það mun taka á.
En það er líka spennandi viðfangsefni og víst er að þeir sem hingað koma úr framandi menningarheimum auðga samfélag okkar.
Við erum rík þjóð Íslendingar; efni okkar eru mikil
Það er fulljóst að búr okkar eru stór og rík af mat og gæðum. Kornhlöður okkar eru fullar.
Í Fjallræðunni er áminning um að hamingjan felst ekki í því einu að safna korni í hlöður. Hamingjan býr líka í mátulegu tómlæti um efnisleg gæði.
Við erum minnt á liljur vallarins og fugla himins. Hamingjumaður getur líka sá verið sem lítur yfir farinn veg og þakkar að hann skaðaði engan, rak engan um dimman dal, heldur gerði öðrum gott.
Við veljum okkur ekki þjóðerni, hörundslit, kynhneigð. Við um sumt veljum okkur ekki trú eða menningu.
Við erum fædd inní menningar- og félagsheim sem er mótaður af kristinni trú. – hvað svo sem menn segja og lepja upp hver eftir öðrum um skaðsemi af kirkju og kristni, og þykjast meiri eftir.
Í Davíðssálmi segir: Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta. Og hvað merkir nú þetta. Vit, hvers konar vit.
Er það vitið sem nútíminn hampar svo mjög. Vit til að komast áfram í lífinu, græða, jafnvel níðast á öðrum til að tryggja eigin hag.
Er það vitið sem smíðar vígtólin, hernaðarvit ?
Er það vitið sem hefur hrundið af stað bylgju flóttamanna frá Afríku og Mið-Austurlöndum ?
Er það vitið sem viðheldur ójöfnuði – ótrúlegu ríkidæmi forréttindafólks og örbyrgð hinna snauðu.
Viturt hjarta Davíðssálmsins er kannski heimskulegt og vitlaust að dómi heimsvitsins.
Davíðssálmurinn talar um viturt hjarta, sem veit og skilur að við eigum ákveðinn tíma á jörðu - daga ár og ævi sem kemur og fer.
Þetta þurfum við að vita og læra svo að hjarta okkar verði viturt og ríkt; hjarta sem gefur, líknar, hjálpar. Umfram allt, þakklátt hjarta.
Marteinn Lúter segir í einu rita sinna, að náð Guðs, fyrir trú á Jesú Krist, geri manninn glaðan, djarfan og fagnandi fyrir Guði, mönnum og hverri skepnu. Það er góð áminning á hverjum degi sem Guð gefur.
Þúsundir verða saddir, fá sitt daglega brauð. Og hvað segir okkur þessi saga um mettun þúsundanna ? Hvað er hún.
Fyrst og fremst er hún vitnisburður þeirra sem með Jesú voru. Þeir trúðu; þannig er mettunarsagan sönn.
Þannig verður hún sönn í okkur, fyrir trú. Þannig fær hún að bera ávöxt í hjörtum okkar, fyllir okkur lotningu og auðmýkt, líkt og með þeim er hann sáu og reyndu.
Fjögur þúsund þakklát hjörtu sungu lausnara sínum lof. Lífgjöf þáðu þeir.
Mannanna börn hungrar eftir daglegu brauði sínu, eftir réttlæti.
Jesús er réttlætisins sól.
Það er próf, það reynir á að vera Drottins, vinna ljóssins verk meðan dagur okkar varir. Gera sem við getum að laga heimsins mein.
Biðjum um vit og dómgreind til að fara vel með það sem er á okkar valdi, svo að dagar okkar verði góðir og breiði birtu yfir lif annarra. Göngum saman djörf og sterk.
Jesús er sá er birtir Guð á jörðu. Hann sem var orðið í upphafi; var til alla vegu frá grundvöllun heimsins – hann sem er frá eilífð til eilífðar.
Hann leysir ok bandingjanna. Hann er lognið sem svæfir storminn. Ljós í myrkrum. Líkn allra lýða.
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.
Höfundur er prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi