Von heimsins í augum barns

Von heimsins í augum barns

Sagan af fæðingu Jesú í fjárhúsi ögrar þeirri mynd að Guð sé ætíð á bandi hins sterka, í stuðningsliði valds og valdakerfa ... Og þú svarar: Ég var í Betlehem. Og hann spyr: Hvað sástu þar? Þú svarar: Ég sá bestu von heimsins. Og hann spyr: Hvernig lítur hún út? Og þú varar: Hún lítur út eins og þú og ég ...
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
26. desember 2008
Flokkar

Fæðing Jesú Krists varð á þennan hátt: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman reyndist hún þunguð af heilögum anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni, vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: „Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans.“

Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða: „Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss.

Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS. Matt 1.18-25

Á jólum fagnar hin kristna kirkja í heiminum öllum fæðingu Jesú, þeim viðburði að Guð gerðist maður. Boðskapur holdtekjunnar - eins og það heitir á guðfræðimáli - er að Guð er nálægur í okkur og heiminum öllum. Þar verkar hann og vinnur okkur til heilla, vaxtar og þroska. Hann stefnir okkur á vit hins góða, til sáttar og endurlausnar.

Með hvaða hætti boðar kirkjan verkan Guðs í veröldinni? Hún takmarkar þá virkni oft bara við Jesú eða kirkjuna. Guð birtist mönnum á jörðu í Kristi og kirkjan heldur þeim boðskap á lofti og leitast við að lifa í ljósi hans. Sá Guð sem við þekkjum í gegnum Jesú Krist er ávallt á meðal okkar, í okkur og hjá okkur, hvort sem okkur er það ljóst eða ekki. Guð er að verki í öllum mönnum á einhvern hátt og af því leiðir að okkur ber að virða aðra. Það er ekki alltaf auðvelt. Og postulinn Jakob spurði:

„1Af hverju koma stríð og af hverju sennur meðal ykkar? Af hverju öðru en girndum ykkar sem heyja stríð í limum ykkar? 2Þið girnist og fáið ekki, þið drepið og öfundið og getið þó ekki öðlast. Þið berjist og stríðið. Þið eigið ekki af því að þið biðjið ekki. 3Þið biðjið og öðlist ekki af því að þið biðjið illa, þið viljið sóa því í munaði.“ (Jak 4.1-3)

Enn er manneðlið við sama heygarðshornið. Og mennirnir beita Guði oft fyrir sig í átökum og æði sínu öllu. Hinn sterki segist fara fram í nafni Guðs. Þannig hafa keisarar og kóngar, einvaldar og einræðisherrar hegðað sér í aldanna rás.

Sagan af fæðingu Jesú í fjárhúsi ögrar þeirri mynd að Guð sé ætíð á bandi hins sterka, í stuðningsliði valds og valdakerfa. Guð er að verki á einhvern hátt í öllum mönnum, og nú á þessum síðustu og verstu tímum jafnvel einnig í útrásarvíkingum og forstjórum stórfyrirtækja, en hann er líka í þeim sem betla og eiga ekkert og í þeim sem leggjast lágt og niðurlægja sjálfa sig, selja sig í þjónustu við lostafulla viðskiptavini. Hann er líka í þeim sem þjást af völdum ófínna sjúkdóma eins og alnæmis eða þeirra sem hafa aðra kynhegðun en fjöldinn. Guð er í og með öllum mönnum.

Sagan af hinum fyrstu jólum er saga andstæðna. Það er ys og þys hversdagsins en einnig helgur blær og himninsdýrð. Fjárhúsið lyktar og geislandi englar birtast. Í sögunni er minnt á hið veraldlega vald sem kallar fólk til skráningar og skattskyldu en einnig er þar vísað til þess að Guð boðar frið á jörðu. Og þar eru fjárhirðar sem ekki þóttu nú neinir sérstakir pappírar á þeim tíma og svo er talað um réttlæti Guðs. María og Jósef voru ekki neitt hástéttarfólk, þau voru alþýðumanneskjur, sem ýtt var út á jaðar samfélagsins, út í fjárhús. Þeim var gert að gista í gripahúsi sem varð þrátt fyrir allt miðja alheimsins. Sagan af fæðingu Jesú er mótsagnarkennd svo ekki sé nú dýpra í árinni tekið. Mótsagnarkenndar sögur lifa og eru okkur uppspretta visku. Og saga okkar sjálfra er líka mótsagnarkennd, saga þín og mín. Guð kemur inn í mótsagnarkenndar aðstæður og mætir mönnum, okkur, þér og mér. Elska Guðs er ekki bara handa þeim guðhræddu sem sækja kirkju eða biðja alla daga. Guð birtist ekki bara þegar við spennum greipar og sitjum í kyrrð og andakt eða förum með morgun- eða kvöldbænirnar. Elska Guðs kemur alltaf á óvart, hún birtist þar sem allt er að gerast, í ys og þys hversdagsins, þar sem allt er eins og í ringulreið og mótsögn. Hann birtist einmitt á ólíklegustu aðstæðum og stöðum. Hann er til staðar á bráðavaktinni, í athvarfinu, á meðferðarheimilinu, þar sem hjörtu fólks eru við það að bresta, þar sem fólk berst fyrir réttlæti, þar sem fólk velur á milli stríðs og friðar, þar sem fólk mótmælir í örvæntingu og reiði eða kyrrð og þögn, þar sem ákvarðanir eru teknar á grundvelli græðgi eða gjafmildi, þar sem elskan ríkir mitt í kærleikslausum aðstæðum, þar sem vonin ögrar vonleysi, þar sem gleði brýst í gegn í djúpum harmi. Þara er Guð og knýr á dyr hjartans. Elska Guðs birtist í öllum þessum andstæðum. Þannig var það í Betlehem. Og veröldin stendur á öndinni, ringulreiðin hjaðnar um stund, engill birtist, himnakór syngur og frelsarinn er kominn, nýtt líf er hafið. Þetta er sagan um holdtekju Guðs á jörðu. Elska Guðs hefur líkamnast á meðal manna í Jesú Kristi. Hann, sem fæddist í fjárhúsi, var krossfestur og reis upp frá dauðum, er hér. Hann er hér og hann á erindi við þig og mig, mitt í amstri hversdagsleikans og hátíð jólanna.

Guð birtist í andstæðum.

„Jesús kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra og sagði: Sannlega segi ég yður: Þér komist aldrei í himnaríki nema þér snúið við og verðið eins og börn. Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér.“ (Matt 19.2-5)

Hirðarnir á Betlehemsvöllum voru ekki hátt skrifaðir. Þeir sátu í kvöldkyrrðinni og gættu hjarðar sinnar og fundu ef til vill að þeir voru hluti af stærri heild, hinu stóra samhengi tilverunnar. Settu þig í spor þeirra. Þú skynjar eitthvað innra með þér, innri rödd hvíslar og þú heldur af stað á vit þess sem þú heldur vera rétt og satt enda þótt það virðist ótrúlegt. Og þú kemur í fjárhús. Þar liggur nýfætt barn í jötu, vafið reifum. Þú horfir á barnið, horfir í augu þess og sér þína eigin spegilmynd. Og það rennur upp fyrir þér að þú varst til staðar í þessu barni og barnið í þér áður en þú komst á staðinn. Þú heldur til baka, stendur í haganum og gætir hjarðarinnar. Nóttin er kyrr og björt. Einhver gengur upp að þér og spyr: Hvar hefurðu verið? Og þú svarar: Ég var í Betlehem. Og hann spyr: Hvað sástu þar? Þú svarar: Ég sá bestu von heimsins. Og hann spyr: Hvernig lítur hún út? Og þú varar: Hún lítur út eins og þú og ég.

Á jólum sem endra nær vilja börn heyra sögur. Börn Guðs þrá að heyra góðar sögur. Við skulum heyra gamla helgisögn um leitina að Guði.

Vitringurinn Artaban varð viðskila við þrjá vinir sína, Kaspar, Melkíor og Baltazar, í leitinn að konungi Gyðinga. Hann fór einnig á mis við að sjá Jesúbarnið því að undarleg atburðarrás leiddi hann á vit deyjandi betlara og óttasleginna mæðra, hverjum hann gaf gimsteinana þrjá sem hann ætlaði barninu sem þeir vitringarnir leituðu. Hann snýr aftur til Jerúsalem eftir árangurslausa leit í Egyptalandi. Þrjátíu og þremur árum síðar leitar hann enn að þessu barni.

Og nú eru páskar í Jerúsalem. Artaban, sem nú er orðinn gamall maður, veður var við ys og þys og eiginlegt uppnám í borginni. Hann spyr fólk hverju þetta sæti og fær þetta svar: „Við erum á leiðinni til Golgata, rétt fyrir utan borgarmúrana, til að horfa á tvo ræningja og mann, sem kallast Jesús frá Nasaret, neglda á kross. Þessi Jesús kallar sig Mannssoninn og Pílatus hefur dæmt hann til krossfestingar vegna þess að hann segist vera konungur Gyðinga.“

Artaban skynjar innra með sér að þetta er konungurinn sem hann er búinn að leita að öll þessi ár. Hann skundar á staðinn. En á leiðinni sér hann hvar ung og fögur stúlka er boðin upp til sölu á þrælamarkaði. Hún sér Artaban í ríkmannlegum klæðnaði, fellur að fótum honum og biður hann ásjár. Þetta snertir hjarta hans svo að hann lætur af hendi síðasta demantinn sem lausnargjald fyrir hana. Á sama augnabliki verður dimmt um miðjan dag, jörðin nötrar og steinar falla á götuna. Einn þeirra lendir á höfði Artabans og brýtur höfuð hans.

Hann liggur deyjandi á strætinu í örmum ungu konunnar sem hann keypti lausa. Hann muldrar í eyru hennar þessi orð: „Í þrjú ár og þrjátíu betur hef ég leitað þín, Drottinn, en mér hefur ekki auðnast að líta ásjónu þína eða þjóna þér!“ En þá heyrist rödd af himni, sterk og mild í senn, sem segir: „Allt sem þú gerðir mínum minnstu bræðrum og systrum, það gerðir þú mér.“

Andlit Artabans ljómar og friður færist yfir ásjónu hans. Langri ferð hans og leit er lokið. Hann hefur fundið Konunginn!

Þessi helgisögn er hrein og tær og guðfræði hennar er vissulega í anda þess sem Jesús kenndi. Guð er í þér og náunga þínum, hann fer um vegi landsins og götur bæja, kaupstaða og borgar, hann er í samferðafólki þínu. Elskaðu það og láttu þér þykja vænt um það, elskaðu Guði í mönnum og þú munt öðlast mikla elsku og verða umvafinn Guði og himni hans. Gakktu inn í jólaguðspjallið, inn í fjárhús hversdagsins og horfðu í augu barnsins, náungans. Þar er Guð. Hann er alltaf á meðal okkar, hann er hér og hann elskar þig.

Guð gefi þér gleðileg jól.