Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við hann: Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú? Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?
En hún sagði: Enginn, herra.
Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar. (Jh. 8.2-11)
Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Bæn.
Miskunnsami Guð, hvert ættum við að leita ef skilningur og fyrirgefning væru ekki til, heldur aðeins kuldi og harka og afskiptaleysi? Gefðu okkur hlutdeild í hjartagæsku þinni. Láttu okkur finna miskunnsemi, og lifa í henni og iðka hana, eins og þú sýndir okkur í Jesú Kristi.
Guðdómselskueðlið djúpa, inn til þín ég mæni klökk, Ó, ég þarf að krjúpa, krjúpa koma til þín heitri þökk.
Ó, að trúa, treysta mega, treysta þér sem vini manns, Drottinn Guð, að elska og eiga æðstu hugsjón kærleikans. (Sb. 349.) Amen.
Gleðilega hátíð! Hátíð fánans, hátíð kvenna, hátíð hins heilaga orðs.
Sjá! Friðarbogi í skýjum skín svo skartar Íslands fáni. Þitt útlit geislar,- ásýnd þín, hér eins og sól og máni. Kær fagurbláinn helgist hann með hvítt og rautt krossmerkið. Næst jökulísnum eldhraun brann, er Ísland kraftaverkið.
Hann þjóðartákn er það til sanns -að því vér skulum hyggja- á kristnum grunni Guðs og manns er gott að mega byggja.
Kæri söfnuður.
Þannig yrkir Pétur Sigurgeirsson, biskup um þjóðfánann, sem í 90 ár hefur verið tákn þessarar þjóðar með einkennisliti hennar, íss og elds og hafs og himins, og þeir mynda kross. Það var á sínum tíma sjálfsagt og eðlilegt að litirnir féllu saman í kross, eins og það líka var sjálfsagt og eðlilegt fyrir forystusveit þjóðarinnar á Þingvöllum við lýðveldisstofnun fyrir 61 ári að þakka Guði fengið frelsi og fela honum framtíð lands og lýðs. Þótt sýn samtímans sé önnur í ýmsum greinum er staða fánans óbreytt enn. Það er fyrsta þakkarefni og umhugsunarefni þessa dags. Enginn hefur þar meira að þakka en kristin kirkja, þegar hún sér áminninguna um leiðsögn og forystu Jesú Krists bera við hún.
Annað þakkarefnið er af allt öðrum toga. Það er ekki hægt að ræða það með sama hætti, því að meðan við fylkjum okkur undir merki Krists í fánanum og fögnum því að mega það, er ekki þar með sagt að við fylkjum okkur undir merki Krists þó að við fögnum kosningarétti kvenna og öðrum þeim minningum sem við þennan dag og þetta ár eru bundnar. Það er vegna þess að allan þann tíma sem þær höfðu ekki þennan rétt var merki Krists víðsfjarri. Eða þykir ykkur það vera í samræmi við boðskap Krists og verk hans að konur hafi ekki fengið þennan rétt fyrr? Meira að segja Páll postuli komst að því að í Kristi, í samfélaginu við hann og um hann væri hvorki karl né kona, þar ætti að vera hið fullkomna jafnræði.
Þriðja þakkar- og umhugsunarefnið er svo guðspjallið sjálft. Guðspjall þessa sunnudags er reyndar ekki með í elstu handritum, og er ekki talið vera hluti af hinu upphaflega Jóhannesarguðspjalli, en það hefur nú samt ekki staðið í vegi fyrir því að það sé predikunartexti.
Far þú. Syndga ekki framar.
Fyrirgefning er nýtt upphaf. Algjörlega ný byrjun, eins og að þegar byrði er tekin af.
Lítil manneskja gengur með nokkra fiska í snærishönk, snærið er blautt af sjó og skerst inn í fingurna og það er enn langt heim. Allt í einu kemur stór hönd og tekur byrðina. Verkurinn í fingrunum þar sem snærið skarst inn blandast gleðinni yfir því að byrðinni er létt af. Það er eins og gleðin og þakklætið skríði um líkamann, fram í fingurgóma og hreinsi burt þreytuna og sáraukann.
„Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Gal.6.2.)
,,Svo segir Drottinn allsherjar: Dæmið rétta dóma og auðsýnið hver öðrum kærleika og miskunnsemi”. Sak.7.8
Lögmál Móse (5M 22.23.) mælir svo fyrir að kona sem staðin er að hórdómi skuli grýtt, og reyndar þau bæði sem verða uppvís að þessum verknaði. Það er sem sagt ekki svo samkvæmt lögmálinu að karlinn sé bara einhversstaðar annarsstaðar í góðum gír og geti haldið uppteknum hætti, þó að það megi skilja af samhengi textans. Það er jú bara konan sem leidd er fram fyrir Jesú, og menn sem eru tortryggnir að eðlisfari geta ekki varist því að hugsa: hefur ekki lögmálinu samt verið beitt harðar gagnvart konum en körlum.
En meginatriði málsins er reyndar ekki afbrotið sjálft heldur viðbrögð Jesú. Það er meiningin að koma honum í klandur. Það felst í spurningunni sem þeir bera fram karlarnir sem koma með konuna: Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?
Ef hann sýnir mildi, verður hann sakaður um að fara ekki eftir lögmálinu, ef hann sýnir hörku er hann ekki lengur trúverðugur vinur syndaranna. Hann þegir. Ekki í fyrsta skipti í slíkri stöðu, þegir hann. Það að hann skuli frammi fyrir hópnum fara að skrifa eitthvað á jörðina eða í sandinn, gefur til kynna: Ég vil ekki ræða málið við ykkur. En þeir halda áfram að spyrja. Þá réttir hann sig upp og segir þessa einu setningu, sem greinilega er ástæðan fyrir því að þessi frásögn er látin fljóta með í guðspjallinu þótt hún sé ekki upprunaleg.
Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.
Það sem hann segir dregur í engu úr vægi þess brots sem framið var og dregur heldur ekki í efa réttmæti refsingarinnar, en hún hindrar það að refsingin sé framkvæmd. Hún lamar handleggina sem vilja lyfta steinum til að grýta seka. Dómurinn er réttur samkvæmt lögmálinu, en hver hefur rétt til að fullna hann?
Sérhvert steinkast er eins og búmerang og hittir þann fyrir sem kastar, af því að hann hefur sjálfur brotið lögmálið margsinnis, þótt það sé kannski ekki endilega þetta tiltekna boð lögmálsins. Það er það sem þeim varð ljóst sem ætluðu að grýta, og þeir ganga burt.
Nú stendur konan ein eftir frammi fyrir Jesú. Þar með enginn eftir nema hann til að framkvæma það sem lögmálið býður.
En hann segir: Ég sakfelli þig ekki heldur. Þar með er ekki sagt neitt um réttmæti dómsins og ekki heldur að hann sé felldur úr gildi. Skilaboðin eru þau að þegar til kastanna kemur vegur fyrirgefningin meira en refsing og dómur.
Í fyrirgefningu sem fæst fyrir heiðarlega viðurkenningu eigin syndar og afbrots þess sem er fær um að taka á móti kærleika og vináttu án þess að eiga það skilið, felst kraftur sem hrífur út úr því sem rangt er og bjagað í lífinu, og sú fyrirgefning breytir þeim sem þiggur hana. Far þú. Syndga ekki framar.
Hið gamla lögmál væri fullnað ef sá eða sú sem brýtur hjúskaparheitin fellur saman undir grjótkasti og er hrakin burt úr söfnuðinum. En kærleikur Guðs og löngun engla hans fullkomnast ekki þar, heldur þegar syndugur maður réttir sig upp frá synd sinni og helgar og göfgar líf sitt og lofar Guð með því.
Þessi guðspjallslestur er því ekta í eðli sínu þó að hann sé það ekki samkvæmt uppruna sínum.
Kristnin hefur dregið upp margar myndir af þessari konu og Jesú að skrifa í sandinn. Það er auðveldara íslendingi að skilja að skrifað sé í sand en beint á jörðina, sem hann sér fyrir sér sem gróið tún, heiðarfláka eða grasflöt. Sandur skal það vera.
Þarna standa þau, aðalpersónur guðspjallsins: Hann er rabbí, hann er fræðimaður, hann er einn af hinum lærðu og nýtur virðingar, fyrir þekkingu, fyrir að sjá lengra, en hann er líka ógn við veldi ríkjandi fræða. Þeir eru með grjót í höndunum, karlarnir: Kannski eru líka konur í hópnum. Það er svo stutt í að láta undan , langa til sjá , langa til að sjá, þegar grjótið skellur á líkamanum, og á höfðinu og á andlitinu og sjá blóðið, og sjá dauðann , og hafa vald til að deyða, - vald yfir lífinu. og finnast ekkert vald vera meira en valdið sem deyðir.
Tvö þúsund ár síðan þá og þó hefur ekkert breyst. Sumstaðar er haldið fast í þessar ómennsku aðfarir, eins og við heyrum um, - og við höfnum þeirrri menningararfleifð og tryggjum með lögum að það skuli ekki hægt hér í okkar menningarsamfélagi. En menningin dugar ekki til.
Það eru langar, langar biðraðir fólks sem vilja fá að sjá aftökur í þeim ríkjum sem enn eru á því fornaldarstigi að refsa með lífláti.
Glæpaverk og óhæfuverk og niðurlæging manneskjunnar er víða um heim, og birtist í hræðilegum myndum. Ekki bara gagnvart konum, en einkum gagnvart þeim og börnunum.
Hórkona. Hana ber að grýta segir lögmálið. Enginn spyr: Hver var með þér? Varla hefur þú verið ein? Tvö þúsund ár, og við erum ekki komin lengra. Að selja aðgang að líkama sínum er meira brot en að kaupa hann. Af hverju?
Það byggir á fornaldarhugsun. Það bygggir á óbreyttu ástandi Adams allt til þessa: Konan tældi mig og ég át, sagði Adam við Guð í Eden. Og meira en það. Adam ásakar Guð. – Þetta er allt þér að kenna! Þetta var konan sem þú lést mig hafa! Það var hún sem tældi mig!
Og Adam kom óorði á konuna. Og óorðið ríkir enn og hefur allt framundir þetta haft áhrif alla leið inn í íslenska löggjöf, eins og Þorbjörg Gunnlaugssdóttir, skrifaði á baksíðu Fréttablaðsins fyrir réttri viku.
Kæri söfnuður.
Þarna eru Jesús og konan og fólk með grjót og hann er að skrifa í sandinn.
Við sem erum fædd við sandinn og höfum horft á ölduna skríða yfir hann, slétta hann út, vökva hann, kyssa hann, við höfum kannski skrifað í hann. Kannski var það leyndarmál, kannski var það nafnið sem við elskum. Og við vissum að við eigum bandamann í hafinu: Ægir kemur og felur leyndarmálið með mjúkri hönd bárunnar.
Það sem skrifað er í sandinn , það eyðist og hverfur. Á máli Biblíunnar feykir Drottinn brott misgjörðum mannanna sem iðrast þeirra, eins vindur feykir fjöður.
Far þú. Syndga ekki framar.
Hvað skrifaði Jesús í sandinn. Skrifaði hann kannski: Hvenær kemur 19.júní?
Kæri söfnuður. Það er núna, árið 2005, það að vísu ekki í dag, 19.júní, heldur var það fyrir rúmum mánuði, sem fyrsta konan meðal gyðinga varð rabbí.
Hún heitir Naamah Kelman. Hún hélt nýlega ræðu hjá heimsráði kirkna í Genf yfir 120 manna hópi frá öllum fjölmennustu trúarbrögðum heims. “Heimkynni mín eru í Miðausturlöndum”, sagði hún, “þar er allt óstöðugt”. Hún sagðist vilja vinna að umburðarlyndi og víðsýni í trúarefnum meðal gyðinga, en hún sagðist jafnframt vera hjálparvana gagnvart því að unga fólkið, hin nýja uppvaxandi kynslóð tileinkaði sér fremur þröngsýni og gleypti ómelt sjónarmið fædd af neysluhyggju hins firrta heims, en víðsýni og skilning.
Konan sem Jesús ávarpar rís upp af sandinum og gengur inn í nýja tíma. Þegar hún hafði lagt tvöþúsund ár að baki var hún sjálf orðin rabbí.
90 ár eru ekki langur tími, og leiðin framundan er vísast líka löng. Því að þótt jafnrétti eigi að vera tryggt með lögum verður ekkert jafnræði með körlum og konum fyrr en hreinsað hefur verið til í skúmaskotum mannsandans.
Við hefjum merkið, fána íslenskrar þjóðar, fullveldistáknið, að húni í virðingu fyrir baráttu kvenna fyrir sínu fullveldi, og skulum öll leggja því lið sem kristin kirkja sem í fánanum sér áminninguna um leiðsögn og forystu Jesú Krists bera við hún,
og vér göngum fram þó grýtt sé leið,
Þú barst þinn kross á undan oss ástvinur þjáðra manna. Vertu oss hjá því hvað má þá hjörð þinni fögnuð banna. (Sb.522, lokasálmur messunnar).
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.
Predikun í Langholtskirkju 19.júní, á 4.sd.eftir trinitatis. Útvarpsmessa.