Ég íhugaði mynd af manni með samviskubit í vikunni, smellti henni inn á facebook og spurði um leið hvort samviskubit væri úrelt. Nokkrir vina minna brugðust við og einn lagði til að samviskubit væri það að sjá eftir einhverjum færslum á facebook. Það væri commenta-sektarkennd. Annar sagði að aðalmál samviskubits væri hugarhreinsun, kaþarsins. Hvað eru mörg ykkar sem fáið samviskubit? Ég bið ekki um að þið réttið upp hendi heldur fremur að þið íhugið eigin mál.
Samviskubit Einar Jónsson, myndhöggvari gerði ekki aðeins Kristsstyttuna í Hallgrímskirkju heldur fjölda annarra verka. Hann gerði magnaða mynd af manni með samviskubit. Einhver vera rígheldur í augnalok mannsins og heldur augunum uppglenntum. Önnur vera hvíslar í eyra vesalings mannsins, sem virðist frávita af skelfingu. Samviska heilbrigðs fólks hefur áhrif.
Hvernig er samviska þín? Þarftu stundum að gera hreint hið innra? Heilbrigt fólk reynir að gera upp sín mál og mistök, en óheilbrigt fólk kann bara að þykjast. Flest okkar þekkjum einhver sem hafa beðist afsökunar en þó án þess að hjarta fylgi með. Þegar upp kemst að fyrirtæki, stofnanir eða einstaklingar hafi brotið af sér eru oft ráðnir spunameistarar til að draga athygli frá hinu ranga og reyna að upp á ímyndina. Volkswagensvindlið fyrr á árinu er nærtækt dæmi. Varajátningar iðka margir af því að þeim hefur verði ráðlagt af almannatenglum að lágmarka skaða.
En rangt er rangt og að allir lenda í einhverju misjöfnu einhvern tíma. Allir lenda í einhverju klúðri á ævinni. En mér hefur komið á óvart hve mörg reyna - óháð réttlæti og heiðarleika - að vernda hagsmuni, stjórnmálaöfl, félög eða fjölskyldu með því að tjalda sýndartjöldum. Þegar menn hafa brotið af sér eða gert mistök eiga menn að taka sinnaskiptum og biðjast afsökunar. Ekki til að lágmarka skaðann í hinu ytra heldur af því að þannig hegðar heilbrigt fólk sér. Það er lífsverkefni ábyrgs manns og alger köllun hins trúaða. Við eigum að vera heillynd í samskiptum við ástvini okkar, fjölskyldu, vini, vinnufélaga og samfélag. Óhreinindi safnast í lífi allra og hreinsun þarf að fara fram.
Jóhannes Þess vegna sprettur Jóhannes skírari fram á aðventunni sem málsvari heiðarleikans. Hann er skúringameistari sálarinnar. Skírarinn þótti svo rosalegur útlits og honum hefði verið hent út alls staðar nema á grímuballi. Hann var girtur úlfaldahárskápu og með belti um sig miðjan, bruddi engisprettur, fór í villibýflugnabúin til að ná sér í hunang og flugnasveimurinn fylgdi honum líklega. Við yrðum smeyk að mæta slíkum manni á Grettisgötunni.
Á aðventunni skúrum við íbúðir okkar og hreinsum fyrir jólin. En frásögnin um Jóhannes skírara varðar ekki Ajax, Þrif eða brúnsápu. Nei, boðskapur Jóhannesar er að við þörnumst sálarskúringa. Iðrumst, gerum gott, verum heil og göngum ekki á rétt annarra. Jólatrúin er ekki góður fílingur eða hástemmdur tilfinningabrími heldur varðar ábyrgð og gera gott. Við sjáum ekki barnið vel í Betlehem ef sálarsjónin er léleg. Því sprettur þessi Jóhannes fram í kirkjum heimsins á aðventunni til að minná að við þörfnumst þess að losa okkur við það sem er vont. Hann rífur í augnlokin og glennir upp augun, hvíslar í eyru okkar sannleikanum. Viljum við hreinsa?
Víddir iðrunar Iðrun getur verið opinber eða á einkasviðinu. Þjóðir og hreyfingar reyna að gera upp hræðileg mál, forystumenn hafa tjáð iðrun, beðist afsökunar eða fyrirgefningar. Forsætisráðherra Breta baðst t.d. afsökunar á, að Bretar hefðu ekki staðið sig þegar kartöflufár herjaði á Írland á sínum tíma. Bandaríkjaforseti viðurkenndi, að svartir menn hefðu verið misnotaðir í opinberri rannsókn á sífilis. Hann baðst afsökunar á athæfninu. Norska kirkjan, sem brást Sömum, hafði síðar dug til að viðurkenna brot sín og baðst fyrirgefningar. Kirkja Krists á að standa með fórnarlömbum ofbeldis og iðrast ef hún bregst.
Þrenna iðrunar - inn, út og upp Svo eru einkajátningarnar, sem við prestarnir heyrum þegar fólk kemur til að létta á sér og reyna að rísa upp að nýju. Stór hluti þjóðarinnar hefur farið í meðferð vegna einhverrar fíknar. Sá hópur og öll þau er vilja vinna með sinn innri mann eru meðvituð um að sálarskúringar eru mikilvægar. Það er hollt að muna eftir að iðrun á sér margar víddir.
Fyrst er innhliðin, hvernig við játum afbrot okkar gagnvart sjálfum okkur. Engin iðrun gengur upp nema einstaklingurinn vilji horfa á misgerðir sínar. Mörg eru svo sjálfhverf, að þau megna ekki að viðurkenna brot sín heldur kenna alltaf öðru um. Þekkir þú einhver sem forðast að axla ábyrgð með því að kenna öðrum um eigin mistök? Það þarf sálarstyrk til að viðurkenna afbrot og biðjast afsökunar.
Svo er úthlið iðrunar - að játa út á við, gagnvart öðru fólki, félögum þjóð, veröldinni.
Síðan er uppvídd iðrunarinnar. Það er þriðja víddin og hún varðar Guð. Trúlaus maður hefur ekki þetta algera viðmið en trúmenn reyna að rækta með sér þá vitund að varajátning og sýndariðrun séu einskis virði. Guð sér og er hið endanlega viðmið.
Þetta er þrennan - iðrunarþrennan, inn, út og upp! Allir sem þekkja 12-sporin vita að fólk sem iðrast reynir að gera upp afbrotin með því að bæta fyrir gerðir sínar. Iðrunarþrennan ber ávöxt.
Styrkur og úthverfing Margir halda, að ef maður tekur samviskubit alvarlega og iðrast verði maður aumingjalegur og lúkkið verði slæmt. Þá sé maður eins og ræfill. En að iðrast er alls ekki það að gera lítið úr sjálfum sér, heldur þvert á móti að vaxa, vera svo mikill að þora að horfast í augu við bresti sína, viðurkenna athæfi sem er rangt, vera maður til að tala um það ranga sem hefur verið gert - og þar með þroskast og eflast.
Á málum Vesturlanda eru ýmis hugtök um það að iðrast, orð sem merkja eftirsjá, sorg, einhvers konar eftirádepurð (repentance, contrition, regret, remorse, remorsefulness, ruefulness, sorrow, sorrowfulness, pangs of conscience, self-reproach, shame, guilt, compunction). Ég held, að íslenska orðið iðrun sé það myndrænasta og besta af öllum þessum orðum. Það er tengt orðinu iður, innyflum, því sem er innan í okkur. Að iðrast er að fara inn á við og úthverfa, að leyfa öllu sem er hið innra að koma í ljós. Hinu illa - hversu ógeðslegt sem það kann að vera - er komið út í dagsljós sannleikans. Þegar búið er að kasta því upp er það nefnt og þau, sem hafa orðið fyrir barðinu eru beðin fyrirgefningar.
Trúarvíddin Jóhannes skírari vildi fá menn til að skilja, að Guð horfir á hjarta mannsins. Guð vill, að menn séu meira en tæki í leikriti samfélagsins. Jesús horfði aldrei á útlit manna, heldur í djúp augna, leit á innræti að baki varnarháttum. Trúin setur innri mann í forsæti og spyr um heiðarleikann. Við getum flikkað upp á status á facebook en flýjum aldrei kærleiksdóm Guðs. Menn geta með brelluviti lengt leik í samfélagsleikritinu, en aldrei aukið hamingju sína með prettakúnst gagnvart Guði.
Aðventan er hreinsunartími. Við reynum að ná blettunum. Ekkert þrifafyrirtæki tekur að sér að þrífa sál þína, engir sálfræðingar, ekki AA hreyfingin, ekki A. Smith og ekki kirkjan. Aðeins Guðs góði andi kann og getur þrifið sál þína, þinn innri mann. Og þau þrif verða ekki nema þú viljir og leyfir hreingerninguna. Í þessari messu förum við með syndajátninguna. Þá getur þú opnað og sagt Guði: „Ég er til, þú mátt koma og gera allt skínandi hreint.“ Iðrun er fólgin í að sjá að sér, hverfa af villu síns vegar og hefja nýtt líf. Það er á þínu valdi og Guð er góður skúrari, lagar commentasektarkenndina og kann sálarhreinsun. Hefur þú sektarkennd - Jóhannes bendir á leið til bóta. Sálarskúringarnar eru verk Guðs.
Hallgrímskirkju 13. desember, 2015. 3. sunnudagur í aðventu.