Er einhver saga
úr Biblíunni sem hefur haft sérstök áhrif á þig? Hugleiddu það aðeins! Flestar
sögurnar eru mjög þekktar. Söguna um Adam og Evu þekkja flestir, líka söguna um
Davíd sem barðist við risann Golíat. Sögurnar sem Jesús sagði voru
margvíslegar. Ein þeirra fjallar um hjálpsaman mann frá Samaríu sem bjargaði
manni sem ræningjar réðust á. Í einni sögunni var mikill mannfjöldi samankominn
í húsi og þar var Jesús líka. Menn gerðu þá gat á þakið og létu vin sinn síga
niður af þakinu til að Jesús myndi lækna hann en maðurinn var lamaður. Sú saga
er ein af mínum uppáhalds. Kannski af því ég veit hvernig það er að vera
slasaður og borinn af sterkum mönnum til að hægt væri að koma mér undir
læknishendur. Ég lenti í slysi þar sem ég hefði hæglega getað lamast. Ég veit
vel hve heppinn ég er að hafa lifað og geta gengið. Já sögurnar í Biblíunni eru
margar og þekktar á meðan sumar hafið þið kannski aldrei heyrt.
Biblían á margar
sögur þar sem Guð birtist fólki á þann hátt að líf þess varð aldrei eins á
eftir. Engar sögur hafa verið eins áhrifaríkar til að móta líf þitt kæri
kirkjugestur. Er það ekki merkilegt að saga sem þú hefur jafnvel ekki heyrt
skuli hafa slík áhrif? Jú vissulega. En
það er staðreynd að Biblían hefur mótað viðhorf og siðferði í stórum hluta
heimsins um aldir. Þá kann einhver að hugsa. Hvers vegna er heimurinn þá ekki fullkomnari
og betri? Fjölmiðlar eru fullir af fréttum af glæpum, illsku og hatri. Satt, en
hugsið ykkur hvernig heimurinn væri ef ekki hefði komið til kærleiksboðskapur
Biblíunnar? Eitt er að heyra sögu annað er að skilja boðskap hennar og það lang
erfiðasta er að fara eftir því góða sem sagan kennir okkur.
Eitt af
lykilatriðum kristindómsins er fyrirgefningin. Pétur spurði Jesú eitt sinn hve
oft ætti að fyrirgefa og svaraði spurningunni sjálfur með sjö sinnum. Jesús
sagði það ekki rétt heldur 70 sinnum sjö. Nýlega var í fjölmiðlum frásögn manns sem hafði brotið af sér og
upplifði mikla útskúfun samfélagsins. Brotið var alvarlegt. Enda eru
kynferðisbrot karla gagnvart konum og börnum einhvers versta meinsemd samfélagsins.
Viðurstyggileg brot sem eyðileggja líf. En hin sístæða spurning er hvort og
hvar fyrirgefningin eigi að gilda. Samkvæmt boðskap Jesú á fyrirgefning að
gilda þar sem iðrun á sér stað. Jesús fyrirgaf syndir skilyrðislaust en hann sagði
líka því fólki að fara og syndga ekki framar.
Samfélag án fyrirgefningar er ómanneskjulegt og mun aldrei geta gengið því
það elur af sér hatur.
Einhver
áhrifaríkasta sagan í Biblíunni er um mann sem var að ofsækja alla sem trúðu á
Jesú. Þá hafði Jesús verið krossfestur, hann var dáinn og grafinn en ekki bara
það. Jesús var upprisinn og birtist mörgum. Þessum manni birtist Jesús og
maðurinn varð blindur. Hann fékk ekki sjónina aftur fyrr en annar maður hafði
beðið fyrir honum og lagt hönd á hann. Þessi maður sem er kallaður Páll postuli
var óvinur Jesú en varð síðan mjög öflugur trúboði og skrifaði mörg bréf um
hver Jesús væri og hvað hann gerði fyrir okkur öll. Ég las úr einu bréfa hans í
dag. Þar er hann að segja frá hve vel gangi í söfnuðum kristinna í Makedóníu.
«Þrátt fyrir þær miklu þrengingar sem þeir hafa orðið að reyna hefur hin ríka
gleði þeirra leitt í ljós hve örlátir þeir eru þrátt fyrir sára fátækt. Ég get
vottað það hversu þeir hafa gefið eftir efnum, já, umfram efni sín.» Samkvæmt þessu þá hafa sögurnar um Jesú snert
við þessu fólki og breytt lífi þess. Gjafmildi og gleði er sannarlega eitthvað
sem er gott og eftirsóknarvert. Sumt fólk er blindað af hatri og óvild í garð
annars fólks. Það fólk þarf að fá sjónina að nýju.
Í
Matteusarguðspjalli er himnaríki útskýrt með fjölda af dæmisögum, eins og
dæmisögunni um sinnepsfræið þar sem himnaríkið er borið saman við þetta litla
fræ sem vex og verður stærra en öll önnur tré. Í annari dæmisögu er himnaríki borið saman við perlu sem er verðmætari en
allt sem við eigum. Með öðrum orðum þá er himnaríki eitthvað sem er ætlað og
vaxa og vera eftirsóknarvert. Ein saga
segir af því þegar Pétur sem var leiðtogi lærsveinanna neitar því að hafa verið
með Jesú. Pétur þessi ferðaðst síðan til
Rómar sem þá var eins og höfuðborg heimsins. Í dag má sjá styttur af honum þar.
Alltaf er hann hafður með stóran lykil. Það kemur frá orðunum sem Jesús sagði
við Pétur að hann myndi gefa honum lykla himnaríkis. Við köllum hann oft Lykla
Pétur. Í bókmenntum er oft talað um hann sem hliðvörðin sem hleypa mun
mannfólkinu inn um hlið himnaríkis. Í Gullna hliðinu, leikriti Davíðs
Stefánssonar, segir af konu em nær að snúa á Lykla Pétur og kasta sálinni hans
Jóns sem var eiginmaður hennar í skjóðu,
inn um hlið himnaríkis. En Pétur var áður búinn að neita að hleypa Jóni inn,
því Jón var víst enginn engill í lifanda lífi.
Þegar við í dag
biðjum saman «faðirvorið» biðjum við einu bænina sem Jesús samdi og kenndi
lærisveinum sínum og hún er skráð í Biblíunni.
Þar segjum við "til komi þitt ríki" þar biðjum við um að
himnarrikið komi. Að himininn komi bókstaflega til okkar svo allt það góða sem
þar er og ríkir sé hjá okkur í okkar lífi hér og nú. Í samfélagi okkar, í
fjölskyldunni, í skóla og vinnu, já allstaðar þar sem við erum og verðum.
«Varist að iðka
réttlæti yðar fyrir mönnum þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá
föður yðar á himnum.» Segir Jesús í
guðspjalli dagsins. Lærisveinarnir hafa verið hjá Jesú um tíma, þeir eru að
reyna að finna sinn stað þegar þessi orð eru sögð. Þeir voru, eins og við erum
stundum, að reyna að finna sinn stað og svara spurningum um lífið. Hver er ég?
Hvar er ég í röðinni? Hver er flottastur í klíkunni? Hvaða völd eða áhrif hef
ég? Hvert okkar er kallað fyrst á ef ákvörðun á að taka eða ræða mikilvæg mál í
fjölskyldunni eða á vinnustað? Hver hefur flest like á Facebook? Lærisveinunum
var svo sem ekki umhugað um hver hefði flest «like» enda löngu fyrir daga
internets og tölvutækni, heldur þurftu þeir að komast að því hver væri mestur
meðal þeirra. Já hver skyldi vera trúaðastur og fullkomnastur í að gera það sem
Jesús vildi. Svarið við því er að þeir
og ekki heldur, eigum alls ekki að vera
upptekin af því að hreykja okkur upp. Ofmetnast eða telja okkur vera betri en annað
fólk. Ein af sögum Biblíunnar segir frá
farísea sem var að biðjast fyrir og hann þakkaði Guði fyrir hve góður hann væri
og fullkominn, hann væri alls ekki eins og tollheimtumaðurinn sem var líka í
sama helgidómi. En tollheimtumaðurinn, afsakaði sig fyrir Guði og beygði sig í
auðmýkt. Á hann hlustar Guð samkvæmt Jesú. Guði líkar ekki grobb og sjálfhælni
okkar.
Við getum ímyndað
okkur að Jesús lygni aftur augunum þegar hann er spurður um himnaríkið, hann
hallar sér aftur í sætinu. Kannski var
hann að hugsa: hefurðu ekki skilið neitt? «Himnaríki er öðruvísi.» Svar hans
er: Sannlega segi ég ykkur:
Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Einhver
mesti og besti eiginleiki barnsins er einlægnin. Barnið segir það sem það
hugsar, það er ekki búið að læra að segja ósatt eða tala svo öðrum líki. Barnið
segir sannleikann. Það er sá eiginleiki sem Jesús leitar eftir.
Hver er mestur í
himnaríki er ágæt spurning og við henni er þetta svar Jesú. – Barnið. Hvort sem þú ert hér í fyrsta skipti í dag eða
þú ert hér í hundraðasta sinn en ert að velta fyrir þér hvað himnaríki sé í
raun og veru. Þá ætla ég að stinga upp á tveimur túlkunum sem útiloka ekki hvor
aðra: Í fyrsta lagi: Himnaríki eða Guðs ríki eins og það er líka kallað, er
mynd af ástandi á meðal okkar þar sem Guð er virkur með kærleika sínum. Guð á
sér stað í hjörtum okkar og lifir og mótar okkur þannig að við breytum eftir
boðorðum Guðs. Það er að elska Guð og elska náungann eins og okkur sjálf. Í
öðru lagi: Himnaríki er líka notað sem
mynd af fullkomnu ástandi á himnum, þar sem við getum setið til borðs með Guði
sjálfum. Með öðrum orðum, himnaríki er eitthvað sem er og eitthvað sem á að
koma.
Megi það ríki
koma og vera í Jesú nafni.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem
var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.