Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“ Jesús mælti: Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar. Jóh 8.2-11
Miskunnsami Guð. Hvert ættum við að leita ef skilningur og fyrirgefning væru ekki til, heldur aðeins kuldi og hefnd, harka og afskiptaleysi? Gef þú okkur hlutdeild í hjartagæsku þinni. Láttu okkur finna miskunnsemi, og lifa í henni og iðka hana, eins og þú sýndir okkur í Jesú Kristi. Amen
Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Í langri sögu predikunarinnar hefur konunnar sem guðspjallið greinir frá, ekki fyrst og fremst verið minnst vegna hennar sjálfrar, heldur vegna þeirra orða sem höfð eru eftir Jesú Kristi í samhengi frásögunnar: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“
Stundum er eins og skilja megi af ræðum mannanna að þetta sé annað hvort fyrst og fremst fallegt ævintýr, eins og þegar kotungssonur eignast prinsessuna og hálft ríkið, eða einhverskonar sjálfsagður hlutur, fyrst þetta stendur svona í guðspjallinu: Engum áheyrenda Jesú þenna dag kom í hug að kasta steini. Syndavitund þeirra var fullkomin.
Kæri söfnuður. Það sem guðspjallið greinir frá, að enginn hafi kastað steini heldur hafi allir gengið brott, er, ef rétt er eftir haft, engu minna kraftaverk en að Jesú kyrri vind og sjó eða kalli Lasarus frá dauða til lífs. Það dettur engum í hug að trúa því að svona hafi þetta verið nema þeim sem játar fullkomlega í hjarta sínu að Jesús sé Drottinn, og dregur engan vegin í efa að þegar hann segi eitthvað þessu líkt, verði það sem hann vill, eins og sérhvert sinn og þegar Guð talar.
Guð talar og það verður sem hann vill. Það er okkar trú.
En þegar múgur með steina í höndum hættir við að grýta þann sem hann hefur dæmt sekan, samkvæmt lögmálinu eða bara samkvæmt dómstól götunnar, þá er það kraftaverk. Þetta vitum við allt of vel á tímum fjölmiðlunar sem setur okkur á vettvang atburða hvar sem er í heiminum. Og þar höfum við mátt sjá konur, grafnar til hálfs í sand, algjörlega bjargarlausar verða fyrir grjóthríð karlmanna, grjóthríð sem gengur af þeim dauðum eftir hræðilegt dauðastríð.
En það sem þar er lýst er ekki það lögmál sem guðspjallið vísar til, og Jesús bregst við. Þar er ritað:
Ef maður er staðinn að því að liggja með eiginkonu annars manns skulu bæði tekin af lífi, maðurinn sem lá hjá konunni og konan sjálf. Fimmta Mósebók, 22.kafli 22.vers.
Góð systkin. Samkvæmt þessu bar hinum skriftlærðu mönnum ekki aðeins að grýta þessa konu, heldur einnig þann karl sem í hlut átti. Hvar er hann?
Jesús þagði. Hann beygði sig niður og skrifaði í sandinn, eða á jörðina.
Hvað er þegar Guð talar ekki? Hvað merkir þögnin? Jesús beygði sig niður og skrifaði á jörðina. En sagði ekki neitt. Hvað skrifaði hann?
Jesús þegir. Við þekkjum það úr guðspjöllunum. Hann þagði líka í réttarhöldunum yfir honum. Hvenær þegir maður, og hvað merkir það?
Þögn er góð. Ekki aðeins hér á Þingvöllum. Þögn er góð ekki síst þar sem hávaðinn annars ræður og ríkir. Hvenær er þögnin óþægileg.? Þegar þú væntir annars en þagnar. Þegar þú væntir svars við spurningum þínum, eða viðbragða og þegar það er dauðinn sem er orsökin.
Hvað merkir þögnin? Að maður hafi ekkert að segja? Að maður eigi sér engar málsbætur? Er hún uppgjöf? Eða er þögnin skjól, og hlíf, og sigur?
Þögnin hefur mörg andlit. Ekkert okkar hefur komist framhjá þögninni og andlitum hennar. Það er merkilegt að hún skuli bæði getað táknað gleði og grimmd.
Þögnin er hluti af predikun Jesú Krists. Þögnin er hluti af sigrandi kærleika hans. Að leggja til atlögu við illskuna með kærleikann einan að vopni telur hvorki samtíminn né nokkur annar tími vænlegt til sigurs.
Jesús sagði: (Matt.5.38-42)
Þér hafið heyrt að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina. Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn gef honum eftir yfirhöfnina líka. Og neyði einhver þig með sér eina mílu þá far með honum tvær. Gef þeim sem biður þig og snú ekki baki við þeim sem vill fá lán hjá þér.
Þetta eru ekki viðbrögð hins kúgaða, heldur þess sem þegar hefur sigrað. Þess vegna leggja þeir niður steinana, karlarnir, og ganga burt, ekki vegna orðanna sjálfra sem sögð eru við þá heldur vegna þess að þau eru sögð við þá í sigrandi mætti.
Kæri söfnuður. Jesús sneri sér að konunni og talaði til hennar. Hann vildi vita hvort hún hefði þegar verið úrskurðuð sek samkvæmt lögmálinu, og samkvæmt því sem þeim herrunum, bar að gera, í hlýðni við lögmálið. Það hafði hún ekki verið. Hann spyr einskis frekar.
Við trúum því að enginn hafi meiri og dýpri mannþekkingu, dýpri þekkingu á mannlegu eðli, heldur en hann.
Mannlegt eðli þitt hann þekkir, þú ert moldarstrá og blóm, fætt í gær og fölt á morgun, fokið, gleymt sem dust og hjóm. Sb 734 SE
Þannig yrkir Sigurbjörn í sálminum sem við syngjum hér á eftir. Guðspjöllin undirstrika það líka margvíslega. Við munum kannski konuna við brunninn: (Jóh. 4.16-18). Hann segir við hana: „Farðu, kallaðu á manninn þinn og komdu síðan hingað.“ Konan svaraði: „Ég á engan mann.“ Jesús segir við hana: „Rétt er það að þú eigir engan mann því þú hefur átt fimm menn og sá sem þú átt nú er ekki þinn maður. Þetta sagðir þú satt.“
Eða þegar hann (Jóh. 1. 47-48) sá Natanael koma til sín og sagði við hann: „Hér er sannur Ísraelíti sem engin svik eru í.“Natanael spyr: „Hvaðan þekkir þú mig?“ Jesús svarar: „Ég sá þig undir fíkjutrénu áður en Filippus kallaði á þig.“
Eða þegar hann leit upp í tréð til Sakkeusar (Lúk.19.5) og sagði: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“
Sá sem þannig sér í innstu kima hugar og hjarta er sá sem gróðursetur þar þau fræ sem spíra munu til umbreytingar og blessunar. Þetta er sá sem hastar á vind og vatn og þau hlýða, því hann hefur sköpunarkraft Guðs í orði sínu. Guð sagði: Verði ljós! og það varð ljós. Það sem Guð segir það verður. Far þú syndga ekki framar, er ekki fróm ósk um betra líferni, ekki einhvers konar klapp á kollinn: Já, já þetta er allt í lagi. Öðru nær. Þetta er sköpunarorð sem breytir lífi og gefur nýtt líf. Þetta er orðið sem uppfyllir lögmálið, en brýtur það ekki niður. Það tekur burtu orsökina. Manneskjan sem braut af sér, sannarlega, og var sek samkvæmt lögmálinu, er ekki lengur sek, því að brotið hefur verið tekið burtu. Það er það sem átt er við með fyrirgefningunni. Aðeins sá sem kyrri vind og sjó, og segir verði ljós og það verður, getur það. Það er sami krafturinn, kraftur sköpunar og endursköpunar, sem er kraftur fyrirgefningarinnar.
Nýtt líf. Ekki annað líf, ekki viðgert líf, eins og þegar stoppað er í göt á sokk, (sem reyndar er að verða týnd listgrein, því miður). Heldur nýtt líf. Er það ekki flókið fyrirbæri, eða ótrúlegt? Alls ekki. Það er nákvæmlega jafn lítið flókið og það er að vakna til nýs dags eftir góða næturhvíld. Sérhver nýr dagur, fullur af nýjum tækifærum, geymir í sér kraft hins nýja lífs. Enginn getur lifað eðlilega sem alltaf reynir að bera byrðar gærdagsins, því að í þeim er fólgin byrði hvers dags sem lifað hefur verið, og á langri ævi eru það orðin mikil þyngsli.
Og við þekkjum fólk sem kiknar undan lífi sínu, af því að það hleður alltaf á sig nýjum byrðum. Það er fólk sem getur ekki fyrirgefið, ekki heldur sjálfu sér og getur ekki tekið á móti fyrirgefningu annarra. Ekki heldur fyrirfefningu Guðs.
Andhverfan við fyrirgefninguna er hatrið og refsingaþorstinn. Hvað er það sem við köllum makleg málagjöld? Er það það að sá sem drap barnið mitt verði sjálfur drepinn, að sá sem kvaldi mig verði sjálfur kvalinn, að sá sem sólundaði eigum mínum í útlöndum fái aldrei að koma aftur til síns heimalands nema hann borgi mér til baka. Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.
Kæri söfnuður. Ef við viljum vera kristin, og vera Krists megin, þá verðum við að hafna þessu meinta réttlæti hins gamla lögmáls og taka upp kristinn sið. Og hann hefur ekkert rúm fyrir hefndina. Um það er lexía dagsins, sagan um Kain og Abel okkur eilíf áminning. En það er ekki okkar fyrirgefning, þó að hún sé dásamleg og nauðsynleg í daglegu amstri okkar á milli systkinanna, sem dugar til hins nýja lífs sem fyrirgefningunni fylgir. Kristur sjálfur verður að standa þar að baki, hann sem hefur gefið kirkju sinni, sem er líkami hans á jörðu, umboð til að mæla fram orð fyrirgefningarinnar í hans nafni. Forðum við hina seku konu, í dag við okkur. Far þú. Syndga ekki framar.
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og heilögum anda, svo sem hún var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen