Brúðkaupið
Hvernig voru kjólarnir? Var einhver sem bar alveg af? Og hvað var í matinn? En vínin? Hvaða vín var á boðstólnum? Hvernig var athöfnin? En veislan, var hún vel heppnuð? Hver flutti bestu ræðuna? Hverjir mættu og hverjir mættu ekki í brúðkaupið? Skandalíseraði einhver?
Kæri söfnuður. Það var haldið brúðkaup síðasta sumar. Vilhjálmur prins og Kata prinsessa gengu í hjónaband. Heimsbyggðin fylgdist með.
Þegar ég gúgglaði orðin „Vilhjálmur Kate hjónaband“ þá fékk ég 14400 niðurstöður á íslensku. Hliðstæð leit á ensku gaf 163 milljón niðurstöður.
Það var semsagt og er líklega enn mikill áhugi á parinu unga. Enda er þetta efnilegt ungt fólk og myndarlegt og þau eiga framtíðina fyrir sér.
Ég er viss um að við getum fundið svör við spurningunum sjö sem ég spurði hér í upphafi á á einhverjum af þessum 163 milljón síðum sem Google fann um brúðkaupið. Og mörgum fleiri spurningum líka.
Samt er þetta ekki þekktasta brúðkaup sögunnar. Ekki heldur brúðkaup foreldra prinsins, Karls og Díönu.
Nei, þekktasta brúðkaup sögunnar er það sem við lásum um hér áðan: Brúðkaupið í Kana.
Þrátt fyrir þetta getum við bara svarað tveimur spurningum af þeim níu sem ég las í upphafi. Það eru spurningarnar um hverjir mættu og um vínið. Jesús, fjölskylda og lærisveinarnir mættu á staðinn og það var á afbragðs vín, kraftaverkavín, í veislunni í Kana.
Kannski besta vín sögunnar.
En hvers vegna er þetta brúðkaup og vín svona þekkt?
Ætli það sé ekki út af gestinum sem síðar varð frægur?
Að því leyti var þetta svona seleb-brúðkaup. Af frægð Jesú leiddi frægð brúðkaupsins.
Þessi saga fjallar jú fyrst og fremst um Jesú, en ekki brúðkaupið sem slíkt.
Og hvað gerði hann?
Ekki skandalíseraði hann. Slíkt er samt alltaf leið til að vekja athygli í fjölmiðlum. Hann útvegaði vín þegar það var búið. Lét gott af sér leiða.
En það er annað sem liggur svolítið á milli línanna. Í guðspjallinu segir:
Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“
Jesús sneri við hinu viðtekna. Hann leggur hefðbundið gildismat, röð hlutanna, lúkkið ekki til grundvallar. Og hagnýtir sér ekki óöryggið sem felst í ölvuninni til að bera á borð það sem er lélegra - eins og fólk gerði almennt.
Hann ber fram gott vín þegar fólk á von á vondu. Ber fram það sem er óvænt og gott þegar fólk á von á því sem er síðra.
Munum þetta.
Brjóstin
Í liðinni viku hefur athygli Íslendinga beinst að brjóstum og iðnaði. Við fengum fréttir af því að rúmlega 400 íslenskar konur hafi fengið sílikonpúða í brjóstin sem eru gerðir úr iðnaðarsílikoni og að þessir púðar geti verið hættulegir fyrir konurnar. Margir hafa haft skoðun á því hvað skuli gera: Þetta eru fegrunaraðgerðir og þær bera kostnaðinn sjálfar. Læknirinn ber bara þennan kostnað. Þetta er honum að kenna. Við búum í landi með sameiginlegt heilbrigðiskerfi og ef þær verða veikar út af púðunum þarf samfélagið hvort sem er að greiða fyrir þetta. Þess vegna greiðum við bara fyrir þetta strax.
Og upp dúkkaði upp á netinu gamall pistill um það hvernig sílikonbrjóst borga sig upp á skömmum tíma, ef þú ert kona sem hangir á börum allar helgar og ert til í að láta bjóða þér drykk út á brjóstin.
Þessar fréttir voru mikið skoðaðar og umferðin jókst um íslenska vefmiðla af því að það var verið að fjalla um tvennt sem fólk hefur áhuga á: Hneyksli (gölluðu brjóstapúðarnir) Kynlíf (brjóstastækkanir)
Ja, hérna hér.
Vandinn við púðana var að í þá var notað iðnaðarsílikon sem á víst ekkert erindi inn í mannslíkamann.
Þar sem fólk átti von á góðu eða í það minnsta hlutlausu fékk það vont.
Saltið
Í vikulokin kom svo ein iðnaðarfréttin til viðbótar: Fyrirtæki hér í bæ hefur selt iðnaðarsalt til matvælafyrirtækja. Svo uppgötvaðist þetta og nú er málið í vinnslu. Og það á ekki að selja saltið áfram. En fyrirtækið fékk nú samt leyfi til að klára birgðirnar sem voru eftir. Þær entust í heila viku.
Iðnaðarsalt á auðvitað ekkert erindi í mannslíkamann heldur. Samkvæmt skilgreiningunni og í veruleikanum.
Þar sem fólk átti von á góðu fékk það vont.
Forgangsröðunin
Kæri söfnuður. Iðnaðarfréttirnar tvær sem vöktu athygli í síðustu viku fjalla um mörk og forgangsröðun.
Iðnaðarsílikon og iðnaðarsalt eru hvort tveggja vörur sem eiga ekkert erindi inn í mannslíkamann.
Að selja iðnaðarsílikonbrjóstapúða til að setja í konur og selja iðnaðarsalt til matvælaframleiðslu er að fara yfir mörkin sem við höfum sett okkur í samfélaginu.
Við eigum ekki að líða það.
Framleiðslan á brjóstapúðunum (sem voru nota bene seldir undir fölskum formerkjum) og sala á iðnaðarsalti endurspeglar líka ranga forgangsröðun. Endurspeglar forgangsröðun sem setur manneskjuna og hagsmuni hennar ekki í forgang.
Kannski er þetta tvennt til marks um markaleysisvandann sem við höfum upplifað á svo mörgum sviðum á Íslandi undanfarin ár, vanda sem kristallast í efnahagshruninu sem skók allt.
Það er löngu kominn tími til að segja stopp og hingað og ekki lengra. Setja manneskjuna í fyrsta sæti, sama hvert ástand hennar er.
Gott
Kæri söfnuður. Góðu fréttirnar í guðspjallinu, í sögunni um frægasta brúðkaup í heimi, eru ekki sömu fréttir og brúðkaupin í Séð-og-heyrt bera okkur. Heldur öfugar fréttir við þær.
Séð og heyrt brúðkaupin segja: Flott er gott. Flottara er betra. Flottast er best.
Og yfirborðslestur á guðspjallsbrúðkaupinu gæti leitt okkur að sömu niðurstöðu. Brúðkaupið í Kana er flottast af því að þar var Jesús og hann er mesta seleb. Ever!
Og vínið er besta vín. Ever!
En það eru ekki góðu fréttirnar við þetta brúðkaup. Góðu fréttirnar eru þessar:
Þetta þarf ekki að vera svona. Forgangsröðunin þarf ekki að vera sótt í Séð-og-heyrt. Jesús gekk gegn viðtekinni forgangsröðun síns tíma þegar hann bar fram góða vínið á eftir því verra. Gaf gott þegar fólk átti von á slæmu.
Við getum það líka. Með því að bera alltaf fram það sem er gott. Hvort sem fólk á von á slæmu, hlutlausu eða góðu.
Bera fram það sem eflir manneskjuna og styrkir hana. Og hvílt í þeirri vissu að þar erum við að fylgja fordæmi hans sem við köllum frelsara.
Gildir þá einu hvort um er að ræða brjóstapúða eða salt, orð eða augnatillit, mat, framkomu, uppeldi eða eitthvað annað.
Gerum gott og gefum gott. Það er hvatning og fordæmi sögunnar af frægasta brúðkaupi sögunnar. Það er hvatningin okkar hér í dag.
Guðspjallið
Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: „Þeir hafa ekki vín.“ Jesús svarar: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“ Móðir hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera.“ Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gerðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki hvaðan það var en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“ Þetta fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína og lærisveinar hans trúðu á hann. Jóh 2.1-11
Myndina hér að ofan tók Michael Labowicz.