Eilífi Guð, þegar þú kemur til dóms munu orð okkar og verk verða að engu. Von okkar er Kristur. Af því að hann hefur fórnað sér fyrir okkur og tekið á sig refsingu okkar biðjum við: Lít til hans en ekki okkar og sýkna okkur hans vegna, við tilbiðjum hann ásamt þér og heilögum anda að eilífu. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Við erum sífellt að kveðja og heilsa. Í dag hefst síðasta vika kirkjuársins og við heilsum nýju kirkjuári n.k. sunnudag, 1. sunnudag í aðventu. Framundan eru sunnudagar aðventunnar með sinn vonarríka boðskap sem nær hámarki þegar jólahátíðin gengur í garð.
,,Þessi sunnudagur beinir athyglinni að því að Jesús Kristur mun birtast á ný og dæma lifendur og dauða. Þá verður dómsdagur, reikningsskil, uppgjör. Þegar allt upplýsist, ráðgátur og spurningar allar. Hið illa verður upprætt, hið góða hlýtur umbun sína. Hugsunin um dóminn er í hugsun og máli Biblíunnar umfram allt þrungin gleði. Því það er Drottinn sem dæmir. Það er Drottinn sem hefur síðasta orðið, réttlætið, kærleikurinn, náðin. Og við höfum þeim mun meiri ástæðu til að fagna í þeirri von því við höfum séð hann og þekkjum hann, dómarann, það er Jesús. Hugsunin um dóminn er ekki sett til að skelfa börn og ógna, öðru nær. Dómurinn er Guðs en ekki manna. Því munu niðurstöður hans koma á óvart.”
Boðskapur lexíunnar og pistilsins
Ekki síst í ljósi boðskapar lexíu dagsins úr Jobsbók þar sem segir að maðurinn lifi fáa ævidaga og hverfi sem hvikull skuggi. Þrátt fyrir það hafi Guð á honum vakandi auga og kalli hann fyrir dóm sinn. Guði er því annt um manninn, konuna, barnið, unglinginn og gætir þess að engin þeirra glatist. Og Pétur postuli leggur á það áherslu í pistli dagsins að einn dagur hjá Drottni sé sem þúsund ár og einn dagur. Hann sé því langlyndur við okkur þar sem hann vilji ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar. Eftir fyrirheiti Drottins væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr. Hér leggur Pétur postuli áherslu á vonina, vonina sem sérhverjum kristnum einstaklingi er gefin til lífsins grýttu brautar. Það er afar mikilvægt að lifa í voninni. Verum vel tygjuð og látum ljós okkar loga í þessum efnum. ( Lúk. 12.35) Guð þarf á hjálp okkar að halda til þess að réttlætið nái fram að ganga á jörðinni í samskiptum fólks. Hann þarf á tungu okkar að halda, höndum og fótum og skilningarvitum öllum. Tökum höndum saman til að ryðja réttlæti Guðs veg.
Eftirvænting hinna fyrstu lærisveina
Hinir fyrstu lærisveinar lifðu í þeirri eftirvæntingu að Drottinn kæmi skjótt til að setja dómþing, þá myndi hann skilja hafrana frá sauðunum í mannlegu tilliti og mannkynið myndi búa við réttlæti Guðs þaðan í frá og um eilífð alla. Í bæninni hér í upphafi máls míns lét ég þess getið að Kristur hefði fórnað sér fyrir okkur og tekið á sig þann dóm sem við eigum skilið. Við erum að sönnu undir dómi en Guð mun ekki horfa í augu okkar þar sem við ríghöldum í krossins helga tré heldur í augu sonar síns sem þjáðist í okkar stað, dó en reis upp frá dauðum.Kristur þekkir þjáningu mannanna og finnur til með okkur þegar áföllin verða. Hörmulegt bílslys varð á Siglufirði í síðustu viku þar sem barn lét lífið og tvö börn slösuðust, þar af eitt alvarlega. Áfallateymi tók höndum saman til að hugga, styðja og miðla þessari von sem er svo nauðsynlegt fyrir okkur að geta haldið í þegar við verðum skyndilega áveðra fyrir áföllum.
Böl vímuefna og umferðarslysa
Á hverju ári látast um 1,2-1,4 milljónir manna í umferðarslysum í heiminum. Á Íslandi hafa 189 látist í 167 umferðarslysum síðastliðin 10 ár og um 1700 hafa hlotið mikil meiðsl. Við verðum hvert og eitt að gæta ýtrustu varúðar í umferð lífsins
Á nýafstöðnu Kirkjuþingi var samþykkt tillaga um vímuvarnarstefnu þjóðkirkjunnar. Það er ekki til sú fjölskylda í landinu sem sloppið hefur við hramm Bakkusar. Flestum ætti að vera ljós skaðsemi óhóflegrar áfengisdrykkju á heilsufar fjölskyldna í landinu sem kostað hefur líf alltof margra einstaklinga. Fíkniefni hafa líka flætt inn í landið þrátt fyrir góða viðleitni lögreglu og tollvarða við að stemma stigu við þessum innflutningi og ófögnuðinum sem fíkniefnum fylgir. Og dómar við slíkum fíkniefnainnflutningi hafa þyngst á undanförnum árum. Fíkniefnaneysla er að verða álíka mikið þjóðarböl og áfengisneyslan og aldur neytenda hefur farið lækkandi á undanförnum árum. Það vakti athygli mína að starf vímuvarnarprests íslensku þjóðkirkjunnar var skorið niður vegna fjárskorts Biskupsstofu. Því starfi gegndi sr. Karl Valgarður Matthíasson sem fæddist á Húsavík eins og kunnugt er. Að mínu mati máttum við síst við því að skera niður þetta starf vegna þess góða starfs sem hann gegndi í þágu fjölskyldna sem búa við fíkniefnabölið. Áfengið er líka fíkniefni, hættulegasta fíkniefnið þegar á allt er litið. Það horfir því undarlega við að sala áfengis skuli vera yfir höfuð leyfð. Að mínu mati þyrfti a.m.k. að hækka aldur þeirra sem mega kaupa áfengi. Ríkið vill fá peninga í kassann svo unnt sé að halda úti sjálfsagðri þjónustu við almenning í landinu. Biskup Íslands bað okkur presta að minnast fórnarlamba vímuefnabölsins í almennri kirkjubæn í guðsþjónustum þessa sunnudags. Það mun ég gera hér á eftir í almennu kirkjubæninni. Þar munum við einnig minnast fórnarlamba umferðarslysa.
Mikilvægi forvarna
Almenningur verður að taka þátt í margvíslegu forvarnarstarfi til að stemma stigu við fíkniefnabölinu. Íþróttafélög inna mikilvægt forvarnarstarf af hendi í þessu tilliti. Það er ekki hægt að ætlast til að ríki og sveitarfélög bjargi öllum hlutum. Stundum þurfum við að taka málin í eigin hendur, efla foreldravakt á götum bæjarfélagsins um helgar og sjá til þess að börnin séu kominn heim til sín á eðlilegum tíma á kvöldin. Við þurfum að standa vaktina með yfirvöldum, lögreglu og öðrum til þess að börnin okkar geti vaxið og þroskast og lært að taka skynsamlegar ákvarðanir þegar kemur að ákvörðun um neyslu áfengis svo nokkuð sé nefnt. Þess vegna beini ég nú orðum að fermingarbörnunum og bið þau að hugleiða það sem ég segi nú:
Að taka rétta ákvörðun
Í þessari guðsþjónustu fer fram altarisganga þar sem ég útdeili brauði og víni að boði Krists sem bauð lærisveinum sínum að minnast sín með þessum hætti þegar þeir kæmu saman. Í altarisgöngunni mætum við Jesú upprisnum sem er hjá okkur í anda sínum og hann fyrirgefur okkur syndirnar, það sem við höfum brotið af okkur í hugsun, orðum og verkum.
Kæru fermingarbörn. Ég mun dýfa oblátunni niður í bikarinn og gefa hvort tveggja í einu. Ef þið viljið ekki vínið þá gefið þið mér merki með því að leggja fingur á munn þegar kemur að ykkur. Ef þið gerið það þá gef ég ykkur bara oblátuna. Auðvitað fara foreldrar ykkar á undan með góðu fordæmi í þessum efnum og ráðleggingum til ykkar. En þið megið ekki þiggja sakramentið fyrir ferminguna nema í fylgd forsjármanna ykkar, foreldra eða afa og ömmu.
Trúin er gjöf frá Guði. Sakramentið, heilög kvöldmáltíð er leyndardómur, sem við sameinumst um í dag. Kristur gefur okkur í þessu sakramenti styrk til að lifa sem kristnar manneskjur í þessum heimi. Það er vilji Guðs að allir geti lifað góðu og innihaldsríku lífi í sátt við umhverfi sitt, samborgara sína og samfélag. Öllum eru gefnar mismunandi náðargjafir, mismunandi hæfileikar sem sérhverjum er falið að hlúa að svo sem flestir fái notið. Ég þekki t.d. eina stúlku sem hefur mikinn áhuga á því að sinna öldruðu fólki og hefur hún getið sér gott orð á því sviði því að hún er svo umhyggjusöm. Þannig getum við borið trú okkar á Guð vitni með góðum verkum, umhyggju í garð aldraðra svo nokkuð sé nefnt. Ég ber þá von í brjósti að fermingarbörnin og unglingar þessa lands einsetji sér í lífinu að vera góðar og hjálpsamar manneskjur.
Upprætum einelti
Ég hef tekið eftir því að samskiptum okkar á netinu er stundum áfátt. Þar falla þungir sleggjudómar, jafnvel í garð saklausra barna sem eru að vafra um netið. Einelti þrífst sem aldrei fyrr á netinu. Það þarf að uppræta með samtali við börnin þar sem þeim er kennt að nota netið á skynsaman og uppbyggilegan hátt. Þar geta foreldrar farið á undan með góðu fordæmi eins og svo oft áður.
Við skulum jafnframt varast að taka þátt í dómþingi götunnar. Það er Guð sem dæmir. Enginn kemst hjá að upplifa þann dóm en sá dómur kemur sérhverjum á óvart hafi hann leitast við að lifa sem kristin manneskja í þessum heimi.
Verum samferða hvort öðru
Það er mikilvægt að leggja við hlustir. Við lifum í upplýstu þjóðfélagi þar sem við fáum nýjar fréttir um leið og þær gerast innan lands sem utan. Sumar fréttir eru þess eðlis að við gefum ekki gaum að þeim. Aðrar hreyfa við okkur líkt og fréttir af slysförum eða þær sem varða efnahag okkar beint, þær sem varða hag fjölskyldu okkar, maka, barna, vina og ættingja. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Þegar einhver trúir okkur fyrir einhverju þá skulum við leggja okkur fram um að vera viðkomandi samferða með því að vera honum áheyrandi í Krists stað. Fólk kann vel að meta að finna að það sé hlustað á það ekki síst þegar það glímir við erfiðleika.
Við skulum líka leggja við hlustir eftir Drottins orði sem eru gleðifréttir því að það er mikil speki í orðum Drottins sem hreyfa við okkar innra manni og gera okkur betur kleift að takast á við verkefni daganna, ekki síst samskipti okkar við hvert annað.
Besta forvörnin
Það er besta forvörnin að leitast við að lifa eftir kærleiksboðorði Jesú Krists sem segir í dag við okkur:
,,Sannlega, sannlega segi ég yður. Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.” Jóh. 5. 24-27
Þessi orð fela í sér að á hinum efsta degi þegar dómur gengur yfir þennan heim og mennirnir ganga einn af öðrum frammi fyrir ásjónu skapara himins og jarðar. Þá mun Jesús ganga á milli okkar og Guðs og standa reikningsskil gjörða okkar í okkar stað. Fyrir vikið komum við kristið fólk sem höfum heyrt orð Krists og varðveitt það í hjörtum okkar ekki til dóms heldur stigum yfir frá dauðanum til lífsins!
Þetta er mikið þakkar-og fagnaðarefni sem við skulum taka með í reikninginn þegar aðventan gengur í garð en orðið aðventa merkir ,,koma.” Fyrir vikið megnum við frekar að greina kjarnann frá hisminu þegar jólahátíðin með sínum yndislegu hefðum gengur í garð. Hismið eru umbúðirnar mörgu sem búið er að pakka utan um jólin en kjarninn er auðlegðin í barninu í jötunni, manninum á krossinum, hinum upprisna Jesú Kristi.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.