Gleðilega hátíð. Á kvenréttindadaginn, baráttudag íslenskra kvenna, minnumst við þess að 90 ár eru liðin frá því að konur á Íslandi fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Fáninn okkar er líka níræður í dag, krosstákn frelsis, réttlætis og sjálfstæðis. Um leið og við fögnum þessum tímamótum í sögu lands og þjóðar erum við minnt á þá staðreynd að um allan heim þjást konur undir ofbeldi, kúgun og misrétti og í fleiri en einu landi láta konur sig ekki einu sinni dreyma um kosningarétt og önnur réttindi á við karla.
Í guðspjalli dagsins sjáum við hinn gamla veruleika gengt hinum nýja. Þröngsýnir karlmenn notfæra sér nafnlausa konu og miskunnarlausa lagasetningu til að veiða boðbera elskunnar og frelsisins í gildru. Fulltrúar karlaveldisins voru í sínum fulla rétti, tæknilega séð. Lögmálið kvað á um líflát hórsekra kvenna og karla, undir vissum kringumstæðum með grýtingu (5. Mós. 22.22-24). Því var Jesús í vanda staddur. Tæki hann málstað konunnar væri hann einnig sekur um brot gegn lögmáli Móse. En samþykkti hann verknað þeirra myndi fara fyrir lítið sú ímynd kærleikans og miskunnseminnar sem fólkið hafði af honum. Í báðum tilvikum myndi hann dæma sjálfan sig úr leik sem Messías. Og það var einmitt það sem farísearnir og fræðimennirnir voru að bíða eftir.
Fyrstu viðbrögð Jesú eru sérstæð. Hann laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Kannski var hann að vinna sér umhugsunarfrest og stuðla að því um leið að lögmálshyggjumennirnir hugsuðu ráð sitt. Ef til vill var það þeirra sekt sem hann skrifaði í rykið. En allt um það – þetta ráð gefur andrými inn í að því er virðist óleysanlegar aðstæður og vekur óþolinmæði andstæðinganna, sem veikir stöðu þeirra.
Svo koma þau frægu orð, lausnarorð vandans: Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana. Með þessum orðum er ekki gert lítið úr syndinni; hin ranga breytni ekki smættuð, en leyfi mannanna til fordæmingar á samferðafólkinu dregið í efa. Ekki er ólíklegt að einhverjir af karlmönnunum í hópnum hafi gerst sekir um einmitt sömu synd og hórseka konan, en ekki þurft að gjalda fyrir vegna stöðu sinnar og kynferðis. Sú saga er því miður bæði ný og gömul. Oftar en ekki hefur það verið konan sem er fordæmd og úthrópuð vegna brota á kynlífssviðinu, en karlinn síður og jafnvel hreykt sér af “afrekum” sínum.
Þeir mega þó eiga það, þessir tilteknu farísear og fræðimenn, að þeir kunna að skammast sín. Táknrænt atferli Jesú og orð hans - án fordæmingar, en höfðað til samvisku hvers og eins - hafa þau áhrif að þeir láta sig hverfa án frekari málalenginga – hinir lífsreyndu öldungar fyrstir.
Og þá er konan ein eftir – með Jesú. Hann ávarpar ókunna konuna og lætur sér þannig fátt um finnast um siðareglur samtíma síns. Að hann hins vegar lætur sér annt um afdrif konunnar sjáum við af orðunum í lok samtals þeirra: Syndga ekki framar. Með því sýnir Meistarinn enn að syndin er ekki léttvæg. Hann dregur ekki í efa þann dóm fræðimannanna að konan hafi gerst sek um ranga breytni. En í umhyggju sinni vill hann færa henni gjöf nýs upphafs; bjóða henni til nýs lífs, eilífs lífs í fyrirgefningu og ábyrgð.
Í pistli dagsins og lexíunni var rætt um dóm og miskunnsemi. Við erum kölluð til ábyrgðar á dómum okkar og sívirkrar sjálfsskoðunar; minnt á að oftar en ekki erum við sjálf jafn sek og þau sem við fordæmum. Ekki er þar með gert lítið úr dómi Guðs. Hin ranga breytni hefur alltaf sínar afleiðingar – stundum í beinu orsakasamhengi við brotið, líkt og þegar fólk vaknar upp með timburmenn eftir mikla drykkju; stundum í samhengi eilífðarinnar, þegar fólk velur sig burt frá kærleika Guðs. En góðu fréttirnar eru þær að til er þriðja dómsleiðin – leið fyrirgefningar Guðs, gæsku Guðs sem leiðir til iðrunar. Þetta sáum við svo skýrt í guðspjalli síðast liðins sunnudags um glataða soninn sem fékk konunglegar mótttökur þegar hann kom til sjálfs sín og snéri heim í faðm föðurins.
Já, ást Guðs kallar á okkur og býður okkur að koma til sjálfra okkar, vakna upp til nýs lífs í fyrirgefningu og fordómaleysi. Því lífi vorum við vígð í skírninni, helguð Kristi með tákni hins heilaga kross, sem er sigurmerkið yfir synd og dauða. Ósýnilega krossmarkið, sem þannig ber uppi líf okkar, er áminning um elsku Guðs og ábyrgð okkar. Í fermingunni göngum við inn í þá ábyrgð sem manneskjur á vegi þroskans og lýsum því yfir að það sé vilji okkar að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Hann er þar með fyrirmynd okkar í umhyggju og fordómaleysi og kennir okkur hvernig við getum kallað fram það besta í okkur sjálfum og öðru fólki.
Eitt grundvallarstefið í kristinni trú er virðing fyrir hverri manneskju, réttindum hennar – og skyldum - til lífs og frelsis. Við erum ekki hluti af nafnlausum massa, heldur einstaklingar með okkar eigin sögu og sérkenni. Þannig stendur í Jesajaritinu: “En nú segir Drottinn svo, sá er skóp þig, Jakobsætt, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú eigi, því að ég frelsa þig. Ég kalla á þig með nafni, þú ert minn”. Þetta segir Guð við ykkur sem eruð að fermast í dag, og við hverja manneskju út um allan heim: Ég kalla þig með nafni, þú ert minn. Við erum öll jafn dýrmæt í augum hans, konur og karlar, evrópubúar og afríkskt fólk, kristin og ekki kristin.
Forsenda ójafnræðis og ranglætis er jafnan að gert er lítið úr manneskjunni sem einstakri persónu. Fólk af líkum uppruna er sett í einn bás og alhæft um eðli þeirra og atferli. Þetta er oftar en ekki liður í valdbeitingu þeirra sem á einn eða annan hátt hafa sterkari stöðu en annað fólk.
Hér á Íslandi búum við að mörgu leyti við jöfnuð og réttlæti – miðað við svo mörg önnur lönd. Kosningaréttur kvenna í 90 ár er dæmi um það. Fyrir það ber að þakka. En fáar umbætur verða án baráttu. Þannig var staðfestning Kristjáns X á stjórnarskránni sem veitti íslenskum konum yfir fertugu kosningarétt þann 19. júní 1915 (frá sambandslögunum 1918 varð rétturinn jafn milli kvenna og karla) ávöxtur mikillar vinnu kvenna - og karla - fyrir forgöngu Kvenréttindafélags Íslands. Og grunninn að jöfnuði í heilbrigðisþjónustu lögðu konur með fjáröflunarsamkundum til stofnunar Landspítala Íslands þann 19. júní árum saman – í þakklætisskyni fyrir veitt réttindi.
Í dag verður alls þessa minnst með hátíðar- og baráttudagskrá á Þingvöllum undir yfirskriftinni “Skundum á Þingvöll og treystum vor heit”. Og í kvöld verður kvennamessa í Laugardal kl. 20.30, eins og verið hefur þennan dag árum saman.
Baráttuhátíðin á Þingvöllum hefst með því að 18 rósir verða settar í Drekkingarhyl í minningu þeirra 18 kvenna sem drekkt var þar. Það var hin íslenska leið til útrýmingar hins ósiðlega og spillta, fordæmingarleið þeirra sem valdið höfðu yfir dæmdum konum. Það setur að okkur hroll við upprifjun hinna ómannúðlegu dómsleiða fortíðarinnar. En því miður er slík valdníðsla enn við lýði sumsstaðar. Þannig berast m.a. fregnir frá klerkaveldinu Íran um grýtingu kvenna sem hafa misstígið sig á siðferðisbrautinni. Þær eru grafnar í jörðu upp að hálsi og síðan hefst grjótkastið. Karlar eru og settir undir svipaðan dóm, nema að þeim er gert auðveldara að flýja steinaregnið þar sem þeir eru aðeins grafnir upp að mitti. Þetta er nú veruleikinn árið 2005.
Ekki má beita þeirri einföldun að skella skuldinni á trúarbrögðin. Ekkert í Kóraninum réttlætir slíka villimennsku. Þar er heldur ekki kveðið á um umskurn telpna, sem þó viðgengst einna helst í íslömskum löndum. Talið er að um 6000 stúlkubörn á aldrinum 4-14 ára séu umskorin hvern dag að meðaltali í Afríku, Asíu, Suður-Ameríku – og því miður nú einnig í auknum mæli í Evrópu og öðrum vestrænum heimshlutum. Hér verður þessum grimmilegu limlestingum ekki lýst nánar; aðeins minnt á ábyrgð okkar, sem í dag fögnum réttlætinu og jöfnuðinum í landi okkar. Hver og ein þessara telpna og kvenna, sem leiddar eru til lífláts og örkumlunar vegna miskunnarlausra laga og hefða, er á okkar ábyrgð, okkar, sem þekkjum leið kærleikans. Hver og ein þeirra er kölluð með nafni, einstök sköpun, mynduð af höfundi lífsins. Hver og ein þeirra á meðfæddan rétt til lífs og frelsis – rétt sem er fótum troðinn af sjálftökumönnum dóms og valds.
Á Kirkjudögum, sem haldnir verða næstkomandi föstudag og laugardag hér uppi á Skólavörðuholtinu, verða meðal annars málstofur sem taka fyrir ýmis efni. Ein þeirra ber yfirskriftina “Kirkjan segir nei við ofbeldi gegn konum”. Þar verður rætt um umskurn kvenna og baráttu kirkjunnar gegn kynbundnu ofbeldi, en fyrir rúmu ári kom út framkvæmdaáætlun fyrir kirkjuna um þetta efni. Þá hefur verið stofnaður hópurinn “Konur gegn limlestingu” og verður fólki boðið að skrifa undir hvatningu til að stöðva umskurn kvenna, en þess má geta að nýlega voru samþykkt á Alþingi lög til breytingar á almennum hegningarlögum sem kveða á um bann við limlestingu á kynfærum kvenna hérlendis (verður 218. gr. a).
Ef til vill finnst okkur við fátt geta gert til að sporna við slíku ranglæti úti í hinum stóra heimi. Höfum þá í huga hin þöglu mótmæli leiðtoga okkar og fyrirmyndar, Jesú Krists. Hann stóð gegn illskunni og þröngsýninni, lagði sjálfan sig að veði til að bjarga lífi einnar konu. Við, sem þegið höfum lífið í hans nafni, eigum að vinna sem hann, vera óhrædd að taka málstað réttlætis og frelsis og lifa með miskunnsemina að leiðarljósi.
Í umhyggju sinni vill Meistarinn færa okkur öllum gjöf nýs upphafs; bjóða okkur til nýs lífs, eilífs lífs í fyrirgefningu og ábyrgð. Göngumst við þeirri ábyrgð með krossmark fánans okkar að leiðarljósi, tákni frelsis, jafnræðis og virðingar fyrir hverri manneskju.
4. sd. e. tr. B pred. Predikun í Dómkirkjunni