Þýski heimspekingurinn Nietzsche boðaði í tveimur bóka sinna meint andlát Guðs. “Gott ist tot”, sagði hugsuðurinn og kenndi mannkyni um (í Die fröhliche Wissenschaft og Also sprach Zarathustra). Ég geng oft framhjá borði háskólanema nokkurs sem hefur hengt upp þessi frægu orð en undir stendur: „Nietzsche hefur verið fjarlægður frá Facebook – Guð“.
Annar þýskur hugsuður, Karl Marx, er meðal annars þekktur fyrir setningu sem hann setti fram í riti árið 1843: "Die Religion ... ist das Opium des Volkes" – Trúin er ópíum fyrir fólkið. Ef ég hef skilið Marx rétt vildi hann meina að vegna þess félagslega ranglætis sem fólk almennt byggi við hefði það búið sér til draumaheim í gegnum trúarbrögðin. Til þess að stuðla að réttlátari heimi væri nauðsynlegt að taka draumsýnina frá fólki og vekja þannig upp baráttu fyrir betri heimi hér í jarðlífinu í stað þess að bíða betri heima við lok lífsins. Marx var ekkert sérstaklega að tala um kristna trú heldur trúarbrögð almennt en auðvitað hafa orð hans iðulega verið heimfærð til hennar.
Kröfugöngur og kjarabarátta Núna eftir hádegið 1. maí fara margir í kröfugöngu á alþjóðlegum baráttudegi launafólks. Yfirskriftin er: „Aukum atvinnu – bætum kjörin“. Yfirvofandi eru verkföll og væntingavísitalan er enn á niðurleið. Sú vísitala byggir á mati fólks á efnahagsaðstæðum og væntingum til efnahagslífs og atvinnumála ásamt heildartekna heimilisins. Á heimasíðu Capacent kemur fram að þessi vísitala var lægst í janúar 2009 (19,50), fór hækkandi lengst af á árinu 2010 (69,90 í ágúst í fyrra) en er nú um 100 stigum lægri en þegar hún mældist hvað hæðst. Það var í maí 2007 (154,90). Fyrir tæpum áratug voru þó væntingarnar aðeins örlítið hærri en núna (í nóvember 2001 var talan 61,80, núna er hún 55,50). Þetta merkir að um fjórðungur aðspurðra er nú bjartsýnn á efnahag og atvinnu á móti þremur af hverjum fjórum þegar góðærið var í hámarki.
Við getum auðvitað spurt okkur hvort einhver ástæða sé til bjartsýni þegar horft er til atvinnu- og kjaramála þjóðarinnar. Prédikunarstóllinn er þó ekki rétti vettvangurinn til að svara þeirri spurningu. Við erum væntanlega ekki komin í kirkju til að finna svör við pólitískum spurningum þó þær varði sannarlega okkar daglega líf og líðan. Að því leyti hafði Karl Marx rétt fyrir sér: Trúin snýst ekki um félagslegar breytingar. Guðsríkið er ekki fólgið í réttlátari heimi hér á jörð.
Kraftur og kjarkur Hins vegar getur heilsteypt trú á góðan Guð gefið okkur þann kraft og kjark sem þarf til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til aukins réttlætis í þjóðfélaginu. Það má líta á baráttuna fyrir félagslegu réttlæti sem „aukaafurð“ hins virka kristindóms, enda flytja bæði spámenn Gamla testamentisins og Jesús sjálfur ásamt bréfriturum Nýja testamentisins sterkan boðskap um að sýna trú sína í verki.
Í merkri bók Joseph Ratzingers, Benedikts páfa XVI, um Jesú frá Nasaret (sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir jólin 2010) segir í kafla um freistingar (bls. 46):
Eðli allra freistinga er... að víkja Guði til hliðar vegna þess að við teljum hann aukaatriði eða lítum hreinlega á hann sem óþarfan eða þreytandi í samanburð við allt það sem virðist mikilvægara til að veita okkur lífsfyllingu. Að reisa heim við okkar eigið ljós án tengsla við Guð, að byggja á okkar eigin grunni og hafna öllum veruleika utan við þann pólitíska og efnislega og víkja Guði til hliðar sem tálmynd – þetta er freistingin sem ógnar okkur og birtist okkur í mörgum mismunandi myndum.
Og páfinn heldur áfram og segir freistinguna þykjast „vísa okkur betri leið sem geri okkur loksins kleift að kasta frá okkur tálmyndum okkar og einhenda okkur í að reyna að bæta heiminn“. Sé það gert, afneitum við Guði og snúum við réttri forgangsröðun segir þessi mikli þýski guðfræðingur að afleiðingin verði hreint ekki meira réttlæti eða aukin samúð með mannlegri þjáningu, heldur „hrun og eyðilegging, jafnvel á sjálfum efnislegu gæðunum“ (bls. 50). Neikvæðar afleiðingar marxisma séu ekki hið eina sem sanni það. „Við getum ekki aðskilið söguna frá Guði og haldið áfram í hreinni efnishyggju“ (bls. 51).
Guð lætur sér annt um manneskjuna alla Með því er ekki sagt að Guð láti sér ekki annt um manneskjuna alla. Við erum ein heild, andi, sál og líkami og Guð þekkir þarfir okkar á öllum sviðum. Jesús frá Nasaret reyndi á eigin skinni, ef svo má að orði komast, hvað það er að vera manneskja. Hann þurfti á hvíld að halda, hann varð svangur og þyrstur, grét og gladdist með vinum sínum. Að öllum líkindum hefur hann stundað venjulega atvinnu þar til hann hóf að boða guðsríkið og deildi kjörum með alþýðufólki. Og líkamlegu lífi hans lauk á sársaukafullan og auðmýkjandi hátt eins og við höfum nýlega lifað okkur inn í með séra Hallgrími á föstunni.
Í guðspjalli dagsins mætum við honum hins vegar upprisnum (Jóh 21.1-14). Erfiðleikar mannlífsins eru að baki. Hann hefur sigrast á öllu því og kemur til lærisveinanna í andlegum líkama. Vinir hans eru teknir til við hið daglega streð að nýju og hafa snúið til baka til atvinnu sinnar, fiskveiðanna. Þeir hafa ekki erindi sem erfiði og hljóta að hafa verið heldur vondaufir um morguninn þegar ekkert hafði fiskast. Þá stendur hjá þeim á ströndinni maður sem þeir vita ekki hver er en gera samt eins og hann segir þeim, kasta netinu hægra megin. Og nú fá þeir meiri fisk en þeir geta dregið. Þá þekktu þeir manninn á ströndinni, að það var Drottinn, enda hafði hann áður lagt fyrir þá svipað verkefni. Það var þegar hann kallaði þá fyrst til starfa fyrir guðsríkið (Lúk 5) og nú er sem hann endurnýji köllunina með þessu veraldlega tákni hins góða afla.
Og þarna er Jesús búinn að leggja fisk á glóðir og brauð og gefur þeim að borða. Þetta er undursamleg frásögn af því þegar himinn snertir jörð. Þarna tekur guðsríkið sér varanlega bólfestu í fiskimönnum við venjubundin störf þeirra, ekki til að taka frá þeim erfiðið við að afla hinna daglegu nauðþurfta heldur til að uppörva þá og fullvissa um að þeir eru ekki látnir eftir einir. Heimurinn hér verður seint gerður þannig úr garði fyrir mannlegt afl, hvort sem það heitir kommúnismi eða kapítalismi, að enginn verði útundan. Öll mannleg kerfi eru takmörkunum háð. En Guð er með okkur og heyrir þegar við köllum (sbr. Sálm 116.1-9).
Kristur kallar til andlegs lífs hér og nú Jesús Kristur kom ekki til að reisa sér veraldegt ríki. „Mitt ríki er ekki af þessum heimi“, sagði hann við Pílatus (Jóh 18.36). En hann kom til að kalla okkur til andlegs lífs hér og nú, í lífsbaráttunni miðri, í pólitíkinni, í fiskveiðunum, við kennsluna eða búðarborðið eða hvar við nú störfum. Hann kom til að veita okkur af upprisukrafti sínum inn í amstur daganna, í barnauppeldinu, í viðleitninni við að halda andlegri og líkamlegri heilsu, í náminu okkar eða hvað sem við erum að fást við.
Kristin trú boðar ekki að við skulum þrauka og sætta okkur við hvað sem er hérna megin grafar til að uppskera himnasælu hinum megin. Hún leggur okkur eilífa lífið í brjóst hér og nú, gefur fyrir Heilagan anda gleði og löngun til góðra verka og þá gjöf að geta horft lengra en til efnislegra gæða. Það er hin sanna upprisutrú sem í engu afneitar þörfinni fyrir réttlátari heimi en viðurkennir takmörk hins mannlega. „Ef von okkar til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum við aumkunarverðust allra manna“ (sjá 1Kor 15.12-21).
Vertu aftur róleg, sála mín, því að Drottinn gerir vel til þín. Þú bjargaðir lífi mínu frá dauða, auga mínu frá tárum, fæti mínum frá hrösun. Ég geng frammi fyrir Drottni á landi lifenda. (Sálm 116.7-9)