Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Á vegg í stofunni á heimili ömmu minnar og afa var mynd sem er mér minnistæð. Hún var af sjómanni. Ég horfði mikið á þessa mynd og einhverju sinni spurði ég hver þetta væri. Ég vissi að langafi og bræður ömmu voru margir sjómenn og hélt að myndin væri af einhverjum þeirra. En það svar sem ég fékk var bara: “ Þetta er sjómaður”.
Síðar, þegar heimurinn minn stækkaði og ég fór á önnur heimili, til vina og stórfjölskyldu, sá ég þessa mynd víða, hún virðist hafa verið afar vinsæl og nánast til á hverju heimili. Þetta er eftirprentun, ekki íslenskt málverk eins og ég hélt lengi, heldur eftir erlendan listamann. Myndin er af sjómanni með sjóhatt og pípu í munni sem horfir einbeittur út í fjarskann og ber einhvern veginn með sér að hann er lífsreyndur, svolítið veðurbarinn. Roskinn maður, sem virðist ekki óttast nein veður, né stórsjó, né aðrar ógnir í lífsins ólgusjó, hugrakkur sjómaður. Kannski hefur þessi mynd verið svo vinsæl á íslenskum heimilum, vegna þess að hún birti einhvern veginn þessa ímynd af íslenska sjómanninum sem við þekktum eða vildum eiga. Þessar hetjur hafsins.
Mynd af sjómanni hefur einnig etv. minnt á þá sem voru úti á sjó, en á þeim tíma sem ég var að alast upp, þá áttu flestar fjölskyldur einhvern nákominn sem stundaði sjómennsku.
Kannski minnti þessi mynd fólk á, að það væri ástæða til biðja fyrir sjómönnunum á hafi úti. Þessi mynd höfðaði sterkt til mín sem barns, hún var “Sjómaðurinn” með stórum staf, - eins konar tákn fyrir alla sjómenn.
Nú sé ég ekki lengur þessa mynd á heimilum, a.m.k. er hún ekki stofustáss lengur , enda fáir sjómenn með sjóhatta í dag, heldur sem betur fer, frekar með hjálma á höfði. Líklega finna sjómenn í dag litla sem enga samsvörun með þessum sjómanni með pípuna, en sem áður var til nánast á hverju íslensku alþýðuheimili. Hún var eins og tákn um að íslenskt alþýðufólk var sameinað í þökk fyrir gjafir hafsins og fyrir hugrakka menn sem stunduðu sjóinn og báru okkur björg í bú.
Í bókinni “Með vorskipum” er grein eftir Sverri Kristjánsson sagnfræðing sem ber heitið “Róstusamt líf”. Þar lýsir hann Íslendingum og aðstæðum á fyrri öldum og ritar: Íslendingar lifa á mörkum hins byggilega heims, sem ekki er byggður ísaldarþjóðum, og þeir urðu snemma veðurnæmir og veðurglöggir. Þegar ísinn rak að landi, var öll tilvera þjóðarinnar komin á ystu nöf, ef fiskur brást eða jarðbönn leyfðu ekki útibeit, hrundi bæði fólk og fé. Engin þjóð í Evrópu kenndi á þessum öldum náttúrunnar, lifandi og dauðrar, með jafnmiklum sársauka og Íslendingar. Hún stóð andspænis þeim á bæjarhlaðinu, nakin og grimm, þau virki, sem menningarþjóðir höfðu reist milli sín og náttúrunnar, voru á Íslandi ekki annað en veggir, hlaðnir úr grjóti og sniddu, vermdir blóðhita manna og málleysingja”.
Síðar í sömu grein ritar Sverrir: “En þó var mannfallið meira hjá þeim Íslendingum, er stunduðu sjó á litlum, opnum kirnum með fúin stög. Á ári hverju tóku fiskimiðin tíund sína af Íslendingum: Eitt árið fórust 134 manns, annað árið 154, hið þriðja fórust nærri allir bestu vermenn Norðlendinga, er stunduðu sjó á Suðurnesjum. Í einni verstöð urðu 11 konur ekkjur á einum og sama degi. Slíkar voru þær fólksorrustur, er Íslendingar háðu við höfuðskepnurnar”.
Sagnfræðingurinn fjallar hér um 17. öldina og þótt okkur þyki langt um liðið, þá segir þessi frásögn margt um harðbýlt land, íslenskan veruleika fyrri alda, sem hafði ekki enn byggt virki menningar til að styðjast við andspænis óblíðum náttúruöflum sem gátu hrifsað bæði björg og mörg mannslífin í einum byl.
Um daginn heyrði ég viðtal við aldraðan skipstjóra. Hann sagði frá sjóslysi sem varð þ. 4. jan. árið 1960. Þá héldu þrír bátar frá Sandgerði til sjós. Það var suðvestan hvass vindur, en þó ekkert slæmt sjóveður, sagði skipstjórinn, sem var bátsverji á einum bátnum. Svo gerði él, dimmt él svo sá ekki milli skipa. Þegar birti aftur eftir élið, þá var báturinn Rafnkell horfinn og sex menn með honum. Í fyrstu var talið að hann hefði farið til hafnar, en svo var ekki, heldur hafði hann farist, án þess að sjómenn á hinum bátunum, sem voru skammt frá yrðu varir eða sæju nokkuð athugavert. Talið var að kviða hafi lagt hann á hliðina, svo kom strax önnur kviða sem tók hann alveg og gamli reyndi skipstjórinn lýsti því svo, að líklega hafi vantað í hann góða kjölfestu, eins og svo marga aðra báta á þessum tíma, það hafi verið alltof oft sem góða kjölfestu vantaði í íslenska báta. Og þess vegna fór þetta svona, sagði gamli skipstjórinn.
Á einu andartaki sekkur skip, hverfur í hafið. Sjósaga okkar er oft aðeins þilið, skipsfjölin sem skilur á milli lífs og dauða. Náttúran á árum áður gat staðið andspænis sjómönnum, nakin og grimm og menn höfðu lítið til að verja sig, Íslendingar höfðu ekki enn reist þá menningarveggi milli sín og náttúrunnar sem stóðust ágjöf, stórsjó og veðurofsa.
Þar hefur sannarlega orðið breyting sem sjómenn og við öll þekkjum í dag. Á þessum degi sjómannadegi, þökkum við framfarir sem orðið hafa á öllum búnaði skipa og öryggi sjómanna. Það eru virkin okkar í dag, menningarvirkin, svo við stöndum ekki lengur bjargarlaus í veðurham og ólgusjó. Skipin, tækin, og aðbúnaður sjómanna, öryggi og slysavarnir, björgunarsveitir, allt er þetta þakkarvert. Ekki sjálfsagt, því við megum ekki gleyma að hér er mörgum að þakka, það hafa margir unnið mikið og þarft verk í þágu öryggis og slysavarna til sjós og tæknin öll og tækin sem eflast stöðugt.
Og á sjómannadegi þökkum við gjöful fiskimið og við erum minnt á góðar gjafir Guðs. Þessa auðlind sem við þurfum að umgangast og nýta af ábyrgð og virðingu. Við höfum þessar gjafir að láni, við njótum þeirra vegna þess að fyrri tíma fólk fór vel með þær. Og við þurfum að skila þeim í hendur framtíðar. Það er boðskapur Guðs sköpunar að við förum vel með það sem við höfum þegið úr hans hendi, ávöxtum , virðum og sýnum nærgætni í umgengni við náttúru til sjós og lands. Við eigum bara eina jörð sem okkur er falin ábyrgð á henni. Elska Guðs, sem birtist í orði Jesú Krists er að elska allt það sem Guð gefur til viðhalds og lífs og við leggjum okkur fram við að rækta, reisa við og efla allar náttúrunnar gjafir.
Og við treystum á góða tíma framundan, tíma vonar. Það virtist ekki bjart fram að líta, á síðasta ári varðandi útgerð og fiskvinnslu hér á DJúpavogi. Þá reynir á, og það hefur verið mikils virði að finna hve fólk hefur verið vongott hér í byggðalaginu, það er alltaf treyst á betri tíma. Engin uppgjöf, heldur haldið áfram. Það hefur komið svo vel í ljós samstaða og vilji til að láta hlutina ganga, og þá dafnar líka vonin sem eflir kraft til góðra hluta.
Við eigum mikinn mannauð og einnig samfélagsauð, sem íbúar hér á Djupavogi hafa verið duglegir að rækta og efla. Það er einmitt með samfélagi sem stendur saman, sem við reisum menningarvirki og það er mikill samfélagsauður, þegar við eigum sama markmið, sameinumst í sýn til framtíðar, - það hefur skilað íslenskri þjóð framförum í sjávarútvegi, engin uppgjöf, heldur haldið áfram og vonað til framtíðar. Gamli sjómaðurinn á myndinni kemur í hugann, hugrakkur, horfir til hafs, hugsar og er óhræddur. Mynd sem eins og sameinaði sýn íslenskrar þjóðar til framtíðar.
VIð eigum öll saman þessa auðlind sem fiskimiðin eru, hún á að vera það sem hvert alþýðuheimili metur, hver einstaklingur á hlut í, eins og við séum öll hásetar á einum báti og finnum til ábyrgðar. Við eigum fiskimiðin saman og gjafir hafsins eiga ekki að vera í eigu fárra, sem hagnast mikið, heldur þjóðinni allri til hagsældar, sem hún fer vel með, verndar, ræktar og þakkar. Það vantar kjölfestu. Sagði gamli skipstjórinn. Við þolum ekki ágang og kviður lífsins ef vantar kjölfestuna.
Kjölfesta í lífinu. Jesús sofandi í bátnum. Þegar lífsins ólgusjór gengur yfir, þá reynist vel að hafa Jesús í bátnum með í för. Það hafa sjómenn og fjölskyldur þeirra um aldir gert. Þegar ótti og öryggisleysi rænir friði og ró, þá er Kristur hér, nálægur, í lífsins bát og kyrrir vind og lægir sjó.
Kjölfestan Jesús Kristur, menningarvirkið sem hefur best reynst íslenskri þjóð á ögurstundum og í ölduróti. Í ár eru 70 ár liðin frá því að heimstyrjöldinni síðari lauk. Um 200 íslenskir sjómenn fórust í þeim hildarleik. Íslensk skip urðu fyrir árásum tundurdufla og það var skotið á þau og þeim sökkt, en sjómenn sýndu mikið hugrekki í stríðinu, sigldu með afla í skipalestum til að koma fiski, mat, til stríðshrjáðra í Evrópu. Engin stétt á Íslandi fann eins mikið fyrir ógnum stríðsins eins og einmitt sjómenn. Við minnumst og þökkum þeim.
Sjómannadagurinn er þakkar-og minningardagur. Við minnumst þeirra sem hafa látist við störf sín á hafi úti og minnumst þeirra sem hafa misst nána ástvina við störf á sjó. Við þökkum Guði fyrir auðug fiskimið, fyrir hugrakka sjómenn, fyrir gafir hans allar. Og við þökkum allar framfarir og tækni sem hefur auðveldað sjómönnum og fiskverkafólki störfin, allar framfarir til sjós sem hafa tryggt öryggi sjómanna og sérstaklega þökkum við allt það sem slysavarnir-og björgunarsveitir vinna í þágu öryggis til til sjós og lands. Það er mikilvægt starf sem sýnir svo vel hve margir eru tilbúnir að leggja sig fram um að hjálpa og bjarga öðrum. Og þann samhug sem íslensk þjóð og samfélög vítt og breitt um landið, eins og hér á Djúpavogi er dýrmætt að finna, það hefur íslensk þjóð oft reynt á ögurstund. Við, hvert og eitt og saman erum það dýrmætasta sem við eigum og sterk erum við þegar við stöndum saman í einhug, það hefur alltaf reynst best þjóðinni. Trúin, vonin og kærleikurinn, það er kjölfestan, menningarvirkið sem lífið nærist af, í Guðs hendi erum við öll eitt. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen. Við þökkum þér góði Guð, að þú hefur gefið okkur auðug fiskimið. VIð biðjum þig að hjálpa okkur að gleyma ekki, hve dýrmæt sú gjöf er og hversu lífsafkoma okkar og velferð er háð vinnu þeirra sem sækja sjó. Við minnumst sjómannnanna og biðjum þig að fylgja þeim á ferðum þeirra, vaka yfir þeim í hættum og erfiðleikum og bjarga úr öllum háska og leiða þá heila heim til hafnar. Blessa þá sem hlutu hina votu gröf og hugga ástvini þeirra alla, fyrir Jesú KRisst. Drottinn vorn. Amen.