Náðarár

Náðarár

Við höfum fagnað hér yfir fögru listaverki til prýði og helgrar þjónustu Hallgrímskirkju. Skírnarsárinn sem hér var vígður í upphafi messu, er látlaus í sinni tæru fegurð, listaverk Leifs Breiðfjörð, kærleiksgjöf Kvenfélags Hallgrímskirkju og annarra hollvina kirkjunnar sem um árabil hafa tjáð kærleika sinn og helgar minningar með gjöfum sínum.

En Jesús sneri aftur til Galíleu í krafti andans, og fóru fregnir af honum um allt nágrennið. Hann kenndi í samkundum þeirra, og lofuðu hann allir. Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er:

Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.

Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar. Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans.Lúk. 4, 14- 22a

Kom þú með dag á dimma jörð, Drottinn Kristur. Amen

* * *

Við höfum fagnað hér yfir fögru listaverki til prýði og helgrar þjónustu Hallgrímskirkju. Skírnarsárinn sem hér var vígður í upphafi messu, er látlaus í sinni tæru fegurð, listaverk Leifs Breiðfjörð, kærleiksgjöf Kvenfélags Hallgrímskirkju og annarra hollvina kirkjunnar sem um árabil hafa tjáð kærleika sinn og helgar minningar með gjöfum sínum. Guð blessi þær gjafir allar, smáar og stórar. "Skín þar in helga á höggnum steini – ljóstær lífsbrunnur - laug sáttmála," mælti Jónas Hallgrímsson við vígslu skírnarfonts Thorvaldsens í Dómkirkjunni fyrir 170 árum. "Ljóstær lífsbrunnur." Þau orð, sú líking á vel við hér. Sem börn vorum við borin að skírnarlaug, eins og barnið, hún Þórunn Jóhanna, sem hér var skírð áðan, við vorum borin að laug sáttmála, borin ástvinaörmum, og ásamt þeim borin uppi af trú kirkjunnar og lögð í faðm Drottins, lífsins og ljóssins. Lauguð lífsins lindum við ljóstæran lífsbrunn, laug sáttmála. Þetta er eitt af því sem við eigum vel flest sameiginlegt, Íslendingar. Í því samhengi stöndum við sem þjóð, það er hefð og heilög venja rótgróin í vitund þjóðarinnar, reynslu og sögu. Guði sé lof fyrir það. "Innantóm siðvenja," segja margir. Nei, það er ekkert innantómt þar sem Drottinn er annars vegar. Hann tekur ómálga barnið á arma sína og forsmáir ekki hik okkar og efa og hálfvolga skoðun, nei, hann leggur það allt sér að hjarta og vill úr því skapa trú og vekja von og efla og glæða kærleika til sín og náungans og lífsins.

Í guðspjalli dagsins heyrum við sagt frá því er Jesús var staddur í heimabæ sínum og gekk í helgidóminn á hvíldardegi "eins og hann var vanur". Trúfesti við hefð og venju stýrði skrefum hans. Já, í frásögn guðspjallsins er allt þetta í sínum föstu skorðum, átthagarnir, hátíðin, hefðin, texti Biblíunnar forn og vel þekktur. En það er engin innantóm venja, af því að Drottinn er þar og mælir sitt orð: "Í dag hefur ræst þessi ritningargrein."

Þegar barnið er borið til skírnar, kunnuglegt er það allt sem þar fer fram, orðin könnumst við öll við, atferlið allt. Og Drottinn er þar og lætur orðin helgu rætast: "Í dag hefur ræst þetta fyrirheit: Þú ert barnið mitt. Ég mun aldrei gleyma þér!"

Okkar hlutverk og köllun er nú að bera þetta orð lífsins, þennan fagnaðarboðskap áfram inn í hið nýja árþúsund. Það hefur heilsað með hörmungum haturs og hermdarverka, stríðsátaka og ógna. Það er ekkert nýtt. Það er nú heimsins þrautarmein. En okkur ber að vera hendur og raddir Jesú frá Nasaret, sem berum orð hans og verk áfram – orðin, gleðiboðskapinn hinum fátæku, frelsun þeim sem eru í fjötrum, blindum sýn og náðarár heimsbyggð allri og sérhverri sál.

* * *

Náðar- ár, líknarár í upphafi 21.aldar. Það virðist vera eitthvað annað en náð sem er yfirskrift þessa árs. Við erum óþyrmilega minnt á að líf og friður eiga í vök að verjast í heiminum okkar á þriðja árþúsundinu sem hinum fyrri, að manneskjan er varnalaus andspænis öflum haturs og hefnda. Nei, það er náðarár. Okkur gefst enn tækifæri að vera á bandi náðar, ljóss og friðar, í trú og bæn: "Vertu, Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og sinn svo allri synd ég hafni." Í því er vörnin fólgin. Því þetta eru ekki innantóm orð, bænin er ekki innantóm venja, því þar er Drottinn sem sér, heyrir og skilur, og blessar í frelsarans Jesú nafni.

Við höfum verið minnt á það undanfarið hve auðvelt er að misnota trú í þágu haturs og hefnda. Kristnir menn hafa talað um "krossferðir" og múslimir "heilagt stríð." Tökum eftir því að trúarleiðtogar og kennimenn um heim allan hafa staðið saman um að fordæma það er trú er notuð til að réttlæta ofbeldi og blóðsúthellingar. Gleymum því ekki. Sá Guð sem Jesús birtir, sá Guð sem aðventan horfir til, jólin boða, krossinn og upprisan birta og boða, sá Guð er Guð friðar og sáttargjörðar.

Með Hjálparstarfi kirkjunnar vinnur þjóðkirkjan að mikilvægu þróunarstarfi í Mið - Austurlöndum. Enn einu sinni barst okkur hryllingsfrétt frá landinu helga. Ætlar þessi ótíð engan enda að taka? Biðjum Jerúsalem friðar, biðjum Palestínu friðar, biðjum Ísrael friðar, friðar réttlætis, virðingar og sáttargjörðar. Látum aðventuljósin okkar tjá þá friðarbæn og vilja okkar að verða sjálf bænheyrsla með gjöfum okkar! Sérhver gjöf til Hjálparstarfs kirkjunnar fær miklu áorkað í því að hamla gegn örbirgð, styðja til menntunar, efla reisn og lífsþrótt meðal hinna snauðu og hrjáðu. Ekkert er mikilvægara en það til að koma í veg fyrir að öfl hatursins og örvæntingarinnar fái þrifist. Og hér heima er ljóst að margir munu knýja á dyr Hjálparstarfsins og annarra líknarsamtaka um aðstoð eins og endranær á aðventu.

Söfnunarbaukur Hjálparstarfs kirkjunnar er fyrir löngu orðinn mikilvæg hefð á aðventu, ómissandi hluti jólaföstunnar. Látum það ekki verða innantómt tákn. Við gætum öll lagt í hann þó ekki væri meir en andvirði einnar máltíðar. Söfnunarbaukurinn minnir á þann sem kom á jörð til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, leysa fjötra, lækna mein og kallar okkur til þátttöku í því verki. Sagan um hann er ekki aðeins ritningargrein og liðin tíð, heldur samtíð, áhrifavaldur ljóss og friðar hér og nú: "Í dag hefur ræst þessi ritningargrein."

* * *

Aðventa, jólafasta er tími hefðanna, við fyllumst heimvon og fortíðarþrá, viljum og þráum að allt sé í sínum föstu skorðum, hátíðin, hefðirnar, textarnir, söngvarnir, ilmurinn og keimurinn. Fólk flykkist í kirkju til að heyra þetta gamalkunna, leita hughrifanna og helgra kennda. Og í þessu öllu mæta okkur orð guðspjallsins, fyrirheit og fagnaðarboð. En það er engin innantóm orð. Þetta eru orð sem rætast í dag og þú færð að taka á móti í hjarta þitt, taka til þín og gera að traustum grundvelli að standa á, máttarorði að styðjast við, opnum augum að horfa með fram á veg, lampa fóta þinna og ljósi á vegum þínum.

Við höfum tendrað fyrsta aðventuljósið. Mild og hlý er birta þess. Aðventan kallar okkur til að safnast um ljósið og halda því á lofti og storka með því vaxandi myrkri, tendra ljós til gleði og heilla þeim sem lifa í skugga. Ljós náðar, ljós gleði, ljós friðar. Á hverju heimili og í hverju hjarta í bæn um að það megi lýsi heimi öllum.

Jesús kom heim í átthaga sína og gekk til guðsþjónustu á helgidegi og las úr fornum texta hinnar helgu bókar. Heilög orð um ljósið sem sigrar myrkrið, um lausn þeim sem eru í fjötrum, um gleði og fögnuð fátækum, um frið á jörðu. Hann er hér,Kristur, krossfestur og upprisinn, og segir við þig: "Í dag hefur ræst þessi ritningargrein."

Gakktu í þeirri vissu til móts við aðventu og jól með birtu og frið í hjarta og sál. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

En sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von, huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði. Amen.

Prédikun á fyrsta sunnudegi í aðventu. Flutt í Hallgrímskirkju, 2. desember 2001.