Prédikun flutt í
Hallgrímskirkju 1. sd. í aðventu 27. nóv. 2022.
Jer. 33:14-16; Opb. 3:2022; Lúk. 4:16-21
Við skulum biðja:
Náð sé með yður og
friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Gleðilegt nýtt kirkjuár
kæri söfnuður og aðrir áheyrendur. Í dag
fögnum við fyrsta sunnudegi nýs kirkjuárs sem hefst ævinlega fyrsta sunnudag í
aðventu. Í dag er hátíðarliturinn í
kirkjunni, hvíti liturinn og við kveikjum á fyrsta kerti aðventukransins,
spádómskertinu.
Á dimmasta tíma ársins
hefjum við nýtt ár og horfum fram til fæðingarhátíðar frelsarans sem er ljós
heimsins. Á undan fæðingu er meðganga og
við getum litið á aðventuna sem andlegan meðgöngutíma. Aðventan er líka nefnd jólafasta. Það ber ekki mikið á föstu hér á landi á
aðventunni. Jólahlaðborð eru víða og
jólafundir eru haldnir í félögum þar sem borð svigna undan kræsingunum. Fastan er tími þar sem okkur gefst tækifæri
til að líta inn á við. Hugsa um líf
okkar, finna leiðir til að breyta því sem við viljum breyta og þakka fyrir það
sem gott er og gefandi í daglegu lífi okkar.
Aðventan er mörgum gleðitími þar sem við njótum fallegra skreytinga,
ljósadýrðar, tónlistar og samfélags við fjölskyldu og vini. En aðventan reynist líka mörgum erfið. Kvíði sækir að og þau sem lítið hafa handa
milli finna verulega fyrir því þegar auglýsingar um veraldleg lífsins gæði
heyrast og sjást mjög víða.
En aðventan er ekki bara
tími til að huga að sér og sínum.
Aðventan er líka tíminn þar sem við hugsum um þau sem ver er stödd í
lífinu. Þau sem hafa ekki nóg milli
handa. Þau sem eru veik. Þau sem eru ófrjáls af ýmsum ástæðum. Þau sem sjá ekki tilgang, þau sem sakna og
syrgja. Já, við erum stödd á misjöfnum
stað á lífsins vegi. Og einmitt núna
viljum við geta jafnað lífsins gæðum þannig að allir hafi nóg og sjái ljósið
sem við okkur blasir hvarvetna.
Öll þráum við hamingju og
öryggi. Barnið sem í vöggunni hvílir
treystir þeim sem annast það. Fullorðið
fólk þarfnast þess líka að geta treyst.
Traust er grundvöllur mannlegra samskipta. Á því hvílir okkar andlega hús.
Biblíutextar þessa fyrsta
sunnudags í aðventu eru fullir vonar.
„Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast
sem ég gaf Ísraelsmönnum og Júdamönnum“ segir í lexíu dagsins og er það í
samhljómi við kertaljósið sem minnir okkur á spádómana um fæðingu barnsins
hennar Maríu. Pistillinn minnir okkur á
að frelsarinn sjálfur stendur við dyrnar og knýr á. Okkar er að opna fyrir honum og hleypa honum
inn. Gamalt og nýtt mætast í guðspjalli
dagsins þegar Jesús les úr texta Jesaja spámanns úr Gamla-testamentinu og segir
að í dag hafi þessi orð ræst. Hann er
Guð með okkur. Hann er sá sem minnir
okkur á þau sem búa við erfið kjör. „Andi Drottins er yfir mér af því að hann
hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til
að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn,
láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“ Jesús kom inn í þennan heim til að gera líf
okkar betra. Hann veitir skjól þeim er
vilja þiggja enda elskar hann okkur að fyrra bragði.
Hann er fyrirmynd okkar
kristins fólks. Eins og hann elskar
okkur eigum við að sýna náunga okkar elsku.
Kristin kirkja um allan heim leitast við að hjálpa þeim sem hjálpar eru þurfi
og það gerir íslenska þjóðkirkjan einnig undir merki Hjálparstarfs
kirkjunnar. Árleg jólasöfnun
Hjálparstarfsins hefst í dag og stendur alla aðventuna. Í Margt smátt, jólablaði Hjálparstarfsins er
sagt frá verkefnum þess og við erum hvött til að hjálpast að heima og heiman.
Framkvæmdastjórinn hvetur
til þess að hafa mannúð að leiðarljósi. Í
blaðinu segir hann: „Efnahagslegar og
félagslegar afleiðingar kórónuveirufaraldursins, vopnuð átök víða um heim og
neiðkvæð áhrif loftslagsbreytinga hafa dýpkað gjána á milli fátækra og ríkra og
gert fleiri útsetta fyrir sárafátækt.“ „Í
yfirlitsskýrslu UNOCHA frá júlí 2022 kemur fram að sífellt fleiri jarðarbúar
þurfi á mannúðaraðstoð að halda. Á
aðeins sex mánuðum, eða frá því í desember 2021, hafði þeim fjölgað um 9,9
milljónir eða úr 296 milljónum í 305,9 milljónir manns.“
Þetta eru ískyggilegar
tölur og á bak við þær er lifandi fólk á öllum aldri. Bjarni framkvæmdastjóri segir jafnframt: „Það
er því ljóst að töluvert bakslag hefur orðið í viðleitni mannkyns til að útrýma
sárafátækt og líkur á því að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálbæra þróun
náist fyrir árið 2030 fara þverrandi.
Þörfin fyrir afgerandi aðgerðir sem auka á samhygð og sjálfbærni í
heiminum er því brýn sem aldrei fyrr.“
Það er verk að vinna víða
um heim. Hér á landi eru fréttir fluttar
af skorti á leikskólarýmum, löngum biðlistum í aðgerðir og greiningum barna hjá
sálfræðingum, skorti á hjúkrunarrýmum og því miður ekki nógu góðri umönnun þó
það heyri sem betur fer til undantekninga. Eitt tilvik er þó einu og
mikið. Ofbeldi er viðhaft sem aldrei fyrr og öryggi
almennra borgara er ekki tryggt. Það er
víða pottur brotinn í samfélagi okkar sem þarf að vinna bug á. Það er líka staðreynd að fátækt er hér á landi
og börn alast upp við fátækt.
Félagsráðgjafi
Hjálparstarfsins segir í áðurnefndu blaði:
„Tilfinning mín er sú að nú fyrir jólin fjölgi aftur og ég finn að það
gætir meiri örvæntingar hjá þeim sem sækja til okkar núna.“ Hækkandi húsaleigu, meiri eldsneytiskostnaði
og dýrari matarkörfu fylgja þungar áhyggjur hjá þeim sem minnst hafa handa á
milli.“ „Ef ég ætti að nefna þá hópa sem
standa allra verst þá eru það einstæðu konurnar sem eru búnar að vera á
örorkubótum til fjölda ára og svo eru það nýir Íslendingar, þessi stóri hópur
fólks á flótta. Það er leigan sem er
oftar en ekki meinið. Hún er ógnarhá og
étur upp það litla sem fólk þó fær.“
Í dag heyrðum við að það
er hægt að eiga betra líf og heilgrigðara samfélag. Við erum svo lánsöm hér á
landi að mega koma saman í Jesú nafni, lesa úr helgri bók og leyfa fleirum að
njóta en þeim sem hér sitja á kirkjubekkjunum í Hallgrímskirkju í Reykjavík.
Við erum frjáls af því að trúa og frjáls af því að sýna trú okkar í verki.
Í Noregi var gefin út
Biblía um fátækt og réttlæti. Hún er
ekkert frábrugðin þeirri Biblíu sem við lásum úr hér í dag nema að því leyti að
allt sem stendur í Biblíunni um fátækt og réttlæti er gulmerkt. Guðspjallstexti dagsins í dag er einn þeirra
texta.
Það er réttlætismál að
allir hafi í sig og á. Það er
réttlætismál að allir lifi mannsæmandi lífi.
Það er réttlætismál að öll börn alist upp við aðstæður sem búa þau undir
að lifa sjálfstæðu og heilbrigðu lífi.
Það er réttlætismál að öryrkjar og þau önnur sem ekki geta aflað tekna
sér til lífsviðurværis finni að þau eru hluti af þessu samfélagi og þurfi ekki
að hafa áhyggjur af lífsafkomu sinni.
Það er réttlætismál að fólk almennt hafi burði til að ráða lífi sínu í
anda gullnu reglunnar sem hvetur til ábyrgðar og samhyggðar.
Guðspjallstexti dagsins
segir okkur að Jesús kom í þennan heim til að ganga með okkur lífsins leið, frá
vöggu til eilífðar. Það er
gleðiboðskapur dagsins og aðventunnar.
Við skulum ekki
fyrirverða okkur fyrir fagnarerindið. Við
skulum leyfa börnum þessa lands að kynnast því.
Það er besta gjöf sem hægt er að gefa barni að kynna það fyrir þeirri
trú og siðum sem mótað hefur lífsskoðun fólks hér á landi um aldir. Getur verið að versnandi líðan barna hér á
landi stafi af því að þeirra andlega hús sé ekki byggt á traustum grunni. Láðst hefur að kynna fyrir þeim trúararfinn og
þau gildi sem hann færir okkur?
Andleg fátækt er ekki
síður erfið en veraldleg fátækt. Á aðventunni er kjörið tækifæri til að huga að
andlegum verðmætum ekki síður en veraldlegum.
Ný sálmabók
þjóðkirkjunnar hefur litið dagsins ljós.
Í henni er þessi ferðasálmur:
Ó, Drottinn, virstu að
mér gá.
Ó, Drottinn, leið mig til
og frá.
Hönd þín mig verndi hvar
ég fer
háskanum vísi burt frá
mér.
Ó, Drottinn, skildu ei
við mig.
Einkaförunaut kýs ég þig.
Ég bið þess að fólk geti
treyst þeim Guði er Jesús Kristur birti og boðaði. Þeim Guði sem sendi son sinn í heiminn til að
boða fátækum gleðilegan boðskap og leysa
þau sem í fjötrum eru og gera þau frjáls.
Það fylgir því léttir að treysta Guði fyrir áhyggjum og kvíða og finna
að Guð léttir af líkama og sál byrðum lífsins.
Við skulum leyfa okkur að
horfa fram til hinnar fullkomnu gleði sem jólin boða og muna að enginn getur
hjálpað öllum en allir geta hjálpað einhverjum.
Hjálparstarfi kirkjunnar þakka ég fyrir að standa fyrir jólasöfnun í ár
eins og fyrri ár. Megi sú söfnun ganga
vel og létta þeim lífið sem hennar njóta.
Dýrð sé Guði föður og
syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri
blessun:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.