Andi, sendiför, fyrirgefning

Andi, sendiför, fyrirgefning

Guðspjallstextinn dregur upp sorglegusta mynd af kirkju. Lítið, innilokað samfélag, hræddir menn bak við luktar dyr. Kvíðin kirkja, öryggislaus andspænis andsnúnum heimi og tíðaranda. Það er kirkja sem ekkert hefur fram að færa. Jú, eitt: Trúfesti, tryggð. Tryggð við meistara sinn, þótt hann væri sigraður.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
25. júní 2003
Flokkar

Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: Friður sé með yður! Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin. Þá sagði Jesús aftur við þá: Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður. Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað. Jóh. 20.19-23

KRISTUR, þú sem gekkst gegnum læstar dyr óttans, efans, sorgar og uppgjafar og sagðir: Friður! Kom nú, ótilkvaddur eins og fyrr gegnum járnbentan steinvegg vantrúarinnar, læstar dyr sálar minnar. Kom með friðarkveðju þína til mín inn, Drottinn minn og Guð minn. Amen

Guðspjallstextinn dregur upp sorglegusta mynd af kirkju. Lítið, innilokað samfélag, hræddir menn bak við luktar dyr. Kvíðin kirkja, öryggislaus andspænis andsnúnum heimi og tíðaranda. Það er kirkja sem ekkert hefur fram að færa. Jú, eitt: Trúfesti, tryggð. Tryggð við meistara sinn, þótt hann væri sigraður. Tryggð við boðskap hans, þótt hann hefði verið ofurliði borinn. Tryggð við hvern annan, þótt þeir hefðu flestir eða allir brugðist, svikið, flúið af hólmi. Vegna þeirrar tryggðar voru þeir saman komnir bak við luktar dyr og byrgða glugga, hræddir menn og sigraðir. En þegar þessi hópur var þarna saman kominn, kom Kristur til þeirra, gegnum læstar dyr og stóð mitt á meðal þeirra. Og þetta er kirkjan. Af eigin kröftum, í eigin mætti megnum við ekkert, hrædd, innilokuð, í me og vantrú og efa.

Gegnum luktar dyr kemur Kristur með friðinn sinn og náð. Gegnum vantrú okkar kemur andinn helgi með trú sem gerir heilan. Kirkjan er gjöf, náðargjöf. Kirkjan er náð. Sakramenti náðarinnar.

Trúverðugleiki kirkjunnar í samtíðinni, og sýnileiki hennar í samfélaginu, er undir því komið að hún sé þar sem Kristur sjálfur, samkvæmt Nýja testamentinu, heitir því að vera, í samneyti guðsþjónustunnar – “Þar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.”- og í heiminum sem virðist laus við allt guðdómlegt og heilagt, guði firrt, frásnúið: “það sem þér gjörðuð einum þessara minna minstu….það gjörðuð þér mér.”

Inn í aflæst tómið, efann og vantrúna kom Kristur forðum. “Friður sé með yður!” sagði hann. Hann sagði ekki með þjósti: “Hvar voruð þið þegar ég engdist í Grasgarðinum? Hvar voruð þið þegar hermennirnir komu? Hvar voruð þið þegar ég var húðstrýktur, hæddur og hræktur? Hvar var ykkar rödd þegar múgurinn hrópaði í hatri og ofsa? Hvar voruð þið þegar ég hrópaði í þorsta, einsemd og kvöl?” Nei, hann segir ekkert af þessu. Hann segir: “Friður sé með yður”. Og svo sýnir hann þeim sárin sín. Og svo endurtekur hann þessi orð: “Friður sé með yður! Eins og faðirinn sendi mig, eins sendi ég yður!” Og andar á þá, “meðtakið heilagan anda.”

Þetta er kirkjan, í sinni sönnustu mynd. Andi, sendiför, fyrirgefning. Hins krossfesta og upprisna. Send til að blessa, fyrirgefa. Við erum kirkja, vegna þess að hann hefur komið til okkar, jafnvel til okkar eins og við erum, og gefið okkur gjafir anda síns, sent okkur til að fullna sendiför sína, blessun og fyrirgefningu, felur okkur að færa það heiminum öllum.

Kristnum manni sem þekkir 20. Kafla Jóhannesar leyfist ekki að örvænta um sjálfan sig og kirkjuna. Sá Guð sem reisti Jesú Krist frá dauðum getur og vill gera hið sama við okkur. Köllun og þjónusta prestsins er vitnisburður um sannleikann, að Kristur Jesús kom til þeirra sem brugðust, sviku, flýðu af hólmi. Gegnum læstar dyr og fyrirvara og varnarhætti, ótta og vantrú. Og fyrirgaf þeim, andaði á þá, sendi þá til að vinna verk sitt í heiminum. Og kirkjan er samfélag, samneyti syndara, sem hann býður til borðs með sér og sendir út. Einmitt þá. Ekki engla og tignir og máttarvöld, heldur syndara. Mig og þig.

Verk hans er endurlausn, sáttargjörð, friðþæging, endurheimt glataðs mannkyns og endurreisn og endursköpun lýðs síns, Ísraels. Og verkfæri hans er við. Þú. Ég. Heilög kirkja.

Nú á eftir munum við krjúpa hér við altari Sauðárkrókskirkju, og meðtaka líkam Krists og blóð, pant návistar og náðar hins krossfesta og uirprisna. Það sem í Jóns sögu helga er nefnt “götunesti, það er Guðs líkami, er kallast englabrauð ok vegfarandi manna fæða.” Það er fallega sagt. “götunesti, englabrauð, vegfarandi manna fæða.” Brauðið og vínið er að okkur rétt, sármerkin hans á höndum og síðu. Ilmur að vitum. Bragð á tungu, orð að eyrum og hjarta: “Fyrir þig gefið, til fyrirgefningar syndanna.”Brauðið sem ofan steig af himni og heiminum gefur líf. Og í þessu er hann að anda á þig: “Meðtakið heilagan anda. Eins og faðirinn sendi mig, eins sendi ég yður.” Þú krýpur við hlið bróður eða systur, nákomins, vinar, kunningja, eða ókunnrar manneskju. Í bandi fyrirgefningar og sáttargjörðar. Við hlið ykkar eru þau sem á undan fóru, þau sem hrædd og hnípin sátu bak við luktar dyr loftsalarins, þau sem forðum fengu hlutverkið sem við höfum tekið við til að bera áfram. Þau með ótta sinn og efasemdir, trú og von. Þú með þitt. Ég með mitt. Þau í gleðinni yfir því að sjá Drottinn. Þú…..? Ég….? Og sársauka þinn og minn, brigð og bresti, ótta, sorg og dauða, allt það tekur hann á sig. Það segja og sármerkin hans. Og krossinn er signir þig er þú stendur frá borði til að ganga fram og út í sendiförina hans.

Biðjandi, boðandi, þjónandi kirkja. Það erum við. Það er iðkun kirkjunnar og sérmerki: Að blessa, fyrirgefa og vitna um Jesú Krist, að hann verði sýnilegur í samtíðinni.

Fyrirgefningin er að reisa við hið brotna og særða og leysa hlekki sektarinnar. Hún er kveðja frá Guði sem elskar og vægir. Blessunin er að styrkja þetta brothætta líf og samfélag. Hún er kveðja frá Paradís, að greidd er leið til lífsins.

Að vera sendur í þessa för er mikil byrði, en umfram allt er það mikil blessun og náð. Já, þvílík náð, þvílík blessun að vita líf sitt ofið inn í samhljóm þeirrar undursamlegu doxologíu sem kallast kristin kirkja, sönginn sem sunginn er af heilögum allra alda og kynslóða, englum og höfuðenglum, tignum og máttarvöldum óaflátanlega segjandi: “Heilagur, heilagur, heilagur ……Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins!”

Í gamalli keltneskri bæn er þessa farablessun að finna:

Höldum nú af stað Í gæsku vors miskunnsama Föður Í mildi bróður vors Jesú Í ljósi heilags anda Í trú postulanna Í fagnaðarsöng englanna Í helgun dýrlinganna Í hugrekki píslarvottanna

Höldum af stað Í visku vors altsjáandi föður Í þolgæði vors alltelskandi bróður Í sannleika hins alltvitandi anda Í kenning postulanna Í góðviljaðri leiðsögn englanna Í þolinmæði dýrlinganna Í sjálfsögun píslarvottanna.

Þannig er vegur allra þjóna Krists Vegurinn frá dauða til eilífs lífs.

Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Þessi prédikun var flutt við Synodusslit í Sauðárkrókskirkju, 25. júní 2003.