Mér hefur alltaf þótt merkilegt hvað Pétur er mannlegur og skjótur og stundum fljótfær. Skjótráður; var stundum sagt. Hann er svo líkur okkur mörgum. Hann er í einna mestu uppáhaldi af heilögum mönnum í mínu lífi svo ég stimpla mig dálítið sem Péturs-mann. Það passar ekki alveg að segja pétrískur en það er samt í gegnum tíðina þannig að fólki hefur fundist það vera Pétrar. Við samsömum okkur honum af því við erum Pétrar eða Pétrur, svo ég haldi áfram að búa til orð. Ég ætla ekki að gera þetta að merkimiðum því mér finnst þetta frekar vera samsömun okkar við persónur sem okkur finnst að geti skilið okkur og okkur finnst við skilja.
Í reynd þurfum við aðeins að skilja að Kristur er upphaf og endir alls sem sagt er og gert, fyrirmynd allra, Alfa og Ómega lífheimsins. Hann skilur allt og í sjálfu sér er gagnlegt að meðtaka það, yfirfæra það á okkur. En hérna opnast eitthvað nýtt í tilveru þeirra sem trúa. Á fjalli ummyndunarinnar opnast ómælanlegar víddir til leiðsagnar í lífi allra jarðarbúa. Við stöndum öll frammi fyrir því sama.
Ummyndun er það kallað þegar eitthvað eða einhver breytist í annað fyrir augum okkar. Það er ekki óalgengt í fantasíum og ævintýrum og oft er það þannig að við furðum okkur á að aðrar persónur í sögunum virðast ekki átta sig á því. Sjáið Rauðhettu og Úlfinn, eða öllu heldur úlfinn sem reyndi að umbreyta sér í ömmu Rauðhettu. Á okkar dögum er enginn vandi að útbúa hvaða andlit á hvern sem er og láta hann segja eitthvað á skjánum þótt hann sé löngu genginn. Gervigreindinni eru engin mörk sett ennþá og því fyrr sem við áttum okkur á því aukast líkurnar á því að við munum ráða við það sem framtíðin ber í skauti. Eða ætti ég að segja í skaupi. Það var jú þar sem Hemmi Gunn kom fram núna um áramótin síðast og sagði nokkur af sínum fleygu orðum. Í framtíðinni verður hægt að eiga samræður við fólk sem hefur skilið eftir sig nógu mikið af viðtölum og efni um sig sjálft og lífsviðhorf sitt og skoðanir og hugsun að það verður hægt að setjast niður með honum eða henni um nokkra eilífð og taka þar tal saman um lífið og tilveruna. Hefur þetta t.d. verið sagt um söngvarann Bruce Springsteen því nú þegar er nægilega mikið efni fyrirliggjandi um hann og eftir hann og um hugsanir hans. Nóg til þess að hægt verður að ræða við gervigreindina hans um allt milli himins og jarðar. Þarna þarf hugarheimur mannsins að stækka því ekki er eðlilegt siðferðilega séð að þessi tækni geti jafnvel lagt fólki í munn orð og setningar sem það myndi annars aldrei hafa viljað segja. Í máli Hemma Gunn í áramótaskaupinu voru það þó bara hans eigin orð sem allir þekktu. Vil ég láta mig segja eitthvað í sjónvarpi í framtíðinni sem stangast á við siðfræði mína og trú eða lífsskoðun mína núna og hafa það á vefnum um nokkra eilífð, eitthvað sem ég hef aldrei getað hugsað mér að segja meðan ég lifi? „Over my dead body“ gæti fengið nýja merkingu sem við höfum enn ekki getað ímyndað okkur. En takmarkanir gervigreindar geta verið verri. Sagt er að hún geti ekki verið mötuð nema á því sem þegar er til. Í því liggur hættan að ójafnrétti, fordómar og afdönkuð sjónarmið eru í sarpi hennar en ekki frumleg ný hugsun sem horfir til betri framtíðar.
Samt höldum við áfram að fæða þróun í átt til gervigreindar með aukinni tækni sem eykst að þekkingu á margföldum hraða við flest annað sem er að gjörbreyta tilveru mannsins. Ógnarhlýnun jarðar og hættuleg súrnun sjávar er á hraða snigilsins miðað við stigmögnun rafrænnar tækni. Enginn vandi verður núna fyrir úlfinn að koma fram sem amma Rauðhettu og við munum aldrei getað sagt til um það hvar flagð er undir fögru skinni eða úlfur í sauðagæru ef við höfum ekki verið að fylgjast með því sem er að umbylta tilverunni og gera að engu skil milli raunveruleikans og hliðarveruleikans í rafrænu formi, hvort sem það eru leikir eða annað. En von okkar er sú að með þessari miklu tækni verði hægt að vinna tilveru okkar gagn í baráttunni við loftslagsógnina og ójöfnuð og landflótta. Og hafið ekki áhyggjur þótt ég tali um ógnir því við erum öll alin upp við sögur og ævintýri þar sem oftar en ekki er norn eða ógn eða hætta. Nornin er bara alltaf að fá ný nöfn. Og það á líka við um hið ljósa man og allt annað gott fólk sem byggir heiminn með okkur. Í flestum sögum sigrar kærleikurinn, stundum eftir baráttu en alltaf á endanum. Það er vonin. Þar lúrir guðfræði vonarinnar og reynist vel ef hún fær að heyrast.
En aftur að ummynduninni á fjallinu í Galíleu sem er hér að gerast fyrir augum Péturs og bræðranna Jakobs og Jóhannesar Sebedeusarsona. Jesús treystir þeim alveg sérstaklega vel og þeir teljast í innsta hring lærisveinanna. Síðan þá hefur Jesús tekið okkur inní þennan hring þeirra sem hann treystir allra best. Jesús velur að treysta fólki og hann hefur treyst okkur til að taka við þessum boðskap og treyst okkur til að lifa eftir því sem hann lagði fyrir okkur. Og hér er leyndarmál í trúarhefðinni okkar. Jesús er allt í einu á tali við Móse og Elía í senn og fyrir augum þeirra þriggja. Þrír tala saman fyrir framan þrjá. Var ekki sagt í ljóði Stuðmanna, „Lag, ljóð“: „Eitt orð, tungumál. Tvö orð, þrætumál. Þrjú orð, leyndarmál.“ Meistarinn biður þá að hafa þetta sem leyndarmál þangað til Mannssonurinn væri upp risinn. Og þarna segir hann þeim allt. Líka að hann muni rísa upp frá dauðum. Ekki sáu þeir aðeins að hann gat verið á tali við löngu látna menn, okkar mestu spámenn, heldur ræður hann líka hver segir hvað í framtíðinni eftir að hann er dáinn og eftir upprisu hans frá dauðum. Eftir það lifir hann að eilífu með okkur og lifir enn í samfélaginu.
Það er mikil ummyndun að móta uppá nýtt skilin milli þess liðna og þess ókomna og vera fær um að birta það svona augljóslega með þeim sem eru á tali með okkur.
Við þurfum líklega mest á því að halda í framtíðinni og líka í samtíðinni okkar, að næra ímyndunaraflið í okkur sjálfum. Bara það eitt getur sagt okkur hvað það er sem skiptir mestu máli en ímyndunaraflið þarf að fá að njóta sín enn betur. Við þurfum að geta ímyndað okkur hvað tilvera okkar getur orðið góð. Séð það fyrir hugskotssjónum okkar, okkar innri augum, hvað vonin á eftir að bjarga okkur oft og laga tilveru manneskjunnar sem heild. Við þurfum að ná að yfirfæra þessa sýn á fjallinu yfir á okkar fjall eða fjöll og láta það berast yfir í okkar dali og yfir í okkur sjálf. Yfirfæra allt það góða sem okkur hefur verið gefið í trausti Drottins.
Við þurfum að yfirfæra þessa sýn og von og trú og kærleika yfir á aðstæður sem eru ekki hagfelldar í dag. Þessa von þarf að yfirfæra á aðstæður fólksins í Grindavík, íbúa Grindavíkur og alla lífshætti og gróandi atvinnulíf og menningu sem þar hefur þrifist um aldir. Jesús umbreytir tilveru okkar og því er það hans afl og trú á hann sem getur fært okkur hugrekki til að mæta ógnum og óvissu. Þar er óvissan líklega verst. En trú og traust á Frelsara okkar best. Þetta tvennt mætist og það mun ráða mestu um tilveruna hvernig við sem erum þarna mitt á millli óvissu lífsins og fullvissu trúarinnar bregðumst við. Á fjallinu brást Pétur við, jafn skjótráður alltaf, og vildi reisa tjaldbúðir. En það stóð ekki til að setjast þarna að á fjallinu í Galíleu í Palestínu. Boðskapurinn er um það eitt að halda áfram. Guð gefi að atburðirnir í Grindavík fari nú að hætta að stækka og jörðin róist, kvikan setjist og þó umfram allt að fólkið geti fundið rósemi í hjarta sínu með meiri vissu og vonandi líka á endanum fullvissu um framtíð sína. Enginn veit núna á þessari stundu hver sviðsmyndin verður í náttúrunni en við eigum öll að geta vitað eitthvað um það hvernig við viljum móta framtíð okkar, hvernig við viljum ganga fram í nafni Drottins í þessu lífi og biðja hann að rétta hlut okkar og gera alla hluti betri, alla okkar daga betri í voninni sem hann gaf. Það hygg ég að hafi verið bænin í Keflavíkurkirkju og í Hafnarfjarðarkirkju á mánudaginn þegar nokkur hundruð manns komu saman, ræddu saman, stundu saman og táruðust kannski líka saman en báðu líka saman um styrk og von og enn meiri kærleika og frið, skjól gegn ógnarkraftinum og frelsun frá ótta og óvissu. Af guðspjalli dagsins er ljóst að þetta er sterkasta stefið og stærsta skrefið að stíga. Lausnin er að eyða óvissu svo við getum í auknum mæli hallað okkur að fullvissu trúar og trausti til að byggja heimili okkar, byggja upp líf samfélagsins og treysta tilveruna alla.
Inní þetta segir sagan af Móses að Guð hafi talað til hans úr logandi runnanum miðjum. Logandi runni er nokkuð sem við getum vel séð fyrir okkur þegar við höfum séð lyngið á gamla hrauninu brenna undan logandi flæði úr gígaröðinni við Sundhnjúka. En þar segir Guð einmitt það sem við þurfum að heyra einmitt núna. Hann segir um sjálfan sig: „Ég er“. Hann er hér þegar við sjáum jörðina loga. Og hann segir við Móse að hann skuli segja það öðrum að Guð er með þeim á þeirri vegferð sem þau þurfa að leggja útá. Og þá átti Móse að segja við fólkið „Ég er“ sagði mér þetta! Og núna segjum við hvert öðru að „Ég er“, það er nafnið á Guði, sagði okkur að við munum finna vissu og annað og betra líf ef við treystum honum. Og treystum okkur til sð
Lifum ekki í vondri trú eða fúinni trú. Máttarstólparnir í samfélagi okkar eru vonandi ekki fauskir og vonandi ekki bara búið að hvítmála yfir lélega innviði. Vonandi er trú okkar heil og allt heilt og gott inn að innstu stoðum tilverunnar. Vond tíðindi reyna einmitt á þetta, hvort við erum heil og sönn og samfélagið heilt og satt. Og ef við segjum það sem satt er og gott þá er það fagnaðarboð sem Guð flytur, sá sem heitir „Ég er“. Það er þess vegna sem það kallast fagnaðarerindi. Það er til fagnaðar og friðar og fullvissu trúarinnar á þann Guð sem var og verður og er einmitt núna líka. Hann heitir „Ég er“ af því að hann er alltaf. Þetta er ummyndun trúarinnar á okkar dögum, ummyndun frá ógn til vonarríkra tíma. Lifum samkvæmt því og lifum saman í þessari trú og eflumst til þess að fá að vera áfram í innsta hring með Drottni sem sannarlega er upprisinn og sannarlega er hér með okkur.