Og er Jesús hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum, því að vindur var á móti.En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bilt við. Þeir sögðu: Þetta er vofa, og æptu af hræðslu. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir. Pétur svaraði honum: Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu. Jesús svaraði: Kom þú! Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: Herra, bjarga þú mér! Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: Þú trúlitli, hví efaðist þú? Þeir stigu í bátinn, og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru, tilbáðu hann og sögðu: Sannarlega ert þú sonur Guðs.(Mt.14.23-33)
Nýtt skip er komið til heimahafnar. Það er hátíð og falleg tímamót þegar við tökum á móti nýju skipi, ekki aðeins fyrir okkur hér á Vopnafirði, heldur einnig fyrir útgerðina í landinu og Ísland allt. Til hamingju með nýja skipið og ég óska HB Granda, stjórn fyrirtækisins og öllu starfsfólkinu og okkur Vopnfirðingum hjartanlega til hamingju með þetta nýja og glæsilega skip. Við vonum innilega að þetta skip og útgerðin og allur rekstur verði til farsældar.
Það hefur margt breyst frá því fyrr á öldum þegar bændur og búalið fóru í verið á veturna til að sækja björg í bú á opnum bátum. Þá var siður að áður en ýtt var úr vör lutu menn höfði og fóru saman með sjóferðarbæn, fólu ferð sína í hendur algóðum Guði að hann væri með í för. Svo tóku við stórstígar breytingar og á fáum áratugum stækkuðu bátarnir, vélvæðingin hófst, skip og togarar bættust við. Reynsla kynslóðanna af nánu sambýli við hafið og náttúruna, sem þekkti vindinn, skýjafar og fiskgengd hafði svo mikið að segja um að framfarir tókust svo vel og hafa einkennst af vexti og velgengni.
Ég heyrði eitt sinn sjómann rifja upp byltinguna þegar skuttogararnir komu fyrst til landsins á áttunda áratug siðustu aldar og var þeim stærstu líkt við sjóborgir og sjómaðurinn sagði frá því þegar ræst var á vaktina að þá var gjarnan spurt: „Hvernig er veðrið?“
Þetta nýja skip er sannköllu sjóborg – eins og borg á sjónum, svo traust og mikið skip. En það er alveg sama hvað borgirnar eru rammgerðar með mannsins höndum alltaf þarf að sýna náttúrunni virðingu. Virðingin er einmitt samofin í samfélagi sjómannanna með trúnni á almáttugan Guð. Skilin hér um borð eru svo þunn, aðeins eitt þil á milli hafs og manns. Þó við séum svo vel varin og skynjum ekki veður eða storma, þá er afkoma okkar en svo háð veðrum og árstíðum og sveiflum í náttúrunni.
Við erum fiskveiðiþjóð, það er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og á útgerð og fiskvinnslu hvílir afkoma okkar og velferð. Það þekkjum við svo vel hér á Vopnafirði, þar sem ný skip og bátar hafa verið eins og vörður og leiðarsteinar í sögu byggðar og útgerðar, uppbyggingu atvinnu og nýtingu auðlindarinnar.
Hér í dag eru tímamót og við tökum með stollti á móti Venusi í Vopnafjarðarhöfn. Stórt og glæsilegt skip og mikil lyftistöng fyrir byggðarlagið okkar og vitnar um reisn og myndarbrag. Um það vitnar einnig uppbyggingin í sjávarútvegi sem átt hefur sér stað á Vopnafirði á síðustu árum og má sjá víða merki um hér á hafnarsvæðinu. Framkvæmdir sem skilað hafa sér í aukinni afkastagetu og verðmætum.
Þetta er að þakka gjöfulum fiskimiðum, hreinni og ómengaðri náttúru, öflugu útgerðarfyrirtæki og síðast en ekki síst traustu starfsfólki og áhöfnum skipanna sem leggja svo mikið að mörkum. Á hátíðarstundu þökkum við það allt. Hér er samfélagið okkar í forgrunni, sem byggir á sátt og virðingu og þar sem við í sameingu leggjum okkur fram um að byggja upp fagurt mannlíf og þar er atvinnulífið kjölfesta.
Í ritningarlestrinum sem lesin var er sagt frá því að það gaf á bátinn og lærisveinar Jesú urðu hræddir, en Jesús kom til þeirra gangandi á vatni og sagði: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“ Það skiptir máli að hafa góða áhöfn. Íslenskir sjómenn hafa um aldir vitnað um dáð og dug, sem grundvallað er á trausti. Þá gildir að vinna saman um borð eins og einn maður og að í landi sé vel að öllu búið þar sem stjórnað er með hagsmuni að leiðarljósi sem rækta fagurt mannlíf. Þá reynir á að vera hughraustir af kappi með forsjá. Þetta nýja skip Venus er vitnisburður um það og sókn til framfara.
Það gefur oft á bátinn í íslenskum sjávaútvegi þrátt fyrir tækni og framfarir. Trúin sem hefur Jesú Krist að leiðarljósi kallar því enn til ábyrgðar og hughreystis og er hornsteinn að velferðinni í samfélaginu í blíðu og stríðu. Þar blómgast traustið. Jesús sagði: Verið hughraust, ég er hjá þér. Megi þetta skip Venus og áhöfnin öll vera umvafin þessum heilögu orðum: Verið hughraust, ég er hjá þér.
Í Jesú nafni amen.