[audio:http://db.tt/CnChm7sp] Alls gengu 874 úr þjóðkirkjunni á þremur síðustu mánuðum, frá 1. október til og með 31. desember 2011. Þetta voru fréttirnar sem ég las á vef Morgunblaðsins. Og þessar úrsagnirnar minna á, að hagur þjóðkirkjusafnaðanna versnar. Segja þarf upp fólki, fresta þarf viðhaldi og skerða kirkjustarfið. En í kreppum eru alltaf tækifæri. Um kirkjulífið, þjóðfélagið og lífsafstöðu og möguleika segir guðspjall dagsins ýmislegt! Það lýsir hvernig má bregðast við vanda og það boðar lífsstefnu.
Og hvernig er þá guðspjallið? Áðan las ég þennan texta, sem segir frá giftingarveislu, sem var um það bil að klúðrast. Í sögunni segir frá víngerðarmanninum Jesú. Sagan fjallar ekkert um hvort Jesús notaði rauðvínsgeril eða hvítvínsgeril eða þrúgugerðina. Sagan er ekki heldur um, að skyndilega hafi komið fram öflugur sjónhverfingamaður, sem var svo snjall að hann gat galdrað margfalt, gert fólki mikinn greiða og samtímis glatt fjölda manns með sama trikkinu.
Sagan er táknsaga og þjónar ákveðnu guðfræðilegu hlutverki í Jóhannesaguðspjalli. Gjörningur Jesú var við upphaf starfsferils hans. Jesús Kristur var ekki í þorpinu Kana í opinberum erindum, til að prédika eða sinna einhverjum spámannlegum aðgerðum, heldur í prívatferð með fjölskyldu sinni og vinum. Og þá er komið að klípu sögunnar. Hvað gerist í veislu þegar veitingar klárast? Í veislu veitir maður og þegar þegar allt er búið í miðju samkvæmi verður skandall. Allir sómakærir gestgjafar reyna að fyrirbyggja veitingaþurrð. María varð þess áskynja að eitthvað mikið var að og vildi hjálpa. Var tilraun Maríu meðvirkni? Jesús vildi fá að vita hvað þetta kæmi henni við. María vissi, að Jesús heyrði hvað hún sagði og hún hefur sjálfsagt ekki verið mikið í að nauða í honum.
Þjónarnir fylltu mikil steinker sem voru engir smábrúsar, heldur tók hvert kerald um hundrað lítra og þau voru ekki bara tvö eða þrjú heldur sex talsins. Engin veit um fjölda veislugesta, né hvað menn voru búnir að drekka mikið áður en allt kláraðist. En ég á erfitt með að ímynda mér, að hin veisluglöðu hafi verið búin að svolgra meira en hálft tonn af áfengi! En nú voru stórkerin fyllt á barma og það varð sem bjargaði. Því, sem virtist stefnt í óefni, varð ekki aðeins reddað, heldur varð allt betra en það sem fyrir var. Klúðri var forðað.
Drykkjuprédikun? Meira vín - betra vín. Hvað þýðir svona texti? Er það ekki meiri gleði og meira fjör? Getum við lært eitthvað af þessari frásögn? Er Jesús í Kanasögunni meðvirkur barþjónn? Nei, málið er dýpra en svo yfirborðsleg túlkun. Það er ekki kristin kenning, að vín sé vont eða illt, heldur fremur misnotkunin. Jesús var enginn bindindisfrömuður, heldur var hann uppnefndur vínsvelgur. Hann var gleðimaður en þó ekki óhófsmaður. Vínnotkun er ekki aðalmál textans.
Hið mikla og yfirdrifna Í guðspjallinu er ekki um neinar smáreddingar að ræða, ekki hlaupið í næstu hús til að sníkja dreitil hér og lögg þar - eða hringt í “góða bíla.” Nei mörg risaker bíða fyllingar. Þetta finnst mér einna kímilegast í textanum. Lausn Jesú er ekki hæfileg, heldur yfirdrifin og ofboðsleg. Og þannig eru jafnan áherslur Jesúfrásagnanna Nýja testamentisins. Jesús er ekki smáskammtalæknir, heldur umbyltir öllu, skilningi, kjörum og lífi fólks. Söguna frá Kana á ekki að skilja yfirborðslega heldur inntakslega. Erindi hennar er, að Jesús gengur erinda hins yfirfljótanlega Guðs. Gríski vínguðinn Dionysus - Bakkus - gat breytt vatni í vín og Jóhannes guðspjallamaður talar inn í hið helleníska menningarumhverfi. En Jesús er þó meiri en vín- og gleðiguðinn. Þegar Jesús bruggar býr hann til allt of mikið. Og gæðin eru umfram allt annað, sem menn gátu búist við. Jesús átti sem sé erindi við guðaheim Grikkja og raunar alls mannkyns. Skilaboðin eru, að vínþurrð er tákn um guðskerta mennsku en víngjöfin í textanum vísar til anda Guðs, sköpunar Guðs, lausnar Guðs, komu Guðs.
Erum við í boðinu í Kana? Þessi veislumál og víngerð – koma þau okkur við? Ólánsveislan í Kana er dæmi og táknsaga um líf manna sem klúðrast. Þegar skandallinn verður eru menn í vondum málum. Og það varðar okkur öll. Konsert Háskólakórsins getur misheppnast eða heimilislíf okkar farið í hundana. Heilsan bilar. Áföll verða í nærsamfélagi okkar eða heilt bankakerfi hrynur. Hvað gerir þú þegar áföll verða? Þú getur reynt að lifa af hryllinginn, sjúkdómana, harminn, hrunið. En er eitthvað meira, er einhver von?
Hann kemur og umbreytir Sagan um Kana er um tengsl við Guð eða tengslaskort. Hver er með þér þegar þú liggur? Þorir þú að tengja þig við hið stóra? Þorir þú að opna megingluggana inn í veraldir Guðs? Sagan fjallar um viðsnúning. Þitt er frelsið, þú mátt velja leið. Og tákn þess vals eru tóm ker eða full. Líf manna verður veisla þegar Guð er boðinn. Vatn er nauðsyn lífsins og vatn er í skírnarskál og víni. Guð gefur það, sem við þurfum til nauðþurfta en miklu meira líka, veislur og fjör, tíma og eilífð. Vatn er gott en hin trúarlega vídd gefur því túlkun og merkingu. Ekkert áfall er svo stórt, að Guð geti ekki hjálpað. Engin sorg er svo djúp, að ljós hans nái ekki að lýsa afgrunn myrkursins. Engin náttúrvá er svo megn, að Guð sé ekki nálægur með hönd og huggun. Engin siðógn eða trúarglíma er svo slæm, að vínþurrð verði í Guðsríki! Engin átök menningarheima eru án vonar um, að kraftaverkið verði. Engin kreppa í samskiptum trúarbragða er svo slæm, að hinn mikli víngerðarmaður eigi ekki nóga andagift til að halda samkvæminu á floti!
Gnótt guðsríkisins Jóhannes vill, að við gerum okkur grein fyrir að þegar allt er í volli erum við ekki yfirgefin. Hann eiginlega skvettir yfir okkur úr kerjunum. Áföll eru eitt en svo er líka Guð. Guð er og kemur. Hvað ætlum við að gera við lífsbrotin? Í krafti hvers lifum við? Í lífinu bjóðast yfirfljótandi gæði og möguleikar. Þegar bara dreggjar og dropar virðast eftir eru allt í einu í boði 600 lítrar gnægðar og hamingju. Þegar tæmdir eru allir skynsamlegir möguleikar, aðstæður eru hörmulegar, þú dottin(n) í gímald einsemdar, depurðar og áfalls, þá er samt möguleiki og viðsnúningur. Það er kallað upprisa á máli kristninnar og merkir að við búum í ríki Guðs og þar með möguleika þrátt fyrir að við séum í þessum heimi.
Og kirkja Krists er í sömu stöðu. 874 er merkilega tala og minnir á upphaf Íslandsbyggðar. 874 fóru úr þjóðkirkjunni á þremur mánuðum! Nýrrar sögu þjóðkirkjunnar er þörf. Kirkjur Íslendinga eru flottar, margar gríðarleg steinkeröld. Þeim er þörf anda, hins guðlega anda. Af sjálfri sér og brjóstviti sínu er kirkjustofnun ekkert annað en smáveisla, sem þarf kraftaverk til að umbreyta í veislu himinsins. Áföll eru hluti lífs þíns, í námi, vinnu, heimilislífi, kórstarfi, lífi samfélags og kirkjustofnana einnig. En í boði er meira vín og meira fjör. Lífsveislan verður ekki flott eða góð nema honum sé boðið, sem blessar stóru kerin í Kana. Þú og samfélag, 874 líka - sem og íslenska þjóðkirkjan þarf svoleiðis veislu. Veisluklúðrið er ljóst en þiggjum við Guðsgjafirnar? Okkar er valið. Minna vín – minna fjör. Meira vín – undur Guðs.
Amen.
Prédikun í Neskirkju 15. janúar 2012, 2. sd. eftir þrettánda. Háskólakórinn söng við messuna.
Lexía: 2Mós 33.17-23 Drottinn svaraði Móse: „Einnig þetta, sem þú sagðir, mun ég gera því að þú hefur fundið náð fyrir augum mínum og ég þekki þig með nafni.“ Þá sagði Móse: „Sýndu mér dýrð þína.“ Drottinn svaraði: „Ég mun sjálfur láta allan ljóma minn líða fram hjá þér og ég mun hrópa nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Ég vil líkna þeim sem ég vil líkna og miskunna þeim sem ég vil miskunna.“ Enn fremur sagði hann: „Þú getur ekki séð auglit mitt því að enginn maður fær séð mig og haldið lífi.“ Síðan sagði Drottinn: „Þarna er staður, stattu uppi á klettinum. Þegar dýrð mín fer fram hjá læt ég þig standa í klettaskorunni og hyl þig með lófa mínum þar til ég er farinn fram hjá. Þegar ég tek lófa minn frá muntu sjá aftan á mig. Enginn fær séð auglit mitt.“
Pistill: Róm 12.6-15 Við eigum margvíslegar náðargáfur samkvæmt þeirri náð sem Guð hefur gefið. Sé það spádómsgáfa þá notum hana í samræmi við trúna, sé það þjónustustarf skal gegna því, sé það kennsla skal sinna henni, sá sem hvetja skal geri það, sá sem gefur sé örlátur. Sá sem veitir forstöðu sé kostgæfinn og sá sem vinnur miskunnarverk geri það með gleði. Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra. Leggið stund á gestrisni. Blessið þá er ofsækja ykkur. Blessið en bölvið ekki. Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.
Guðspjall: Jóh 2.1-11 Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: „Þeir hafa ekki vín.“ Jesús svarar: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“ Móðir hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera.“ Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gerðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki hvaðan það var en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“ Þetta fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína og lærisveinar hans trúðu á hann.