Guðspjall: Markús 8: 27-38
Um þessar mundir sýnir Breska
sjónvarpið (BBC) feikilega vinsælan þátt sem ber heitið „Hver heldurðu að þú
sért?“ (Who do you think you are?). Þessi þáttur dregur milljónir áhorfenda að
skjánum í viku hverri. Í þáttunum er það fræga fólkið í Bretlandi sem leitar
uppruna síns, eins og popparinn Boy George, rithöfundurinn JK Rowling eða
leikarinn Patrick Stewart. Þátturinn gengur út á það að þátttakendur láta rekja
ættir sínar aftur í aldir. Ýmislegt óvænt kemur í ljós eins og löngu gleymd
leyndarmál. Þátturinn hefur notið það mikilla vinsælda að sjónvarpsstöðvar í
Kanada, Bandaríkjunum, Póllandi, Portúgal og Ástralíu hafa fengið að nota
hugmyndina í sínum löndum. Á Íslandi yrðu þessir þættir síður en svo spennandi,
vegna þess að hér er svo auðvelt að rekja ættir sínar. Sérhver Íslendingur
getur farið inn á Íslendingabók til þess að fá þessar upplýsingar. Svo er sagt
að allir Íslendingar séu hvort sem er afkomendur Jóns biskups Arasonar sem var
uppi á 16. öld, og konu hans Helgu Sigurðardóttur.
Spurningin„Hver heldurðu að þú
sért?“ er ekki ósvipuð spurningunni í guðspjalli dagsins. Jesús spyr lærisveina
sína:„Hvern segja menn mig vera? Þeir svöruðu honum: Jóhannes skírara, aðrir
Elía og aðrir einn af spámönnunum.“ Jesús endurtekur spurninguna og spyr
lærisveinana:„En þið, hvern segið þið mig vera?“ Pétur réttir fyrstur upp hönd
eins og áhugasamt barn í skólastofu, sem þykist vita svarið og segir fullur
sjálfstrausts:„Þú ert Kristur.“
En síðan snýst atburðarásin í óvænta
átt. Jesús kennir að Kristur (Messías) eigi margt að líða. Öldungarnir, æðstu
prestarnir og fræðimennirnir munu útskúfa honum. Menn munu lífláta hann og hann
muni upp rísa eftir þrjá daga. Þetta var aðeins of mikið fyrir Pétur. Það gæti
ekki verið satt að Messías, Kristur sjálfur, myndi þjást og deyja. Þetta var
eitthvað sem fólk átti ekki von á. Í huga Péturs var Messías sá sem kæmist hjá
þjáningunni. Þannig að líðandi Messías var eitthvað sem gekk ekki upp í huga
Péturs. Þess vegna tók hann Jesú á eintal og fór að átelja hann.
Vinir, þegar við lesum um einhvern í
guðspjöllunum sem ögrar Jesú með orðum sínum, vitum við að sá hinn sami er
kominn í ógöngur. Auðvitað snýr Jesús sér við og ávítar Pétur með skelfilegum
orðum og segir:„Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það sem Guðs er heldur
það sem manna er.“ Þetta er hörð ræða. Pétur var prinsinn í postulahópnum.
Drottinn og frelsarinn kallar hann Satan. Þvílíkt áfall.
Þessi harða ræða Jesú er varðveitt í
guðspjallinu vegna þess hversu mikilvæg hún er. Við erum rétt eins Pétur alltaf
að streða við það að skilja hver þessi Messías er. Við getum misskilið hann og
komist að rangri niðurstöðu. Gildran sem Pétur féll í og kirkjan getur fallið í
er eftirfarandi: Við, lærisveinar Drottins Jesú, gætum gert þau mistök, að
halda það að eftirfylgdin við Jesú væri auðveld og full dýrðar. En kæru bræður
og systur, þannig er hún ekki. Að vera lærisveinn Jesú felur í sér að fylgja
honum á leið hans til Jerúsalem, þar sem hann fórnaði lífi sínu. Á þeirri leið
tók hann upp krossinn sem hann leið á, menn höfnuðu honum og deyddu hann. Þegar
við tökum afstöðu með Kristi og verðum lærisveinar hans getum við ekki forðast
krossinn. Jesús sagði, að þjáningin yrði fylgikona lærisveina sinna. Hann
fullyrti að ýmsir erfiðleikar, afneitun og niðurlæging myndu mæta lærisveinum
sínum.
Nú leitar sjálfsagt á huga ykkar
spurningin:„Hvers konar boðskapur er þetta?“ Hvernig getum við búist við því að
fólk laðist að svona boðskap yfirleitt? Fólk álítur að trúin eigi að vernda
okkur fyrir þjáningunni og færa okkur hamingju og heppni. Upp í hugann koma
knattspyrnumenn sem signa sig áður en þeir fara út á völlinn.
Þessi orð Jesú um þjáningu, kross og
að týna lífi eru ekki heppileg slagorð til þess að laða fólk að kirkjunni og
stuðla að frekari vexti hennar. Segjum sem svo að mögulega nýtt safnaðarfólk
leggi spurningu fyrir prestinn og segi:„Segðu okkur frá kirkjunni. Við erum að
velta þeim möguleika fyrir okkur að ganga í söfnuðinn.“ Það sem liggur að baki
þessari spurningu er áhugi fólksins á safnaðarstarfinu: Fræðslu, tónlist,
sunnudagaskóla og æskulýðsfélagi. Hugsiði ykkur ef presturinn myndi svara á þá
leið að kirkjustarfið væri frábært. Hann segði að ef þau myndu ganga í
söfnuðinn myndu þau týna lífi sínu. En að vera lærisveinn Jesú og verða virkur
í starfi kirkjunnar er ekkert líkt því að fara í ræktina, þar sem maður skoðar
þau tæki sem eru í boði. Það sem felst í því að fylgja Jesú er að láta eigin
hagsmuni lönd og leið og gefast honum algjörlega. Að prédika leið Krists
tryggir ekki fulla kirkju á sunnudagsmorgni.
Sannleikurinn er sá, að við fylgjum
krossfestum Kristi. Hann sýnir okkur hið sanna eðli Guðs. Og það sanna eðli
Guðs birtist í því að hann svipti sig öllu og tók á sig þjóns mynd. Hann varð
þannig brothættur og mannlegur eins og við. Guð sýnir okkur hið sanna eðli sitt
með því að ganga veg krossins, þjást og deyja fyrir okkur öll. Sá Messías sem
við fylgjum var særður, rúnum ristur og er krossfestur frelsari. Þetta er ekki
sá boðskapur sem nútíminn lætur heillast af.
Þetta stóra tákn, krossinn, hefur týnt hluta af kröftugri merkingu sinni. Ég
var í Flórens í júní á þessu ári, þar sem ég vísiteraði einn af söfnuðum okkar.
Ég gekk yfir Vecchiobrúna (Ponte Vecchio) sem er frá miðöldum. Allt frá árinu
1560 hafa gull- og silfursmiðir haft verslanir sínar á brúnni. Búðargluggarnir
glitra með öllum sínum fögru gull- og silfurkrossum, sumir settir demöntum,
rúbínum og safírsteinum. Krossar eru tískuvara, ímynd þess sem er„fínt og flott.“
Auðvitað bera biskupar gyllta biskupskrossa, en ekki sem eitthvert tískuskart.
Við berum þá næst ölbunni sem telst til hvítra skírnarklæða. Slíkt minnir okkur
á að í kjölfar skírnarinnar fylgjum við honum sem var negldur á kross, þjáðist
og dó.
Heimurinn þarfnast þessa erfiða
og„gagnmenningarlega“ boðskapar nú sem aldrei fyrr. Veraldleg menning flæðir
yfir líf kristins fólks og tilbeiðslu. Þegar fólk kemur í messu hefur það oft á
tíðum þær fyrirfram væntingar að það muni öðlast góða reynslu, með trúarlegri
skemmtun í bland og líði vel þegar heim er komið. Auðvitað verðum við að bjóða
upp á helgihald sem stuðlar að þátttöku fólks og laðar það að, en kirkjan getur
ekki byggt á einhverri góðri reynslu og gert hana að kjarnanum í boðskap sínum.
Munum að helgihald okkar hefst ávallt og lýkur með krossmarkinu. Það er hinn
stórkostlegi, frelsandi kross Krists, sem er gjöfin stóra sem kirkjan boðar
heiminum. Guð okkar, Jesús Kristur, Sonur Guðs, er Messías sem leið okkar
vegna. Hann býðst til að lækna sárin og veita huggun. Dietrich Bonhoeffer, hinn
kunni prestur, guðfræðingur og píslarvottur, sem lét lífið í landi nasismans,
skrifaði eitt sinn:„Sá Guð sem líður getur einn veitt okkur hjálp.“
Kirkjan er óra langt frá því að vera
eins og Kringlan þar sem við förum inn til þess að velja vörur sem okkur
vanhagar um eða líkar við. Kirkjan er aftur á móti útvörður boðunar. Þaðan
höldum við af stað út í lífið til að þjóna í nafni hins krossfesta Krists sem
er til staðar í bræðrum okkar og systrum. Króatískur guðfræðingur, Miroslav
Volf, hefur skrifað bók sem heitir„Ókeypis.“ Hann segir:„Á sama hátt og Guð var
á leyndardómsfullan hátt í hinum krossfesta, er hann einnig hjá þeim sem líður.
Hann heyrir hvern andardrátt, þerrar hvert tár og finnur til með þeim sem koma titrandi
með tóma hönd.“
Frans páfi hefur lýst kirkjunni sem
sjúkraskýli á vígvelli, líkt og því sem sjá má í bandarísku sjónvarpsþáttunum
MASH frá 8. áratugnum. Sem kirkjufólk erum við líkami hans sem þjáðist, var
dæmdur og krossfestur. Og sá Kristur hefur úthellt náð sinni yfir okkur, gefið
okkur gjafir, sérstaka hæfileika, og hugsunina um að taka utan um þá sem hafa
kramið hjarta. Frans páfi hefur einnig minnt okkur á þá staðreynd, að í
sjúkraskýlinu á vígvellinum spyr maður ekki þá sem sem eru lífshættulega
slasaðir um gildi kólesterols eða sykurs í blóði þeirra. Annað skiptir meira
máli. Á sama hátt getum við sagt að kirkjan eigi ekki í boðun sinni að vera
velta sér upp úr einhverjum smáatriðum. Mætti þar nefna mistök fólks,
mismunandi bakgrunn, kynhneigð og jafnvel efa og spurningar. Við þurfum að
ganga beint til verks og lækna djúpu sárin í lífi fólks og móður jarðar. Djúpu
sárin ógna því lífi sem Guð hefur skapað.
Kristur er sá sem dó á krossi til
lausnargjalds fyrir okkur öll. Enginn er skilinn útundan. Við vitum þetta vegna
þess að Biblían segir okkur að Guð heyri grát þeirra sem höllum fæti standa í
heiminum, hinna fátæku, munaðarlausu, ekkna, utangarðsmanna og innflytjenda.
Við lesum um það í Biblíunni hvernig Guð kom inn í mannleg kjör sem varnarlaust
barn. Hann fæddist meðal heimilislausra. Hann lifði sem flóttamaður í
Egyptalandi. Hann hafði samskipti við dreggjar samfélagsins, portkonur og
syndara. Hann var jafnvel tekinn af lífi eins og ótíndur glæpamaður og var
lagður í gröf annars manns. Köllun okkar kristinna manna er að hefja krossa
heimsins á loft, taka okkur stöðu við hlið þeirra sem þarfnast hjálpar, hinna
fátæku, kúguðu, særðu, ofsóttu og þeirra sem heimurinn hefur dæmt til dauða.
Þetta er köllun Guðs, leið Guðs. Kirkjan á tilverurétt sinn vegna þessarar
köllunar og ber því að vinna með Guði að framgangi hennar.
Í Bandaríkjunum er býsna algengt meðal safnaða að setja upp ljósum prýdd skilti
fyrir utan kirkjur sínar til þess að auglýsa messur og bjóða fólk velkomið. Það
var ljósaskilti fyrir utan eina kirkjuna sem á stóð:„Láttu ekki áhyggjurnar
drepa þig, leyfðu kirkjunni að hjálpa þér.“ Vinir! Það er heilmikill sannleikur
í þessari óvenjulegu og fyndnu setningu. Munum eftir því að við verðum meðlimir
kirkjunnar vegna skírnarinnar. En skírnin er ákveðin drekking. Hún er dauði
þegar við erum færð í kaf og vatnið umlykur okkur.
Munum eftir því að við lifum handan
krossins, á öðrum stað en Pétur, sem sagt er frá guðspjalli dagsins. Jesús
sagði við Pétur að honum yrði hafnað, hann myndi þjást og deyja…en á þriðja
degi myndi hann upp rísa. Við vitum að Messías er sá sem er máttvana,
niðurlægður og krossfestur. En við vitum jafnframt að hann er hinn upprisni.
Vegur krossins liggur í gegnum hlið dauðans og þaðan til upprisunnar. Sama má
segja um leiðina frá drukknun skírnarinnar til altarisgöngunnar og þaðan til
veislunnar miklu á himnum.
Við þurfum ekki að skammast okkar
fyrir hann á neinn hátt eða vera í einhverjum vafa að fylgja honum. Við hefjum
á loft kross okkar með honum sem hékk á krossi. Við sláumst í för með honum og
verðum hluttakendur í dýrð Föðurins ásamt öllum heilögum og englum himnanna. Sá
sem kallar okkur til þess að taka upp kross okkar gengur með okkur að
krossinum. Þeirri trúargöngu lýkur ekki með krossfestingu heldur upprisu. Leið
Jesú endar ekki í dauða. Hún liggur inn í ríki sigursins, þar sem hinn upprisni
Kristur ríkir yfir allri sköpun.
Vinir, þetta er hinn dýrðlegi
sannleikur guðspjallsins.