Kirkjuárið auglýsir á sérstöku tilboði: Fastan! Engin útborgun og engar eftirstöðvar!
Og þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.En þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti. En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við. Lúk. 22. 24-32
Kæri söfnuður, Það er ekki beinlínis léttmeti sem borið er á borð fyrir okkur í dag af gnægtaborðum ritningarinnar. Mér dettur helst í hug að líkja því við góðgætið sem við flest gæddum okkur á nýlega og kalla það andlegt saltkjöt og baunir. Það er ekki laust við að það beri á nokkrum þorsta og máski snert af iðra-ólgu við neyslu guðsorðs síðasta sunnudags, í það minnsta ef vel er á hlustað og vandlega melt. Enda segir Kristur: „Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti,“ en „að sælda eins og hveiti“ merkir í þessu samhengi innri siðferðis- og trúarólgu, sem endað gæti með ósköpum.
En ætli það fáist fyrir túkall?
Nei, ég er hræddur um að það sé nú eitthvað dýrkeyptara; maður neyðist til að hlusta eitthvað tuð um freistingar og synd og dauða og djöful. Hver nennir að hlusta á slíkt nú til dags? Er ekki syndin löngu úrelt? Nú til dags – þegar rætt er um mannlega breytni og tilfinningar – eru brúkuð nýmóðins orð eins og komplex og meðvirkni og flottar skammstafanir eins og adhd og abcd og efg og ég veit ekki hvað. Og öll byggja þau á merkum fræðum og nýjustu rannsóknum og eru svo sannarlega góð og gild í sínu samhengi vísindalegrar úttektar á manninum, sem hefur það að markmiði að bæta líðan hans, m.a. fyrir tilstilli breytts atferlis, sem oft krefst þó lyfjainntöku.
En þessi orð geta ekki komið í staðinn fyrir orðið synd, því ólíkt þeim vísar það ekki til sjúklegs ástands, sem hægt er að lækna, heldur vísar það til ákveðins grundvallarástands, sem enginn mannlegur máttur fær breytt. Það væri kannski helst orðið breyskleiki, sem oft er notað í staðinn til tilbreytingar, sem hefði að e-u leyti sömu merkingu og synd. En orðið synd er þó ólíkt orðinu breyskleika að því leyti að það vísar hvorugtveggja til ákveðins ástands sem og til verknaðar, sem af því ástandi leiðir. Það er með öðrum orðum þeirrar náttúru að vísa bæði til orsakar og afleiðingar og hefur því mikið notagildi í umræðu um eðli mannsins og hegðun hans, enda má að mínu mati segja að hugtakið synd ásamt hugtakinu í mynd Guðs leggi grundvöllinn að mannskilningi kristinnar trúar, mótsagnakenndum en um leið raunsæjum: Maðurinn er skapaður í mynd Guðs en er þrátt fyrir það syndugur, breyskur. Með öðrum orðum: Maðurinn er fær um og hefur alla burði til að gera hið góða en freistast þó gjarnan til að gera hið illa. Hér glittir í grunnmerkingu sagnarinnar „að syndga“ á hebresku, sem er „að missa marks“. Þannig missir sá, sem syndgar, marks eins og bogmaður missir marks.
En hvað er sosum freisting? Er það ekki nafnið á einhverri súkkulaðiköku hjá Jóa Fel, Súkkulaðifreisting? Sárasaklaust. Það er þó varla dauðasynd að fá sér smá bita af súkkulaðiköku? Og hvaða svartagallsraus er þetta um að maðurinn sé syndugur? Veldur það ekki krónískri sektarkennd og sjálfsmyndarkrísu að tala þannig?
Á Íslandi í dag eru freistingar bara af hinu góða. Freistingar eru til að láta undan þeim – enda eigum við það öll skilið skv. auglýsingunum. Risahraun – þú átt það skilið! 2 vikur við Svartahafið á aðeins 99.999 – þú átt það svo sannarlega skilið! Hvað ætli maður þurfi að gera til að eiga Risahraun skilið? Eða 2 vikur við Svartahafið. Ég veit það ekki enda eru þessir frasar merkingarlausir og auðvitað ekkert annað en auglýsingarmennska. Vitanlega þurfa þeir sem lifa af því að selja vörur eða þjónustu að reyna að lokka til sín viðskiptavini en þá ríður á að fólk beri sjálft ábyrgð á neyslu sinni. Spurningin sem ætti að spyrja sig væri náttúrlega: „Hef á efni á því að fara til Svartahafsins?“ eða „Hef ég gott af því að fá mér Risahraun?“ Ekki hvort mig langi eða hvort ég eigi það skilið. Mann langar hvort eð er stöðugt í alls kyns hluti og hverjum finnst hann ekki eiga skilið að fara í smá frí?
Þetta á einnig við um neyslu ýmiss konar „menningar-efnis“ – innan gæsalappa – sem er vissulega mismunandi holl fæða fyrir andann. Í því sambandi þarf maður einnig að spyrja sig: „Er þetta hollt fyrir mig?“, „leyfir siðferðiskennd mín, að ég neyti slíks efnis,“ „er það gott fyrir samfélagið, að ég og aðrir séum að neyta og þá um leið styrka framleiðslu slíks efnis.“ Ég hef hér vitanlega í huga klámefni og ofbeldisefni í ljósi umræðu síðustu vikna og ég spyrði klám og ofbeldi hiklaust saman; sú lítilsvirðing sem konum er sýnd í klámiðnaðinum er ekkert annað en ofbeldi, fyrir utan allt ofbeldið hreint og ómengað, sem líðst í þeim geira. Hættan sem snýr að kláminu snýr ekki aðeins að því fólki, mest konum og börnum, sem eru fórnarlömb ofbeldis og mansals, heldur einnig að þeim viðhorfum sem klámneysla hlýtur að ýta undir. Lítilsvirðingin og kvenfyrirlitningin sem þar kemur fram er beinlínis mannfjandsamleg og það sem kórónar viðurstyggðina er sú staðreynd, að klámiðnaðurinn reynir að réttlæta sjálfan sig með því að brennimerkja allt saman með orðinu „kynlíf“, sem vísar til þess persónulegasta og helgasta í einkalífi hverrar manneskju. Sú alda sem kennd var við frjálsar ástir og var fylgifiskur friðarhreyfinga og hippamenningar sjöunda áratugs síðustu aldar – á henni hefur klámið fleytt sér og náð því að verða „normal“ fyrirbæri í afþreyingariðnaði Vesturlanda og afleiðingin er í algjörri andtöðu við allt sem kenna mætti við ást eða frelsi. Þvert á móti má segja að kynhvötin, þessi grundvallar hvöt, sem tryggir viðgang manneskjunnar, og kynlífið, sú samvera sem gerir fólki kleift að tjá ást sína og njóta návista hvors annars sem engin önnur samvera – að þetta tvennt sé í gíslingu klámsins. Fyrir tilstilli þess eru kynhvöt og kynlíf orðin eins og óhreinu börnin hennar Evu – eitthvað sóðalegt og þar að auki hættulegt. Að mínu viti hlýtur kynferðislegt frelsi í nútímanum að snúast fyrst og fremst um það að ganga milli bols og höfuðs á kláminu. Óvíða birtist synd mannsins, hvernig sem við túlkum hana, eins berlega og þar.
Synd vísar bæði til ástands og gjörða en mikilvægt er að hafa í huga að þrátt fyrir að einstaklingurinn beri ekki ábyrgð á því mannlega ástandi sem gjarnan er nefnt erfðasynd með tungutaki guðfræðinnar, þá ber hann ávallt ábyrgð á eigin gjörðum. Í raun er manneskja einungis þá óábyrg gerða sinna, þegar hún telst ósakhæf, þ.e. svo viti firrt að ekki er lengur hægt að tala um frjálsan vilja. Áherslan á eigin ábyrgð er skýr í pistli dagsins: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.“
Allir girnast eitthvað og öllum verður á. Þess vegna skyldum varast að láta vandlætingu okkar á syndum annarra, t.d. þeim sem klámframleiðendur eru sekir um, birgja okkur sýn að okkar innri manni. Við þurfum einnig – stöðugt – að verjast freistingum. Jesú var freistað með veraldlegu valdi og auði en hann syndgaði ekki, því hann girntist það eitt mest af öllu, að gera vilja Guðs, og hún er umhugsunarverð kenningin, sem hann kennir lærisveinum sínum í guðspjalli dagsins – fyrir okkur öll en kannski ekki síst fyrir þá sem sækjast eftir frama og metorðum innan samfélagsins – að sá sé mestur af öllum, sem þjónar náunga sínum. Freisting valdsins er nefnilega mikil og skyldu valdsmenn ávallt hafa vara á sér gagnvart henni.
Það ætti öllum að vera orðið ljóst, að hugtakið synd á ekki aðeins við um stórglæpamenn og siðleysingja; það vísar til alls þess sem okkur verður á, þegar við veljum rangt, okkur sjálfum eða öðrum til skaða; þegar við erum náunga okkar ekki þeir þjónar sem Kristur vill að við séum og Guð veit að til þess erum stundum við einfaldlega hvorki andlega né líkamlega í stakk búin. Það er ekki síst álag og þreyta og kannski einnig ákveðið misgengi í forgangsröðun sem veldur því að við „getum bara ekki meira“ og leggjumst í kör í sjónvarpssófann. En oft er þetta nú bara spurning um að gefa sér tíma og það vill svo heppilega til að kirkjuárið hefur nú á boðstólum á sérstöku afmælistilboði föstuna sem hófst á öskudag og lýkur ekki fyrr en á páskadag með Guðs stærstu gjöf. Engin útborgun og engar eftirstöðvar, vaxtalaust!
Hefð er fyrir því í kristni að nota þennan tíma til líkamlegrar og andlegrar hreinsunar og styrkingar trúarinnar. Þá forðast maður alla óhollustu og óhóf og tekur til í sínum innri manni, hendir gömlum freistingum eða setur í geymslu ef ekki vill betur til, opnar sálargluggana og loftar út, reynir að losa sig við andlegt svifrykið sem þyrlast upp af Miklubrautum neyslusamfélagsins og smýgur inn í óþéttar sálarkytrurnar og hleypa þess í stað ferskum andblæ kærleika Guðs inn og leyfa honum að móta skilning okkar á sjálfum okkur og öðrum. Og rúsínan í tilboðsendanum er síðan reglulegar guðsþjónustur sem veita dýrmæta tilbreytingu og skjól frá amstri hversdagsins og afar staðgott andans fóður.
Og það veit ég, að ef við stökkvum á þetta tilboð, munum við ekki missa marks, heldur mun Guð láta okkur vaxa að trú og kærleika og auðga þannig líf okkar, hvort sem við eigum það skilið eða ekki.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.