Guðspjall: Matt. 7.7-12 Lexia: Pistill:
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen
Guð gaf okkur þetta ástkæra land sem okkur þykir aldrei vænna um en þegar við komum heim eftir að hafa dvalið um stund erlendis og kynnst högum annarra sem búa í fjarlægum löndum því að þá vitum við hvað við eigum það gott að fá að búa hér og fyrir það ættum við að vera þakklát. Það er alltaf gott að koma heim.
Saga þessa lands er saga okkar og við erum hvert og eitt sjálf brot af landsins miklu sögu. Oft skynjum við líf okkar og sögu líkt og þessir tímar væru upphaf, miðdepill eða endir alls. Svo er nú ekki. En samt erum við sem hluti af íslenskri þjóð annað og meira en sprek sem veltast í hafróti tímans. Við eigum fortíð sem hrópar: Þú átt að lifa og þú skalt. Og við eigum framtíð sem mun byggja á því sem við erum og iðjum.
Þetta er eins og hús í byggingu. Við getum unað okkur og gleymt svo við horfinn sæludraum að við höldum ekki lengur vöku okkar. Mistök og mótlæti geta byrgt svo sýn að við sjáum ekki að byggingin á að vaxa. Við megum ekki hlaupast á brott frá því liðna en ekki heldur láta það binda okkur. Iðrun, fyrirgefning og trú eru þau tæki sem okkur eru léð til að ganga svo frá grunni fortíðar að bygging framtíðar fái risið þar.
Við skulum gæta þess um leið að hugsa um framtíðina nú með bæn og í trú því að erum jafnframt hvert og eitt brot af sögu Guðs ríkis hér í heimi. Trúin á Guð var lífið og krafturinn sem bar allt uppi á hættunnar stund. Guð hefur gefið okkur arfleifð í hendur. Hann hefur gefið okkur nútíðina til þess að vinna úr svo að arfurinn ávaxtist og honum verði skilað óspilltum og dýrmætum í hendur barna okkar, bæði arfi lands og þjóðar, einnig arfi Guðs ríkis.
Guðspjall dagsins er eitt hið fegursta þar sem Jesús segir m.a: “Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýjið á og fyrir yður mun upp lokið verða”. Með ljóðrænum hætti lýkur frelsarinn þekktustu orðræðu sinni, Fjallræðunni. Guð leðbeinir, huggar og styrkir og opnar dyr sínar hverjum þeim sem til hans leitar. Slíkur er máttur bænarinnar segir Kristur. Allt veitist þeim sem leitar til Drottins.
Bænin er órjúfanlegur þáttur í trúarlífinu. Sá getur vart talist trúaður sem ekki leitar til Guðs síns. Á með honum hljóða stund og deilir með honum áhyggjum sínum og gleði. Og allt veitist þeim sem leitar til Guðs, segir Kristur.
En hvers vegna þá þessi ógæfa? Hver hlýddi á kveinstafi og bænir þeirra sem þurft hafa að líða þjáningar í aldanna rás? Hefur reynslan ekki hrakið þessi fögru orð Krists. Getur nokkur boðskapur, svo fagur, staðist í heimi öfga og mannvonsku.
Á átjándu öld gaf Jón biskup Vídalín út postillu sína þar sem ekki er verið að fegra manninn. Á einum stað þrumar Jón: Guð veri oss náðugur! Er maðurinn ekki vatnsbóla? Hvör þó að skjótist upp um stundarsakir af vindi lukkunnar, hjaðnar hún jafnskjótt aftur þegar hinn sami á hana blæs”
Mannvonskan rann mér til rifja í Arnarhreiðri Adolfs Hitlers s.l. fimmtudag þar sem ég stóð í hrímkaldri þokunni í 1834 metra hæð yfir sjávarmáli við krossmark sem reist var til minningar um þá m.a. sem byggðu Arnarhreiðrið á sínum tíma og dóu en einræðisherrann fyrirskipaði að myrða ætti alla þá sem komu að byggingu hreiðursins til þess að fæstir vissu hvar það væri að finna. Sjálfur lét hann þjóðina gefa sér Arnarhreiðrið í 50 ára afmælisgjöf.
Þessi stóri gildni kross sem stóð þarna á hæðinni fyrir ofan hreiðrið í þokunni minnti mig jafnframt á þá von sem við okkur mannanna börnum skín. Þar var ég minntur á orð Krists á krossinum er hann sagði: “Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra”. Þrátt fyrir alla mannvonsku hefur Kristur sigrað heiminn og gefið okkur þá von sem enginn getur frá okkur tekið. Von um að hið góða, fagra og fullkomna nái um síðir yfirhöndinni og sigri illskuna i allri sinni mynd í eitt skipti fyrir öll.
Eins og við vitum þá var æskan í Þýskalandi fljót að snúast á sveif með þeim sem hæst hafði og upphófust þá hreinsanir þar sem hinn aríski kynstofn var talin æðri öðrum kynstofnum. Sex mílljónir Gyðinga létust í þessum hreinsunum sem beindust reyndar einnig að öðrum kynstofnum. Menn virðast lítið læra af reynslunni því að enn eiga sér stað þjóðernishreinsanir, nú síðast á Balkanskaganum. Þjóðernisflokkum vex ásmegin á nýjan leik í Evrópu þar sem átök hafa blossað upp og margir dáið.
Við íslendingar stöndum frammi fyrir því að þó að landið sé landfræðilega lokað þá er það opið í allar gáttir með bættum samgöngum á láði sem legi, einnig í fjarskiptalegu tillitii. Við bjóðum alla velkomna til landsins sem eru reiðubúnir að hlýða lögum og reglum og stjórnarskrá lýðveldisins. Ég er sannfærður, sem langförull maður, að fólk af erlendu bergi brotið sem sest hér að auðgar okkar eigin menningu og líf.
Það eykur okkur víðsýni að ferðast til annarra landa og kynnast siðum og menningu annarra þjóða. Þar er margt að finna sem við getum nýtt okkur hér heima en vissulega er þar einnig ýmislegt að finna sem okkur ber að varast. Við skulum biðja Guð að forða okkur frá því að upplifa að þjóðernisátök brjótist úr á Íslandi í framtíðinni heldur að hann megi hjálpa okkur að lifa í sátt og samlyndi með þeim sem setjast hér að í þessu friðsæla, strjálbýla og fallega landi sem guð hefur gefið okkur ábúðar.
Við viljum ekki brjóta niður það sem búið er að byggja upp í þessu landi heldur halda áfram að byggja upp landið í samfélagslegu tillitii á jákvæðan og uppbyggilegan hátt þannig að allir fái notið hæfileika sinna. Jafnframt hljótum við að bæta enn frekar þjónustuna í garð þeirra sem eiga undir högg að sækja í þjóðfélaginu af ýmsum ástæðum.
Sá sem biður bænar hlýtur að hafa einhverjar hugmyndir um hvers konar Guð það er sem hann talar til. Orðið Guð er auðvitað margrætt og mönnum kemur sjálfsagt margt ólíkt í hug þegar það ber á góma. Gríski heimspekingurinn Xerófanes sem uppi var á sjöttu öld fyrir Krists burð á að margra mati kollgátuna en hann segir. “Ef uxar, hestar eða ljón hefðu hendur og gætu skapað með þeim verk eins og menn, myndu hestarnir draga upp mynd guðanna í líki hesta og uxarnir í uxalíki og hver og einn sýndi þá með sinn eigin líkama og í sinni eigin mynd”.
Hvaða Guð er það þá sem kristin kirkja boðar? Og af hverju hefur hann að því er virðist daufheyrst við bænum barna sinna? Er hann svo seintekinn að nauða þarf í honum í langan tíma? Er hann svo duttlungafullur að hann lætur ekki undan nema þá og þegar honum þóknast? Eða eru gjafir hans slíkar að þær geta valdið þeim böli sem á móti þeim tekur?
Ef kirkjan boðar slíkan Guð hefur hún villst rækilega af stígnum þrönga.
Því frásögn guðspjallsins er ekki lokið í þessum töluðu orðum. Hún heldur áfram og þar spyr Jesús áheyrendur sína hvort meðal þeirra sé eitthvert það foreldri er færi börnum sínum steina þegar þau biðja um brauð eða höggorm þegar þau biðja um fisk. Nei, slíks er ekki að vænta og spyr hann þá hvers þau megi vænta af kærleiksríkum föður fyrst þau sjálf hafi svo vit fyrir börnum sínum.
Þessi röksend er einföld og skýr. Ef við breyskir mennirnir höfum svo vit til að gefa börnum okkar það sem þeim er fyrir bestu þá megum við vera viss um að hönd Guðs leiðir okkur að endingu í farsæld. Guð svarar bænum okkar en ekki alltaf á þann hátt sem við búumst við.
Jesús líkir saman þeim vitsmunum sem ástríðufullir foreldrar beita börnum sínum til ágætis og því sem Guð gerir okkur til handa. Því mun bænum okkar verða svarað eftir því sem okkur mun að endingu best farnast. Páll postuli kemur inn á þetta stef í bréfi sínu til Korintumanna þar sem segir: “Því heimska Guðs er mönnunum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari”. Uppfylling bæna okkar verður því í anda þeirrar speki sem okkur er æðri og þess kærleika sem stendur okkur ofar.
Guð kristinna manna birtist í Jesú Kristi. Í hverju fólust kraftaverk hans? Var ekki eðli þeirra og tilgangur jafnan meiri en fólst í sjálfu verkinu? Þegar myrkur hins blinda lætur undan fyrir ljósinu’ Þegar þögn og einangrun hins heyrnarlausa er rofin? Þegar broddur dauðans er fjarlægður? Svona starfar Guð kristinna manna. Öðru vísi þekkjum við hann ekki.
Þess vegna vitum við að þegar myrkrið, þögnin og dauðinn vofa yfir öllu að þá býr eitthvað æðra að baki. Við beinum ótta okkar og sorg til þess sem yfir öllu gnæfir og treystum því að hann leiði okkur til sigurs. Á þann hátt vinnur Guð kristinna manna. Á þennan hátt ætti hrelldur heimur að nálgast Guð. Sú hætta er ætíð fyrir hendi að maðurinn glati Guði í hömlulausri sjálfsdýrkun eða sjálfum sér í blindu ofstæki.
Í lokaorðum guðspjalls þessa þjóðhátíðardags segir Jesús hvaða reglum líf hins kristna á að lúta.
“Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skulið þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir”. Þetta er lögmálið og spámennirnir. Slíkum boðskap hafði heimurinn aldire áður fengið að kynnast. Að lokinni þeirri hughreystingu að Guð hlýði á bænir okkar og áköll, setur Kristur fram það sem kalla má upphafi og endi kristinnar siðfræði: Að við eigum að leitast eftir því að gera meðbræðrum okkar allt hið góða sem við viljum sjálf.
Heimurinn hefur litið marga heimskuna og á sjálfsagt eftir að sjá annað eins. Kærleikur Guðs breytist þó ekki og þangað geta kristnir menn beint bænum sínum haldið síðan áfram að byggja upp með því feta í fótspor Krists og ástunda hið góða, fagra og fullkomna í trú, von og kærleika.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.