Flutt á kvöldmessu um ást
Mér og konu minni varð hastarlega sundurorða síðastliðinn mánudag.
Mánudagar eru okkar bestu dagar. Þá tökum við frí og njótum þess að endurnærast. Sofum út, förum í trimmið eða út að ganga og náum hvíld. Ég hlakka alltaf til þess að vakna út sofinn á mánudagsmorgnum og ég verð að viðurkenna að ég er nú ekki betri maður en það að stundum leiði ég hugann að öllu því fólki sem verður að rífa sig upp á mánudagsmorgnum og hugsa til þess hve gott ég á að mega bara slaka á einmitt þá!
Og þenna morgun þegar komið var fram undir hédegi stóð ég til búinn með íþróttatöskuna og sá fram á góðan dag með minni frú... Sko, þetta gerist ekki oft hjá okkur. Ekki lengur. En það gerist samt annað slagið. Allt í einu bara hvessti á milli okkar og ég sver að ég man ekki lengur hvað það var. Við erum búin að vera gift í meira en 24 ár og erum löngu búin að læra inn á það að þegar hvessir hjá okkur er best að bíða. Rifrildi fjallar oftast ekki um það sem máli siptir. Það er oftast eitthvað annað sem undir liggur, eitthvað sem búið er að hlaðast upp. Svo hef ég líka lært það eftir að hafa lengi gaumgæft eigin mistök að þegar ég verð reiður þá er inni í mér ungur drengur sem tekur völdin. Ég þekki þennan kappa, hann er 11 ára og hann er mjög reiður. Ég var kominn hátt á fertugsaldur þegar ég kynntist honum. Í dag erum við orðnir mjög nánir og þekkjumst orðið vel og jafnan þegar Bjarni 11 ára heldur að hann sé giftur Jónu Hrönn, þá tala ég við hann eins rólega og ég get og segi honum, sem satt er, að nú muni Bjarni 48 ára passa hann og tala fyrir hann. Ég segi honum að hann megi vel vera reiður en hann geti bara ekki látið það bitna á konunni minni, og útskýri fyrir honum að við félagarnir verðum bara að klára þetta tveir.
Þarna stóð ég í holinu heima hjá mér með íþróttatöskuna í hönd og sortnaði fyrir augum af reiði. Eigum við ekki bara að kæla okkur? Spurði Jóna Hrönn. Bjarni 48 ára samsinnti því, gekk niður í kjallara, skipti á íþróttatöskunni og göngupokanum og ákvað að ganga á Esjuna.
Á leið minni út úr bænum var Esjan hulin skýjum í norðanáttinni, en bjart yfir í átt til Þingvalla svo þangað var haldið og er ég kom upp á heiðina blasti Ármannsfellið fagurblátt við mér og ég ákvað að aka inn að Svartagili og ganga þaðan á þetta fallega fjall. Ég var ennþá reiður. Mér var þungt fyrir hjarta og með hávaða í höfðinu þar sem ég gekk upp í lyngivaxna hlíðina þar sem mosaþembur skiptast á við vindsorfnamela. Er ég hafði gengið mig sveittan og móðan settist ég niður í eina lynggróna mosabreiðu þar sem uxu bláber og krækiber sem enn höfðu ekki orðið næturfrosti að bráð. Það var skýaður dagur en bjart í veðri og komið logn. Og sem ég sit hátt uppi í hlíðinni með Botnsúlur gnæfandi bak við mig huldar skýjum á efstu hömrum þá fer sólin að skína. Það er gott að sitja í bjartri sól á mjúkum mosa og týna upp í sig þroskuð bláber og safarík krækiber. Maður er einhvern vegin heima hjá sér við þessar aðstæður úti í íslenskri náttúru. Maður finnur að maður á þessi ber, þetta land, þennan ilm af mold og gróðri. Og hrafninn krunkar yfir manni svona rétt til að minna mann á að lífið er í eðli sínu stríðið og óútreiknanlegt og það er í lagi.
Þá varð mér litið yfir Þingvelli og Þingvallavatn sem blasti við mér á þessu stóra sviði þar sem ég sat líkt og í áhorfendabekk horfandi yfir þennan merka stað þar sem jarðflekar austurs og vesturs fjarlægjast hvor annan nokkra millimetra á ári hverju svo að jarðsagan er skráð á sama stað og saga okkar litlu þjóðar er einnig lifuð og varðveitt. Þá tek ég eftir því að ég sit í sól en öll Þingvallasveit er hulin skýjum. Það var líkt og ljóskeilu væri snúið að mér uppi í stúkunni og mér leið hálf kjánalega því að ég veit að svona er veruleikinn ekki. Ég held ekki að æðri máttur stjórni skýjunum. Ég er jarðbundinn í eðli mínu. Jarðbundinn fýlupoki. En það er jafn satt að eftir drykklanga stund sitjandi í heitu sólarbaði á þessum mjúka beði hámandi í mig gróanda jarðar og með allt þetta fallega útsýni ákvað ég að senda henni Jónu minni sms og segja henni að ég elskaði hana og nennti ekki að vera í fýlu. Og sem síminn minn sýndi að skilaboðin hefðu verið send hvarf ljóskeilan.
Standandi uppi á Ármannsfelli tveimur tímum síðar með sögustaðinn undir fótum leið mér eins og ég skildi lífið og að lífið skildi mig. Ég hafði borðað nestið mitt og brokkaði nú niður hlíðina og var einmitt að hugsa að ég væri nú bara í betra formi 48 ára en þegar ég var 28. Ánægður og útskeyfur skokkaði ég niður brattann og fannst ég eiga heiminn þegar ég skyndilega snéri mig á vinstri fæti, kútveltist með bakbokann á mér í lausri möl og stóð upp haltur. Næsta hálftímann niður að bílnum sem beið þegjandi á grónum bala við lítinn læk haltraði ég þjáður og ergilegur út í sjálfan mig að vera sá auli að finnast ég vera 28 ára en ekki 48.
Loks náði ég niður að bílnum og settist móður og dasaður en alshugar feginn undir stýri og hafði á þremur og hálfri klukkustund lifað það að vera 11 ára reiður strákur, sáttur karl á miðjum aldri í berjamó og sólbaði, kóngur í ríki mínu með sjálfa jarðsöguna í huganum og sögu þjóðarinnar í hjartanu og loks haltrandi vitleysingur sem horfðist ekki í augu við eigin aldur og hreyfigetu fyrr en hann var búinn að meiða sig.
Svona er að vera manneskja. Við erum líkami, sál og andi. Og við ERUM þetta þrennt. Við erum ekki sál eða andi sem býr í líkama, heldur erum við þetta þrennt; líkami, sál og andi í senn. Þess vegna er svo mótsagnakennt að vera manneskja.
Andinn getur horft í sjónhending yfir heima og geima, farið fram og aftur í rúmi og tíma og fundið sig upphafinn. Svo þarf maður ekki annað en að snúa sig á ökla og þá er maður bara allur í öklanum!
Sálin getur verið full af gremju og ást á sömu stundu. Þar er rými fyrir sorgir og hamingju, vonir og kvíða, stolt og blygðun og allt hitt sem mannsins hjarta geymir. Og það eina sem við getum gert er að reyna að vanda okkur.
Í bréfinu til Galatamanna gefur Páll postuli okkur góð ráð til að vanda okkur þegar hann skrifar í 6. kaflanum:
„Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists. Sá sem þykist vera nokkuð en er þó ekkert blekkir sjálfan sig. En sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig en ekki í samanburði við aðra 5því að sérhver mun verða að bera sína byrði.“
Á öllum nánum samböndum gildir nefnilega sú regla að við þurfum fyrst að axla okkar eigin byrði til þess að geta borið byrðar þeirra sem við elskum. Á meðan við erum alltaf að reyna að vera eitthvað þá erum við bara að blekkja okkur. En þegar við rannsökum eigin breytni fyrst og hættum að horfa á aðra þá verðum við tilfinningalega sjálfstæð svo að við þurfum ekki að láta öðrum líða eins og okkur líður. Við hættum að þurfa á því að halda að varpa okkur yfir annað fólk í stjórnleysi en tökum þess í stað ábyrgð á tilfinningum okkar. Ég og hann Bjarni ellefu ára erum svona „tím“. Við spjöllum og spekúlerum og hún Jóna mín þarf sjaldnar og sjaldnar að hlusta á drenginn sem heldur að hann sé í hjónabandi með fullorðinni manneskju.
Heyrum aftur kennslu Postulans: Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists. Sá sem þykist vera nokkuð en er þó ekkert blekkir sjálfan sig. En sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig en ekki í samanburði við aðra 5því að sérhver mun verða að bera sína byrði.
Amen.