Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig. Jh.14.15-21
Hvítasunnan, stórkostleg hátíð. Snemma sumars, stundum jafnvel í sól og blíðu. En hvað sem líður íslensku sumarveðri sem getur verið allavega og misjafnt frá ári til árs þá er bjart yfir þessum degi. ,,Skín á himni skír og fagur hinn skæri hvítasunnudagur, er dregur nafn af Drottins sól” eins og segir í sálmi séra Valdimars Briem sem við sungum í upphafi guðsþjónustunnar.
Það er staðreynd sem ekki verður framhjá horft að hvítasunnan rís ekki jafn hátt í vitund almennings og hinar stórhátíðirnar tvær. Hversvegna skyldi það vera? Jólin lýsa upp skammdegis myrkrið. Þó fylgdi þeim engin birta ef ekki hefði komið páskar. Páska sólin skín skær. Þó hefði hún bliknað ef ekki hefði komið hvítasunna. Þannig mynda þessar þrjár kristnu hátíðir eina heild og í raun fær engin staðið án hinna. Þær varpa ljóma hver á aðra. Allar sækja þær ljós sitt frá sömu uppsprettu.
Það er athyglivert að í játningu trúarinnar okkar sem við fórum saman með áðan eru þrjár greinar og stóru hátíðirnar okkar þrjár svara ekki beint til þeirra. Jól og páskar svara til annarar greinar trúarjátningarinnar þar sem fjallað er um fæðingu, krossdauða og upprisu Jesú Krists. Þriðja greinin fjallar um heilagan anda og vísar þar með til dagsins sem við höldum hátíðlegan í dag, hvítasunnunnar. Höfum við þá enga hátíð til að fagna sköpun Guðs? Við játum trú á Guð skapara okkar í fyrstu grein trúarjátningarinnar. Vantar okkur ekki hátíð þar sem við minnumst Guðs sem skapara himins og jarðar?
Eða getum við e.t.v. sagt að við höfum slíka hátíð. Hátíð sköpunarinnar, hátíð nýsköpunarinnar. Það er hvítasunnan. Það er sami helgi andi Guðs sem skapaði heiminn og sem síðar skapaði kristna kirkju hinn fyrsta hvítasunnudag. Það er andinn heilagi sem blés í brjóst okkur lífsandann,
gaf okkur nýtt líf í skírninni og sem tekur við okkur á hinstu stundu. Sleppir okkur ekki, hvorki í lífi né dauða. Með því að skilja okkur ekki eftir munaðarlaus sá Jesús til þess að sköpunarverkið er umvafið sístarfandi sköpunarkrafti Guðs.
Hann sendi okkur anda sannleikans. Sá andi lyftir okkur fram fyrir ásjónu Guðs. Þar er engin undankomuleið, við verðum að horfast í augu við okkur sjálf eins og við erum. En um leið færir hann okkur nær Jesú Kristi og það veitir öryggi því um leið og við horfumst í augu við eigin breiskleika og misgjörðir horfumst við í augu við hann sem fyrirgefur.
Það er flókið að vera manneskja. Við erum mörg og mismunandi. Eitt af grundvallaratriðum trúar okkar er sá mannskilningur að við erum öll jöfn fyrir Guði. Það er mikilvægt að undirstrika vel þennan þátt nú á tímum svokallaðrar hnattvæðingar. Heimurinn hefur í vissum skilningi skroppið saman. Þá er mikilvægt að þekkja trúna, þá trú sem er brú og nær yrir þúsund ára sögu okkar. Sú trú sem er grundvölluð í Kristi.
Við sjáum í kirkjusögunni að mikilvægustu krossgötur þjóðarinnar hafa snúist um ákvarðanir um að trúa eða trúa ekki. Þessar ákvarðanir hafa ekki einungis verið einkamál hvers og eins. Saga kristniboðsins sýnir okkur mörg dæmi þess að ákvörðun var tekin fyrir þjóðina alla. Sú ákvörðun sem tekin var fyrir hönd þjóðarinnar á Þingvöllum fyrir rúmum 1000 árum hefur mótað lög okkar, menningu og sögu.
Nú er áskorunin til kirkjunnar okkar á nýrri öld, nýju árþúsundi að finna farveg í samfélagi með fleiri trúarbrögðum. Aftur verða ákvarðanir að vera teknar, og á það jafnt við um hvert og eitt okkar og þjóðina okkar í heild.
Náungakærleikur, umburðarlyndi, réttlæti, mannréttindi, valið á þessum gildum þarf ekki endilega að þýða val á milli trúarbragða, en þau snerta við trúarjátningunni okkar og hún ber þau uppi. Samfélagið getur ekki án trúar verið. Engin tilraun til slíks samfélags hefur tekist. Við þurfum því að velja, sem þjóð og sem einstaklingar.
Sem manneskjur háð þeirri heimsmynd sem við þekkjum og tilheyrum leitum við samhengis. Til þess að trúin beri áfram menningu okkar eru helgisiðirnir mikilvægir. Þeir eru kjölfesta, bera áfram trúar- og þjóðararf okkar milli kynslóða. Mikið er rætt um ríki og kirkju, skóla og kirkju, og um trúarbragðafræðslu. Það þýðir ekki að framundan séu tímar trúleysis, heldur þvert á móti erum við á leið inní tíma þar sem fólk á auðveldara með að tjá trúarlöngun sína. Áskorunin til kirkjunnar er því að bjóða trúarfræðslu sem ber trú okkar áfram, faganaðarerindi um Jesú Krist.
Það er mikil ábyrgð. Við finnum okkur lítil og smá og spyrjum, hvað get ég gert? Hverju ætti ég svosem að fá áorkað. Svo smá í stórum heimi hraða og breytinga.
Hvaða Guðsmynd boðar kirkjan okkar? Guð sendi anda sinn hinn fyrsta hvítasunnudag til þess að geta verið með okkur alltaf, allsstaðar. Allt líf okkar mótast af því hverlags sýn við höfum, hvernig við sjáum. Hvernig við sjáum okkur sjálf ekki síst. Sú sýn mótast að einhverju leyti af því hvernig aðrir hafa séð okkur. Augu geta verið svo margvísleg, þau geta gefið kraft, hlýju og nærveru- eða tómleika, ótta og afneitun.
Ef við gerum ráð fyrir Guði í lífi okkarer það afgerandi spurning hvernig við höldum að Guð sjái okkur.
Guð sér þig. Guð sér þig. Þessi orð þýða fyrir mörg okkar öryggi og huggun. En þessi sömu orð geta í einhverjum eyrum hljómað sem ógnun, hindrun persónulegs þroska og frelsis. Hvernig hugsum við okkur að Guð sjái sköpunarverk sitt og okkur sem hann skapaði í sinni mynd? M.ö.o. hver er Guðsmynd okkar og hver er sýn okkar á manneskjuna? Það er nokkuð algengt meðal kristins fólks að líta svo á að Guð hljóti að vera óánægður með sköpunarverk sitt, að það valdi honum stöðugum vonbrigðum. Að mestu vonbrigðin hljóti þó að vera manneskjan, kóróna sköpunarinnar.
Rifjum þá upp: “Guð leit allt sem hann hafði gjört og sjá, það var harla gott”. Þannig eru lokaorð sköpunarsögunnar í fyrsta kafla biblíunnar og þau undirstrika að Guð er sáttur við sitt verk.
Gjöf lífsins til manneskjunnar er sú að vera einstaklingur sem hefur orðið til og mótast smátt og smátt. Lífið mótar okkur og gerir okkur að þeim persónum sem við erum. Við eigum til að gleyma þessari gjöf, þau finnast alltof mörg sem lifa með þeirri tilfinningu að vera ekkert, einskis virði. Sú tilfinning er umvefin þeirri lífseigu lygi sem hvíslar: “Ekki halda að þú sért eitthvað.” Mundu alltaf að þú ert einhver. Við getum öll sagt með sanni við Guð: Ég er ágæt, því þú skapaðir mig, Ég er dýrmæt því þú elskar mig. Við þurfum ekki að taka nærri okkur háðsglósur eða niðurbrjótandi athugasemdir um okkur sjálf. Við megum vita að Guð hvíslar að hjarta okkar að við erum dýrmæt, já, meira virði en gull í hans augum
Stundum finnst okkur við vera í sjálfheldu og þá er ekkert eins og við vildum hafa það. Það á við um kirkjuna okkar og það á við um hvert og eitt okkar þegar okkur finnst við vera komin í þrot. Þá skulum við hlusta eftir rödd Guðs í orði og bæn. Þá hvíslar Guð: Ekki gefast upp! Leyfðu mér að setjast hjá þér. Hversu lítil eða smá við upplifum okkur, andi Guðs, helgur andi hvítasunnu mun ummynda trú okkar og von í gleði.
Það er mikið talað um gildi, gildi æsku og elli gildi náttúru og virkjana, Við erum almennt upptekin af gildum. Hver á gildin? Hver stjórnar þeim? Jesús kenndi okkur grundvallaratriði. Hann kenndi okkur um náð Guðs og um frelsi okkar sem tilheyrum honum. Það sem við þurfum að minna okkur á aftur og aftur er það að náð er náð, ekki eitthvað sem við vinnum fyrir og frelsi er frelsi og að við erum manneskjur og eigum þessvegna meðbræður og –systur.
Þegar Guð gerir ekki mannamun, því skyldum við leyfa okkur það? Guð mismunar ekki manneskjum. Svo skýr er boðskapur hvítasunnunnar. Trúin gerir okkur hrein. Það er náð Guðs sem afmáir munin á milli einstaklinga. Þannig skapaði hann okkur.
Fagnaðarerindi kirkju okkar hefur verið boðað í 2000 ár. Það hefur verið boðað í landinu okkar í 1000 ár. Þessvegna lifir það. Þessvegna lifir kirkjan. Við þiggjum gjafir Guðs, náð og blessun dag hvern. Gjafir hans eru með þeim hætti að það eina sem að okkur snýr að þiggja og njóta.
Jesús sendi okkur heilagan andi til þess að vinna með okkur og í okkur. Þann sama dag, hinn fyrsta hvítasunnudag, var stofnsett sú kirkja sem við erum hluti af. Ekki vegna þess að við höfum unnið fyrir því eða eigum það sérstaklega skilið, heldur fyrir náð Guðs. Sá boðskapur sem kirkjan okkar flytur er að ,,hér er enginn gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður karl né kona. Við erum öll eitt í kristi.” Tökum því fagnandi meðbræðrum okkar og systrum hver sem bakgrunnur þeirra eða menning kann að vera og lítum á sem tækifæri til að auðga víðsýni, þekkingu og umburðarlyndi. Megi helgur andi Guðs hjálpa okkur við það verk.