Hvítasunnan er stundum nefnd fæðingarhátíð kirkjunnar. Við heyrðum í einum ritningarlestri dagsins, úr Postulasögunni 2.1-11, að allir voru saman komnir á einum stað í húsi nokkru þar sem kraftur Guðs varð til þess að margmenni hópaðist saman fyrir utan húsið og boðskapurinn um stórmerki Guðs varð öllum skiljanlegur:
Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“
Þannig varð viðburður hvítasunnudags, úthelling heilags anda, til þess að tiltölulega fámennur hópur fólks sem hafði verið snortinn af ást Guðs leitaði út og varð að kröftugu boðunarafli til umheimsins.
Árið 2033? Jesús hafði að sönnu gefið lærisveinunum heilagan anda að kvöldi upprisudagsins. Í Jóh 20.19-23 segir frá því hvernig hann birtist þeim, andaði á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda.“ Sú gjöf heilags anda snéri sérstaklega að krafti til að fyrirgefa syndir. Undrið á hvítasunnudag leiddi hins vegar til fyrstu prédikunarinnar sem aftur varð til þess að stór hópur fólks lét skírast, „um þrjú þúsund sálir“ (Post 2.41). Því á þetta heiti, fæðingarhátíð kirkjunnar, ágætlega við. Kirkjan er hreyfiafl sem leitar út, hreyfing fólks sem hefur tekið á móti ást Guðs og þráir að gefa öðrum hlutdeild í þeirri reynslu.
Við matarborðið í fyrrakvöld spurði eitt barnið hvers vegna við höldum hvítasunnu. Eitt svarið var á þá leið að hvítasunnan væri stofndagur kristinnar kirkju, eiginlega afmælisdagur hennar. Þá segir barnið: „Og hvað er kirkjan þá gömul?“ Sé miðað við tímatal okkar án frekari bollalenginga um nákvæmni þess og gengið út frá því að Jesús hafi verið 33ja ára þegar hann reis upp frá dauðum mætti álykta sem svo að kirkjan hafi verið stofnuð árið 33. Ýmislegt í hinu sögulega samhengi styður það ártal, þó nákvæmur aldur Jesú sé meira á reiki. Sem sagt, eftir 17 ár, á 2000 ára afmælinu, ættum við því að halda alveg sérstaka hátíð; ekki seinna vænna að fara að undirbúa það!Öll með einum huga En hverjir voru þessir „allir“ sem saman voru komnir á einum stað? Í fyrsta kafla Postulasögunnar eru ýmsir taldir upp. Postularnir voru nú orðnir ellefu eftir fráfall Júdasar en úr því var bætt með því að Matthías var tekinn í tölu postulanna til að vera vottur að upprisu Drottins Jesú (Post 1.16-26). Þá voru þar konurnar og María móðir Jesú og bræður hans. „Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni,“ segir svo fallega (Post 1.14). Alls voru um 120 manns í lærisveinahópnum „á þessum dögum,“ dagana á milli uppstigningar Jesú og hvítasunnudags (Post 1.15).
Sé þýðing hvítasunnudags og þess sem gerðist þá skoðuð út frá þessum tölum, frá 120 manns í 3000 er ljóst að þarna varð gríðarlegur vöxtur á einu bretti, fyrsta vakningin, ef svo má segja. Og það varð ekki fyrir framtaksemi lærisveinanna, útsjónasemi þeirra, glaðværð eða orðheppni. Að þetta var verk Guðs er áþreifanlega lýst með frásögunni af tungutalinu. Það var Guð sem kom því til leiðar að fólkið skildi. Og það var Guð sem með látum benti utanaðkomandi á hópinn sem beið hikandi inni í húsi og leiddi sín trúföstu út, út til fjöldans. Ást Guðs umbreytti lífi 3000 sálna þennan dag á óútskýranlegan hátt þeim sem ekki hafa reynt.
Því það er Guð gefur kraftinn. Kirkjan er Guðs verk, ekki manna. Það er alveg sama hvað við setum upp fína og vandaða dagskrá í tali og tónum í fínu og vönduðu kirkjunum okkar. Ef Guð gefur ekki kraftinn er allt það allt til einskis. „Því Guðs ríki er ekki fólgið í orðum heldur krafti“ (1Kor 4.20) og „trú ykkar skyldi ekki byggð á vísdómi manna heldur á krafti Guðs“ (1Kor 2.5).
Hvað er kirkja? Nú er ég ekki að gera lítið úr þörf safnaða fyrir húsnæði þar sem við getum komið saman okkur til uppbyggingar og gleði, til að biðja saman, lofa Guð og finna fyrirgefandi og styrkjandi nærveru hans í máltíð Drottins. Það er einmitt í guðsþjónustum, messum eða hvað við köllum samkomur safnaðarins sem Guð gefur kraftinn sinn til þjónustu. Við komum hér saman til að þiggja ást Guðs og anda, ekki bara fyrir okkur sjálf heldur til þess að geta farið út úr þessum stað til að bera umheiminum sömu ást og anda. Trúfræðingar hafa skilgreint kirkjuna á ýmsa vegu en einfaldasta og sannasta skilgreiningin er að líkindum þessi sem sótt er í orð Jesú í Matteusarguðspjall 18.20: „Hvar sem tveir eða þrír eru samankomnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“
Kirkjan er þar sem tveir eða þrír eru samankomnir í Jesú nafni. Kirkjan er hér og við tilheyrum þeirri öldnu hreyfingu sem þó er síung fyrir kraft Guðs sem endurnýjar hana stöðugt og okkur með. Eitt birtingarform þess kraftar er svokallað tungutal sem birtist einkum með tvennum hætti; eins og hér, að lærisveinarnir töluðu skyndilega tungumál fólks frá mörgum þjóðum sem saman voru komin í Jerúsalem vegna viknahátíðar Gyðinga, sem hafði verið haldin frá ómunatíð til að fagna fyrstu uppskeru vorsins. Ég hef lesið og heyrt vitnisburði fólks frá okkar tímum sem hafa orðið fyrir sömu reynslu, ýmist heyrt talað til sín orð frá Guði á sínu tungumáli sem viðmælandinn þó kunni ekki, eða sjálft getað miðlað orði Guðs á ókunnu tungumáli sem einhver viðstaddra þó skildi.
Bænamálið Hin gerð tungutals er líklega kunnari en það er bænamálið sem Guð gefur. Það er gefið trúaðri manneskju til uppbyggingar og dýpkunar í trúarlífinu og postulinn gefur leiðbeiningar um það ætti ekki að nota á safnaðarsamkomum nema þegar einhver annar getur túlkað orðin, söfnuðinum öllum til uppbyggingar (1Kor 14.1-5, 12-19):
Keppið eftir kærleikanum. Sækist eftir gáfum andans en einkum eftir spámannlegri gáfu. Því að sá sem talar tungum talar ekki við menn heldur við Guð. Enginn skilur hann, í anda talar hann leyndardóma. En sá sem flytur orð Guðs talar til manna, þeim til uppbyggingar, hvatningar og huggunar. Sá sem talar tungum byggir aðeins upp sjálfan sig en sá sem flytur orð Guðs byggir upp söfnuðinn. Ég vildi að þið töluðuð öll tungum en þó enn framar að þið hefðuð spámannlega gáfu. Það er meira vert en að tala tungum nema það sé útlagt, svo að söfnuðurinn hljóti uppbyggingu.Undur hvítasunnunnar Hvaða merkingu hefur hvítasunnan í huga þér? Við þeirri spurningu eru vafalaust mörg svör. Eitt svar gaf mér kona sem ég átti samtal við um daginn. Hún nefndi orð sem komu upp í huga hennar: Kærleikur, birta, gleði, frelsi frá önnum vetrarins, eftirvænting eftir sumrinu með meiri samveru við ástvini, meiri tíma fyrir hugðarefnin.Eins er um ykkur. Fyrst þið sækist eftir gáfum andans kappkostið þá að eiga sem mest af þeim til þess að geta eflt söfnuðinn. Sá sem talar tungum biðji því um að geta útskýrt það sem hann segir. Því að biðjist ég fyrir með tungum biður andi minn að vísu en skilningur minn er ávaxtalaus. Hvernig er því þá farið? Ég vil biðja með anda en ég vil einnig biðja með skilningi. Ég vil lofsyngja með anda en ég vil einnig lofsyngja með skilningi. Ef þú lofar Guð með anda hvernig á þá venjulegur maður sem er viðstaddur að geta sagt amen við þakkargjörð þinni þar sem hann skilur ekki hvað þú ert að segja? Að vísu getur þakkargjörð þín verið fögur en hún gagnast ekki hinum. Ég þakka Guði að ég tala tungum öllum ykkur fremur, en á safnaðarsamkomu vil ég heldur tala fimm skiljanleg orð, sem geta frætt aðra, en tíu þúsund orð með tungum sem enginn skilur.
Á messuþjónafundinum hér í Grensáskirkju á þriðjudaginn var kom fram að hvítasunnan væri okkur hvatning til að sýna djörfung í trú okkar, eins og lærisveinarnir sem losnuðu undan hræðslunni við umheiminn með kraftinum frá heilögum anda. Við þurfum að komast út úr sjálfum okkur, yfirvinna feimni og tilhneigingu til að loka okkur af frá umheiminum og finna frelsið til að vera það sem við erum kölluð til að vera, vitni upprisu Jesú Krists, fylgjandi lífinu, kærleikanum, friðinum, gleðinni, sem Jesús talar um í guðspjalli dagsins, Jóh 14.23-29:
Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig.Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig yrðuð þér glöð af því að ég fer til föðurins því faðirinn er mér meiri. Nú hef ég sagt yður það áður en það verður svo að þér trúið þegar það gerist.
Við töluðum líka um að heilagur andi kennir okkur að biðja, ekki bara að andinn gefi bænamálið sérstaka, tungutalið, heldur líka úthaldið og hughrifin og andblæinn sem bænin þarfnast til að vera sönn. Og svo þetta, sem við heyrðum áðan þegar lestrarnir voru fluttir: Guð talar á því máli sem við skiljum. Það er undur hvítasunnunnar, undrið sem við erum kölluð til að flytja áfram sem kirkja.