Sigurbjörn 100

Sigurbjörn 100

Þjóðkirkja Íslands er á ferð og glímir við breytingar. Sigurbjörn Einarsson 100 - nú eru alger skil orðin. Með fráfalli hans og fæðingarafmæli er tuttugustu öldinni endanlega lokið í kirkjulegum skilningi. En Jesús Kristur er á ferð og á erindi við Íslendinga.

Sigurbjörn og Jón Kristján

[audio:http://db.tt/tM5yIlq]

Sigurbjörn Einarsson, biskup, hefði orðið eitt hundrað ára í liðinni viku, á fimmtudaginn var. Í huga sækja minningar um þennan smágerða risa og mannelska jöfur andans. Hann fæddist 30. júní og var vor- og sumarmaður í flestu, í menningarmálum, í félagslegum framfaramálum og vildi bregða ljósi yfir þjóð og land (Ljós yfir land hét hirðisbréfið hans). Hann var fulltrúi birtu Guðs, sem aldrei brennir eða eyðir, heldur vermir og veitir líf.

Sigurbjörn var alla tíð göngugarpur. Félagi minn í bernsku, sem bjó nærri húsi biskupsins, sagði mér að göngur Sigurbjörns hefðu stundum verið mjög sérstakar og að hann hefði notað þessar útivistarferðir til samvista við fólkið sitt. Samkvæmt lýsingunni tók Sigurbjörn strákana sína með í göngu og þeir voru á ferð með honum rétt eins og lærisveinahópur Jesú. Sigurbjörn gekk fremst og gjarnan með einn sonanna við hlið sér. Þeir töluðu saman og hinir röltu skrallandi á eftir. Eftir nokkra stund var svo skipt, einhver úr hópnum fékk að ganga við hlið pabbans og tala við hann. Hinn fyrri fór í fylgdarhópinn. Á ferð hafði Sigurbjörn væntanlega möguleika til að sinna uppeldi, miðla hugmyndum og njóta góðrar stundar með sínu fólki.

Hinn opni og spyrjandi Sigurbjörn Einarsson var öflugur ferðamaður í menningu, kirkju, trú og álfum andans. Hann var listamaður, samdi grípandi bækur og ritgerðir, gjöfular prédikanir og var að auki - að mínu viti - besta sálmaskáld þjóðarinnar á liðinni öld. Í messunni í dag syngjum við aðeins sálma, sem Sigurbjörn samdi.

Á ferð, já, hann var alltaf á ferð og þorði að spyrja. Hann var opinn og jafnan reiðubúinn að tala við fólk, börn og gamla, unga, spyrjandi, reiða, særða, glaða, hressa og líka deyjandi. Hann tók mið af ferðavenjum Jesú.

Til höfuðstaðarins Og þá erum við komin að Biblíutextanum, sem lesinn er í öllum messum þessa dags. Guðspjallið er í samræmi við frítíma og reisur út á landi - það er ferðasaga. Jesús var á ferð norðan úr landi og á leið í höfuðborgina. Margt fór öðru vísi en ferðafélagar hans vildu. Úr hópnum hljómuðu spurningar: “Hvað finnst þér nú um þetta lið, sem vill ekki taka á móti okkur, þessa sveitamenn, sem vilja ekki leyfa okkur að gista? Væri ekki réttast að refsa þeim harðlega, bara brenna bæinn?” Jesús brást skýrt við: “Nei” sagði hann. “Að brenna fólk er ekki verkefni Guðsríkisins. Að meiða fólk er ekki hlutverk mannssonarins, heldur að hjálpa því.” Vegna þessarar mannelsku Jesú hefur það æ síðan verið hlutverk kristinna manna og þar með kirkjunnar – að efla fólk en ekki skemma líf þess.

Á ferðinni norðan úr landi dreif að fólk til að tala við Jesú. Einn komumanna vildi svo gjarnan slást í för með Jesú, en sagðist fyrst þurfa að ljúka ýmsum málum áður. Sem sé, maðurinn kunni ekki að forgangsraða. Setur þú það mikilvægasta alltaf í forgang, samband við þau sem mestu máli skipta, Guð, sjálfa þig, sjálfan þig og ástvini þína? Hvert er innræti þitt, hver er afstaða þín og hver er trú þín? Þær spurningar varða ekki aðeins þig, sem ert í kirkju eða hlustar, heldur stofnanir samfélags, menningu, starfshætti, verklag og líka kirkjunna.

Ný leið – ný nálgun Þjóðkirkja Íslands er á ferð og glímir við breytingar. Sigurbjörn Einarsson 100 - já nú eru alger skil orðin. Með fráfalli hans og síðan fæðingarafmæli er tuttugustu öldinni endanlega lokið í kirkjulegum skilningi. Sigurbjörn spannaði og speglaði eiginlega alla öldina í lífi, reynslu og hugsun. Hann er sem tákn um mestu gjafir og líka áföll. Hann missti ungur móður sína, ólst upp í nánd við brimskafla Meðallandsfjöru og við hramm Kötlu, sem gaus þegar hann var barn. Hann hlustaði í húslestrum á hina djúpu réttlætisprédikun postillanna og skynjaði gleðirík trúarrök, erindið kennt við fögnuð. Honum var gefin næm kvika og skarpur hugur. Hann túlkaði flestum betur, að þó mannlífið sé stórkostlegt er það vart nema blossi í geimmyrkri. Líf í heimi gengur ekki upp án guðlegs máttar, hvorki í djúpum einstaklings, í samfélagi manna né í ógnarvíddum alheims.

Þegar Sigurbjörn Einarsson var búinn að fara villur vega á unglingsárum komst hann til sjálfs sín, vann heimavinnu sína í fræðum, viðurkenndi innri ólgu og vann með veikleika sína og raunar alla æfi. Hann átti í sér gamalt og nýtt, reynslu af eyðingargetu manna, en líka af hinum mesta lækningarmætti. Jesús, ljómi Guðs, eyðir ekki þorpum, mönnum, heldur er hlutverk fulltrúa hans að ganga erinda birtu og lífs.

Andstæður og þriðja leiðin Í upphafi síðustu aldar spratt fram nýguðfræði og sálarrannsóknir höfðu mikil áhrif í kirkjulífi á Íslandi. Aukin einstaklingshyggja, breytt vísindaviðmið, félagslegar sviftingar vegna breyttra atvinnuhátta og myndun höfuðstaðar kölluðu á aðra guðfræði en sálma Hallgríms, Vídalínsræður eða Pjeturspostillu. Þjóðkirkjan logaði allt í einu í deilum um gildi sálarrannsókna, hlutverk Jesú Krists, kennslu kristinfræði í skólum, tengsl trúar og félagslegs réttlætis. Á árunum milli heimstyrjalda voru innan þjóðkirkjunnar tvær fylkingar, önnur sem vildi dæla svonefndum nútíma í allar æðar, en hin sem vildi halda sig við það “gamla og góða.” Og inn í þessa tvíflokka kirkju kom Sigurbjörn Einarsson og bjó til þriðju leiðina, sem var hvorki bundin af klafa fortíðartrúfræði, né heldur bláeyg á samtímaviðmið. Hann hafði stundað trúarbragðafræði í Svíþjóð og fylgdist vel með guðfræði á meginlandi Evrópu. Þar laut trúin ekki valdi né ofbeldi (t.d. nazisma), heldur benti ávallt til æðra réttlætis, til gilda Guðsríkisins.

Og Sigurbjörn gat því – í krafti nýrrar guðfræði og með því að horfast í augu við þróun samfélags - búið til leið út úr kirkjustríði fyrri hluta aldarinnar. Hann gekk á undan, kallaði til sín fólk, talaði við stelpur og stráka í kirkjunni, tók einn og einn til tals og tókst að hemja átök og benda til vegar.

Göngustjórinn Sigurbjörn var ferðalangur. Meistari hans kallaði hann út úr samfylgdarhópnum og fól honum síðan að stjórna kirkjugöngunni. Margir, sem komu við sögu, höfðu þó meiri áhuga á sjálfum sér en tilgangi Guðsgöngunnar og gerð lífsins. Svo voru auðvitað aðrir, sem vildu bara brenna þorp og meiða fólk. En þannig er kristnin ekki, hlutverk kirkjunnar er alltaf að efla fólk en meiða ekki.

Göngustjórinn Sigurbjörn miðlaði, að Guð er ekki aðeins ofar stjörnum – Guð er ekki heldur kenning á bók, sem hægt er að rífast um, heldur er hlý nánd meðal manna, öruggur faðmur og vermandi hönd. Og kannski náði hann að tjá meiri návistardýpt af því hann leið fyrir móðurmissi? Kannski var hann nánari fólki af því hann þekkti skortinn? Kannski var hann svo natinn við börn af því hann þekkti sviða söknuðarins? Svo horfði hann með fallegu augunum sínum á fólk og í sálur – og sýndi samfylgdarfólki ferðakort eigin sálar, veitti sannfærandi innsýn í hve trúin fléttast að dýpstu þrá okkar, mestu sorg, æðstu draumum og stærstu sælu mannanna.

Að gegna köllun sinni Sigurbjörn var ekki gallalaus. Hann hefði getað skilið frávillinga guðspjallsins í dag og freistast til brennu með þeim. Hann skildi menn, sem vildu klára mál sín áður en þeir slægjust með í trúarhópinn. Í prédikunum talaði hann oft um hve sjálfhverft fólk er og vill ekki taka við perlu lífsins, Guði. Sigurbjörn vissi af eigin reynslu að guðsflótti skilar hvorki lausn né hjartafriði. Sigurbjörn var heldur engin geðlurða – eins og hann orðaði það sjálfur - heldur geðríkur og tók stórar ákvarðanir óhikað og í góðri trú. En þegar honum skjöplaðist og hann gerði mistök var hann líka svo stór, að hann molnaði niður í afgrunn sálar og baðst fyrirgefningar. Að kunna iðrast er að vera maður. Að viðurkenna mistök, tjá þau og breyta síðan um kúrs er að fylgja Jesú Kristi. Ferðahópur Jesú hefur aldrei verið orlofshópur engla, heldur flekkaður hópur á ferð í flóknum mannheimi. Sigurbjörn lifði í þeim heimi, sem er raunheimur Guðs, og var því trúverðugur og elskuverður.

Þó Sigurbjörn stigi svo til hliðar hélt kirkjan áfram för sinni. Förumenn Jesú eiga alltaf að ganga erinda réttlætis, standa með fórnarlömbum og stemma stigu við illvirkjum. Af hverju? Það er hlutverk Jesú Krists og því allra kristinna manna í heiminum. Kristin kirkja hefur alltaf talað um að geta til ills býr í fólki. Menn, sem hefur ekki verið kippt fremst í röðina til samtals, tiltals og greiningar læðast í kirkjur og laumast til áhrifa.

Fjórða leiðin Þjóðkirkjan er á ferð til höfuðstaðarins. Nú eru skil í kristni landsins. Hvers konar samfélag viljum við byggja? Kristni er ekki sama og kirkjustofnun. Sigurbjörnsleiðin var mikilvæg. Þriðja leiðin virkaði á tuttugustu öld. Margt í boðskap Sigurbjörns er í fullu gildi, en þó eru þarfir með öðru móti en áður var. Sumar kirkjuaðferðirnar eru úreltar. Þriðja leiðin er tæmd og nýr tími að fæðast. Nú er þörf fyrir fjórðu leiðina. Knýjandi spurningum þarf að svara með skapandi hætti og hugrekki - um þjóðkirkju, um fjölbreytni í samfélaginu, um stíl kristninnar, um trúrækt, um hlutverk kristni í menningunni, ábyrgð trúar gagnvart megingildum eins og náttúru, um hlut kristni í menntun þjóðarinnar – um fjöregg þjóðmenningar og meðferð þeirra. Hvort þjóðkirkjan verður þjóðkirkja áfram er mun veigaminna mál en, að Jesús Kristur er á ferð á Íslandi og á erindi í þorp og við mannlíf þjóðarinnar.

Kirkja er ekki hús eða stofnun, heldur lifandi fólk, sem þjónar Guði og mönnum. Nú staldrar Jesús við, allur hópurinn áir. Nú eigum við að setjast niður, afbyggja, rífa niður það sem meiðir og hindrar gott mannlíf, leysa upp kerfi sem hindra óhefta samræðu, blómstrandi mannlíf og andlegt líf. Nú er ekki að vænta snillinga eins og Sigubjörns, sem gefur okkar nýja stefnu, ekki leiðtoga sem leysir málin. Aðstæður, umhverfi og inntaksástæður kalla á algera uppstokkun og fjórðu leiðina. Nú eigum við að þora að spyrja um veginn, sannleikann og lífið. Tími samtalsins er kominn, tími samfélags, gleði og líkaveislu. Þegar samfélag blómstrar þá er hið kirkjulega heilt.

Þau, sem eru í höfustað trúarinnar hasta ekki á samtal og nýjar hugmyndir, heldur er það veruleiki Guðsríkisins að orð Guðs verði hold til góðs fyrir lífið. Hlutverk kirkju og okkar er að tala um, túlka og móta hvernig það verður best unnið. Guði sé lof fyrir okkar besta fólk, því það hefur elskað og vill að við elskum Guð, lífið, hvert annað og verðum öflugir og nánir vinir elskunnar. Þannig er ferðin með Jesú Kristi sem horfir á okkur fallegu augunum sínum og segir: Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa.

Prédikun í Neskirkju 3. júlí, 2011. Um Sigurbjörn Einarson sjá t.d. greinarnar: http://tru.is/pistlar/2006/11/kennimadurinn-sigurbjorn-einarsson/

“Leiftrandi og listrænn kennimaður: Prédikanir Sigurbjörns Einarssonar í Hallgrímskirkju” (Páskablað Morgunblaðsins, 4. apríl, 1998).

2. sd. e trin. Textaröð: B Lexía: Okv 9.10-12 Að óttast Drottin er upphaf spekinnar og að þekkja Hinn heilaga er hyggindi. Með mínu fulltingi verða dagar þínir margir og árum lífs þíns fjölgar. Sértu vitur verður vitið þér til góðs en sértu spottari þá mun það bitna á þér einum.

Pistill: 1Kor 1.26-31 Minnist þess, systkin, hvernig þið voruð þegar Guð kallaði ykkur: Mörg ykkar voru ekki vitur að manna dómi, ekki voldug eða ættstór. En Guð hefur útvalið það sem heimurinn telur heimsku til að gera hinum vitru kinnroða og hið veika í heiminum til þess að gera hinu volduga kinnroða. Og hið lítilmótlega í heiminum, það sem heimurinn telur einskis virði, hefur Guð útvalið til þess að gera að engu það sem er í metum. Enginn maður skyldi hrósa sér fyrir Guði. Honum er það að þakka að þið eruð í samfélagi við Krist Jesú. Hann er orðinn okkur vísdómur frá Guði, bæði réttlæti, helgun og endurlausn. Eins og ritað er: „Sá sem vill hrósa sér hrósi sér í Drottni.“

Guðspjall: Lúk 9.51-62 Nú fullnaðist brátt sá tími er Jesús skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En menn tóku ekki við honum því að hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það sögðu þeir: „Drottinn, eigum við að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim?“ En Jesús sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: „Ekki vitið þið hvaða andi býr í ykkur. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa.“] Og þeir fóru í annað þorp. Á leiðinni sagði maður nokkur við Jesú: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“ Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“ Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“ Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“ Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“ Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“ En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“