Hvaða merkingu hefur fastan í huga okkar? Finnum við einhverja breytingu í okkar daglega lífi? Með hvaða hætti getum við markað þetta tímabil kirkjuársins, tímabil íhygli og sjálfsskoðunar, svo að við mættum verða betur búin undir fagnaðartímann, upprisuhátíð frelsarans?
Tími til innri hreingerningar Kannski hefur fastan takmarkaða þýðingu í lífi okkar. Kannski þurfum við að skapa henni rými með einhverjum hætti, t.d. með því að taka frá tíma til innri hreingerningar. Það getum við gert með daglegum biblíulestrar- og bænastundum. Fimm mínútur geta skipt sköpum, forðað okkur frá árekstrum og sjálfsskapaðri vá. Enn betra væri að geta einnig átt sér kyrrðardag eða daga, frátekinn tíma til að “ganga í sig”; leyfa Guði að blása í burtu öllu rykinu sem safnast hefur fyrir upp á síðkastið, biðja um rigningu heilags anda sem vökvi sálina heilnæmum dropum.
Við þurfum að spyrja okkur áleitinna og erfiðra spurninga. Hver er syndin í þínu lífi, syndin sem liggur við dyrnar og hefir hug á þér? Hver er sú synd sem þú – í stað þess að drottna yfir henni – hleypir að þér, gefur aðgang að lífi þínu með því að “gjöra ekki rétt”, það er gera rangt?
Hvað er það sem gerir þig niðurlúta? Hvar skortir þig á til að geta verið upplitsdjarfur, borið höfuðið hátt með hreinni samvisku? Svari hver fyrir sig.
Fyrirbærið girnd Það er girndin sem freistar, segir í pistli Jakobs (Jk 1.14) Hvar á girndin sér bólstað? Í huga okkar. Girnd margslungið fyrirbæri. Hún er ágirnd af ýmsu tæi, einhverskonar fíkn, nátengd afbrýði, öfundsýki. Hún getur verið af kynferðislegum toga, ásókn í efnisleg gæði, græðgi, óhófleg metnaðargirni, sbr. vini Jesú sem talað er um í Lúkasarguðspjalli (Lk 22.24-32).
Af því að girndin á sér uppruna í hugarfari okkar eigum við að geta hamið hana. Hún kemur ekki utan að, heldur innan frá. Hún er með einhverjum hætti hluti lífsins, þáttur þess að vera manneskja, drifkraftur að sumu leyti, en snýst fljótt í andhverfu sína. Heilsteypt manneskja ætti að geta hamið girndina, valið rétt, verið upplitsdjörf. En það eru brestirnir í okkur, sjúkleikinn, veilan sem veldur því að hugsanirnar sem eiga sér upphaf í girndinni taka yfir og við veljum rangt. Hið ranga val á sér stað þegar gælt er við þessar hugsanir, þeim gefið rými, rúm til að þroskast og dafna í trássi við rétta dómgreind.
Þarna á samviskan að koma inn með sína áminningu, stoppa okkur af, minna okkur á að hugsa rétt áður en við framkvæmum, leiðrétta hugsanavilluna, rétta upp rauða spjaldið. En samviskan dofnar og sofnar ef hún er ekki nærð rétt, nærð af Orði Guðs, biblíulestri og bæn.
Frá hugsun til gjörðar Við þurfum að þekkja ferlið frá hugsun til gjörðar, hvernig hugarfar ágirndar af einhverju tæi tælir okkur og leiðir til atferlis sem sundrar á einhvern hátt. Synd er sundrung, sundrung frá hinu “góða, fagra og fullkomna”, vilja Guðs. Synd er allt sem aðskilur okkur frá ástvinum okkar, allt sem hindrar ástina til Guðs og manneskjunnar.
Hvað er það í þínu lífi? Þessi daglegi pirringur, sem leiðir til reiði og leiðinda? Vínlöngunin, matarfíknin, klámið? Eða metorðagirndin, peningagræðgin, vinnufíknin? Hvaða sjálfhverf hugsun sem er getur verið sproti hins illa, vaxtarbroddur dauðans, ávísun á aðskilnað ástvina.
Þétt við Jesú “Sjá, ég stend við dyrnar og kný á” segir Drottinn Jesús (Opb 3.20). Það er Jesús sem á að standa við lífsdyr þínar – burt með syndina sem liggur og læðist! Jesús á að helst að vera svo þétt við þig að hann blási sínum heilnæma anda ofan í hálsmálið á þér, þægilegri en áminnandi nærveru sinni. Jesú átt þú að hleypa inn í líf þitt, ekki syndinni. Og hann biður fyrir þér að trú þína þrjóti ekki (Lk 22.32).
“Villist ekki, mín elskuðu!” (Jk 1.16).