Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Um daginn var ég að hlusta á útvarpið í bílnum þegar auglýsingar tóku við af tónlistinni og þessi orð hljómuðu: „Hann syngur alveg eins og Freddie Mercury“. Þarna var verið að auglýsa tónleika til heiðurs hinni merku hljómsveit, Queen, og listamann sem er greinilega talið það til tekna í söngnum að minna svo mikið á löngu látinn söngvara Queen.
Það er ekki oft sem auglýsingar vekja mann til umhugsunar, en það gerðist í þessu tilviki. Ég fór að hugsa um að það sé vissulega gott að eiga sér fyrirmyndir í lífinu og reyna að líkjast því sem er vel gert hjá öðrum og til eftirbreytni. Og stundum finnst manni kannski líka mikilvægt að vera „eins og hinir“ og falla vel inn í hópinn. En er samt ekki ennþá mikilvægara að vera trúr sjálfum sér og fylgja sínum eigin markmiðum og sannfæringu? Er ekki betra að finna sína eigin, sönnu og frábæru rödd en að syngja alveg eins og einhver annar – jafnvel þó að það sé sjálfur Freddie Mercury?
Svo mikið er víst að lífið væri ekki sérlega skemmtilegt ef allir væru eins. Hugsið ykkur bara ef allir væru eins og ég, sköllóttur prestur með gleraugu! Hvernig væri það eiginlega ef hér í kirkjunni í dag sætu 200 sköllóttir prestar með gleraugu?
Kæru fermingarbörn!
Þið eruð komin hingað í kirkjuna í dag til að játast því að eiga samfylgd með Jesú Kristi í lífinu og að líta til hans um fyrirmynd og leiðsögn. Það er óhætt að segja að Jesús hafi alls ekki verið „eins og hinir“ á sínum tíma.
Jesús var algjörlega óhræddur við að ögra því sem var viðurkennt í samfélaginu, ef hann taldi það nauðsynlegt. Munið þið til dæmis eftir sögunni um Sakkeus, lágvaxna tollheimtumanninn sem klifraði upp í tré til að geta séð Jesú? Þeir voru margir sem hneyksluðust á Jesú fyrir að vilja verða vinur Sakkeusar. Hið sama gerðist þegar Jesús læknaði mann á hvíldardegi; þá hneykslaðist fólkið. Og líka í öll þau skipti sem hann gaf sig að þeim sem voru fyrirlitnir, eða þegar hann tók reiðikastið í musterinu og rak út þá sem voru að græða þar á að selja fórnardýr og víxla peningum. Listinn er langur.
Ég hugsa reyndar að mörgum sem sáu eða heyrðu til Jesú hafi einmitt fundist að hann hefði þurft að reyna meira til að falla inn í hópinn meðal samtíðarmanna sinna, eða syngja með sömu rödd og aðrir. En þá hefði hann heldur ekki verið trúr köllun sinni og markmiði í lífinu.
Þegar Jesús var dáinn, risinn upp frá dauðum og síðan horfinn sjónum vina sinna hafði hann látið þeim eftir allsvakalegt verkefni. Það var að fara um allan heim og gera allar þjóðir að lærisveinum hans.
Í dag er hvítasunnudagur, hátíðisdagur heilags anda. Fjögur af fermingarbörnunum lásu hér áðan fyrir okkur ritningarlestur dagsins, frásögnina um það þegar heilagur andi kom til vina Jesú af ofsalegum krafti, í formi veðragnýs, eldtungna og tungumálakunnáttu, og fyllti þá af hugrekki til að fylgja boði Jesú og eigin sannfæringu.
Það voru aðeins örfáir vinir hans sem héldu af stað á sínum tíma til að segja öðrum frá þessum stórkostlegu hlutum, sem þeir höfðu heyrt og séð og upplifað – og gátu ekki þagað yfir. Sumir í fermingarbarnahópnum í dag eiga reyndar einmitt mjög erfitt með að þegja og geta því örugglega skilið þetta afar vel!
Þessir vinir Jesú, sem lögðu af stað til að fylgja sannfæringu sinni og markmiði um að flytja öðrum boðskapinn, þeir voru auðvitað alls ekki „eins og hinir“ í samfélaginu og féllu hvergi inn í neinn hóp. Þvert á móti mættu þeir miklu mótlæti og jafnvel ofsóknum. En þeir voru ekki einir á ferð. Andi Guðs var með þeim.
Þetta var upphafið að kristinni kirkju. Í dag væri enginn að fermast, og enginn þekkti Jesú, ef lærisveinarnir hefðu verið uppteknir af að vera „eins og hinir“ í stað þess að vera trúir eigin köllun.
Kæru fermingarbörn.
Á þessum hátíðisdegi í lífi ykkar er framtíðin ykkur hulin, en eflaust eigið þið ótal drauma innra með ykkur um hana. Ef til vill dreymir ykkur um að stofna fjölskyldu, verða ástfangin eða eiga vini til æviloka. Kannski dreymir ykkur meira um að verða til dæmis atvinnumanneskjur í fótbolta, sauðfjárbændur eða framleiðendur tölvuleikja. Og ef til vill hafið þið ekki hugmynd um hverjir draumar ykkar eru, heldur eigið eftir að uppgötva þá. Það er líka spennandi.
Ég vona að þið munið með hjálp heilags anda Guðs alltaf verða trú ykkur sjálfum, markmiðum ykkar og boðum Jesú - og geta fundið ykkar eigin, sönnu og frábæru rödd í lífinu, þó að það geti þýtt að skera sig úr hópnum til að gera hið rétta.
Guð gefi ykkur bjartar minningar frá fermingardeginum ykkar og náð til að ferðast í fylgd með heilögum anda um ókunna vegi framtíðarinnar.- Amen.
Predikun við hátíðarmessu og fermingu í Egilsstaðakirkju á hvítasunnudegi 2015.