Guðspjall: Jóh. 1: 1-14
Jólaguðspjallið vekur yndislegar kenndir í brjóstum okkar og minningar vakna um löngu liðin jól þar sem það var lesið við kertaljós við allt aðrar aðstæður en við búum við í dag. En þótt líði ár og jafnvel öld fyrir sumum þá finnum við fyrst að jólahátíðin er gengin í garð þegar kirkjuklukkurnar slá til hátíðar og aftansöngs og við heyrum upphafsorð jólaguðspjallsins lesin “En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þá er hin heilaga jólasaga efst í huga okkar flestra svo myndræn og fögur og einföld en boðskapur hennar þó svo djúpur að við komumst naumast til botns í honum, þó svo einfaldur að boðskapurinn er hulinn hyggindamönnum en opinberaður smælingjum. Það er sem að við finnum lyktina af töðunni og gripunum í gripahúsinu, asnanum, lömbunum, við sjáum fyrir okkur alþýðufólkið Jósef og Maríu, hirðana, vitringana og sjálft barnið í jötunni, sjálfan son Guðs sem Maríu auðnaðist að bera undir belti og finna hversu hann óx og dafnaði uns hún fæddi hann í þennan heim. Í lágreistri jötunni lá því hinn háleiti Guðs sonur og reiddi sig á jarðneskan móðurfaðm sem gaf honum alla þá ást og umhyggju sem hann átti til. Svo lágt var Guð tilbúinn að lúta til þess að geta reist manneskjuna við, frelsað hana úr hlekkjum syndar og dauða og veitt henni fyrirgefningu, frið og fögnuð og fullvissu um hlutdeild í þeim sigri sem vannst árla hinn fyrsta dag vikunnar þegar barnið í jötunni, maðurinn á krossinum, sá sem líkblæjum var vafinn reis upp frá dauðum.
María vissi ekkert um það hvað ætti fyrir þessu nýfædda varnarlausa barni sínu að liggja sem fálmaði með örsmáum fingrum sínum eftir móðurbrjósti. Hún, gyðingleg alþýðustúlka, hafði þó fengið hugboð um að hjálpræðið væri nær henni en hana grunaði. Það sama má segja um Jósef og hirðana sem fóru og fundu barnið og síðan vitringana sem gáfu því gjafirnar. Þeir fóru allir eftir vísbendingum. Jósef hafði miklar draumfarir og hlýddi vísbendingunum sem hann fékk þar. Hirðarnir heyrðu skyndilega himneskar raddir sem rufu vælið í hungruðum hýenunum sem ráfuðu um leitandi að bráð þar sem þeir stóðu á Betlehemsvöllum baðaðir himnesku ljósi sem rauf nætursvart myrkrið. Og vitringarnir fylgdu eftir Betlehemsstjörnunni sem vísaði þeim þangað sem för þeirra var heitið þar sem vonir þeirra rættust.
Jólaguðspjall Lúkasar er vísbending sem við fylgjum eftir á lífsins göngu og víst má segja að ef við íhugum þessa fallegu sögu og tileinkum okkur boðskap hennar að þá verðum við seinþreytt til vandræða á þessu jarðneska tilveruskeiði!
Í dag á jóladag íhugum við aðra jólasögu af borði Jóhannesar guðspjallamanns um sama atburð, sama veruleika, í ljóðformi. Í þessu jólaljóði eru stef og hugsanir svo ríkar af jólaboðskapnum að enginn spekingur hefur séð til botns í því leyndardóma djúpi þó að hvert barn geti tekið á móti þeirri gleðifrétt sem þar er að finna.
Ég veit ekki hvernig þú lest ljóð eða texta en þegar ég les ljóð þá geri ég það eins og þegar ég borða fisk. Ég borða kjötið og skil beinin eftir, annars er mér hætta búin!
Ég les í þessu tilviki jólaljóðið yfir og leyfi orðunum að verka á huga minn og hjarta með bæn til Guðs og þá eru alltaf einhver orð sem standa upp úr sem ég ætla reyndar að deila með þér í dag og ég vona að þau séu nægileg vísbending fyrir þig og mig til þess að við getum saman fundið jötu lausnarans. Þau sem ég skil ekki læt ég anda Guðs um að opinbera mér ef mér auðnast síðar að verða opnari og næmari fyrir Orði Guðs en ég er í dag.
Fyrst skal telja upphafsorð jólaljóðsins: Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði.
Í ljóðrænni stemningshendingu er okkur vísað til sköpunar heimsins og vísbending Jóhannesar er sú að Jesús sem Orð Guðs hafi verið hjá Guði fyrir sköpun heimsins og hann hafi síðan tekið þátt í sköpun heimsins því þar talaði Guð og það varð sem hann sagði. Jesús er sem sagt Orðið sem heimarnir voru skapaðir með. Fyrir hann var allt þetta gert. Jesús hefur því ætíð verið til sem órjúfanlegur hluti af guðdóminum. Þannig byrjar fyrsti jólasálmurinn lofsöng sinn um Krist.
Erfitt ekki satt áheyrandi minn, þú ert nú byrjaður að roðfletta fiskinn á disknum og senn ferðu að taka kjötið frá beinunum.
Næstu orð í jólaljóðinu sem mig langar til að deila með þér eru eftirfarandi: “Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því”.
Lífið er ekki dans á rósum, víða er myrkt í mannheimi, sjúkdómar stríða á manneskjuna og baráttan um brauðið tekur engan enda. Enginn veit sína ævina fyrr en hún er öll en einmitt þess vegna er svo gott að leyfa þessum orðum jólaljóðsins að verka á mann þar sem það segir að Guð hafi allt í hendi sér og við getum þess vegna verið þess fullviss að vera borin á örmum hans lífs og liðin. Guð er sem sagt ekki loft eða ský eða blámi himinsins heldur persóna sem við sjáum bregða fyrir í kærleiksríku faðmlagi þess sem okkur er næstur eða náungans sem við mætum á lífsleiðinni og vill hjálpa okkur þegar við þurfum á hjálp að halda. Allt þetta fólk ber með sér líf og ljós frá honum sem sagði: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið, Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu heldur hafa ljós lífsins.
Og nú kryddum við fiskmetið og innbyrðum matinn og brátt fara skinin beinin að koma í ljós. Og þá er komið að bitbeininu mesta sem hefur staðið í mannkyninu fram á þennan dag, því sem hefur komið í veg fyrir að mennirnir hafi í eigin mætti getað nálgast Guð.
En enn fremur segir í jólaljóðinu: “Heimurinn þekkti hann ekki.. hans eigin menn tóku ekki við honum”. Jólasálmurinn slær vissulega á strengi andstæðna sem er að finna í lífi okkar og ráða eilífum örlögum okkar. Hann fjallar um hólmgöngu sjálfs Guðs við myrkrið í okkur, í veröld okkar, lestina, girndina, fýsnirnar, eigingirnina, sjálfselskuna, blinduna, hatrið. Þannig mætti lengi telja. En ljósið sigrar, myrkrið verður að víkja fyrir því. Það er runnið upp eilíft ljós sem lýsir þeim sem vilja fylgja dæmi hans sem er ljós heimins. Þér eruð ljós heimsins, segir Kristur í fjallræðu sinni, þannig lýsi ljós ykkar til þess að mennirnir sjái góðvild ykkar. Á jólum erum við hvött til þess að vera kyndilberar, ljósberar frelsarans og veita birtunni þangað sem hennar er þörf í þessum heimi. Því að víða er myrkt í því hjartnanna samfélagi sem við lifum og hrærumst í. Fólk á víða erfitt og margir kvíða jólunum. Sjúklingar, öryrkjar og barnmargar fjölskyldur berjast í bökkum og eiga vart til hnífs og skeiðar í þessu svokallaða velferðarþjóðfélagi. Þessu fólki megum alls ekki gleyma á jólunum og það er gleðilegt til þess að vita hversu vel einstaklingar og fyrirtæki hafa leitast við að mæta þörfum þessara þjóðfélagshópa fyrir jólin. Hlutskipti þessa fólks ætti að vera okkur holl áminning um að vera vakandi fyrir því að rétta hlut þeirra sem af ýmsum ástæðum megna ekki að lifa í samræmi við kröfur neysluþjóðfélagsins sem eru vissulega óhóflega miklar og í engu samræmi t.d. við boðskap jólaföstunnar, hvað þá jólanna sjálfra.
Það fer vel á því að halda jólahátíð þegar hin jarðneska sól er farin að sigrast á myrkrinu. Þrátt fyrir myrkrið í mannheimi þá er birtan sem stafar frá opinni gröf Krists öllu myrkri yfirsterkari og Guð hefur gefið okkur þá náðargjöf að fá að njóta þessarar birtu og fá að ganga á hans vegum sem börnin hans sem hann vakir yfir í lífi sem dauða. Í niðurlagi jólaljóðsins sem við íhugum í dag stendur: “En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn”.
Hann kallar þig systur eða bróður, nefnir þig Guðs barn. Það skilur hvert mannsbarn sem heyrir. Það sáu þeir sem fylgdu honum. “Við sáum dýrð hans” skrifar Jóhannes postuli. Það var ekki dýrð mannsbarns sem Jóhannes sá og snerti heldur var það dýrð Guðs sem ljómaði í lífi þessa manns sem hann var samferða um stund og um alla eilífð vegna þess að hann mætti Guði í þessari lífssögu. Og fyrir okkur er það mikil náðargjöf að fá að vera þátttakendur í þessari framhaldssögu og njóta samfylgdar Jesú Krists sem fyrirgefur syndir í dag og læknar sjúka til líkama og sálar fyrir fyrirbænir trúaðra sem halda vöku sinni frá degi til dags árið um kring. Þannig ætti það að vera að t.d. kirkjuganga verði eðlilegur hluti af lífi sem flestra því að hún bætir meltinguna og hressir sálartetrið. Hver veit nema okkur auðnist þá með tímanum að innbyrða fiskinn með roði og beinum án þess að verða meint af?
Bæn er vökustund með Guði.
Vakna þú sál mín. Vaki hjarta mitt. Vaktu minn Jesús, vaktu í mér vaka láttu mig eins i þér.
Þegar við biðjum erum við að minna okkur á að Guð er hjá okkur í anda sínum. “Þú Drottinn umlykur mig á bak og brjóst... Hvert get ég farið frá anda þínum?”, segir í 139. Davíðssálmi. Guð umvefur okkur eins og birta dagsins og húm næturinnar. Guð lifir í því sem bærist með okkur. Bæn er að umgangast Guð vitandi vits, beina huga og máli til hans, tala og hlusta. Við verðum að taka þá forsendu gilda að hann sé í nánd, fyrir augum okkar hvert sem við lítum, huga okkar nær en allt sem hrærist þar.
Það er víst að Guð gengur ekki framhjá neinum eins og hann hvorki heyri né sjái. Hans hugur er opinn gagnvart okkur og því sem við erum að stríða við frá degi til dags. Jesús er tryggingin fyrir því. Og hann segir um þessi jól og ævinlega: “Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans. Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna...” Þessu megum við örugglega treysta. Friður Guðs sem æðri er öllum skilningi varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Jesú blessaða nafni.