Á sama tíma að ári er þekkt skáldsaga eftir Bernard Slade, sem hefur verið sett á fjalirnar í leikhúsum borgarinnar í nokkrum útgáfum. Flest ykkar þekkja söguþráðinn, en í stuttu máli er hún um tvo ósköp venjulega einstaklinga, mann og konu, sem hittast á hótelherbergi, þau verða ástfangin og ákveða að hittast á þessu sama hótelherbergi á sama tíma, ár hvert, þrátt fyrir að þau séu bæði gift og fjölskyldufólk. Þannig gengur það í ein 24 ár.
Ár hvert eru haldnir héraðsfundir í hverju prófastdæmi, þó ekki alltaf á sama stað, en á svipuðum tíma. Nú er ár síðan síðasti héraðsfundur var haldinn í Stykkishólmi en í dag verður hann haldinn hér í Borgarnesi. Tilgangurinn með þessum árlegu fundum er að prestar og sóknarnefndarfólk komi saman til að ræða þau málefni sem varða prófastdæmið og uppbyggingu safnaðarstarfsins í prestaköllunum. Planið var að ég predikaði á síðasta ári á mínum fyrsta héraðsfundi sem prestur. Það var planið! En það fór þó ekki svo, og nú stend ég hér.
það fer margt öðruvísi í lífi okkar en við ætlum og plön okkar standast því miður ekki alltaf. Það var heldur aldrei planið hjá mér í upphafi að verða prestur, til þess hafði ég hreinlega ekki nógu mikla trú á sjálfri mér. Það fór þó á annan veg en ég hafði áður séð fyrir, og í september 2012 vígðist ég sem sóknarprestur í Dalaprestakall. Það voru óneitanlega mikil viðbrigði fyrir borgarmær, sem alist hefur upp á malbikinu og alla tíð lifað í hringiðu menningarlífs stórborgarinnar, að flytja út á landsbyggðina. Í svo lítið samfélag sem Búðaradalur er. Þau hafa svo oft verið í umræðunni, þessi litlu samfélög út á landsbyggðinni, rétt eins og þau séu öll eins. Ég gerði mér hins vegar fljótlega grein fyrir því að svo er alls ekki. Hins vegar vissi ég auðvitað ekkert hvað biði mín í Búðardal. Hafði heyrt að þar væri ekkert við að vera, að þar væri ein bensíndæla og búið! Það hefur orðið mér æ ljósara að sú bensíndælan er í raun ágætis táknmynd alls þess sem kveikir það góða innra með okkur. Þess hef ég orðið áþreifanlega vör þann stutta tíma sem ég hef búið þar og starfað, en á þessum tíma hef ég gengið í gegnum eldskírnir, bæði í starfinu sem og mínu persónulega lífi. Guð hafði enn á ný sínar fyrirætlanir og um leið og hann rétti mér erfið verkefni upp í hendurnar leiddi hann mig inn í samfélag þar sem ég er umvafin góðu fólki.- En fyrir mig er sá tími sem ég hef til að starfa í þjónustu kirkjunnar dýrmætur, þar sem aldur minn setur mér takmörk. Mér fannst hann því nokkuð táknrænn málshátturinn sem ég dró úr páskaegginu mínu í ár: Allt má kaupa annað en tíma. – Þessi tæpu tvö ár sem ég hef gegnt starfi í Dölunum hafa hins vegar reynst mér mjög lærdómsrík og ég tel mig standa ríkari eftir. Það hefur opinberast fyrir mér í hverju hið sanna frelsi felst, felst í því að lifa lífinu óttalaust. Að okkar mestu fjötrar eru þeir sem við festum okkur í sjálf , sem geta orðið eins og hugarfarslegir rimlar. Það hefur einnig orðið mér ljóst í hverju hinn raunverulegi sigur felst, ekki í því að sigra einhvern í störukeppni eða sjómann, heldur á hann sér stað innra með okkur sjálfum. þegar við látum ekki lengur ótta og efa stjórna lífi okkar og gjörðum. Halldór Kiljan Laxnes gerir efasemdina að viðfangsefni sínu í Vefaranum mikla frá Kasmír. Þar segir: En heimur fullur efasemda var ungum manni, sem forðum leitaði sér lífsfyllingar, tilefni svefnlausra nátta. Þannig hefur eflaust saga margra verið, sem leitað hafa hinna haldbæru sanninda, þar sem blinda mannsins felst í því að trúa aðeins því sem við tökum á og jafnvel það dugar ekki alltaf til. -Hamur syndarinnar er tortryggnin.- Þetta minnir um margt á ævintýrið um hana Dimmalimm, sem flestir þekkja, um prinsessuna góðu sem dag einn fær leyfi til að kanna lífið utan hallagarðarins. Hún kemur að vatni þar sem hún hittir stóran og fallegan svan sem er mjög dapur í bragði, svo að Dimmalimm ákveður að heimsækja hann á hverjum degi. Vináttan vex, og þar kemur að Dimmalimm leysir prinsinn úr álögunum með góðvild sinni og hugrekki. Ég held mikið upp á þetta ævintýri sem mér finnst bera með sér fallega táknmynd um mikilvægi vináttunnar og þess að treysta.
Í guðspjalli dagsins fáum við að heyra af efasemdamanninum Tómasi. Tómas var einn þeirra sem vildi heldur sætta sig við það versta en að festa von sína á nokkuð það, sem ekki er alveg víst. Tómas var hlédrægur maður og fámáll og hugrekki hans kemur ekki í ljós fyrr en á hólminn er komið. Hér er á ferðinni seintekinn maður en fastheldinn, tortrygginn en tryggur, sem er svartsýnn að eðlisfari, en sannur, hreinskilinn og áreiðanlegur. Hann er maður sem er seinn til að trúa, eins og hann er seinn til að vona, en hann er heill og einlægur í elsku sinni. Hann er maður sem getur setið og vegið orð Jesú án þess að hrífast. Ekkert gat verið honum fjær en að álykta of fljótt. Þessi einkenni eru okkur mikilsverð, þegar við gerum okkur grein fyrir því á hverju tilbeiðsla Tómasar byggir. Þau sýna okkur að sá sem hæst kemst í tilbeiðslu sinni á hinn upprisna Jesú Krist, hann trúir af því að hann öðlast reynslu fyrir því sem hann áður taldi of gott til þess að því yrði trúað.
Efasemdir hafa fylgt manninum alla tíð. Lærisveinar Jesú voru þar engin undantekning. Á nýafstöðnum páskum var okkur sagt frá því hvað gerðist í hópi lærisveinanna á páskadagsmorgun, þeirri örvæntingu sem greip um sig þegar þeir heyrðu af því að gröfin væri tóm. Þeir urðu hræddir um sitt eigið líf, tóku á rás út úr borginni. Var þetta þá allt saman tómt plat? Þeir, sem höfðu borið svo miklar væntingar í brjósti um allt það sem Jesús hafði boðað þeim, um kom Guðs ríks, og trúað öllum kraftaverkunum sem hann hafði framið fyrir augum þeirra. Það rifjaðist upp fyrir þeim á leiðinni til Emmaus hvernig hann hafði fært þeim von um framtíð og hvað þeir höfðu borið miklar væntingar til þess sem í vændum var. Þeir voru svo uppteknir af vangaveltum efans að þeir tóku ekki eftir því að hann var með þeim allan tímann.
Því er svipað farið með okkur. Við berum væntingar í brjósti til framtíðar okkar og þess sem í vændum er í lífi okkar. Um að vonir okkar og þrár verði að veruleika. Við verðum oft býsna upptekin af því að velta fyrir okkur framtíðar áformum okkar, svo upptekin að líf okkar fer að snúast meira um líf í framtíð fremur en nútíð. Það sem verður skyggir á það sem er, og við missum tengslin við umhverfi okkar og samferðarfólk. Rétt eins og lærisveinarnir forðum. Það sem Kristur boðaði var í raun sáraeinfalt, hann boðaði Guðs ríki hið innra með okkur sjálfum. Já, það er stórkostleg veröld sem býr innra með okkur, í þeirri miklu vídd, þar sem við fáum upplifað alla þá dásemd sem lífið hefur upp á að bjóða. Það er á valdi hvers og eins okkar að skapa þá veröld, stjórna því hverjir búa þar og hvort þar ríki friður eða óvild, ljós eða myrkur. Það ber með sér mikið frelsi að hafa slíkt vald, en um leið er okkur á hendur falin mikil ábyrgð. Margt er það sem við sjálf fáum stjórnað um framtíð okkar, þó ekki allt. Því miður gætir ekki alltaf jafnræðis þegar við fæðumst inn í þennan heim, og mér verðu oft hugsað til þeirra sem fæðast inn í þá myrku holu sem félagsleg einangrun getur verið. Í uppafi aprílmánaðar var haldinn alþjóðlegur dagur einhverfra og af því tilefni fengum við að skyggnast inn í líf nokkurra einstaklinga sem lifa við þær félagslegu hömlur. Mér er sérstaklega minnistætt viðtal við 11 ára gamlan dreng, sem átti sér stóran draum. Sá var að byggja 6 metra langa eftirmynd af uppháhalds skipinu sínu, Titanic, úr legókubbum og til þess að draumurinn mætti verða að veruleika hafði hann útbúið videó, þar sem hann biðlaði til Legóverksmiðjunnar í Danmörku um hjálp. Í viðtalinu mátti svo vel sjá upprisuvonina ljóma úr augum og andliti drengsins, sem svaraði því þannig: Ég fæ góðar hugmyndir, þegar hann var spurður af því hvernig væri að vera einhverfur. En það er greinilega eitthvað mun meira en góðar hugmyndir sem hann fær og mér varð hugsað til þessa drengs nú á páskunum og hvernig sá vonarboðskapur sem þá er boðaður er ekki síður hin innri páskahátíð einstaklingsins, þegar upprisan á sér stað í hjarta okkar og lífi. Þegar við væntum vonar og sjáum möguleikana á því að draumarnir okkar fái að verða að veruleika. Vonin er eitt þaða dýrmætasta sem við getum eignast. - Ég hef lagt ríka áherslu á mikilvægi vonarinnar við fermingarbörnin mín. Ég hef hvatt þau til þess að fylgja draumunum sínum eftir, vera trú sannfæringu sinni og gera hlutina alltaf á réttum forsendum. Þannig fá draumar þeirra best brautargengi.
En það þarf oft að færa miklar fórnir áður en takmarkinu er náð og lífið er oft ein þrautarganga. Það vorum við mint á á föstudaginn langa, þegar við upplifðum píslargöngu Krists. En við erum einnig minnt á annað. Við erum minnt á nafnlausu mennina tvo sem voru krossfestir þennan dag, til sitt hvorrar handar honum. Það er eins og frásögnin kalli eftir nöfnum! Þá er ekki fráleitt að við íhugum hvort við eigum eitthvað skylt með þessum mönnum. Ég tel það næsta öruggt að ekkert okkar hefur unnið neitt á við það sem varð til þess að þeir hlutu sinn krossfestingardóm. En hver er sá okkar á meðal sem aldrei hefur unnið það sem rangt er eða illt í þeirri merkingu að það brjóti gegn vilja Guðs? Undan því getur trúlega enginn vikist, svo ófullkomin erum við. Við höfum öll ýmsar syndir á samviskunni. Mörgum reynast þær erfið byrgði, jafnvel þótt ekki hafi verið um ásetning að ræða, heldur það sem freisting og annar ófullkomleiki leiddi til. Að því leyti getum við öll séð okkur með einhverjum hætti í sporum þeirra ógæfumanna sem píslarsagan segir frá. En um leið er okkur sýnt hvað það er sem gjörbreytir slíkri stöðu og beinir til betri áttar. Það er þegar við viðurkennum ófullkomleik okkar og leggjum líf okkar í hendur Guði: Guð, gefðu mér æðruleysi, gefðu mér trú og styrk.
Saga Tómasar, í guðspjalli dagsins ber það með sér að líf okkar byggir á reynslu og trú okkar mótast óneitanlega af þeirri reynslu. Trúin er ekki bara huglægur veruleiki í lífinu heldur verður hún, í gegnum lífsreynsluna, áþreifanlegur þáttur í lífi hvers manns. Með henni öðlumst við trú á okkur sjálf og öðlumst með því þann innri styrk sem gerir það að verkum að við verðum uppteknari af því að styðja hvert annað fremur en að velta okkur upp úr óförum annarra. Við eigum að gleðjast þegar öðrum gengur vel og styðja þann sem hrasar. Þetta er sú ábyrgð sem Guð leggur okkur á herðar.
Í Rómverjabréfinu segir Páll postuli: Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum (Ro;.12.15). Sagt var um prest einn sem starfaði á fyrri hluta síðustu aldar að hann hafi gert þessi orð Páls að einkunnarorðum sínum í starfi. Þessi ágæti prestur þótti sinna starfi sínu af stakri prýði, var vel liðinn af söfnuði sínum fyrir það að hafa stutt vel við þá sem gengu í gegnum erfiðleika lífsins, grét með grátendum. Hins vegar var honum það ekki sérstaklega talið til tekna að hann þótti gleðjast full mikið með gleðjendum. -Sökum þess, hins vegar, hve vel hann sinnti fyrri þættinum sá söfnuðurinn í gegnum fingur sér með að gera nokkuð veður yfir hinu síðara. það sýnir hversu mikilvægt það er, að við getum fundið til með því lífi sem bærist allt í kringum okkur. Maðurinn var hann afi minn, sem var sannfærðum um það að brotin og breisk værum öll hluti af hinu fullkomna sköpunarverki Guðs. - Fullkomin í ófullkomleik okkar.
Verður þá aftur vikið að parinu sem minnst var á hér í upphafi, en segja má að þau hafi verið algjörar andstæður hins trygga og trúfasta Tómasar. Létu stjórnast af hughrifum og tilfinningasemi fremur en staðfestu og yfirvegun. Þetta er auðvitað bara farsi en gefur þó raunsanna mynd af þeirri gjá sem oft getur myndast milli hugar og hjarta.- Einhverjir lengstu 50 cm í heim. Kæru vinir, við sjáum gullið glitra allt um kring og innra með okkur sjálfum, í þeim tækifærum sem okkur eru gefin til þess að við vöxum og þroskumst sem einstaklingar. Og við uppgötvum að hinn óplægði akur er innra með okkur sjálfum, þar sem hin sanna uppskera bíður dóms Guðs. Ég vil því óska ykkur góðrar ferðar um ókönnuð lönd ykkar andlega lífs, óska ykkur góðrar uppskeru. Um leið bið ég góðan Guð að okkur megi fara sem Tómasi, að efinn verði okkur vegurinn til þeirrar trúar, sem byggir á reynslu.
Amen