Og þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.En þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti. En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við. Lúk. 22. 24-32
Við lifum á tölvuöld og sífellt verðum við háðari tölvutækninni. Tölvur eru magnaðar en þær geta líka lent í ógöngum. Á tölvunni minni get ég kallað fram á skjánum svonefndan Neyðarhnapp til að loka forritum sem ekki virka eða hafa villst af leið. Heitir það Force Quit á ensku. Þegar tölvan lendir á villugötum þá tek ég stjórnina og „drottna yfir syndinni“ eins og það heitir í lexíu dagsins.
Glímusaga Saga mannsins í jörðinni er að hluta til saga manns, sem lendir í ógöngum, villist af leið, lendir út af, verður frá sér, truflast, týnir sjálfum sér, missir marks eða syndgar eins og sú óhittni eða geigun heitir á frummáli Nýja testamentisins, grísku (hamartia).
Vandlifað er í henni veröld. Löngum hefur maðurinn leitað svara við þeirri brotalöm sem í honum er. Sagan af Kain og Abel er skýringarsögn þar sem leitast er við að skýra geigunina, óhittnina, syndina í lífi mannsins. Hún er tilraun einhvers ókunns textahöfundar til að botna í þessari brotalöm sem í manninum býr. Páll postuli glímdi við þessa togstreitu í sjálfum sér. Hann fjallar um það í 7. kafla Rómverjabréfsins að honum takist ekki að lifa réttlátu lífi. Hann langar að gera hið góða en hið vonda nær yfirhöndinni. Honum liður sem vitstola manni. Hann getur ekki lifað í eigin mætti. En lausn hans er boðuð í 8. kaflanum. Hann getur lifað lífinu í og með Kristi. Páll skynjar skyldleika sinn við þá bærður Kain og Abel. Hann er afkomandi Adams enda þótt hann hafi ekki haft ættfræðiforritið Íslendingabók til að rekja framættir sínar. Við erum öll afkomendur Adams. Sr. Hallgrímur Pétursson þekkti þá ættfærði vel þegar hann orti um ættarfylgju sína og okkar allra, dauðann sjálfan:
Afl dauðans eins nam krenkja alla í veröld hér. Skal ég þá þurfa að þenkja, hann þyrmi einum mér? Adams er eðli runnið í mitt náttúrlegt hold, ég hef þar og til unnið aftur að verða mold.
Við erum eitt mannkyn og í okkur býr sama eðli. Og er það ekki skelfilegt til umhugsunar að öll illska heimsins skuli vera sprottin úr sálarlífi einstaklinga? Morð og stríð, óréttur og hatur, ofbeldi og nauðgun, eiga sér uppruna í huga mannsins, í órum hans? Þar á það allt búsetu og þar býr klámið líka en á þó víst sem betur fer ekki lögheimili nema hjá sumum. Ill hugsun ein getur verið hættuleg og ill hugsun sem verður að veruleika er djöfulleg.
Klám-Saga sem endaði vel
Klámhundar eða „porno dogs“ eins og Kristján „heiti ég“ Ólafsson kallar þá, boðuðu komu sína til Íslands og ætluðu að eiga hér náðuga daga á einhverskonar frygðarfundi eða graðþingi en sem betur fer varð þeim ekki kápan úr því klæðinu. Deila má um hvort Bændasamtökin hafi gengið of langt í að meina þeim aðgang að Hótel Sögu. Við viljum setja mönnum skorður sem hingað koma að þeir aðhafist ekkert sem er ósiðlegt eða ólöglegt. En við þurfum að forðast það að flokka ferðamenn. Talsmenn klæmingja furðuðu sig á viðbrögðum Íslendinga og sögðust ekki ætla að brjóta lög. En lífið er meira en lög. Lífið tekur líka mið af sið og siðferði. En upp úr stendur í þessu máli að andmæli fólks sem vill vekja athygli á tengslum klámiðnaðar og vændis, mansals og sálarmeiðinga, báru tilætlaðan árangur. Og þar með endaði sú klám-Saga öll.
Klámfíkn og önnur fíkn
Klám er siðlaust. Og klám er eiturlyf, fíkniefni enda þótt það geti verið óefnislegt og bara til í huga manns sem kynórar. Í merkri, breskri, skýrslu (Family Breakdown) sem nefna má Hrun fjölskyldunnar (The State of the Nation Report: Fractured Families, December 2006) er m.a. fjallað um áhrif kláms og þar segir að það sé ávanabindandi og krefjist stöðugt stærri skammta. Klám örvar þær stöðvar heilans sem skapa vellíðan og ánægju. Klám hefur áhrif á sömu stöðvar og vímuefni. Sá sem ánetjast þarf stöðugt harðari efni eftir því sem á líður fíknina. Klámið er farið að hafa áhrif á stöðugt yngri hópa. Allt klám afskræmir Guðs góðu sköpun.
Út úr skugganum
Girndin, lostinn, klámið á sér upphaf í huga manns. Þar verður hugsunin til. Páll postuli var orðsnjall maður og hann setur þessa hugarglímu í myndrænt og náttúrulegt samhengi þegar hann líkir freistingunum við getnað, fæðingu og dauða og segir:
„Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.“
Freistingar elta okkur eins og skuggi á sólbjörtum degi. Hvernig getum við flúið freistingarnar? Hvernig getum við látið skuggana hverfa? Með því að slökkva ljósið? Það er að vísu hægt en þá tekur skugginn yfir og við veðrum umvafin myrkri. Við erum kölluð frá myrkri til jóss en ekki öfugt! (Post 26.18) Lúther talaði um að freisting væri eins og fugl yfir höfði manns. Aðalatriðið væri að láta hann ekki verpa í hárinu á sér. Hann talar þar í anda Páls um að láta freistinguna ekki dafna, gefa henni ekki færi. Og í pistlinum í I. Mósebók segir:
„Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?“ (leturbr. mín).
Hér verður hver og einn að nota neyðarstopp, Force Quit.
Líklega hefur mannkynið aldrei fyrr staðið frammi fyrir örðum eins freistingum og nú á dögum. Möguleikar manna eru meiri og stærri en nokkru sinni fyrr. Tækni og vísindi hafa fært mönnum nýja möguleika til góðs – og líka ills! Fjölmiðlar sem í eðli sínu eru hlutlausir eða skaðlausir verða annars vegar í höndum manna að tæki til góðs en hins vegar að algjöru seyruvarpi sem dreifa óæskilegu efni yfir fólk.
Nýlega voru birtar niðurstöður úr könnun sem sýndi að sjónvarpsáhorf getur haft mjög skaðleg áhrif á ungabörn. Og allt þetta dulda og ísmeygilega klám sem dælt er yfir börn og unglinga hefur skaðvænleg áhrif á þau þegar til lengri tíma er litið. Klámvæðingin er lúmsk og hún smeygir sér víða inn.
Hebresk/kristinn mannskilningur
Og nú vitna ég aftur í postulann: „Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt, en ekki byggir allt upp.“ (I Kor 10.23)
Hér erum við komin að kjarna kristins mannskilnings: Maðurinn er frjáls! Í því er vegsemd hans fólginn. En ekki aðeins vegsemd heldur vandi líka, mikill og stór vandi. „Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt.“ Þannig erum við frjáls af því að leyfa hugarórum að vaxa eins og púkinn á fjósbitanum, skapa í huga okkar myndir og sögur af ljótleika og því sem ekki byggir upp. Og meira en það. Okkur er líka mögulegt að gera hugsun að veruleika, að skapa ljót verk úr hugsuninni. Slíka sköpun leyfi ég mér að kalla „andsköpun“ og þegar við föllum í slíka freistni þá verðum við meðvitað eða ómeðvitað bandamenn andskotans sem er óvinur Guðs og alls þess sem gott er og fagurt. Losti getur leitt menn í villigötur. Orðið „losti“ á íslensku og „lost“ á ensku hafa engin tengsl en guðfræðilega tengjast þessi tvö orð því sá sem gefur sig lostanum á vald á það á hættu að verða „lost“ – og glatast.
Við höfum frelsi til að hafna Guði og fylgja andstæðingi hans. Við erum frjáls. Annars værum við strengjabrúður Guðs og gætum hvorki valið gott né illt, værum bara viljalaus verkfæri. En við erum frjáls og þar liggur vandi okkar.
Klemman og Kristur
Þetta er nú meiri klemman sem við erum í! Og því er nærtækast að segja eins og postulinn:
„Ég aumur maður! Hver mun frelsa mig frá þessum dauðans líkama?“
Páll gefst upp og hann sér enga lausn nema eina: Kristur er lausnin. Hinn fullkomni maður og fullkomni Guð. Samfylgdin við hann getur hjálpa okkur til að rata hamingjuveginn sem er fólginn í stillingu og hófsemd, yfirvegun og íhygli en umfram allt í elsku. Og sá sem elskar náungann gerir honum ekki mein, kaupir ekki klám þar sem þrælar og ambáttir eru undirokaðar, fer ekki inn á klámsíður í tölvu sinni því þær eru líka byggðar á grunni mansals, fíkn og eiturlyfjum í flestum tilfellum. Og svo mætti áfarm telja.
Hamingjan er ekki fólgin í taumleysi heldur taumhaldi. Þú átt að drottna yfir syndinni, segir Drottinn. Hver kýs ótemju ef gæðingur er í boði? Börn verða aldrei hamingjusöm í taumleysi en þau verða það þar sem réttilega er haldið um tauminn. En hver heldur þá í tauminn þegar við erum hætt að vera börn? (Ef við hættum því þá nokkurn tímann). Taumhaldið er í trúnni, hinu siðaða þjóðfélagi, náunga okkar, löggjafanum og síðast en ekki síst í því sem mestu skiptir – kærleikanum! Okkur ber að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf. Með því að hafna öllu illu, allri andsköpun, erum við að elska Guð, náunga okkar og okkur sjálf. Sá sem elskar náungann gerir honum ekki mein. Og sá sem elskar sjálfan sig ber virðingu fyrir eigin sjálfi og atar það ekki auri.
Kristur er sá sem kallar okkur út úr myrkri syndar og dauða og inn á veg ljóssins. Fylgjum frelsara okkar og iðkum samfélagið við hann í bæn og tilbeiðslu. Hann er uppspretta elsku, réttlætis og hamingju.
Hann vissi að jafnvel Pétur postuli, sá sem hann valdi til forystu og varð leiðtogi kirkju hans, var seldur undir sömu freistingar og aðrir menn. Hann vissi að Satan hafði krafist hans til að sálda hann eins og hveiti. En hvað sagði Jesús svo við hann?
„En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki.
“ Sá sem styrkti Pétur forðum og rétti hann við er hinn sami um aldir og að eilífu. Hann er hér og styrkir okkur. Hann mætir okkur í brauði og víni, fer sjálfur inn í okkur með kraft sinn og staðfestu og gefur okkur kraft til að standast freistingar. Hann er hér og vill finna þig og mig.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.