Það hlýtur að vera svolítið sérstakt fyrir ykkur, kæru fermingarbörn að setjast á bekk hér í þessari kirkju og hlusta á sögurnar og nöfnin sem tengjast henni. Neskirkja er auðvitað hluti af landslaginu ykkar, hér gangið þið um planið á hverjum degi og mörg ykkar hafið kynni af starfinu hérna. En eins og við höfum sagt við ykkur í upphafi hvers dags þá eru miklar líkur á að þið eigið eftir að læra helling áður en þið haldið svo heim á leið að kennslu lokinni.
Vita meira og meira
Það er í raun magnað til þess að hugsa að maður fari vitrari í rúmið að kvöldi en maður var þegar risið var úr rekkju að morgni! Og við reynum að miðla ykkur því sem við getum á námskeiðinu og þeim stundum sem framundan eru. Sumt hérna er jú, sérstakt, skrítið, á sér merkingu og vísar í ýmsar áttir. Húsnæðið sem við sitjum í, á fyrirmynd í gömlu tjaldbúð gyðinga fyrir eitthvað um þrjú þúsund árum. Litirnir sem þið sjáið á messuklæðum og víðar – þeir hafa eitthvað að segja.
Sagan nær langt aftur í tímann. Hérna tölum við í öldum og árþúsundum. Ég meina, við köllum rit sem tekið var saman fyrir tæpum tvö þúsund árum – Nýja testamentið!
Þó eru víða snertifletir. Hátíðir og frídagar. Trúarjátningin sem við lesum hér á eftir greinir frá atburðum sem við minnumst enn í dag með því að breyta út frá hinu hversdagslega og breytum út af vananum. Þar er minnst á atburðina á bak við jól og páska, uppstigningardag og atburði dymbilviku.
Og þá deili ég með ykkur þeirri skoðun minni hvort við mættum ekki bæta við einum hátíðardegi við þessa alla. Það eru þessi bjarti haustdagur þegar skólaklukkurnar hringja og tugþúsundir barna á Íslandi byrja skólaveturinn sinn. Þá finnst mér að lúðrasveitir ættu að ganga um torg, börn hafi blöðrur og fána á lofti, töframenn og skemmtikraftar troði upp. Upphaf skólavetrar er atburður sem snertir við lífi nánast allra landsmanna.
Sá dagur markar upphaf að heilum vetri sem á eftir móta hug barna á öllum aldri. Hugsið ykkur hvað þið eigið eftir að kunna í vor sem þið þekkið ekki núna í haust! Þá er ég ekki bara að tala um færnina, hugtökin, stærfræðiþrautirnar sem þið ráðið ekki við í dag en eigið svo eftir að leika ykkur að síðar. Heldur ekki síður krakkana sem þið eigið eftir að bæta í vinasafn ykkar, viðburðina og reynsluna sem bíður ykkar í vetur.
Þið hafið sjálfsagt heyrt þetta áður – en ég segi það nú samt – að það eru ótrúleg forréttindi að læra eitthvað nýtt í öllum þeim tilbrigðum sem orðið felur í sér.
Fræðarinn Jesús
Jesús, aðalmaðurinn hérna í kirkjunni, hann var mikill áhugamaður um kennslu. Og þegar hann vildi fræða fólk um eitthvað þá gat hann komið því frá sér á mjög eftirminnilegan hátt. Það var eitthvað mikið undir – eins og í texta dagsins – sjálfur tilgangur lífsins. Hvað er merkilegast í lífinu, hvað skiptir meira máli en allt annað. Púff… hvað hefurðu mikinn tíma? gæti einhver spurt á móti en ekki Jesús. Hann spurði jú vissulega – hvað spyrjandanum fyndist sjálfum, en svo gerði hann það sem hann var vanur að gera í þessu tilviki. Hann þjappaði saman heilum ósköpum að skilaboðum niður í eina magnaða sögu.
Í þessu tilviki – af miskunnsama samverjanum. Það er einhver áhrifamesta saga sem sögð hefur verið. Af hverju? Jú því að hún er full af ólíkindum. Hún segir okkur ekki aðeins hvernig við eigum að koma fram hvert við annað, að við eigum að rétta fólki hjálparhönd sem á um sárt að binda. Hún beinir líka sjónum okkar að fólkinu í sögunni, söguhetjunum. Prestar og levítar voru helgir menn á þessum tíma, virkilega fínir og flottir og allir litu upp til þeirra. Öðru máli gegndi um samverja. Þeir voru aðkomumenn, innflytjendur, nýbúar, hælisleitendur og það þarf ekki að vita mikið um mannlegt samfélag til að skilja að slíkt fólk þarf að hafa fyrir hlutunum. Þar kemur ekkert af sjálfu sér.
Og það sem meira er, þeir minntu Ísraelsmenn á mikinn ósigur sem þeir biðu fyrir nágrönnum sínum í hernaði. Í kjölfar hans fluttu sigurvegararnir hluta þjóðarinnar yfir í sitt land þar sem fólkið þurfti að þræla og strita. Á því svæði sem varð þá nánast mannlaust, þar settust að ýmsir hópar fólks sem fengu þetta heiti – samverjar. Þið getið ímyndað ykkur hvað þeir voru vinsælir meðal þeirra sem hlýddu á frásögn Jesú. Það skipti ekki máli hvern mann þeir höfðu að geyma, fordómarnir sáu til þess að þeir fengu ekki tækifæri til að sýna sig og sanna.
Hver er náunginn?
Sagan af miskunnsama samverjanum, þeim sem var raunverulegur náungi manninum sem varð fyrir árásinni, sá sem gerði það sem skipti máli, var vinur – fjallar í rauninni um það hvað lífið getur kennt okkur mikið. Hún er saga um menntun og lærdóm í sinni tærustu mynd. Því ekkert vinnur betur gegn fordómum en einmitt það þegar við kynnumst fólki, njótum þess að læra eitthvað sem við kunnum ekki fyrir, skynjum það góða sem býr í hverri manneskju.
Um það fjallar sagan um miskunnsama samverjann. Hann er okkur fyrirmynd um það hvernig við eigum að hjálpa öðrum og um leið verður það lærdómur fyrir okkur hvernig við getum sjálf metið fólk út frá því hvernig það er, en ekki út frá einhverjum merkimiðum sem við stundum setjum á aðra.
Þetta er með því dýrmætasta sem Jesús kennir okkur. Þegar þið hlustið á sögurnar af honum þá sjáið þið að hann er alltaf að minna okkur á að dæma ekki fólk út frá þeim hópi sem það tilheyrir, heldur gefa hverjum og einum tækifæri. Þið skulið endilega taka öllu með opnum huga sem mætir ykkur hérna í vetur. Það er ótrúlega gaman að finna að verkefnin sem við héldum að væru okkur ofviða, reynast vera viðráðanleg. Að einhverjir sem við héldum kannske vera leiðinlega eða vitlausa eru eftir allt alveg frábærir.
Og auðvitað minni ég á að í Neskirkju er hinn frábæri NEDÓ hópur sem þið megið alveg taka þátt í. Það liggur blað frammi þar sem þið getið skráð nafn og síma ef þið viljið fá sms áminningu um fund. Við erum með smámiða með dagskrá næstu funda. Ef þið mætið á NEDÓfund í ágúst eða sept þá telst það sem ein messumæting!
Að læra er eitt það allra skemmtilegasta sem við gerum í lífinu okkar og þá skiptir líka máli að gefa tækifæri og þekkja fordómana þegar þeir læðast aftan að okkur því þeir eru bara til vandræða! Samverjinn er bæði fyrirmynd að því hvernig við eigum að koma fram við aðra – að hjálpa öðrum er ekkert minna en tilgangur lífsins samkvæmt Jesú. Og í þeirri staðreynd að það var einmitt hann sem var góði gæinn í söginni leynist áminningin um að dæma engan fyrirfram heldur njóta þess að læra og kynnast fólki eins og það er.