Það var fyrir tilstilli Mæðrastyrksnefndar að mæðradagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur á Íslandi árið 1934. Í núverandi mynd á dagurinn rætur í persónulegum missi konu að nafni Anna M. Jarvis á fyrsta áratugi 20. aldar. Dagur til heiðurs mæðrum er haldinn víða um heim á mismunandi tímum en árið 1980 var ákveðið að fastsetja slíkan dag annan sunnudag í maí hérlendis. Að þessu sinni ber mæðradaginn upp á 6. sunnudag eftir páska. Ritningartextar dagsins fjalla meðal annars um að Guði er annt um heill okkar (Esekíel 37.26-28); um brennandi kærleika, gestrisni og margbreytilega þjónustu (1. Pétursbréf 4.7-11) og hjálparann sem Jesús Kristur sendir okkur frá föðurnum (Jóhannesarguðspjall 15.26-16.4).
Mæðradagsblómið Löng hefð er fyrir sölu mæðradagsblómsins í einhverri mynd. Á facebooksíðu Mæðrastyrksnefndar segir frá því að mæðradagsblóm Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur hafi farið í almenna sölu miðvikudaginn 4. maí. Allur ágóði af sölunni rennur í Menntunarsjóð nefndarinnar sem er ætlað að styrkja tekjulitlar konur til náms. Í ár hefur TULIPOP hannað fjölnota poka með mynd af mæðradagsblómi, sem er sama blómið og þær hönnuðu á lyklakippu fyrir mæðradagssöluna í fyrra. TULIPOP gefur sjóðnum vinnu sína við hönnun og umsjón með framleiðslu á pokunum og söluaðilar þiggja heldur ekki þóknun fyrir.
Göngum saman – Úr myrkri í ljós Styrktarfélagið Göngum saman er líka með fjársöfnun í dag en hún beinist að rannsóknum á brjóstakrabbameini með það að markmiði að auka lífslíkur og lífsgæði kvenna sem greinast með þetta mein. Gengið er á sextán stöðum á landinu einmitt núna milli ellefu og tólf; hér í Reykjavík frá Háskólatorgi þar sem vísindamenn sem rannsaka eðli og orsakir brjóstakrabbameins kynna störf sín. Hægt er að kaupa ýmsan varning til styrktar þessu verkefni eða reiða af hendi frjáls framlög. Þá er vert að minna á brjóstabollurnar gómsætu sem eru til sölu núna um helgina en þær eru liður í þessu verkefni með stuðningi Landssambands bakara.
Annað mikilsvert gönguframlag fór fram hér í Laugardalnum í fyrrinótt, aðfararnótt laugardagsins 7. maí. Gangan var sú fyrsta á vegum Íslandsdeildar írsku samtakanna Pieta House með það að markmiði að afla fjár til hjálparmiðstöðvar sjálfsvíga og sjálfsskaða en einnig til að minnast þeirra sem látist hafa vegna sjálfsvígs og eins þeirra sem öðlast hafa von.
Að geta gengið Smáóhapp sem ég varð fyrir fyrir skömmu – ég tognaði á ökkla og hef þurft að hlífa öðrum fætinum - vakti mig til vitundar um að það er ekkert sjálfsagt að geta tekið þátt í göngum sem þessum. Málefnin mikilvægu, rannsóknir á brjóstakrabbameini og forvarnir gegn sjálfsvígum, má auðvitað styrkja engu að síður en þá uppbyggilegu tilfinningu fyrir samstöðu og umvefjandi hlýhug sem þátttaka í slíkum göngum gefur er ekki á allra færi að upplifa.
Við sem þjótum í gegn um lífið, alveg þokkalega heilsugóð og fær í flestan sjó, gleymum því oft að það er ekki hlutskipti allra. Líkamleg, félagsleg, hugræn og geðræn færni getur breyst í vanfærni fyrr en varir og þá reynir á að gefa og þiggja hjálp og stuðning en það getur jafnvel reynst okkur erfiðara að taka á móti hjálp en veita hana. Að orða sársaukann Á mæðradaginn hugsum við líka til þeirra kvenna sem í gegn um tíðina hafa ekki þráð neitt heitar en að verða mæður en ýmislegt hefur komið í veg fyrir að sá draumur hafi ræst. Stundum hefur verið bent á að það sé hægt að finna móðurhlutverkinu farveg á svo margvíslegan hátt; til dæmis með því að veita stuðning inn í alls kyns aðstæður hjá öðrum, með því að vera skapandi í listum eða vísindum, fæða fram handverk og ritsmíðar svo eitthvað sé nefnt, og með því að rækta land eða tengsl eða faglegan metnað.
Þetta er allt gott og blessað en engu að síður vitum við að mæðradagurinn er ekki öllum konum auðveldur; heldur ekki þeim sem misst hafa barn. Það hjálpar ekki að láta eins og það sé ekki þannig, ekki frekar en á öðrum sviðum lífsins þar sem eitthvað er öðruvísi en við hefðum kosið. Við megum tala um sársauka okkar, hver sem hann er, og ég fullvissa ykkur um að til er eyra sem hlustar, hugur sem heyrir, máttur sem meðtekur.
Guði er annt um heill okkar Að Guði er annt um heill okkar kemur skýrt fram í Biblíunni, eins og til dæmis í fyrri ritningarlestri dagsins, hjá Esekíel spámanni (37.26-28): ,,Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla,” segir Guð, ,,og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá.”
Sáttmáli felur í sér gagnkvæma skuldbindingu. Guð býður frið (Jes 54.10) og kærleika, heill og líf og biður okkur á móti um að vera trúföst og heilshugar (Mal 2.5) í þjónustunni við sömu gildi, frið og kærleika, heill og líf, ekki bara okkar sjálfra heldur samferðafólksins einnig (5Mós 5.1). Þau málefni sem kallað er eftir stuðningi við um þessa helgi, menntun kvenna, rannsóknir á brjóstakrabbameini og aðstoð við fólk sem stendur frammi fyrir sjálfsvígum og sjálfsskaða, rúmast því sannarlega öll innan sáttmálans á milli Guðs og okkar um frið og kærleika, heill og líf.
Og til þess að efla okkur í sáttmálanum hefur Jesús Kristur sent okkur hjálpara sinn, parakletinn, málsvara okkar gagnvart andstæðu sáttmálans sem er ófriður, hatur, niðurrif og dauði. Hjálparinn er líka nefndur sannleiksandinn sem vitnar um Jesú Krist eins og við eigum líka að gera í orði og verki. Þetta kemur fram í guðspjalli dagsins (Jóh 15.26-16.4).
Að efla og heiðra mæður Síðari ritningarlesturinn, pistill dagsins (1Pét 4.7-11), fellur mjög vel að tilgangi Mæðradagsins, að heiðra og efla mæður í hlutverki þeirra og viðurkenna mikilvægi þess hlutverks. Þar er talað um að við skyldum vera ,,gætin og algáð til bæna” og merkir algáð hér að vera heil og sönn. Umfram allt skyldum við hafa ,,brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda.”
Svo er minnt á gestrisnina og mismunandi náðargáfur okkar, margvíslega hæfileika sem við ættum að nýta til að þjóna hvert öðru eins og góðir ráðsmenn og ráðskonur. Máttinn til þjónustu þiggjum við frá Guði og þjónusta okkar á að vera Guði til vegsemdar, því Guðs er dýrðin og mátturinn. Þetta er svona í stuttu máli það sem pistillinn fjallar um og talar auðvitað til alls kristins fólks, ekki bara mæðra.
Besta mamma í heimi Engu að síður er hér margt sem heimfæra má á móðurhlutverkið og er jafnvel lýsing á ,,bestu mömmu í heimi” eins og börnin okkar hafa sjálfsagt oft kallað okkur, eða við okkar eigin móður. Við gætum líka sett okkur þessi heilræði postulans sem markmið: Sem móðir vil ég vera gætin og heil og sönn í fyrirbæn fyrir börnunum mínum. Ég vil umfram allt hafa brennandi kærleika til þeirra hvernig svo sem líf þeirra veltist ,,því að kærleikur hylur fjölda synda.”
Ég vil vera gestrisin, örlát á tíma minn án þess að kvarta. Ég vil nota náðargáfu mína, hæfileika mína til hagsbóta fyrir börnin mín. Ég vil veita börnunum mínum þá þjónustu sem þau þarfnast á hverjum tíma og kenna þeim að þjóna öðrum og nýta þannig hæfileika sína og sérstakar gáfur frá Guði. Þannig vil ég vera góð ráðskona fyrir kærleika Guðs, flytja náð Guðs áfram til barna minna og í gegn um þau til kynslóðanna sem koma.
Þegar ég tala við börnin mín vil ég flytja þeim Guðs orð, þann lifandi veruleika sem skapar ljós og líf, styrkir, umbreytir og eflir. Þegar ég veiti hverju barni þá þjónustu sem aldur þeirra krefst, hvort sem það er að skeina bossa, bera fram mat, þvo þvott eða kenna þeim að gera þetta upp á eigin spýtur; kyssa á bágt, hlusta á vandamál og veita hlýjan faðm eða skutla í íþróttir eða vinafagnaði, þá vil ég minnast þess að Guð gefur mér máttinn til þess og sýna það með þolinmæði og fúsleika. Og hvað sem ég geri í samvistum við börnin mín vil ég að það verði Guði til vegsemdar fyrir Jesú Krist því Guðs er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.