Í nafni Guðs + föður, sonar og heilags anda. Amen. Biðjum með séra Hallgrími:
Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,
vaka láttu mig eins í þér.
Sálin vaki þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf. Amen.
Nú er aðfangakvöld allra heilagra messu. Á þessu kvöldi hengdi Marteinn Lúther upp mótmæli sín gegn spillingu kirkjunnar manna í 95 greinum. Allra heilagra messu tilheyra meðal annars þessi orð Jesú úr Fjallræðunni:
Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum. Matt 5.13-16
Þegar börn eru borin til skírnar í kirkjunni okkar hljóma orð frelsarans um að við séum ljós á eftir orðunum sem hann segir um sjálfan sig: „Ég er ljós heimsins. Hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins“ (Jóh 8.12).
Er þetta ekki merkilegt? Jesús, ljós heimsins, biður okkur um að vera með sér í því að færa ljós Guðs inn í heim sem oft virðist svo fullur af myrkri, flytja frið inn í ófriðinn, sátt inn í sundrunguna. Og ekki bara flytja ljósið heldur vera ljósið, vera ljós heimsins eins og Jesús Kristur. Hvílík köllun, hvílík ábyrgð! Og hversu oft mistekst okkur ekki að lifa þessa áskorun Jesú, ef við þá yfirleitt þorum að reyna.
Að bera ljós, að vera ljós. Á þessu kvöldi minnist kristin kirkja þeirra sem þorðu að reyna, þorðu að ganga inn í þá lífsköllun að vera ljós Guðs. Við minnumst allra heilagra, þeirra sem lýsti af, þeirra sem voru frátekin fyrir elsku Guðs á þann hátt að engum duldist. Þau eru okkar fyrirmyndir, okkar hvatning í lífinu. Þau sýndu með lífi sínu að það er hægt að vera ljós sem lýsir öllum í húsinu. Samt voru þau ekkert fullkomin í mennsku sinni, langt í frá, en fyrirmyndir í hugrekki og trúfesti.
Og við minnumst líka allra sálna, þeirra mörgu sem eru farin á undan okkur, eins og segir í gamalli bæn, og voru bara venjulegt fólk eins og við með öllum okkar kostum og göllum. Við minnumst þeirra og þökkum allt það sem þau gáfu inn í líf okkar, jafnvel það sem í bili virtist ekki vera gleðiefni heldur hryggðar, eins og segir í Hebreabréfinu (Heb 12.11: Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf).
Sum okkar hafa alist upp við eða tileinkað okkur þá guðsmynd að Guð sé eins og refsandi foreldri, að við þurfum að gæta okkar til að styggja ekki Guð. „Þú skalt ekki...“ hljómar dálítið þannig. Vissulega er ákveðin aðvörun í orðum Jesú í Fjallræðunni, ekki láta salt þitt dofna, ekki setja ljós þitt undir mæliker. En orðin eru hvatningarorð, ekki áminnandi dómur, heldur: leyfðu þér að hafa áhrif í nærsamfélaginu, vertu borg á fjalli, lýstu öllum í húsinu.
Kannski mætti segja að Guð sé eins og elskuríkt foreldri sem veitir börnum sínum heilbrigt aðhald, stuðning, umhyggju og virðingu. Slík guðsmynd er eflandi og styðjandi, já, þorðu að láta ljós þitt skína!
Í nýju sálmabókinni okkar eru fjórir sálmar eftir mann héðan úr sveitinni, Böðvar Guðmundsson frá Kirkjubóli í Hvítársíðu, sem hefur leyft ljósinu að skína. Einn sálmurinn er kvöldbæn og við gerum nokkur vers úr honum að bæn okkar hér í kvöld:
Allt er svo kyrrt og allt svo hljótt,
upphiminn, jörð og hlein.
Vertu því, brjóst mitt, vært og rótt
svo víki kvíðans mein.
Sæstu, mitt hjarta, sérhvern við
sem þig ei skilið fær.
Engill sem boðar öllum frið
fer um í kvöld þér nær.
Boðar hann kvöldsins bænarmál:
Boðar á jörðu frið.
Himneskan frið í hverja sál
þótt horfi ólíkt við.
Friður með öllum fjær og nær,
friður með þeim ég ann,
þeim sem í dagsins þys er kær
og þeim ég aldrei fann.
Allt sem leitar á huga okkar og í hjartanu býr felum við í bæn Jesú:
Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn,
til komi þitt ríki,
verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Og fyrirgef oss vorar skuldir
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.
Amen.
Hugvekja flutt í Snorrastofu að kvöldi 31. október 2024