„Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk.“(Jóh. 13.1ff)
Já, Kristur var rétt rúmlega þrítugur er hann kvaddi þennan heim, dauðdagi hans var ótímabær frá mannlegu sjónarmiði og þjáningin mikil. Líkt og ung manneskja með ólæknandi sjúkdóm á besta aldri sem veit að stundin nálgast. Við fáum að fylgjast með því hvernig Jesús fór að því að deila vitneskju sinni með vinum sínum og undirbúa þau undir að kveðja. Jesús og vinir hans höfðu deilt sorg og gleði og milli þeirra var elskandi trúnaður.
Oft er það þannig þó svo að það ríkir ást og trúnaður í fjölskyldum og vinahópum að það getur reynst fólki óyfirstíganlegt að horfast í augu við þjáninguna og endalokin. Fólk getur fundið ólíklegustu leiðir í samskiptum til þess að þurfa ekki að tala um dauðann og kveðjast. Það er auðvitað mikilvægt að halda vonina. Við eigum alltaf í veikindum og erfiðleikum að vænta hins besta en jafnframt megum við hafa þrek til þess að undirbúa okkur undir hið versta. Ég hef sem prestur í rúm 20 horft á eftir mörgu fólki í dauðann á öllum aldri. Það er merklegt ferli að fara í gegnum banalegu, líklega er fátt merkilegra en banalegan nema ef vera skyldi sængurlegan – þegar nýtt líf hefur heilsað. Enn minnast menn orða þingeyska bóndans sem lengi hafði lifað en var orðin veikur og dauðvona er hann kvað upp úr og mælti: ,,Ég hefði ekki viljað missa af banalegunni!“ Þar hafði gefist tími til að rifja upp, gera upp og kveðjast.
Að horfast í augu við dauða sinn er örugglega það erfiðasta sem við reynum, sérstaklega ef það gerist á fyrri hluta ævinnar þó það væri ekki nema vegna þess að við höfum aldrei gert það áður. Og fáir finnst okkur að sýni meiri hugarhreysti en það fólk sem getur rætt dauða sinn og undirbúið kveðju sína. Það er ekki bara hugarhreysti heldur sönn gjöf að geta undirbúið dauða sinn, sérstaklega gagnvart þeim sem fá það verkefni að lifa áfram og vinna úr sorg sinni. Hugarhreystin andspænis dauðanum felst ekki í því að vera óttalaus. Allir óttast dauðann. Það gerði meira að segja Kristur og ekki síst þjáninunga sem beið hans. Í Lúkasarguðspjalli er kvíða hans lýst er hann baðst fyrir í Getsemanegarðinum; „Og hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir en sveiti hans varð eins og blóðdropar er féllu á jörðina.“ (Lúk. 22.44)
Hugarhreysti Jesú var ekki óttaleysi heldur það að hann vissi hver sú hönd var sem leiddi hann. „Abba, faðir“ - pabbi, sagði hann við Guð á himnum. Hugarhreysti andspænis dauðanum felst m.a. í því að geta undirbúið sjálfan og aðra undir það sem koma skal og gengið frá eins miklu og hægt er til að harmþrungnir ættingjar viti að hverju þeir ganga og geti haft rými til að syrgja og mörg eru dæmi þess að ósátt hefur skapast í fjölskyldum ef ekki er vitað hvernig hin hinsta kveðja á að vera eða hvað gera skuli við jarðneska hluti og jafnframt vita hvað heiðrar minningu hins látna mest.
Guðspjöllin lýsa því hvernig Jesús undirbjó brottför sína með margvíslegum hætti. Hin svo nefnda æðstaprestsbæn sem skráð er í Jóhannesarguðspjalli í 17. kafla gefur okkur dýrmæta innsýn í þá samleið sem Jesús átti með vinum sínum er dauði hans nálgaðist. Þar eru fagrar og háleitar myndir og þar eru djúpar og viðkvæmar tilfinningar: „Faðir, ég vil að þeir sem þú gafst mér séu hjá mér, þar sem ég er.“ Eins er einkar athyglisvert að lesa í samkipti Jesú og vina hans hvernig hann brýtur ísinn og fær þau til þess að tala um dauðann: "Innan skamms sjáið þið mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þið sjá mig.“ segir hann í 15. kafla Jóhannesarguðspjalls. Lærisveinarnir fara þá að hvískra sín á milli og segja: „Hvað er hann að segja við okkur: Innan skamms sjáið þið mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins?“ Og þeir spurðust á um það hvað hann væri að fara. „Jesús vissi að þeir vildu spyrja hann og sagði við þá: ‚Eruð þið að spyrjast á um það að ég sagði: Innan skamms sjáið þið mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig?‘“ Í framhaldinu ræddu þau um dauðann og um óttann og Jesús setti orð á hryggð þeirra og líkti stöðu þeirra við aðstæður fæðandi konu sem er hughraust í þjáningu sinni því hún veit að þjáning hennar ber gleðilegan ávöxt. „Eins eruð þið nú hryggir en ég mun sjá ykkur aftur og hjarta ykkar mun fagna og enginn tekur fögnuð ykkar frá ykkur.“
Þegar dauðastrið Jesú var í hámarki stóðu móðir hans og móðursystir ásamt Jóhannesi læirisveini og fleira fólki hjá krossi hans. „Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.“ segir Jóhannes guðspjallamaður. Þarna sjáum við fordæmi Jesú í því að hann gengur frá praktískum málum. Menn telja að er þarna var komið hafi María verið orðin ekkja og Jesús felur vini sínum að reynast móður sinni tryggt bakland í ellinni. Hún var sú sem stóð honum næst.
Það er dýrmætt að vita hvernig maður geti sem best heiðrað minningu látins ástvinar. Það gerist í gegnum góð tjáskipti. Stundum hefur fólk líka lagt mikið á sig í lífinu í þágu vissra málefna og það að rækja þau í minningu hins látna getur verið öllum aðilum til blessunar. Er Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn á fjallinu gaf hann þeim skýr fyrirmæli um það hvernig minning hans í heiminum skyldi varðveitt. „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. 19Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda 20og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.“ Og skipun hans fylgdi fyrirheit: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Þannig fáum við leiðsögn Jesú um það hvernig heiðra skuli minningu hans í heiminum og eins um það hvernig við sjálf megum undirbúa eigin dauða með því að vera hughraust þótt við séum hrædd, vitandi það að hann hefur sigrað heiminn. Hann hvetur okkur líka með fordæmi sínu til þess að brjóta ísinn og vera tilfinningalega til staðar fyrir ástvini okkar með því að ræða um dauðann og setja orð á kvíða okkar, sorg, ást og von. Loks megum við læra af Jesú það að tala skýrt um eigin dauða er að honum kemur og um það hvernig minning okkar verði best heiðruð. Það hjálpar öllum.
Nú er skírdagskvöld. Kvöldið þegar Jesús fékk sinn síðasta kvöldverð. „Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessa kvöldverðar með ykkur áður en ég líð.“ mælti hann er þeir settust að borðum. Það eru djúpar og mótsagnakenndar tilfinningar tengdar þessu síðasta borðhaldi Jesú og vina hans. Hann ræðir um yfirvofandi svik lærisveinanna, þjáninguna sem fram undan er, sýnir þeim kærleika sinn með ógleymanlegum hætti er hann krýpur og þvær hverjum af öðrum um fæturna. – Þessi góða snerting Jesús, hans síðasta snerting hefur búið með þeim til hinstu stundar. Svo tók hann brauðið, gerði Guði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: Takið allir hér af, þetta er líkami minn sem fyrir ykkur er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.“ Gerið þetta í mína minningu! Þannig gekk hann í huganum inn í dauðann áður en að honum kom, leiddi nemendur sína við hönd sér um dyr dauðans til þess að venja þá við tilhugsunina. - „Þennan hring átt þú að fá þegar ég er farin“ segir móðir við unga dóttur sína. Það er viska í því fólgin að undirbúa dauða sinn og ræða hann. Það gera allir sannir leiðtogar og við erum leiðtogar barnanna okkar. - „Eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn“, segir guðspjallið, gerði Guði þakkir, gaf þeim og sagði: „Drekkið allir hér af. 28Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda. Gerið þetta svo oft sem þið drekkið í mína minningu.“ (Matt. 26.26)
Þannig leiddi Jesús lærisveina sína líka fyrir fram inn um dyr þjáningarinnar. Blóði hans yrði úthelt og þeir skyldu vita að það væri í þeirra þágu og allra manna. – blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.“ Síðan þá hafa kristnir menn komið saman um borðið eins og við gerum hér í kvöld, til þess að taka við fyrirgefningu synda sinna og staðfesta það að við tilheyrum fjölskyldu Krists í heiminum, fjölskyldu hans sem kunni bæði að lifa og deyja og hefur tekið á sig öll okkar mein og yfirsjónir, hefur borið það allt upp á krossinn og sigrað sjálfan dauðann fyrir okkur öll. Sem systkini Krists þurfum við hvorki að óttast að lifa eða deyja, sem systkini hans erum við þegar byrjuð að lifa eilífu lífi.
Amen.