Guðspjall: Matt. 8. 23-27 Lexia: Sálm. 107. 1-2, 20-31 Pistill: Post. 27. 21-25
Í guðspjalli dagsins sem lesið var hér áðan er sagt frá því þegar Jesú var með lærisveinum sínum úti á Genaseretvatni. Þá gerði vont veður og lærisveinarnir urðu hræddir. En Jesús svaf. Þeir vöktu hann og báðu hann um hjálp, því báturinn væri að farast.
Var einhver ástæða fyrir lærisveinana að óttast, þar sem Kristur sjálfur var með þeim í för?
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem lærisveinarnir efuðust eða áttuðu sig ekki á því hver Jesús var. Hann hafði margoft sagt þeim, til hvers hann væri kominn í heiminn og hver yrðu endalok hans hér á jörðu. Það virðist því vera svo að annaðhvort hafi þeir ekki trúað því sem hann sagði, eða verið svo grunnhyggnir að þeir hafi ekki skilið það sem hann hafði áður sagt þeim. En hvers vegna fylgdu þeir honum? Kristur var sérstakur. Hann talaði eins og sá sem valdið hafði, enda hafði hann vald, vald frá Guði. Lærisveinarnir lærðu þó með tímanum að þeir gátu sett allt sitt traust á Jesú. Hann var sá eini sem aldrei brást. Hann hafði gefið þeim það loforð að hann myndi vera með þeim, allt til enda veraldar, og þó svo að hann yfirgæfi jörðina þá lofaði hann að senda þeim heilagan anda, huggara og hjálpara sem yrði ætíð með þeim. Kristur mun aldrei bregðast þeim sem setur traust sitt á hann.
Sjómaðurinn þarf að geta sett traust sitt á félaga sína um borð, vegna þess að á sjó, þarf að vera traustur maður í hverju rúmi, því minnstu mistök eða óaðgæsla geta kostað stórslys. Mennirnir um borð lifa og hrærast saman eins og ein stór fjölskylda. Og oft líður langur tími á milli þess sem þeir fara í land og hitta fjölskyldur sína og vini. Einmitt þess vegna þarf sjómaðurinn að geta treyst áhöfninni um borð fullkomlega.
Okkur er óhætt að treysta Jesú, en það kostar líka að við verðum að feta í fótspor lærisveina hans og fylgja honum.
Eftirfylgd við Jesú felur það í sér að við verðum að leyfa honum að fylgja okkur. Við megum ekki hafna honum, heldur gefa honum rúm í lífi okkar. Leyfa honum að fylgja okkur á lífsleiðinni. Hafa ávallt pláss fyrir hann í lífsins ólgu sjó.
Treystið honum.
En það eruð ekki eingöngu þið sem eigið að treysta öðrum. Börn ykkar og fjölskyldur setja traust sitt á ykkur. Þið eruð í þeirri aðstöðu að þið njótið ekki samvista við fjölskyldur ykkar nema stuttan tíma í einu. Þess vegna er svo mikilvægt þegar þið eruð í landi að þið styrkið tengslin við börn ykkar, eiginkonur, ættingja og vini , með því að gefa þeim allan þann tíma sem þið getið meðan þið eruð í landi.
Guð treystir okkur mönnunum fyrir miklu. Guð setti manninn yfir sköpunarverkið, maðurinn er ráðsmaður Guðs á jörðinni. Það er skylda okkar allra að bregðast ekki því trausti. Það er hlutverk mannsins að uppfylla jörðina, vernda hana og nýta sér gjafir hennar. En við verðum að halda vöku okkar. Nú stefnir í óefni. Allskonar óhreinindum er hent í hafið og jörðin og jafnvel himingeimurinn eru að verða ein allsherjar ruslakista. Hér þarf að sporna við fæti og snúa þróuninni við. Það hlýtur að vera baráttumál allra manna og þá ekki síst sjómanna að koma í veg fyrir mengun í höfunum. Hafið hefur verið eitt helsta forðabúr okkar í gegnum aldirnar og lífsafkoma okkar og næstu kynslóða er bundin því að við getum haldið áfram að sækja á gjöful mið. Því öllum hlýtur að vera ljóst að sjávarútvegurinn er ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar.
Aðalmarkmiðin með stofnun sjómannadags voru þau að á hverju ári skyldi haldinn ákveðinn dagur helgaður íslenskum sjómönnum. Sjómannasamtökin skyldu mynda með sér samtök til að halda daginn hátíðlegan og til að fá daginn í framtíðinni opinberlega viðurkenndan sem frídag sjómanna af öllum stéttum og að dagurinnn yrði jafnframt minningardagur.
Tilgangur dagsins var tvenns konar. Að efla samhug allra sjómanna og nota daginn til að kynna fyrir þjóðinni starf sjómannsins í blíðu og stríðu og kynna fyrir henni eina af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar, sjávarútveginn.
Í öðru lagi skyldi sjómannadagur haldinn til að heiðra minningu sjómanna er farist hafa við störf sín á sjónum og þeim reistur veglegur minnisvarði, sem þjóðlegt tákn þeirra fórna, sem sjórinn hefur krafist.
Margar ræður verða haldnar víða um land í dag þar sem rakin verður saga hinna íslensku sjómanna, barátta þeirra fyrir betri lífskjörum og fjallað um það af mönnum sem best til þekkja hvað áunnist hefur í gegnum tíðina. Við getum öll verið sammála um það að lífskjörin hafa almennt batnað frá því sem áður var. Tækninni hefur fleygt fram og sjómenn búa í dag við meira öryggi en áður. En þó hefur eitt og annað gleymst frá fyrri dögum. Margir gamlir og góðir siðir lögðust nánast af með vélvæðingu flotans. Langar mig sérstaklega að minna á þann sið sjómanna að ýta bát úr vör í Jesú eða Drottins nafni. Sá siður mun hafa lagst smám saman af eftir að vélar komu í bátana. Mörgum fornum siðum og venjum hefur verið haldið hátt á lofti hér á landi, þrátt fyrir að nú séu breyttir tímar frá því sem var, þegar siðirnir og venjurnar voru hluti af daglega lífinu. Finnst mér vel við hæfi að sjómenn taki upp þennan gamla góða sið að ýta úr vör með bæn til hans sem yfir öllu lífi ræður og vakir yfir okkur sérhverja stund. Guð kemur til hjálpar þegar við áköllum hann. Ef við treystum því, þá er vel. Það hafa margir fengið að reyna, ekki þá síður til sjós en lands. En hver sá sem hefur reynt Drottinn, hefur þá skyldu að þakka honum og lofa hann. Og til þess eruð þið komin hér í dag. Í dag berið þið honum vitni, þakkið honum og tilbiðjið.
Margir segja að sjómenn hafi mjög góð laun og þurfi ekkert að vera að kvarta. Og ég viðurkenni það vel, að þegar góður vinur minn, fyrrverandi sjómaður sagði mér frá upphæð sem hann fékk fyrir mjög góðan túr, þá öfundaði ég hann. En síðar varð mér ljóst að ekki voru þetta nein ósköp fyrir alla þá vinnu sem hann hafði innt af hendi,hvað þá heldur hvort þetta væri þess virði með tilliti til allra fjarverustundanna frá fjölskyldunni.
Ég lít svo á að sjómennirnir færi miklar fórnir til þess að sjá fyrir sér og sínum, og ekki síður til hagsældar fyrir þjóðarbúið í heild. Því tel ég að þegar rætt er um sjómannsstarfið þá eigi ekki eingöngu að ræða krónur og aura.
Kirkja Guðs er oft táknuð sem skip í myndmáli og ekki að ástæðulausu. Áhafnarmeðlimirnir eru margir og eins misjafnir og þeir eru margir.
Menn af misjöfnu þjóðerni eru hásetar á sama bátnum, og margir tala ekki sama tungumálið. Menn jafnvel rífast meira að segja um það hver eigi að fá mestan hlut og stærstan, þegar upp verður staðið. Meira að segja prestarnir biskuparnir og yfirmenn hinna ýmsu kirkjudeilda verða líklegast aldrei alveg sammála um ýmis guðfræðileg ágreiningsmál.
Á sjónum lútið þið vilja skipstjórans, en á skipi lífs ykkar eigið þið að lúta stjórn þess skipsstjóra, sem er Kristur sjálfur. Munið ávallt eftir því að hafa Guðs orð fyrir leiðarstein í stafni og þá mun hann vel fyrir ykkur sjá. Setjið traust ykkar á hann og hann mun veita ykkur góða heimkomu í dýrðarríki sitt, er þið leggið í síðustu sjóferðina.