Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: „Friður sé með yður!“ Þegar hann hafði þetta mælt sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir er þeir sáu Drottin. Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ Og er hann hafði sagt þetta andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar fyrirgefur Guð þær. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar synjar Guð þeim.“ En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin.“ En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“ Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“ Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“ Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“ Jóh 20.19-30
Bænin
Þú varst mér það, sem vatn er þyrstum manni, þú varst mitt frelsi' í dimmum fangaranni og vængjalyfting vona barni lágu og vorsól ylrík trúarblómi smáu.
Ef einhver þig ei ennþá fundið hefur, sem öllum ljós í dauðans myrkrum gefur, ó, veit þá áheyrn veikum bænum mínum, og vísa þeim að náðarfaðmi þínum. Amen.
Svona yrkir Ólína Andrésdóttir í sálminum sem við þekkjum mörg svo vel. Þú varst mitt frelsi í dimmum fangaranni. Það er einmitt stefið á 1. sunnudegi eftir páska.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen
Kæri söfnuður, kæra samstarfsfólk safnaðarins og kæri sóknarprestur, séra Valgeir, þökk fyrir að taka á móti mér og leyfa mér að predika hér í dag í Seljakirkju. Vísitasía vígslubiskups snýst fyrst og fremst um trúarlífið í söfnuðinum en ekki efnahagslífið og þess vegna ætti vígsubiskupinn auðvitað fyrst og fremst að hlusta en ekki tala og predika, en það vill bara svo til að ég þekki það af eigin reynslu að hér af þessum predikunarstól er ekki verið að boða neitt annað en fagnaðarerindið hreint og ómengað, algjörlega án nokkurar útþynningar. Ég þarf ekkert að hlusta neitt sérstaklega eftir þvi. Það verður líklega það fyrsta sem ég mun taka fram í þeirri skýrslu sem ég set saman að lokinni heimsókn í Seljasöfnuð og prestakall. Sóknarpresturinn var mér samtíða í guðfræðideild að hluta til, og presturinn var meðal minna bestu nemanda meðan ég var kennari við þá sömu deild. Ég þekki predikarana.
Það er einnig sérstaklega ánægjulegt að takast á hendur vísitasíu við hliðina á prófastinum séra Gísla og njóta hjálpar hans og reynslu. Ég þakka honum það.
Ég leyni því ekki að mér er það persónulegt gleðiefni að vitja Seljakirkju og kirkjumiðstöðvar í þessu samhengi hér og nú. Ég minnist þess hversu glaður ég var þegar ég fékk upplýsingar um það á sínum tíma hvaða hugmyndir kirkjubygginganefndin hafði um það hvernig skyldi byggt. Ég bjó þá í Þýskalandi og hafði heillast af ýmsum hugmyndum og byggingum þýskra safnaða í uppbyggingunni eftir stríðið. Þær voru sumar ekki óáþekkar þeim sem hér voru kynntar, og byggðu á sama skilningi á söfnuði og kirkjustarfi og hér.
Sú vongleði sem ég fylltist við þá kirkjusýn sem ég fann að bjó að baki byggingaáformunum blandaðist reyndar mjög persónulegum kringumstæðum mínum. Eldri sonur okkar hjóna var nýfæddur, og mér fannst ég loksins vera orðinn fullorðinn og hefði fengið verðugt verkefni fyrir lífið. Eins og allir vita sem eiga börn þá verður til ný tegund af guðssamfélagi og guðsskilningi við það. Mér fannst það hljóma með í þeim skilningi á þörfum safnaðar og samtíma sem kemur fram í þessari byggingu. (Og svona innan sviga má geta þess að það var líkast til alveg rökrétt að yngri sonur okkar fæddist um sama leyti og þessi kirkjumiðstöð var vígð árið 1987.)
Hugsunin að baki byggingunni er um hinn heildstæða söfnuð og líf hans og uppbyggingu, og vitnisburð til heimsins. Og heill hans er friður hans. Friður sem vex af réttlæti og sannleika. Hér er opið út til allra þátta mannlegs lífs og vegferðin sem lagt er upp í við hið helga altari er víð og breið og faðmar allan heiminn.
Guðspjallið í dag sem lýsir lærisveinunum bak við læstar dyr í sjálfvalinni dýflissu óttans, og þeirri opnun sem verður til við það að Jesús sjálfur, sem engir múrar hefta, né læstar dyr eða grafarmold, leysir frá óttanum og fjötrununum. Það er lykillinn að allri predikun og boðun fagnaðarerindisins um hinn upprisna Drottinn Jesú Krist, en nákvæmega í þeim punkti sameinast allir kristnir menn, þótt þeir væru ósammála um allt annað.
Við séra Valgeir höfum aðeins einu sinni svo ég muni haft ólíkar skoðanir á einhverju viðkomandi fagnaðarerindinu. Það var meðan við vorum samtíða í guðfræðideild. Við gengum samferða dag nokkurn frá Háskólanum upp eftir gömlu Hringbrautinni þangað til komið var á hringtorgið sem kallaðist Miklatorg, ef ég man rétt, þar sem leiðir skildu. Á leiðinni og um stund við hringtorgið deildum við um mismunandi meðferð á kantötu Jóhanns Sebastian Bach: Í dauðans böndum Drottinn lá, eða Christ lag in Todesbanden. Ég man reyndar alls ekki um hvað við vorum ósammála, svo að ekki hefur það rist mjög djúpt, en það snérist um túlkun. Ég nefni þetta ekki bara vegna þess að þetta er skemmtileg minning, heldur vegna þess sem er kjarni alls safnarlífs og starfs, sem er að ljúka upp ritningunum og túlka samhengi ritninganna og samtímans og þeirra sem eru viðstödd hverju sinni. Svo að fagnaðarerindið megi móta kirkjustarfið og allt safnaðarlífið.
Í því samhengi gildir einu hvort lesið er eða sungið. Fallega lesinn texti er tónlist. Skilin á milli texta og tóns hverfa þegar texti er fluttur með skilningi. Það er þegar textinn grípur flytjandann svo að heyrandinn grípur hann einnig. Það er túlkun. Og túlkun texta er predikun sem nær hæst í hinni eiginlegu predikun. Líf safnaðar er predikun. Predikun til heimsins.
Í hvert sinn og við opnum bók bókanna og lesum Orð Guðs verður til vísir að predikun. Þða er vegna þess að lesturinn einn og sjálfur er túlkun og þar með útlegging og predikun. Orð Guðs talar sjálft til þess sem les eða heyrir. Undirbúið eða ósjálfrátt velur lesarinn sér áherslur eftir því sem textinn talar til hans í þeim tilgangi að opnast fyrir áheyrendum. Strax þar verður verk andans augljóst. Grundvöllur predikunarinnar er að skilningi hinna fornu kirkjufeðra að andinn sé á tungu predikarans og í eyrum áheyrandans. Þar sem þetta gerist og þar sem predikari er fús að lúta vilja og leiðsögn andans þar er predikað hreint og ómengað fagnaðarerindi, í samræmi við það sem við heyrðum um í guðspjalli þessa sunnudags. Eins og Jesús Kristur er sendur til jarðarbarna, sjálfur Orð Guðs, sendir hann postulana með heilagan anda og með heilögum anda, og þeir senda aðra, koll af kolli allt þessa í anda og með anda. Jesús sagði: Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.
Atburðurinn sem lýst er í guðspjallinu er svo þrunginn af merkingu og táknum og kjarnaatriðum kristinnar trúar að engin leið er í lítilli predikun að benda á allt sem máli skiptir. Ég bið ykkur bara, kæri söfnuður að taka Biblíuna í hönd og lesa sjálf síðustu kafla Jóhannesarguðspjalls og einkum þann 20. En samt ekki fyrr en þessari messu lýkur.
Að luktum dyrum kom lausnarinn til lærisveinanna forðum og bar þeim miskunnarboðskap sinn með blessuðum friðarorðum. Um læstar dyr kemst lausnarinn enn, Guðs lög þótt standi' í skorðum. (Sálmur Sb 159. Valdimar Briem)
Þau voru bak við læstar dyr. Eins og segir í guðspjallinu: og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga.
Að vera bak við læstar dyr, merkir að þau voru í fjötrum. Í fjötrum óttans. Ef dyrum er læst skiptir engu hvort þeim var læst að utan eða innan. Það er enginn munur á þeim fjötrum sem aðir leggja á mann og þeim sem maður leggur á sig sjálfur, - nema kannski að það er enn erfiðara að losna úr þeim sem maður leggur á sig sjálfur. Kristur kemur til þín af því að þú ert í fjötrum. Hann er lausnari, af því að hann leysir og færir þér lausnina. En þú segir kannski: Ég er alls ekki í fjötrum. Þetta er bara einhver vitleysa.
Hann leysir líf þitt frá gröfinni. Það eru sjálfir fjötrar mannlegs lífs sem hér er um rætt. Þá fjötra tók Kristur á sig til að slíta þá, svo að við mættum losna frá þeim.
Í dauðans böndum Drottinn lá, frá dauða svo vér sleppum, en upp reis dauðum aftur frá, svo eilíft líf vér hreppum. Í Guði því oss gleðjast ber og gjalda þökk og syngja hver af hjarta: Hallelúja. (Sálmur Sb 157, Helgi Hálfdanarson)
Er ég þræll, eða er ég frjáls maður? Svar: Ég er leysingi og þess vegna bæði þræll og frjáls maður í senn. Það er fleira sem felst í orðum guðspjallsins um að leysa. Þar er talað um að leysa og að binda. Kristur leysir, Kristur bindur.Kristur sendir.
Það væri hægt að dvelja lengi við orð Jesú Krists sem hann segir við lærisveinana eftir að hann blés á þá og sagði. Meðtakið heilagan anda. Það eru orðin um lyklavaldið, sem hann gefur kirkju sinni. Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar fyrirgefur Guð þær. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar synjar Guð þeim.“ Það er bara eitt sem þarf að nefna um þetta í svona stuttri predikun. Lyklavaldið er ekki bundið við persónur eða embætti, þó að persónum og embættum sé falið að annast það í kirkjunni. Lyklavaldið er bundið við orð Guðs og trú þess sem það heyrir.
Þess vegna segir presturinn í skriftunum þar sem iðrunin fær fullkomnun í fyrirgefningunni: Trúir þú að orð fyrirgefningarinnar sem ég mæli til þín sé fyrirgefning Guðs? Geti hinn spurði sagt já við því, segir presturinn: Verði þér sem þú trúir.
Og þá verður friður og sátt. Friður.
Friður er fornt germanskt orð sem málsögulega á lítið skylt við Pax á latínu þótt notað sé. Friður sem er pax merkir fyrst og fremst sáttmála um jafnvægi. Friður sá sem hér um ræðir er friður Guðs. Gjöf hans, gjöf hans í Jesú Kristi. Þeim friði verður ekki tæmandi lýst með orðum. Enda segjum við: Friður Guðs sem æðri er öllum skilningi.
En við getum stundum, kannski oft, séð hvernig hann virkar.
Friðurinn sem Jesús Kristur nefnir og gefur er friður sem byggir á réttlæti og sannleika. Það verður enginn friður neinsstaðar, hvorki í einkalífi, fjölskyldulífi, safnaðarlífi, kirkjulífi, eða lífi heilla þjóða og þjóðabandalaga, nema það ríki réttlæti og sannleikur og á því sé byggt, bæði ákvarðanir og samskipti. Ef við snúum þessu við þá er alveg víst að það verður ófriður þar sem ríkir óréttlæti og byggt er á ósannindindum.
Með öðrum orðum. Allt það sem ekki á heima í söfnuði og kirkju sem er líkami Krists á jörðu. Þess vegna gefur Jesús Kristur okkur frið sinn hvert eitt sinn og við komum saman.
Við stóðum forðum skólabræður við Miklatorg, þar sem umferðin kom saman, mættist og skildist í sundur. Það hefur verið gæfa okkar að mega vera öll þessi ár við það sanna Miklatorg þar sem Kristur mætir söfnuðinum. Ekkert Miklatorg er dásamlegra en guðsþjónustan, stefnumót Guðs og manns og að fá að deila út Kristi í Orði hans og sakramenti, þar sem þiggjandinn er hann sjálfur í söfnuði sínum, sem er líkami hans á jörð. Kirkjan.
Síðasta versið í sálminum Í dauðans böndum Drottinn lá, (sem reyndar er ekki lengur í sálmabókinni) og í kantötunni: Christ lag in Todesbanden dregur vel saman það sem segja þarf á þessum degi:
Því páskahátíð höldum vér með helgri trúargleði, og tignum hann sem líf oss lér og lækning veita réði Nú dagur skín en dimman þver í dalnum syndamyrkurs er nú heiðskírt. Hallelúja.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen