Um daginn boðaði Guðrún Einarsdóttir, 82 ára gamall ellilífeyrisþegi og öryrki til margra ára til blaðamannafundar. Ástæðan var sú að hún stóð frammi fyrir því að ráðstöfunartekjur hennar myndu lækka úr tæpum 177.000 krónum niður í rúmar 53.000 krónur, vegna þess að hún var lögð tímabundið inn á hjúkrunarheimili. Kerfið virtist greinilega gera ráð fyrir að heimili hennar gufaði einfaldlega upp á meðan! Þar að auki er hún á biðlista eftir varanlegu plássi á hjúkrunarheimili, og vegna þess fær hún hvorki hjólastól, né sérsmíðaða skó sem hún þarf til að geta gengið, því að hjúkrunarheimilið (sem hún er ekki komin inn á) á að sjá henni fyrir slíku. Þannig að kerfið virðist líka gera ráð fyrir því að Guðrún geti bara legið í rúminu á meðan hún bíður, í íbúð sem hún getur hvorki greitt af leigu, né hita og rafmagn á 53.000 krónum á mánuði. En Guðrún var ekki af baki dottin og neitaði að taka þessu þegjandi og hljóðalaust. Hún bað um fund með velferðarráðherra, fékk reyndar allra náðarsamlegast að hitta aðstoðarmann hennar, og kom þar á framfæri athugasemdum sínum og áhyggjum. Þetta bar þann árangur að hún fékk framlengingu á lífeyrisgreiðslum í þrjá mánuði. Ég viðurkenni að saga þessarar konu særir réttlætiskennd mina og mér finnst skammarlegt að folk komið á hennar aldur skuli þurfa að glíma svona við kerfið.
Ég veit ekki hvort þið, kæru vinir, hafið upplifað einhverjar svipaðar aðstæður og Guðrún Einarsdóttir. Þær einskorðast aldeilis ekki við aðstæður eldri borgara eða öryrkja, margir í samfélaginu okkar upplifa mikið óöryggi og óréttlæti, en þar að auki fylgir því ákveðið óöryggi og kvíði þegar efri árin færast yfir. Margir kvíða því að missa sjálfstæði sitt, verða byrði á öðrum, missa heilsuna, geta ekki lengur notið lífsins. Og það jafnvel þótt við sem samfélag segjum (alla vega í orði) að við viljum búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Ég veit ekki hvort lærisveinar Jesú hafi haft miklar væntingar um áhyggjulaust ævikvöld. Alla vega ekki þegar þau voru saman komin í Jerúsalem eftir að Jesús hafði verið krossfestur og lagður í gröf. Sennilega hafa þau mörg verið óttaslegin og hrædd um að röðin myndi koma að þeim næst, að hermenn myndu koma og handtaka þau sem fylgjendur Jesú. En við skulum ekki gleyma því að lærisveinar Jesús voru ekki aðeins karlmenn á besta aldri. Meðal lærisveina Jesú voru líka konan sem Jesús hafði læknað af blóðlátum. Ekkjan frá Nain sem hafði misst son sinn og sá fram á elliár í fátækt og örbirgð. Bartímeus blindi sem hafði eytt mörgum arum í niðurlægingu við betl, og fleira fólk sem hafði verið á þeim stað í lífi sínu að ekkert var eftir nema örvæntingin. Eina von þessa fólks var um kraftaverk, og þá von hafði Jesús uppfyllt. En svo kom krossfestingin. Og aftur upplifði þessi hópur fólks, eldri borgara og öryrkja þessa tíma, að kerfið krossfestir alltaf þá sem berjast fyrir bættum kjörum hinna kúguðu. Kerfið sem birtist í aðstoðarmanni ráðherra sem stendur vörð um valdið með því að hleypa gamalli konu ekki lengra en að sinni eigin skrifstofu, á meðan þeir sem hafa peningana og völdin virðast hafa greiðari aðgang að ráðherranum sjálfum. Kerfið sem birtist í aðstoðarmanni ráðherra sem kallar gamla konu, ófæra um gang inn á skrifstofu til sín, í stað þess að koma til hennar, þótt leiðin inn langan ganginn sé henna tíu sinni erfiðari en honum, fullfrískum manninum. Og kerfið vinnur alltaf að því að viðhalda sjálfu sér. Að viðhalda valdaöflunum og viðhalda peningaöflunum. Það sjáum við í átökunum á landinu okkar í dag. Átökum milli valdaaflanna, peningaaflanna, og fólksins sem er að berjast fyrir bættum kjörum sínum.
Jesús birtist lærisveinunum. Hópnum sem í voru fullfrískir karlmenn og konur, en líka eldri borgarar og öryrkjar. Og hann boðar þeim frið. Friður sé með yður! Segir hann við þau. Og hann sýnir þeim sárin á höndum og fótum, og biður um mat að borða. En svo er hann upp numinn til himna. Farinn frá þeim! Eða hvað? Það að Jesús steig upp til himna segir okkur nefnilega ekkert um það hvar Jesús er. Það segir okkur miklu meira um það hver Jesús er. Jesús situr við hægri hönd Guðs. Jesús er Guð. Og þarmeð er Jesús ekki bundinn stað og stund. Það þýðir að Jesús hefur ekki yfirgefið okkur. Það segir okkur líka svolítið um Guð. Ef Jesús er Guð, þá er Guð líka allt það sem Jesús stóð fyrir. Guð er sá sem berst fyrir hina kúguðu, sá sem stendur með hinum fátæku og snauðu. Sá sem býður valdaöflunum birginn, gagnrýnir græðgi og misnotkun.
Og áður en Jesús var uppnuminn til himins, blessaði hann þau. Blessunin er merkilegt fyrirbæri. Hugsið ykkur, í hvert einasta sinn sem þið komið til kirkjulegrar athafnar, þá þiggið þið blessun. Og þetta er sama blessun og Jesús gaf lærisveinum sínum, sama blessunin og hann gaf börnunum þegar hann sagði leyfið börnunum að koma til mín. Sama blessun og öll born fá hér við skírnarfontinn í kirkjunni þegar þau eru borin til skírnar. Og þetta er sama blessun og þið munið þiggja þegar þið rísið úr sætum og þiggið hina Drottinlegu blessun. Hugsið ykkur. Í hvert einasta skipti sem þið komið í kirkju þá þiggið þið þessa blessun. Það er ekki einhver töframáttur fólginn í henni, við verðum ekki að einhverjum andlegum eða trúarlegum ofurmennum við að þiggja blessunina. En hún er samt raunveruleg. Raunveruleg gjöf. Gjöf frá þeim guði sem stendur með þér. Stendur með þér þegar þér finnst þú vera undirokuð, kvíðin, hrædd. Þetta er blessun sem þú tekur með þér þegar þú gengur héðan út. Þú skilur hana ekki eftir í kirkjunni, hún fylgir þér héðan út í lífið. Og þetta er blessun sem veitir þér kjark og styrk. Hvort sem það er til að halda blaðamannafund, skrifa ráðherra bréf, safna undirskriftum eða til þess að takast á við hvað svo sem það er sem þú þarft að takast á við í þínu daglega lífi. Þetta er blessun sem gefur þér styrk til þess að yfirvinna ótta og kvíða. Þá blessun tekur þú með þér í hvert einasta skipti sem þú gengur út úr Guðs húsi.
Dýrð sé Guði, sem stendur með þeim sem minna mega sín.