Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn. Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga. Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor. En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum. Lk. 16. 19-31
Bæn. Mikli Guð, sem himnarnir rúma ekki, en kemur þó til okkar og ert okkur nálægur í orði þínu, við biðjum þig.
Allt í kringum okkur eru orð. Hjálpa okkur að heyra þína rödd meðal allra þeirra sem tala til okkar og vilja hafa áhrif á okkur, svo að líf okkar megi tilheyra þér og að það sé borið uppi og mótað af kærleika þínum sem við mætum í Jesú Kristi. Þér sé lof og dýrð að eilífu. Amen
Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Enn höfum við haldið þjóðhátíð. Enn höfum við beðið spennt eftir veðurspánni og enn spenntari eftir þvi hvort hún rætist. Enn höfum við fagnað yfir hverri stund sem þurr og hverjum regndropa sem er smár.
Rigningin er hluti af vitundinni um íslenska þjóð, frelsi hennar og framtíð. Rigningin er samofin frelsisbaráttusögunni. Þess vegna er rigningin á Þingvöllum allt öðru vísi en önnur rigning, eins og Jón Óskar orðar svo snilldarlega í Vorkvæði um Ísland :
Einn dag er regnið fellur mun þjóð mín koma til mín og segja manstu barn mitt þann dag er regnið streymdi um herðar þér og augu og skírði þig og landið til dýrðar nýjum vonum þann dag er klukkur slógu, ó, manstu að þú horfðir á regnið eins og spegil sem speglar þig og landið í kristalstærum dropum þann dag er lúðrar gullu með frelsishljóm, ó, manstu þann dag er regnið streymdi og regnið var þinn spegill og regnið var þitt sólskin um herðar þér og augu þann dag er landið hvíta varð frjálst í regnsins örmum og gleðin tók í hönd þér í sólskins örmum regnsins.
Einn dag er regnið fellur mun þjóð mín koma til mín; einn dag er regnið fellur
Kæri söfnuður. Ríki maðurinn í guðspjalli dagsins þráði regnið. Hann sem hafði átt fulla kjallara af dýrustu vínum, þráði ekkert heitar en að einhver dýfði fingri sínum í vatn að kæla tungu hans.
Í dag er einskonar þjóðhátíðarsunnudagur. Dagur til að hugsa um þjóð og land og trú.
Er samhengi á milli ríka mannsins og Lasarusar annarsvegar og þjóðar og kirkju í þessu landi hinsvegar. Já, og nei. Það getur semsagt vel verið, en það er ekki þar með sagt að það skili nokkru að leita að því, nema ef útkoman væri með þeim hætti óvænt að hún skilaði sér í heiðarlegu endurmati beggja á raunverulegri stöðu sinni.
Það er óhjákvæmilegt að taka eftir og taka til greina að það er gjá á milli ríka mannsins og Lasarusar. Bæði í lifanda lífi þeirra og eftir dauða þeirra. Það er gjá skelfinganna.
Það er ekki gjá á milli þjóðar og kirkju í þessu landi, en það er gliðnun í gangi.
Það er mikið lán að mega vera prestur á Þingvöllum, ekki bara þegar er þjóðhátíð. Þar mætir sagan samtímanum, þar er kristnitakan daglega nærri, þar mætir sköpunin skaparanum, þar mætir himininn jörðinni, þar mætir jarðsagan sköpunarsögunni og þar mætir Evrópa Ameríku.
Þar gliðnar á milli. Enginn sér það, enginn finnur það, en þó gliðnar í sundur og enginn getur stöðvað það nema sá sem heldur heiminum í hendi sér. Kannski er það eins með þjóð og kirkju. Kannski er gliðnunin ekki bara milli þjóðar og kirkju heldur einnig innan beggja?
Hvað er þjóð? Er það ættstofn eða kynstofn, litur eða lögun, eða bara fólkið í landinu. Óskandi væri að það væri einmitt það: fólkið í landinu. Það eina sem hindrar gliðnun í þeim hópi sem við getum kallað fólkið í landinu er að skipta honum einmitt ekki upp í liltar ólíkar einingar eftir lit og lögun, aldri og kyni, uppruna eða ætterni.
Hið sama gildir um kirkjuna, Hún er ekki einsleit og þar er líka gliðnun ef við horfum einungis á það sem við erum ósammála um, en það sem sameinar er það sem skiptir máli. Kristur. Kristur einn, trúin eina, ritningin ein. Grundvallaráherslur okkar kirkju.
Hitt er annað mál að samspil þjóðar og kirkju er að breytast að því leyti að sá hópur fólksins í landinu sem ekki er hluti af kristinni kirkju fer sívaxandi. Í ýmsum byggðarlögum og bæjarhverfum eru tveir af hverjum tíu ekki með, og þegar byggja á kirkju eða taka stórar ákvarðanir aðrar er í vaxandi mæli horft til þess í svonefndu gjaldendalíkani til framtíðar. Miklu alvarlegra er þó það hversu stór hluti þessara átta af hverjum tíu er ekki heldur með, nema í besta falli þegar kemur að útförinni, af því að í síðasta lagi þá skiptir máli hvað tekur við, eða hvort yfirleitt eitthvað tekur við.
Sendu til bræðra minna og láttu segja þeim að gæta að sér, það er alls ekki svona víst að allra bíði óheft sæla. Þetta fattaði sá ríki heldur seint.
Þetta er aðvörun um að hætta ekki að vanda sig við ákvarðanir sínar hér á jörðu. Dagurinn kemur sem leiðir í ljós hvað ákvörðun gærdagsins leiddi af sér. Hann kemur alltaf.
Frásögn Lúkasar um ríka manninn og hinn fátæka Lasarus er vandasamur texti til útleggingar. Hér verðum við mjög að gæta okkar. Freistingin er stór að reyna að lesa út úr henni eitthvað allt annað en þar er sagt eða að reyna að gera að sérstöku aðalatriði eitthvað það sem textinn gerir alls ekki. Sá sem ritar, sér og notar myndrænar líkingar sem hann veit að þau sem voru í kringum hann þekktu og skildu. Eins og það er honum minnisstætt verður það viðmælendunum skiljanlegt. En við erum til dæmis alls ekki upplýst um það hvers vegna ríki maðurinn lendir í vondum stað. Það er alveg örugglega ekki bara vegna þess að hann er ríkur. Og við vitum heldur ekki hversvegna hinn fátæki Lasarus endaði í faðmi Abrahams, sem þýðir einfaldlega á máli Biblíunnar í hinu himneska öryggi, í traustum faðmi hins himneska, hinnar himnesku huggunar. Kirkjan hefur þess vegna á liðnum öldum gjarna sungið sönginn um Lasarus við útför og í sálumessu. Það er söngurinn: In Paradisum deducant te angeli, og mörg okkar þekkja í ýmsum myndum. En Lasarus hafnar alveg örugglega ekki þarna á himnum bara vegna þess að hann var á jörðu hinn fátæki Lasarus. Þetta guðspjall fjallar ekki um eitthvert meint félagslegt réttlæti sem myndi heita: hinn fátæki verður ríkur, en en ríki verður fátækur, - eða: hinn ríki fer til vítis en hinn fátaki til himna, eða vondir menn eru ríkir en góðir fátækir, eða ríkir menn eru vondir en fátækir góðir, - svoleiðis ræður höfum við heyrt og vitum að þær eru bull.
Það er eftirtektarvert að ríki maðurinn hefur ekkert nafn í sögunni. Það er engin úttekt gerð á ævi hans . Það er ekkert sagt um hann nema að hann dó. Þess má vænta að útför hans hafi verið gerð með mikilli viðhöfn, meðan að Lasarus hefur sjálfsagt kvatt í kyrrþey.
Það er alveg víst að Drottinn Jesús Kristur var ekki heldur að segja þessa sögu til þess að gefa okkur upplýsingar um mismunandi ástand mannanna að loknu þessu lífi. Hann var ekki að því til að sýna okkur inn í þann heim sem hulinn er handan mæra lífs og dauða.
En sagan bendir mjög skýrt á nokkur atriði sem nauðsynlegt er að hugleiða: Hið fyrsta er þetta: Maðurinn, þú eða ég, við tökum ákvarðanir hér á jörðu sem geta verið mjög afdrifaríkar.
Hinn ríki maður hefur fyrir sitt leyti mjög afgerandi skilning á ástandi sínu og þeim stað þar sem hann er. Það tilheyrir einkennum vítis að vita hvar maður er og sjá að Lasarus er í skauti Abrahams . Það er hinsvegar næsta vafasamt að halda því fram að það tilheyri hinni himnesku sælu að mega horfa á þau sem kveljast í helju..
Þaðan finnst engin leið og engin brú yfir glúfrið. Stóra gjáin, eða hið mikla djúp, sem það er kallað, er mynd hins endanlega aðskilnaðar. Þessvegna er þýðingarmest að hafa hér og nú stað og frest til þess að taka ákvörðun um það hvoru megin við gjána maður vill vera.
Kæri söfnuður, það virðist alls ekki vera ríkjandi viðhorf að það skipti máli hvar við lendum eftir dauðann, eða að við getum hér og nú haft einhver áhrif á það. Miklu fremur virðist það vera ríkjandi skilningur meðal þeirra sem á annað borð láta sig himininn nokkru varða, að við hljótum öll að lenda þar. Samt syngjum við oft um þetta gamansöng: Úr fimmtíu senta glasinu, og við mættum oftar hugleiða hvað þar er sagt. En við látum eins og það muni alltaf verða til einhver kelling sem þykir svo vænt um okkur, þrátt fyrir bresti og illa breytni, að henni muni takast að skulta okkur inn í himininn eins kerlingunni í ævintýrinu tókst að koma sálinni hans Jóns inn fyrir hið gullna hlið.
Sagan um ríka manninn og Lasarus er engin dæmisaga í venjulegum skilningi og er ekki dæmi til eftirbreytni líkt og dæmisagan um miskunnsami samverjann.
Sagan sýnr okkur hinsvegar hvernig fullkominn aðskilnaður getur orðið milli tveggja einstaklinga á jörðu sem hefur áhrif eftir dauðann. Rétt eins og ákvörðun um stundarhagsmuni getur valdið óbætanlegu tjóni í framtíðinni.
Það er gjá á milli ríka mannsins og Lasarusar. Bæði í lifanda lífi þeirra og eftir dauða þeirra. Það er gjá skelfinganna. Aðeins einn getur brúað þesa gjá. Sá sem sjálfur steig niður í dýpi dauðans og örvæntingarinnar og predikaði fyrir öndunum í helju. Jesús Kristur. Hann sem opnaði dauðraríkið, stillti hitann í Helju og leysti bönd dauðans.
Við höfum komið samn hér í kirkjunni í dag í hans nafni, fyrir hans augliti, og heyrt hann sjálfan tala til okkar í orði sínu.
Orð hans er aðvörunarorð. Það felur í sér boðskap um líf og dauða og sýnir okkur hveru mikið djúp þar er á milli. Að menn kunni að lenda á misjöfnum stöðum eftir andlátið eru engar fréttir, að það komi einhver frá hinum dauðu til að segja fréttir, finnst honum heldur engar fréttir, fréttirnar felast í því að við skulum taka ábyrgð á lifi okkar hér og nú, að við skulum ekki hegða okkur heimskulega allt lífið eins og við myndum ekki uppskera eins og til er sáð.
Hvað þýðir það nákvæmlega fyrir þjóð og kirkju í þessu landi og sambúð þeirra og samvinnu?
Um þjóðina tala aðrir, og margir af viti. Við horfum á kirkjuna. Hversvegna fjölgar þeim sem gliðna frá kirkjunni innan frá? Af því að kæruleysið og afskiptaleysið gagnvart kristnum sannindum og nálægð Jesú Krists sjálfs vex. meðal þeirra. Og afhverju er það ? Það er ekki síst vegna þess að við sem berum ábyrgð í kirkjunni, stöndum okkur ekki. Við sem berum ábyrgð, það eru ekki bara prestarnir og starfsfólkið og sóknarnefndirnar heldur sérhver sá sem tilheyrir söfnuðinum. Við öll sem þjónum söfnuðum og kirkju í ýmsum ólíkum hlutverkumþ
Við höfum öll sofnað ofan á seðlabunkanum.
Og hvert er stærsta hættumerki þjóðkirkjusafnaðanna.? Þegar söfnuðurinn heitir ekki lengur sóknarbörn heldur gjaldendur, þegar markmiðin eru framkvæmdir og rekstur en ekki lífið sjálft, barnafræðslan, fermingarfræðslan, trúaruppeldið, umhyggjan með þurfandi fólki, veiku, gömlu, lasburða, og kjarni trúarinnar. Jesús sjálfur í miðju starfinu.
Hvað er kirkja? Það er Jesús Kristur á gangi í söfnuðinum. Þar á hann heima. Þetta er húsið hans. En hann á heima hjá fólkinu sínu, og þar eigum við að hitta hann.
Guð gefi að regnið megi minna okkur á þetta. Á frelsi þjóðarinnar og frelsi trúarinnar.