Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi og gleðilega þjóðhátíð. Ávallt fer vel á því að við Hafnfirðingar, hvaðan sem við eigum uppruna okkar að rekja, komum saman hér í Hellisgerði á þjóðhátíðardegi 17. júní. Hér nemum við höfga angan gróandans. Héðan fáum við séð yfir bæinn okkar fagra, horft móti hamrinum trausta og út á höfn og haf, horft yfir byggð og bæ, smáu og stóru húsin, séð kirkjur og klaustur sem vísa með turnum sínum í himin og hæðir. Héðan fáum við litið vítt yfir en einnig öðlast annars konar sýn. Á þjóðhátíðardegi fáum við greint gleggra en endranær þau þýðingarmiklu lífsverðmæti sem felast í sjálfstæði þjoðarinnar og frelsi hennar.
Við fáum vonandi einnig séð hvers þarf með til að gæta þess að fjötrast ekki á ný og varðveita og nýta frelsið til heilla í nútíð og framtíð. Í 65 ár höfum við Íslendingar sem sjálfstæð þjóð í lýðfrjálsu landi getað skapað okkar eigin giftu og mótað dagana eftir því sem afl og auður huga og handa hafa dugað til hverju sinni.
Við höfum ávaxtað dýran menningararf sem forsendu að okkar sérstæða mannlífi, er gefur okkur sjálfsvitund og sjálfsmynd þrátt fyrir mismun okkar að öðru leyti.
Ég vil elska mitt land,/ég vil auðga mitt land,/ég vil efla þess dáð,/ég vil styrkja þess hag,/ég vil leita þess þörf,/ ég vil létta þess störf,/ég vil láta það sjá margan hamingjudag. Við tökum fagnandi undir þessa játningu og heitstrengingu með söngglöðum Þröstum.
Sjaldan hefur það verið brýnna en núna, þegar efnhagsþrengingar kalla á mikla eindrægni og þjóðarsamstöðu. Umskipti eru mikil í þjóðarbúskapnum frá því í fyrra, þegar við Hafnfirðingar fögnuðum 17. júní á 100 ára afmælisári bæjarfélagsins í þökk og bjartsýni, alls óuggandi um að ský drægi brátt fyrir sólu. Þjóðfánar blakta þó við hún og börn halda nú sem þá fagnandi á blöðrum og fánum hér í Hellisgerði.
Mér er það minnisstætt, þegar ég sem lítill drengur hélt í fyrsta sinn á litlum fána 17. júní. Mér fannst sem ég yrði allur stærri og meiri við það að halda honum hátt á lofti.
Mér hafði þá nýlega verið sagt hvað litir fánans táknuðu og var það til að auka enn virðingu mína fyrir honum.
Blái liturinn táknaði himinn og haf, sem umlyki eylandið, rauði liturinn eldinn í yðrum jarðar og hvíti liturinn jöklana og snjóinn. Mér þótti sem allt landið væri á einhvern áhrifamikinn hátt fólgið í þessum litum, en hitt vissi ég ekki fyrr en síðar, að annað mátti einnig lesa úr þeim. Blái liturinn gæti táknað himin Guðs, rauði liturinn fórnfýsi og kærleika og sá hvíti sannleika og drengskap. Athyglisverðastur væri þó krossinn í miðjunni, sem minnti á Jesú Krist.
- Aldraður Hafnfirðingur sagði mér frá því fyrir stuttu, að hann hefði nítján ára farið ásamt góðvinum sínum á lýðveldishátíðina á Þingvöllum 17. júni 1944 á vörubílspalli. Þeir hefðu mjög notið einstakrar sögulegrar stundar í þjóðarhelgidóminum þrátt fyrir hellirigningu og drullusvað svo sem tug -þúsundir landsmanna. En daginn eftir hefði verið hlýtt í veðri og glampandi sólskin og þá hefðu menn spókað sig glaðbeittir í höfuðborginni fánum skrýddri og horft bjartsýnir fram þrátt fyrir heimsstríð, sem setti mikið mark á íslenskt þjóðlíf.
-Þýðingarmikið í allri menntun og þroskamótun er að fræða uppvaxandi kynslóðir um sögu þjóðarinnar frá fyrstu tíð. Þeim þarf að segja frá kristnum pöpum, sem helguði frelsaranum landið og landnáms- og fornmönnum, Agli, Gunnari, Bergþóru og Njáli, Melkorku og Kjartani. Þau áttu sér bæði norrænan og keltneskum uppruna, er skýra kann geðslag og hátterni okkar Íslendinga, einurð okkar, festu og þrautseigju en líka ævintýraþrá, draumlyndi og skáldskaparhneygð.
Dýrmætt er líka að miðla þekkingu á lífi þjóðarinnar á ófrelsisöldum og einnig sjálfstæðibaráttu hennar og svo framfararsókn á liðinni öld, kreppu og stríðsárum og umskiptunum miklu eftir fullveldið og einkum lýðveldistofnunina. Segja ber frá sigrum og fórnum, djarfri sjósókn og sjóslysum líka, þorskastríðum og sigursælli baráttunni við herveldið breska, sem tryggðu yfirráð yfir fiskislóð og sjávarauðlindum við landið, er gera þá kröfu að ávallt sé vel með þær farið.
Jafnframt er brýnt að rækta vel og viðhalda þeirri tungu þjóðarinnar með hverri nýrri kynslóð, sem geymir lífsreynslu hennar og þau lífsgildi, sem eiga ser stoð í trúarlegri vitund hennar.
-Síðustu ár, eða allt frá merkum alda- og þúsundáramótum, var þó sem áherslur breytust mjög í samfélaginu. Dag hvern fræddu fjölmiðlar okkur um stighækkandi efnhagsvísitölur. Á árum áður, svo sem margir muna, voru aflatölur fiskveiðiflotans og skipafregnir á líkan veg daglega í fréttum og gáfu til kynna þjóðarhaginn. Útrásarvikingar voru hinar nýju hetjur og fyrirmyndir, sem hösluðu sér víðan völl, breyttu viðmiðunum og juku líkt og við landamæri Íslands. Svo mjög reyndar, að það var sem þungamiða ekki aðeins viðskipta heldur menningar þess væri í útlöndum. Í takt við útrás og örvandi tíðaranda fylgdu margir hillingum um auðfenginn auð og hagsæld. Efnhagsgildi viku öðrum til hliðar, svo að ójöfnuður jókst og misrétti. Og íslensk tungu var talin til verulegra trafala í arðbærum viðskiptum í hnattvæddum heimi enda fór útrásin fram á ensku.
Afturkippur og kreppa virtust víðsfjarri þangað til að kreppan skall á með miklum þunga, þegar bankaútrásin stóðst ekki fjármálaólgu og stórviðri og reyndist ekki byggð á traustu bjargi heldur hvikulum sandi. Hún kolsigldi þjóðarbúinu eftir að bresk stjórnvöld beittu enn einu sinni ofríki og ofbeldi í stað þess að leita sanngjarnra lausna. -Við gættum ekki að hættumerkjum og flutum ,, Sofandi að feigðarósi” svo að vitnað sé í heiti nýúkominnar bókar.
Á undan efnahagshruni gætti alvarlegs siðferðisbrests og rofs sem hrunið afhjúpaði.
Það fólst í upphafningu mammons-verðmæta, hlutabréfa og vísitalna, en uppflosnun mannlífs og menningarróta.
Mér þótti fróðlegt í þessu samhengi að sjá fræðslumyndina um Sögu Loftleiða. Framþróun Loftleiða og vöxtur var enginn bóla falsaðra verðmæta heldur afrakstur arðbærs flugrekstrar, er sýndi sig í miklum farþegafjölda og fjölþættri ferðastarfsemi. Munur er á því að byggja á traustu bjargi eða gljúpum sandi. Bjargið er Guðs viska og blessun segir kristin trú. Ljós hans skerpir aðgát og árvekni, samviskusemi og viljann til að láta gott af sér leiða fremur en að hygla sjálfum sér.
,,Draumlandið” getur verið í augsýn þrátt fyrir skipbrot og kreppu en stefna verður rétt að því með einlægri trú og lífsvirðingu að leiðarljósi.
Merk heimildarkvikmynd með þessu nafni, sem mið tekur af samnefndri bók, sýnir tignarlegt og hrífandi íslenskt landslag og fjölbreytt en viðkvæmt lífríki þess. Þar er sú skoðun sett fram á sannfærandi hátt, að „auðgildi og tæknileg viðhorf til verðmæta rýri önnur og dýpri verðgildi, því að ríkidæmi mælist ekki aðeins í peningum heldur í þvi hvort menn kunni að gefa lífi sínu, umhverfi og menningu merkingu og gildi.” –Raunsönn kristin lífssýn og verðmætamat gefa slíkt til kynna. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? hefur hinn krossfesti og upprisni frelsari spurt og sagt: Leitið fyrst ríkis Guðs og réttlætis. Einlægir sannleiksleitendur og föðurlandsvinir taka undir þau sjónarmið og gera þessi sígildu orð Einars Benediktssonar að sínum:
Hver þjóð, sem í gæfu og gengi vill búa/ á Guð sinn og land sitt skal trúa.
Efnhagsleg hagsæld er mikils um verð en jafnframt og ekki síður traust lífsgildi, þroskuð og næm samviska, hlýtt hjarta, þrek og þor til að láta gott af sér leiða, og sú lífs- og trúargleði sem gleðst og fagnar því að mega lifa í von og trú.
-Hvað segjum við börnunum? Við getum ekki leynt erfiðleikunum fyrir þeim, en mest um vert er að segja þeim hversu mikils virði þau séu og miðla þeim ekki öryggisleysi og ótta heldur hlýju og ást sem burt rekur óttann. Segjum þeim frá Íslandi, fegurð þess og undrum, segjum þeim frá Hafnarfirði, og líka Hafnarfjarðarbröndurum, sem eru jafn þunnir og þeir eru til þess auðvitað, að Reykvíkingar geti skilið þá.-
Kennum börnunum bæjarsönginn góða og þjóðsönginn. Komum með þau hingað í hrífandi Hellisgerði og niður á smábátahöfn til að horfa yfir bæinn, einnig í Kaldársel og að Búrfelli, upp á Helgafell og í Krýsuvík. Segjum þeim sögur og kennum þeim bænir, svo að þau fái nærst af uppsprettu og ljósi lífsins, sem er Guð.
Kennum þeim að elska landið sitt sem dýrmæta gjöf hans, sögu þess og þjóðarinnar og blæbrigðaríka íslenska tungu, svo að þau vaxi og þroskist sem þjóðhollir Íslendingar, líka þau sem eru aðflutt úr öðrum löndum. Þannig má best tryggja, að þau missi ekki áttir þótt sæki fram í veröldinni, er fram líða stundir og öðlist traust og raunsönn verðmæti í hjarta sér og sálu og nýti veraldleg gæði, sem þeim verður treyst fyrir, lífi og landi til gagns og gleði. Megi svo verða í Jesú nafni. Amen.