Ármann: Ég hef verið æskulýðs-og forvarnarfulltrúi hér í Vídalínskirkju í þrjú ár. Ég hafði áður kynnst hjálparstarfi kirkjunnar og bæði á Íslandi og Indlandi. Æskulýðsstarfið hefur þróast þannig síðustu misseri að hjálparstarf hefur orðið kjarninn í starfinu með börnunum og unglingunum. Það má meðal annars nefna það að börnin og foreldrarnir í sunnudagaskólanum ákváðu með okkur hér í kirkjunni að ættleiða barn á Indlandi og hjálpa því til náms.
Torfey: Bíddu! Eru þau ekki búin að ættleiða fjögur börn?
Ármann: Alveg rétt! þau eru svo svakalega dugleg að mæta með tíkalla með sér og gefa í baukinn að það þróaðist þannig að sunnudagaskólinn er núna búinn að ættleiða fjögur börn.
Inga: Hvað heita þau?
Ármann: Gobi,_Gundu, Yamini og Santhi
Torfey: Ég vinn í sunnudagaskólanum og mér finnst þetta verkefni gefa öllu meira gildi í því sem við erum að gera. Það er miklu lærdómsríkara fyrir krakkana að við hjálpumst öll að við að styðja krakkana í Indlandi enn að segja bara að við eigum að vera góð við náunga okkar.
Ármann: Það hefur verið merkilegt fyrir mig sem fullorðna manneskju að kynnast hugsjónum og hæfileikum unglinganna í Garðabænum. Þetta er metnargjarnt fólk sem vill láta gott af sér leiða. M.a. hafa verið stofnaðar hér tvær hljómsveitir Xodus og 11.boðorðið sem hafa safnað peningum til að leysa þrælabörn úr ánauð á Indlandi og núna erum við að safna fyrir munaðarlaus börn í Úganda ásamt æskulýðsfélaginu. Fyrir utan öll verkefnin sem gospelkórinn hér við kirkjuna hefur styrkt.
Inga: Ég hef tekið þátt í æskulýðsstarfi Vídalínskirkju í fjögur ár eða síðan ég var 13 ára. Fyrst og fremst finnst mér þetta starf hafa kennt mér mikið í mannlegum samskiptum.
Torfey: Ég hef verið í starfinu í þrjú ár og ég tek líka undir þetta. Ég finn t.d. í sunnudagaskólanum hvað bæði það að þurfa að kenna og hjálpa börnunum, kennir mér mikið. Maður er að æfa sig í mannlegum samskiptum.
Inga: Mér finnst líka frábært að sjá að það er mikið fordómaleysi í kirkjunni og einn af fáum stöðum þar sem það skiptir engu máli hver þú ert eða hvernig þú ert, þú getur samt verið hér. Svo er kirkjan líka staður þar sem maður getur komið og verið og gleymt sér svolitla stund frá öllu því erfiða sem gerist í heiminum.
Ármann: Síðastliðinn þrjú ár hafa unglingar í æskulýðsstarfinu hér hjálpað til sem sjálfboðarliðar hjá hjálparstarfi kirkjunnar við jólaútlutunina og staðið sig ótrúlega vel.
Torfey: Það snerti mig mjög mikið að sjá hvað margt fólk þurfti á hjálp að haldi. Ég trúði því ekki að það væri til svona mikil fátækt á Íslandi.
Inga: Mér finnst þetta eitt af því merkilegasta sem ég hef tekið þátt í. Þetta er nauðsynlegt í jólaundirbúningnum að fá að hjálpa til hjá Hjálparstarfi Kirkjunnar. Þetta gaf mér ótrúlega mikið.
Ármann: Ég veit að þið veitið líka mikla gleði í þessu starfi. Við hér í kirkjunni höfum verið mjög stollt af ykkur.
Torfey: Ég held að það sé mjög mikilvægt í öllu unglingastarfi að kenna okkur að setja okkur í spor annarra og gefa okkur tækifæri til að reynast öðrum vel. Við getum stundum verið ótrúlega eigingjörn.
Inga: Já! Láta muna um okkur. Svo er þetta líka fjör, við skemmtum okkur við að vinna að verkefnunum. Það gleður okkur að gleðja aðra. Það kom mér mjög á óvart að það væru til börn í þrældómi t.d. á Indlandi. Sem færu upp í skuld foreldranna. Það er bara hræðilegt.
Torfey: Mér finnst líka að með þessu hjálparstarfi hefur maður lært að meta betur það sem maður á. Mér finnst að fullorðna fólkið í kringum okkur eigi líka að vera duglegt að benda okkur á aðstæður þeirra sem lifa við erfiðleika. Það er góður undirbúningur undir lífið.
Ármann: Í lok síðasta árs afhentu krakkarnir í æskulýðsstarfinu 400 þúsund til Hjálparstarfs kirkjunnar til þess að leysa þrælabörn úr skuldaánauð. En núna er farið af stað nýtt verkefni sem er söfnun og fræðsla um aðstæður munaðarlausra barna í Úganda. Ástæðin fyrir því að Úganda varð fyrir valinu hjá æskulýðsfélaginu var sú að í haust fengum við heimsókn í kirkjuna frá David og Kristín sem eru frá Úganda. Þau voru hér á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar og fóru víða um landið til þess að fræða unglinga í kirkjunni okkar um aðstæður fólks í Úganda og sérstaklega um aðstæður barna.
Þau sögðu okkur frá því að Hjálparstarf kirkjunnar hefur um nokkurra ára skeið stutt verkefni sem snýst um að hjálpa börnum sem misst hafa báða foreldra úr alnæmi og búa ein. Áhersla er á að bæta lífsskilyrði þeirra með því að reisa handa þeim íbúðarhús með grunnhúsbúnaði og eldaskála með sérhönnuðum hlóðum sem spara eldsneyti og helstu áhöldum; auka á hreinlæti á heimilum með því að gera kamra og hreinlætisaðstöðu og fræða um samband hreinlætis og smithættu. Einnig á að auka aðgang að hreinu vatni með því að koma upp safntönkum við hús.
David og Kristine eru frá Rakai-héraði í Úganda. David er yfir starfseminni þar og ólst sjálfur upp við mikla fátækt eins og Kristine en hún er ein þeirra barna sem naut aðstoðar hjálpastarfsins og komst í skóla og er núna sjálf orðinn kennari. Á starfssvæði þeirra er ætlað að séu rúmlega 500 heimili þar sem báðir foreldrar hafa dáið úr alnæmi og börnin búa ein.
Með hverju 2.500 kr. framlagi er t.d. hægt að veita einu heimili efnislegan stuðning með fatnaði, áhöldum og reglulegri ráðgjöf fullorðins sjálfboðaliða. Sjálfboðaliðinn er þjálfaður til verksins og er sá eini sem kennir, styður og huggar þar sem engir eru foreldrarnir. Börnin þurfa mismikla aðstoð eftir aðstæðum. Söfnunarfé er varið þannig að það komi börnunum sem best.
Heimsókn David og Krisine hafði mikil áhrif á unglinganna hérna í Vídalínskirkju og því var ákveðið að búa til hjálparsstarfsverkefnið “Lítum eftir hvert öðru” og á það að vera í gangi út árið 2009.
Ég er ótrúlega stoltur af börnunum í sunnudagaskólanum, og unglingunum í kirkjunni og fullorðna fólkinu hér í Garðabæ fyrir ykkar þátt í því að gera heiminn betri. Við getum kannski ekki hjálpað öllum en allir geta hjálpað einhverjum. Þó hver og einn láti af hendi litla upphæð verða þær stórar þegar saman koma og þegar þessum peningum er varið í hjálparstarf erum við svo sannarlega hendur Guðs í þessum heimi. Litlar upphæðir geta breyst í mögnuð kraftaverk fyrir þau börn sem fá hjálp og hef ég sjálfur séð það bæði þegar ég var á Indlandi og í Úganda með hjálparstarfi kirkjunnar.
Núna í sumar ætla ég svo að flytja aftur út til Indlands og vera þar í um hálft ár og fara svo yfir til Úganda og vera þar í annað hálft ár. Ég og konan mín erum að gera heimildarmynd um krakkana og unglingana hér í Vídalínskirkju og hjáparstarfsverkefnin þeirra og ætlum að sýna krökkunum á Indlandi og í Úganda. Þar ætlum við svo líka að fá að sjá hvernig þeir fjármunir sem hafa safnast hér í Vídalínskirkju, eru notaðir og hvernig það breytir lífi þeirra barna sem fá aðstoð. Síðan þegar við komum heim getum við blandað þessum heimildarmyndum saman og sýnt ykkur mynd bæði um ykkur og börn og unglinga á Indlandi og í Úganda.
Ármann. Hvernig lýst ykkur á það stelpur.
Inga: Bara mjög vel,
Torfey: og við hvetjum bara fólk til þess að taka virkan þátt í þessu verkefni okkar.
Ármann. Já og núna vil ég bara þakka ykkur fyrir aðstoðina Inga og Torfey og ykkur krakkar fyrir að hafa verið svona dugleg að hlusta.