Og hann sagði við þá: Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar, að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum.Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar.Og hann sagði við þá: Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi,og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem.Þér eruð vottar þessa.Sjá, ég sendi fyrirheit föður míns yfir yður, en verið þér kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum.Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá.En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins.En þeir féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði.Og þeir voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð. (Lúk 24.44-53)
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Sunnudagaskólanum í kirkjunni var ný lokið.
Sunnudagaskólakennarinn hafði verið að segja börnunum frá atburðum uppstigningardags, þegar Jesús varð uppnuminn og steig upp til himna. Jóhann litli, 7 ára snáði, gekk fyrir framan kirkjuna í þungum þönkum, hann var að velta þessu fyrir sér, sem hann hafði heyrt og allt í einu sagði hann: “Pabbi, hvað heldurðu að Jesús hafi þurft að taka langt tilhlaup til að hoppa alla leið upp í himininn”?
Það eru ekki aðeins börnin sem hafa velt vöngum yfir uppstigningardagsfrásögninni, fullorðið fólk á öllum öldum hefur horft í hæðir og spurt, hvernig hefur þetta gerst. Listamenn hafa spreytt sig á þessu og margar myndir og málverk eru til um þetta efni. Ímyndunaraflið hefur farið á flug aftur og aftur á öllum öldum.
Jú, það var frægt, þegar Gagarin fór út í geyminn fyrstur manna og tilkynnti heimsbyggðinni að hann sæi hvergi Guð. Og nútímamaðurinn, hvernig hugsar hann um “himininn”?, miðað við allt, sem fólk veit og kann um náttúrufræði, stjörnufræði, já vísindi almennt.
Er ekki boðskapur uppstigningardags hreinlega of gamaldags og einfeldningslegur til þess að hægt sé að bera hann á borð?
Nei, - ég tel alls ekki. Boðskapur þessa dags er ómissandi fyrir trú hins kristna safnaðar. Við þekkjum vísast öll frásögn Postulasögunnar af þessum atburði, en postularnir stóðu og störðu til himins á eftir Jesú þegar hann hvarf þeim sýnum. Þá stóðu hjá þeim tveir englar er sögðu: “Hví standið þér og horfið til himins?” Góð spurning!
Hugsið ykkur, hve mikla hluti lærisveinahópurinn hafði upplifað þennan stutta tíma sem Jesús var að starfi með þeim. Og þessir 40 dagar frá páskaatburðunum voru jú liðnir, - Jesús hafði birst þeim aftur og aftur, - en núna var hann horfinn. Þeir fengju aldrei aftur að sjá naglaförin í höndum hans og fótum.
Í Guðspjalli dagsins er sagt frá síðustu ræðu Jesú, áður en hann hverfur þeim sýnum. Hann benti þeim á samhengið, hann benti þeim á frásagnir lögmálsins, spámannanna og sálmanna, lagði út af þessum ritum Gamlatestamentisins og upplauk boðskapnum fyrir þeim, þannig að þeir skildu ritningarnar. Tökum eftir þessum orðum. Þeir skildu ritningarnar, og þeir voru síðan tilbúnir til þess að fara út til að prédika fyrir öllum þjóðum fagnaðarerindið. Það lá á þessu! Það lá á að heimsbyggðin heyrði fagnaðarerindið. En engillinn bætti við: “En verið samt kyrrir í nokkra daga í borginni uns þér íklæðist krafti frá hæðum.” Hvítasunnan var á næsta leiti!!
Uppstigningardagurinn undirstrikar svo vel, að þessari takmörkun í tíma og rúmi, sem Guð sjálfur setti sér í Jesú Kristi, er lokið. Ég mun nú vera með ykkur alla daga, allt til enda veraldar, ekki aðeins hjá einhverjum fáum á einhverjum ákveðnum stað, heldur öllum á sama tíma.
“Hvers vegna standið þér og horfið til himins,” spurðu englarnir, en þeir bættu við: Þessi Jesús, sem varð uppnuminn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.
Hér er vitnað til endurkomu Jesú, - en þangað til er verk að vinna. Í guðfræðinni er þessi tími, frá uppstigningu til endurkomu kallaður tími kristniboðsins. – “Farið út um allan heiminn og prédikið gleðiboðskapinn allri skepnu.” Uppstigningardagurinn kennir okkur, að við eigum ekki að takmarka staðinn þar sem Guð býr, hann er ekki staðsettur á einhverjum afmörkuðum stað, - eða eins og einhver sagði: Guð er ekki einhversstaðar, hann ER.
Hann er hjá hverjum þeim sem ákallar hann í anda og sannleika, hann er nálægur í kærleika sínum með fyrirgefningu sína, sáttina, uppörvunina, hann reisir við hinn fallna, hann gefur von, hann gefur líf. ÉG ER. Þetta er nafn Guðs, eins og það birtist okkur á fyrstu síðum ritningarinnar. Hann ER fyrir þig, fyrir mig, fyrir alla menn á þessari jörð.
Hvað þurfi Jesús langt tilhlaup, spurði Jóhann litli. Ef við notum þessa líkingu, þá getum við jú sagt, að tilhlaupið hafi verið lífshlaup hans allt.
Guð vitjaði lýðs síns. Guð varð hold og bjó með oss fullur náðar og sannleika, segir í jólaboðskapnum.
Uppstigningardagur er þýðingarmikill dagur í kirkjuárinu, hann markar endalok í ákveðinni atburðarás frá fæðingu Jesú til þess dags er hann hvarf lærisveinahópnum sýnum. Hvernig það gerðist í smáatriðum skiptir ekki öllu máli, en það gerðist þó þannig að lærisveinarnir voru eins og agndofa, þeir störðu til himins. Guð varð að senda sendiboða sína til þess að ýta við þeim: Hví standið þið hér og starið til himins. Nú er verk að vinna, vinir mínir. Farið af stað. En um leið og uppstigningin er endapunktur í ákveðinni atburðarás, þá er þetta jafnframt upphafið að nýjum tíma, nýrri öld, nýjum möguleikum, nýju lífi, - gleymum því aldrei.
Það er á uppstigningardegi sem kristniboðsskipunin er gefin. “Farið út um allan heiminn og prédikið gleðiboðskapinn.” – Fagnaðarerindið er ætlað öllum. Og okkur er trúað fyrir þessari útbreiðslu, hinum kristna söfnuði er trúað fyrir því að koma fagnaðarerindinu út til ystu endimarka jarðarinnar.
Útbreiðsla kristninnar er gífurleg nú á tímum. Milljónir og aftur milljónir manna snúa sér til Krists, því að viðkomandi sjá hvernig trúin breytir lífi fólks. Afríka er sú álfa sem kristin trú breiðist hvað hraðast út í.
Ég sá þetta með eigin augum nú fyrir nokkrum misserum þegar ég fór um svæði kristniboðsins og hjálparstarfsins í Eþíópíu. Ég sá hvernig nýir söfnuðir verða til, - það er í sannleika sagt eins og þegar eldur breiðist út. Fólk verður snortið af krafti Guðs orðs. Fólk kemur saman til þess að tilbiðja Guð, leita styrks og miskunnar hans og fer út til að þjóna og starfa í anda Krists. Það eru mörg dæmi um það, að fólk, sem þannig hefur opnað líf sitt fyrir ljósi Guðs orðs, verður undrunarefni samborgaranna, þeir taka að spyrja, - hvað hefur breyst hjá þér, hvað hefur komið inn í líf þitt, - og þá kemur vitnisburðurinn, þá vitna þeir um hinn krossfesta og upprisna Krist, já hins nálæga Krists sem er hinn sami í dag og í gær og um aldir.
Hvað þurfum við langt tilhlaup, - hvað þurfum við langt tilhlaup til þess að uppgötva kjarnann í fagnaðarerindi Krists, þannig að kærleikurinn taki að knýja okkur til dáða, - eigum við ekki að biðja Guð í dag að gera okkur að betri boðberum sannleikans, að við verðum svo upptekin af því góða, fagra og fullkomna, að samborgararnir fari að spyrja, - hvað hefur komið fyrir þig, ertu trúuð, ertu trúaður, segðu mér frá.
Í dag fer hér í kirkjunni fram nýsköpun Guði til dýrðar, myndverkið í anddyri kirkjunnar er unnið vegna þessara daga hér í kirkjunni og tengist þema hátíðarinnar. Ég ætla að gefa regn á jörð! Tekið út textanum um Elía, en samnefnd óratoría verður flutt hér í kirkjunni annað kvöld, stórkostlegt verk. Mikilfenglegur boðskapur og nálgun lifandi Guðs. Og í dag heyrðum við nýja mótettu út frá texta dagsins og eigum eftir að sjá listdans, frumsýningu, sem hefst nú fljótlega. Einnig verður flutt nýtt lag e. Jón Hlöðver Áskelsson við sálm e. Kristján Val Ingólfsson.
Kirkjulistahátíð 2003 á að vera vitnisburður um sköpunarmátt Guðs, - um nálægð Guðs í mannlífinu, hvernig Guð er að starfi mitt á meðal okkar, - Kirkjulistahátíð á að vera vitnisburður um hinn nálæga Krist, skoðaðu dagskrána, hún er yfirfull af efni sem beinlínis er skírskotun til hins kristna vitnisburðar. Kirkjulistin hefur á öllum öldum verið tæki til að koma hinum kristna boðskap á framfæri með nýjum og nýjum formum, nýjum og nýjum tónum, nýjum og nýjum orðum. Heilagur andi Guðs starfar í fólki eins og okkur.
Kannski gerist það nú, að fólk sem tekur sér tíma til að njóta Kirkjulisthátíðar verður spurt, - af hverju ertu svona glöð/glaður, jú ég var á Kirkjulistahátíð, ég upplifði eitthvað stórkostlegt.
Ef einhvern tíma hefur verið þörf fyrir kristinn vitnisburð á Íslandi, þá er það í dag. Fólk er í auknum mæli leitandi, spyrjandi, - segjum frá. Leyfum kærleika Krists að knýja okkur til dáða. Leyfum heilögum anda að streyma, leyfum Guði að komast að til að skapa nýja hluti, nýja list, nýtt líf í gegnum okkur.
Dýrð sé Guði föður syni og heilögum Anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.
Flutt á uppstigningardegi árið 2003 í Hallgrímskirkju.