Kristur er farinn en blessar okkur samt
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
1. Kristur er farinn
1. Kristur er farinn. Það er undarlegur boðskapur sem nær eyrum okkar á Uppstigningardegi. Kristur fer frá lærisveinum sínum. Hann skilur þá eftir í heiminum en fer sjálfur til himna. Þegar þeir horfa til himins, eins og kirkjan hefur svo gert, fá þeir að heyra boðskap um það að hann muni koma aftur en þeir eigi að boða fagnaðarerindið. Kirkjan hefur staðið í því í nær 2000 ár og bíður enn. Er Kristur farinn frá okkur fyrir fullt og allt?
a. Mér finnst að Uppstigningardagur kallist á við veraldlegasta dag kirkjuársins - hvíldardaginn mikli - laugardaginn fyrir páska. Kristur er dáinn á krossi, grafinn, lærisveinarnir flúnir í angist sinni og vonbrigðum. Allt fór þetta öðru vísi en ætlað var í þeirra huga. Það vaknar hjá manni þessi skrýtna tilfinning að Guð sé horfinn og við skilin eftir í veröld sem er guðlaus, veröldin ein, engin himinn. Það er til sálmur eftir siðbótarmanninn Lúther þar sem þessi hugsun er tjáð með fullyrðingunni: Guð er dauður. Hann tjáir þessa ógnarlegu hugsun og nagandi tilfinningu við barm örvæntingarinnar trúuðum manni. Heimspekingurinn Nietzsche gerði þetta svo að slagorði, tjáði með því hugmyndastrauma Vesturland, eftir kristna tímann, þegar við erum með veröldina eina og ekkert meir. Þetta finnst mér vera tilfinning þessa dags, hvíldardaginn mikla, þegar Guð hvíldi dáinn í gröf. Við höfum gott af því að horfast í augu við þá hugsun.
b. Hugleiðum aðeins hugmyndir okkar um Guð og tilveruna. Ímyndar þú þér að þú getir gert þér hugmynd um Guð í huga þér? Hver er þá Guð? Ef þú gætir tekið hann hugtökum, næðir að hugsa hann, þá værir þú honum æðri og hann enginn Guð. Hugsaðu þér alheiminn og við menn höfum náð langt í að greina tilveruna alla en þó ekki út fyrir mörk tíma og rúms. Og þó - við höfum uppgötvað svið handan við það sem séð verður og ef það hverfur verður ekki neitt. Ég ætla ekki að hætt mér lengra út í nútíma eðlisfræði. Ef til vill hefur þessi óræði Guð verið okkur þyrnir í augum þar sem hann verður ekki meðhöndlaður og því viljum við hann ekki í tilveru okkar sem æðsta vald.
Önnur hlið er svo hin siðferðilega. Mikilvægi þess hefur runnið upp fyrir okkur sem þjóð. Í gegnum sára reynslu höfum við sem samfélag komist að raun um að heiðarleiki er mikilvægur. Það sem sjálfsagt er. Skyldi heiðarleiki hafa eitthvað með Guð að gera? Eitthvað þarf að vera okkur heilagt til þess að við hlýðum, einhver gildi verðum við að hafa, til þess að mannlegt samfélag standist. Mannréttindi eru prump nema þau séu okkur í blóð borin. Við náum ekki að framfylgja þeim í samfélagi manna. Þannig eru hugmyndir okkar um eitthvað æðra grundvöllur samlífs okkar sem við náum samt ekki að framkvæmda. Bestu grunngildin tel ég vera í guðsmyndinni. En hvað höfum við gert? Við menn höfum sent Guð til himna og skellt á eftir honum.
Það breytir þó ekki því að við setjum uppi með hugmyndir okkar. Ef það er samfélagið eitt þá erum við bundin því. Við tölum um kerfi, fjármagn og efnahagslögmál. Föllum flöt fyrir þessum stærðum, tilbiðjum þær og skríðum fyrir þessum hugmyndum okkar sem guðir væru. Prúðbúnir karlar og konur í jakkafötum, helst bláleitum, með bindi stjórna tilbeiðslunni í stórkostlegum hofum. Klukkan hringir og hringiðan hefst, lífið er lotterí, sumir græða og aðrir verða fátækari ef ekki öreigar. Lystisnekkja á Pollinum flýtur á erfiði verkalýðsins.
Hvað hefur glatast með þessum þankagangi? Það sem einu sinni var kallað „frelsi kristins manns“. Við erum þrælbundin hugmyndum okkar, þær eru orðnar guðir okkar sem við dýrkum ef við erum hugsæisfólk (idealistar) eða þá er það samfélagið ef við erum raunsæisfólk (rationalistar eða realistar).
Frelsisstyttan: Frelsið upplýsir heiminn.
c. Kirkjan hefur lengi legið undir gagnrýni trúleysingjanna. Það er ekkert nýtt. Mér finnst rök þeirra svo sem ekkert beittari en guðfræðinganna. Sum þeirra eru meira að segja sótt í smiðju þeirra. Við tökum okkur það fyrir hendur guðfræðingar og trúleysingjar að rökræða um Guð sem er óræður.
Trúleysingjar hafa afskrifað Guð eins og bókhaldari afskrifar gamlar leifar sem trufla bókhaldið. En þeir eins og aðrir sitja uppi með eigin hugmyndir sem þeir dýrka. Það er óhjákvæmilegt að ef við tökum valdið í eigin hendur læðist að okkur óttinn við framtíðina, vegna þess að frelsinu fylgir ábyrgð. Nú ætla ég ekki að halda því fram að allt verði gott ef við gerum ráð fyrir Guði nei, nei, nei, nei. Því síður að trúin verði ábyrgðarlaus með því að vippa valdinu til himna. Það er gott fyrir okkur að horfast í augu við ábyrgðina sem fylgir frelsi og valdi. En ef við tölum aðeins um ytra frelsi, borgaralegt, þá erum við föst í hjáguðadýrkun eigin hugmynda eða samfélagsins. Þess vegna bið ég Guð um að vakna og frelsa okkur frá eigin hugmyndum og kerfum.
d. Fyrrverandi páfi Benedikt XVI, Joseph Ratzinger, skrifaði bók þar sem hann leit yfir sviðið og komst að þeirri niðurstöðu að veraldarvæðingin hafi afskrifað Guð og við sitjum uppi með þann vanda að samfélagið eitt er viðmiðið, við, við hvert og eitt, samnefnarinn er horfinn: „Mest ber á því að Guð er horfinn: Maðurinn er eini leikandinn sem eftir er á sviðnu“ (s. 70). Það þarf kannski ekkert sameiningarafl. Kaþólska kirkjan er samfélag, sem lítur á sig sem einn líkama út um allan heim, en því samfélagi er augljóslega sett mörk og því í andstöðu við veraldarvæðinguna, Guð á að vera viðmiðið. En Ratzinger bendir á að yfirvöld líti svo á að trúarbrögð hafa ekki annað gildi en að styðja við ríkjandi samfélagshugmyndir. Hann heldur því aftur á móti fram í þessari bók að Jesús er Meistarinn sem kirkjan á að fylgja. Það er leið hennar í dag á nýjum tímum.
Ég tel að samnefnari vestræns samfélag er ekki lengur Guð þó að hann hafi fengið það hlutverk í sögu Evrópu fyrr á tímum. Það var ekki alltaf gæfulegt. Þar þurfa kristnir menn að vera fremstir í flokki með sjálfsgagnrýni. Hún er nefnilega holl. Ef við leitum sannleikans þá óttumst við hana ekki, hvort sem hún kemur frá trúleysingjum eða guðfræðingum, skiptir engu.
Mín ályktun af þessum hugleiðingum er þessi: Guð og frelsið heyra saman, með því að senda Guð til himna með valdið hefur frelsið verið sett í heilbrigðar og góðar skorður sem eru lífgefandi. Það skyldi ekki vera guðleg viska í því! Þess vegna bið ég Guð að vakna af hvíld sinni og frelsa okkur frá hugmyndum okkar og okkur sjálfum, bið um leiðsögn hans í ógnvænlegum heimi.
2. Blessun Drottins frá himni
a. Siðbótamaðurinn Lúther segir í bók sinni um Ánauð viljans að ef við lítum aðeins til náttúrunnar er það rökrétt ályktun að tala um „ranglæti Guðs“ eða að „Guð er ekki til“. Rök hans eru í anda þess sem ég hef rakið hér að framan. Þegar við stöndum í lífsglímunni miðri vakna þessar tilfinningar eða lífsafstaða. Guðleysi er ekki eitthvað nýtt, nei, Lúther komst að þessari niðurstöðu með rannsókn sinni á Davíðssálmum meðal annars og vitnaði í Slm 14: „Heimskinginn segir í hjarta sínu enginn Guð“. Nær 3000 ára gamall texti!
En Kristur gefur okkur aðra vídd í tilveru okkar. Hann birtir okkur guðsmyndina sem er annað en hugmynd. Við getum svo sem leikið okkur að því í huga okkar eins og gert hefur verið að Kristur er fullkomlega frjáls, hann gerir það sem hann vill og getur gert það sem hann vill. Kraftaverkin sýna hann slíkan mann. Og upprisan er miklu kröftugra tákn um frelsið en frelsisstyttan í New York sem á að upplýsa heiminn. Kristsmyndin í Ríó de Janeiro segir meira þar sem Kristur breiðir út blessandi faðminn yfir borginni.
Kristsstyttan í Rio de Janeiro
Með þá mynd af Kristi í huga verður raunveruleikinn öðru vísi, þjáningin, sársauki lífsins, lífsglíman. Með Kristi getur maður tekist á við hana eins og hún kemur fyrir því að ef við erum að fást við Guð þá erum við að fást við sannleikann, hlutina og tilveruna, eins og hún er í raun. Sannleikskrafa Guðs er algjör og það er ástæðan fyrir því að Lúther ályktaði eins og hann gerði. Óravíddirnar, gáturnar mörgu eru þarna misvel svarað, leystar eða óleystar. Það ræður ekki úrslitum. Hugmyndaheimur okkar er eins og hann er en Jesús beinir okkur að lífinu og þar gilda loforð hans og fyrirheit. Það sem ég er að segja er að það er ómissandi þáttur í mannlegri tilveru. Guð er ekki hækja til að skýra það sem við náum ekki að útskýra, heldur er hann lífið sjálft, kjarni þess, eðli, allt í öllu.
b. Lúther var sannkölluð frelsishetja. Sú sem hann hélt hvað mest upp á ber titilinn Um frelsi kristins manns. Þar kennir hann að frelsið eigi maður í trú í andanum. En þegar kemur að raunveruleikanum og lögmálunum sem gilda í líkama manns og holdi þá er þar ýmislegt sem berst á móti því góða sem maður vill gera í anda sínum. Grunngildið í mannlegu samfélagi sem Kristur setur okkur fyrir sjónir er kærleikurinn. Það er ekki nein svona almenn ábending „elsku besti reyndu nú að ver almennilegur“ heldur þú átt að elska eins og Kristur gerði, jafnvel óvini þína. Þá skiptir máli Kristsmyndin af kærleikanum. Þér finnst þetta kannski óraunsæjar kröfur. Það er vegna þess að við getum ekki uppfyllt þær í eigin mætti en Guð megna allt. En í alvöru talað er ekki þetta sannleikurinn um mannlegt samfélag, um glímu okkar við okkur sjálf og samfélag okkar, algjörlega ljós í guðlegri birtu. Frelsi í samfélaginu, borgaralegt frelsi, gegnir svo því hlutverki að skapa frið svo að lífið geti dafnað í kærleikanum. Sú hugsun hefur ratað inn í grunnreglu mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.
Þetta er hin kristna trú sem sendir valdið til himna og gengur svo fram í kærleika í staðinn í fjölbreytileika lífsins. Það kenndi og kennir Kristur okkar þar sem hann situr á himni og leiðbeinir okkur með orði sínu enn þann dag í dag. Þegar ég orða þetta svo finnst mér þetta næstum eins og barnalegt hjal en það skyldi ekki vera sannleikur lífsins.
c. Ég hef mótað þessi sannindi í eftirfarandi ljóðlínur sem ég nefni: Ljóðið um krossinn. Trúin snýst um það að vera. Hún er endir þess að gera, trúin er traust til Guðs og að hann segi satt þegar hann segir við þig: Þú ert minn og ég er Guð þinn. Það er óþolandi við kristna trú að við erum ekki lengur frelsarar okkar sjálfra heldur gefur trúin okkur Guð, hann kemur til okkar sem persónu, manneskja, ein af okkur, svo að við þurfum ekki að gera neitt, Guð er allt í öllu, hann birtist okkur á himni:
Hneykslunarhella og hornsteinn kristninnar er kross sem gerir alla mína viðleitni tortryggilega, alla mína áreynslu að verða betri vafasaman, vegna þess að Guði verður ekki þjónað með augnaþjónustu, Guði er ekki treyst meðan við reynum að ávinna athygli hans, sonur hans einn er leiðin, án þess að þóknast, án þess að gera, án þess að þykjast, að vera með honum, hjá honum, Drottni mínum og Guði mínum, í honum er ég Guðs barn, án verðskuldunar, án erfiðis, af náð einni.Treysti ég þér, Drottinn? Ég er þinn, og þú Guð minn.
Undir krossinum stend ég með Maríu og Jóhannesi þar er ég hljóður, sé og horfi á endalok þess að gera, upphaf þess að vera Guðs.
d. Á uppstigningardegi breiðir Kristur út faðminn og blessar okkur. Þannig sáu lærisveinar hans hann hverfa til himins. Þannig endir hver messa, við endurtökum blessunina til að staðfesta að Kristur ríkir á himni. Við kristnir menn lútum engu öðru valdi, ekki neinum hugmyndum manna né neinum samfélagskröfum. Hann einan tilbiðjum við og fylgjum sannleikanum eins og hann hefur kennt okkur vegna þess að hann fór til þess að vera nær okkur en nokkru sinni fyrr, í okkur með anda sínum og kærleika.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.