Enn fáum við að upplifa íslenska vorið. Það sem einkennir það er fyrst og fremst dagsljósið sem smátt og smátt hefur lagt undir sig bróðurpartinn af sólarhringnum og er bráðum allsráðandi. Það er birtan frekar en hlýjan sem einkennir íslenska vorið því það er alls ekki hlýtt og gróðurinn á langt í land. Orðin í spádómsbók Sakaría sem voru lesin áðan í lexíu dagsins, um daginn sem Drottinn Guð kemur, eiga sérlega vel við núna, þá verður ekki dagur, ekki nótt og jafnvel að kvöldinu verður bjart. Betri lýsing á íslenska vorinu er vandfundin.
Gangur náttúrunnar og himintunglanna hefur alltaf fylgt manneskjunni og mótað ekki bara lífsaðstæður og afkomu heldur menningu, trú og myndmál. Líkingar Biblíunnar um ljós og myrkur, dag og nótt, sól og tungl, kallast vitaskuld á við reynslu manneskjunnar af því að lífstakturinn tekur mið af stóru hreyfingunum í náttúrunni sem bæði menn og málleysingjar eru háð.
Vorboði
Það var áhugaverður viðburður í ríkissjónvarpinu í vikunni sem leið, þegar sent var frá sauðburði í beinni útsendingu, frá bænum Syðri Hofdölum í Skagafirði. Bændurnir Atli og Klara tóku á móti tæknimönnum og dagskrárgerðarfólki og opnuðu sauðfjárbúið sitt fyrir landsmönnum öllum í heilan sólarhring. Kannski var þetta fyrsta tækifærið fyrir marga að verða vitni að því þegar líf kemur í heiminn, eða allavega fyrsta tækifærið að sjá lítil lömb fæðast.
Fyrir mig og örugglega fleiri borgarbörn var ekki síst áhrifaríkt að skyggnast inn í fallega og umhyggjusama keðju samvinnu og skipulags, þar sem fólk var ekki hrætt við að nota hendurnar sínar og komast í snertingu við dýr, jörð, blóð, slím og skít. Ekki beint það sem maður upplifir í þægilegu innivinnunni hér fyrir sunnan.
Sauðburðurinn er einn af vorboðunum á Íslandi og helst í hendur við bjarta og kalda íslenska vorið. Fyrr á tímum var reynslan af sauðburði almenn og nánast öllum landsmönnum kunn. Það er ekkert svo langt síðan að almennur skólatími stjórnaðist af því að börn þurftu að vera komin í sveitina til að aðstoða við sauðburðinn, svo að sumarfrí skólanna miðaðist við það.
Kærleiksboði
Á miðju vori, þegar allt er að gerast, lömbin fæðast og gróðurinn tekur hægt við sér, bíðum við ekki bara eftir sumrinu og hlýjum dögum, heldur minnumst og undirbúum okkur fyrir komu heilags anda, anda kærleika og nærveru Guðs í heiminum. Í dag erum við stödd á sunnudeginum sem er eins konar biðleikur á milli uppstigningardags og hvítasunnu. Í pistlinum heyrum við lýsingu Postulasögunnar á því sem vinir og vinkonur Jesú gerðu eftir að þau urðu vitni að því að Jesús steig upp til himna á Olíufjallinu. Postulasagan, sem er í raun seinni hluti Lúkasarguðspjalls, þar sem höfundur hennar kynnir sig til sögunnar sem þann sem ritaði guðspjallið sjálft, rekur tímann eftir páska þannig að í 40 daga var Jesús með vinum sínum, borðaði með þeim, talaði við þá, í stuttu máli gerði allt sem maður gerir með öðru fólki. Á þessum tíma segir Jesús hópnum sínum að þau eigi að halda sig í Jerúsalem og gefur þeim fyrirheitið um heilagan anda, sem þau munu skírast með innan fárra daga.
Lýsingin á uppstigningunni sjálfri er þannig: Þegar hann hafði mælt þetta varð hann uppnuminn að þeim ásjáandi og ský huldi hann sjónum þeirra. Þetta átti sér stað rétt fyrir utan Jerúsalem, þau snúa þangað og halda hópinn áfram. Við fáum að vita nöfnin á þeim sem þarna eru saman komin:
Það voru þeir Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Konurnar voru einnig með þeim og María móðir Jesú og bræður hans.
Og við fáum að vita hvað þau gerðu: Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.
Hópurinn hans Jesú
Nöfnin eru sett inn í frásöguna í ákveðnum tilgangi. Þau sem eru nefnd, eru með sérstökum hætti vottar að lífi og upprisu Jesú og boðberar hennar í heiminum. Lýsingin postuli á bara við þau sem á sérstakan hátt urðu vitni í eigin persónu að því sem Jesús sagði og gerði, og geta því vottað að það sé satt að hann lifði, dó og reis upp. Postullega trúarjátningin ber það heiti af því innihald hennar á að vera rakið til þessara frumvotta að lífi Jesú.
Svo rennur upp hvítasunnan, við þekkjum frásöguna af því þegar heilagur andi kemur til fólksins eins og vindur, eins og eldur og snertir hvern og einn viðstaddan. Hvítasunnan markar upphaf kirkjunnar, samfélags þeirra sem trúa á Jesú, og þess vegna segir frásagan af hvítasunnuundrinu, þegar hópurinn hans Jesú talar þannig að allir skilja og allir taka til sín, hvaðan sem þeir koma og hvaða tungumál sem þeir tala.
Hvítasunnuundrið kennir okkur að heilagur andi tengir fólk og gerir ekki greinarmun á uppruna og aðstæðum fólk. Á sama hátt og allt sem lifir tilheyrir hinni góðu sköpun Drottins og á sama hátt og Jesús beindi orðum sínum til allra og tók alls konar fólk að hjarta sínu, umvefur heilagur andi manneskjuna alla og allar manneskjur.
Þetta landamæraleysi einkennir hópinn hans Jesús. Það sem við notum til að greina okkur frá öðrum á ekki lengur við, hvort sem um þjóðerni, aldur, kynhneigð eða kynverund, stöðu eða stöðuleysi er að ræða. Hér eru allir eitt í Kristi. Þetta verður aldrei of oft sagt, það ber alltaf á tilhneigingu að reisa múra eða búa til hópa sem eru fyrir utan, tilheyra “okkur hinum” ekki.
Lömbin hans Jesú
Alveg eins og sauðburður er heimsins náttúrulegasti hlutur, og svo fyrirsjáanlegur að það er hægt að plana heilan sólarhring af burði í beinni, er allt líf samt kraftaverk í sjálfu sér. Við skiljum þetta ennþá betur þegar við hugsum um fæðingu barnanna okkar. Auðvitað er fæðing þeirra aðeins ein af milljörðum fæðinga – en við upplifum samt að þessi einstaka fæðing og þessi einstaka manneskja er það merkilegasta og mikilvægasta í heiminum. Í því er kraftaverkið fólgið.
Kraftaverk hvítasunnunnar er líka af þessum toga. Í því sameinast það fallega, eðlilega, góða, sigur lífsins og nærvera hins heilaga, sem hvert og eitt okkar á aðgang að - alveg eins og við fengum öll aðgang að undrinu að Syðri-Hofdölum í heilan sólarhring. Það er að vera kirkja – það er það að tilheyra hópnum hans Jesú.
Að tilheyra hópnum hans Jesú, að vera kirkja, er að opna sig fyrir kraftaverki lífsins í þess mörgu og fjölbreytilegu myndum. Til þess kom Jesús að sýna okkur þetta líf og gefa okkur það. Og heilagur andi er okkur gefinn til að við eigum hlutdeild í því, líka þegar Jesús situr við hægri hönd Guðs á himnum, eins og postullega trúarjátningin orðar það og gengur ekki lengur með okkur á jörðinni. Líf trúarinnar, líf kirkjunnar, líf þeirra sem elska Jesú, verður fyrir heilagan anda sem er eins og vindurinn, eins og eldurinn, eins og kærleikurinn, sem hegðar sér eftir eigin lögmálum og skapar hið heilaga í lífinu okkar.
Jesús biður
Hið heilaga verður hluti af lífinu þegar við opnum okkur fyrir því. Eða kannski ryðst það inn með látum, eins og á veginum til Damaskus þegar Sál blindaðist af birtu Drottins. Eitt það mikilvægasta sem okkur er gefið til að gera hið heilaga hluta af lífinu okkar er bænin. Við notum bænina til að lyfta okkur úr aðstæðum núsins sem takmarka okkur og tengjast veruleika Guðs. Við gerum það í einrúmi, við gerum það í hóp, við gerum það til að hugga, við gerum það til að vinna með áhyggjur og kvíða, við gerum það til að brýna karakterinn og rækta þakklætið, við gerum það til að stækka vitundina og tengja okkur bæði við himin og jörð.
Jesús kenndi hópnum sínum að biðja og hann bað sjálfur: Ég bið fyrir þeim sem þú hefur gefið mér því að þeir eru þínir og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Þetta finnst mér hugga og styrkja lífið okkar þegar við leitumst við að hleypa kærleikanum að og gera hann að því sem mótar veru okkar allra.