Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum, inn í land þar sem nóg er af hveiti og byggi, vínviði, fíkjutrjám og granateplatrjám, inn í land með olíuviði og hunangi, inn í land þar sem þú þarft ekki að neyta matar í fátækt og þar sem þig mun ekkert skorta og þar sem steinarnir eru járn og þú getur brotið eir úr fjöllunum.Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur skaltu lofa Drottin, Guð þinn, fyrir landið góða sem hann hefur gefið þér. Gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni, Guði þínum, og hættir að hlýða boðum hans, ákvæðum og lögum sem ég set þér í dag. 5M 8.7-11
Kæri söfnuður. Sautjándi júní er dagur Austurvallar. Dagur siða og iðkunar og endurtekningar. Í dag leggjum við áherslu á hið góða og jákvæða og uppbyggilega.
Morgunlestur þessa miðvikudags geymir jákvæða sýn á framtíðina. Vonarsýn.
Þar segir: „Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land.“
En hvað er gott land?
Morgunlesturinn birtir eitt sjónarhorn: Nóg af vatni, fjölbreytt fæða og gott byggingarefni.
Hvað segjum við í dag? Á Íslandi. Eftir þennan hremmingavetur.
Hvað er gott land?
Og hvað er góð þjóð?
Og hvað erum við og hver erum við og hvernig erum við?
Það eru spurningar dagsins og spurningar þessara daga og vikna og mánaða.
Á þeim tíma sem mér er úthlutaður hér á ég ekki tæmandi svör.
En ég á brýningu og kannski vegvísi.
Hann er að finna í morgunlestri dagsins.
Í fyrri hluta hans er fjallað um landið góða og landsins gæði. Í síðari hluta hans er minnt á að gæðin leiði ekki til þess að þú gleymir Guði. Gleymir ekki að þakka Guði. Gleymir ekki að halda í heiðri boðorð hans.
Og hvernig getur það orðið?
Með tvennu:
Með reglulegri iðkan trúarinnar sem við miðlum áfram til þeirra sem í kringum okkur eru. Á máli 17. júní: Með viðhaldi siðarins.
Og með þjónustu við náungann.
Þetta þurfum við að leggja til grundvallar í lífinu. Ekki síst við endurreisn samfélags og við mótun grunngilda.
Það er boðskapur og brýning dagsins.
Megi góður Guð vísa okkur veginn og leiða okkur áfram á þeirri braut.
Gleðilega þjóðhátíð!