Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“ Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum: Þú Betlehem, í landi Júda, ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda. Því að höfðingi mun frá þér koma sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“ Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst. Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“ Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru. En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt. Matt. 2.1-12
Bæn. Heilagi Guð, opna huga okkar og hjarta með heilögum anda svo að við tökum á móti Orði þínu, varðveitum það, hugleiðum það og lifum samkvæmt því, fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.
Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.
Kæri söfnuður. Hvernig veitir maður Jesúbarninu lotningu á þrettándanum? Þrettándinn er sannarlega þrettándi dagur jóla. Hið upphaflega heiti dagsins í kirkjunni In Epiphania Domini, eða Birtingarhátíð Drottins er að mestu horfið og kannski týnt. Kirkjan les frásögn guðspjallanna um vitringana þrjá sem falla fram og tilbiðja hinn nýfædda konung og minnist þess um leið að Kristur, Messías hinna fornu spádóma, er ekki aðeins sendur Israel, heldur kemur hann til að frelsa allan heiminn. Meginstef dagsins eru þau sömu og á fyrsta sunnudegi í aðventu: Kristur, hinn hógværi konungur kemur til kirkju sinnar. Jafnframt er þessi dagur til minningar um fæðingu Jesú Krists og um skírn hans, og reyndar líka fyrsta kraftaverkið í Kana, þar sem Jesús sýnir að hann er meistari gleðinnar, eins og á altaristöflunni í Gilsbakkakirkju.
Meginefni lestra dagsins er augljóslega aðeins eitt: að opinbera skuli leyndardóminn um að hinn heilagi sé mitt á meðal barna sinna á jörðu og að endurspeglun hinnar huldu dýrðar hans sé sýnileg á jörðu.
Í lexíu þrettándans segir: (Jes. 60. 1-6) Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér! Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur Drottinn, og dýrð hans birtist yfir þér. Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér. Páll skrifar í pistlinum: (Ef.3.2-12).
Víst hafið þér heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður: Að birta mér með opinberun leyndardóminn. Nú hefur hann (þ.e. Kristur) verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum: Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað. Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum í himinhæðum, hve margháttuð speki Guðs er.
Tilefni þeirrar hátíðar sem við höldum í dag, tveim dögum of snemma, en allur almenningur í landinu mun missa af þegar hún gengur í garð, er fyrst og fremst að skerpa sýnina á hið raunverulega innihald jólanna áður en þau fjara út; að Guð sjálfur gjörðist maður, til þess að koma nær börnum sínum sem hann elskar og gefa þeim stærstu jólagjöf sem unnt er að gefa. Það er að leyfa okkur börnunum að koma til hans, svo við megum þiggja blessun hans eins og þau sem hann blessaði forðum, og dvelja við heilagt orð hans og sakramenti.
Hér í Skálholti gefst gott næði til að hugleiða Guðs Orð og iðka trúna. Trúariðkunin er jú stöðugur lærdómur. Einnig þau sem lengra eru komin á vegi trúarinnar en almennt gerist og hafa helgað sig iðkun hennar árið um kring, þar með taldir prestarnir, votta það að fullnuma verður aldrei neinn, hvorki í skóla bænarinnar, íhugunarinnar né biblíulestrarins. Marteinn Lúther stóð föstum fótum í hefð og reynslu munkareglu sinnar, Ágústínusarreglunnar, þegar hann sagði : Enginn hefur ausið svo af brunnum viskunnar að hann þurfi engrar æfingar eða kenningar meir við. (WA 44,73,39,74,2) Og sömuleiðis sagði hann.: Hið kristna líf er ekki að vera trúaður, heldur að vera að verða trúaður, eins og það er ekki að vera heilbrigður, heldur vera að batna, ekki að vera heldur að verða, ekki kyrrð, ef hún geymir kyrrstöðu, heldur æfing. Við erum það ekki, en við verðum það. Það er ekki gjört og skeð, heldur er það vegur og leið. (WA 7,336,31-36).
Vitringarnir gengu inn í húsið og sáu Maríu og barnið. Frammi fyrir Orði Guðs er María móðir Drottins ótvíræð fyrirmynd kirkjunnar. Þess vegna syngur kirkjan sérhvern virkan dag Magnificat, Lofsöng Maríu, - af því að henni er falið að taka á móti Orðum engilsins og geyma þau í hjarta sér. ,,Verði mér eftir Orði þínu” er ævinlegt svar kirkjunnar við lestri úr ritningunni. Fyrrnefndur Marteinn Lúther sagði: Ritningin er eins og kryddjurt. Því meir sem þú nuddar hana, því betur ilmar hún.
Þegar dr. Róbert Abraham Ottósson kenndi stúdentum að syngja af saltaranum og fleira gott með fornum sálmtónum, sagði hann okkur að smakka tóninn, og að finna bragðið af honum. Það er vegna þess að í Lúthersþýðingu Biblíunnar sem hann þekkti best, stendur : Schmecket und sehet wie gut der Herr ist, en ekki : Finnið og sjáið að Drottinn er góður (34.9)
Þegar Ignatíus frá Antiokkíu leiðbeinir um lestur og íhugun ritningarinnar, að biðja með ritningunni segir hann að við skulum finna bragðið af orðinu. Hann segir: Það er ekki það að vita mikið sem veitir sálunni saðningu og ánægju, heldur að finna og smakka hlutina innanfrá. Það sem gleður og styrkir sálina er eigin sýn á og reynsla af trúarsannindum helgrar bókar. Dietrich Bonhoeffer skrifar: Við þurfum aftur og aftur, mjög lengi og í mikilli kyrrð og rósemi að sökkva okkur í huganum inn í líf, orð og gjörðir, þjáningu og dauða Jesú, til þess að þekkja hverju Guð hefur heitið og hvernig hann uppfyllir fyrirheit sín. Og á öðrum stað segir hann: Ég á ekki að reyna að sjá hvar Guð kemur við sögu í minni sögu, heldur hvar mín saga fellur inn í sögu Guðs.
Nú stöndum við hér við þessa tómu jötu og minnumst birtingar Drottins í holdi. Það er birtingarhátíð Drottins. Þrettándinn. Opinberun hins eilífa, heilaga Guðs. Það er opinbert og kunngjört sem annars er í leyndum.
Kæru kollegar. Nú er hver sunnudagur og raunar sérhver samkoma í Jesú nafni birtingarhátíð Drottins, þar sem prestarnir þjóna opinberun hins eilífa, heilaga Guðs. Ég veit ekki hvernig þið upplifið það, en mér þykir það í senn dásamlegt og óttalegt. Á vissan hátt er það þannig að við prestar erum eins og værum við þátttakendur í hópi hinna mörgu sem Jesús sendi á undan sér á leið sinni til Jerúsalem og Lúkas greinir frá í tíunda kaflanum. Prestar eru sendiboðar sendiboða Guðs. Hlutverk þeirra er sannarlega að breiða út fagnaðarboðskapinn um guðsríkið sem er í nánd, og að boða frið, en þeir eru um leið sendir til að berjast góðu baráttunni. Það var gott að fá þessa brýningu í gærkveldi, sérstaklega í orðum Braga Guðbrandssonar, þegar hann talaði um hlutverk trúarinnar og kirkjunnar og prestanna andspænis þeim illu öflum sem herja á samfélagið og okkur sjálf, og hafa sérstaklega sem einkenni að hlutgera manneskjur, eins og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir benti á í sínum fyrirlestri. Afdráttarlausar verður ekki tvöfalda kærleiksboðið brotið en einmitt í því. Við heyrðum í máli þeirra að hér er barátta sem við getum ekki vikist undan, glíma sem við verðum að stíga; að standa uppi í hárinu á ofbeldinu, ekki með öðru ofbeldi heldur með afhjúpunum. Ekki í dómasýki gagnvart brotamönnum heldur í kærleika gagnvart brotaþolum.
Þegar hinir sjötíu komu aftur, svo glaðir yfir því að illu andarnir voru þeim undirgefnir þegar þeir nefndu Jesú nafn, opnar Jesús þeim sýn á það sem þar býr að baki: Ég sá Satan falla til jarðar eins og elding væri. Þessi vídd, að skynja það, tilheyrir hinu spámannlega embætti prestsins. Orðið, boðunin er ekki bara kennsla og uppfræðsla heldur barátta fyrir því að heyrendurnir verði hrifnir inn á svið hjálpræðisins, þar sem frið Guðs er að finna. Í umbreyttum texta merkja orð Jesú þetta: Þið hafið vald yfir öndunum, þeir geta ekkert gert ykkur vegna þess að Satan er fallinn niður af himni. En reynið ekki að leika ykkur með þetta vald, gleðjist heldur yfir því að nöfn ykkar eru rituð í lífsins bók á himnum. Með enn öðrum orðum. Aðalatrið er að festa ekki sjónir á öndunum illu, heldur að horfa til Guðs. Það var spurt að því í gær hvernig væri hægt að vinna við þær aðstæður þegar maður verður dag eftir dag að horfa á djúp hins illa. Það er ekki öllum gefið að halda það lengi út.
Við könnumst vafalaust öll við myndverk sem sýna þegar heilagur Mikael erkiengill berst við drekann ógurlega. Þar sést að hann horfir framhjá drekanum. Hann getur ekki hitt hann nema að horfa til Guðs. Ef hann horfir á drekann þá hittir hann ekki, vegna þess að drekinn nær þá valdi yfir augnsambandi þeirra á milli og sleppur. Minn góði vin Albrecht Peters skrifaði í þessu sambandi: Það er eins með skriftirnar. Við eigum ekki að dvelja við það sem við sjáum í okkur sjálfum og sökkva okkur inn í það, heldur horfa upp til Guðs og verða frjáls og öðlast frið. Að nöfnin séu innrituð í himininn táknar nálægð nafnanna, okkar nafna, við Guð. Að hann sem lagður var í jötu og birtist þjóðum og er sá sem biður fyrir okkur frammi fyrir augliti Guðs, nefnir nöfnin okkar þar. Þess vegna segir Jesús við lærisveinana að gleðjast fyrst yfir því sem er á himni og svo yfir því sem er á jörðu. Og við sem erum send skulum í dag alveg sérstaklega ekki gleyma að gleðjast yfir því sem er á jörðu. Það skulum við gera núna með því að undirstrika sendingu okkar til þjónustu himinsins á jörðunni og ganga hér að jötunni sem að vísu er tóm en þó ekki. Þar eru kerti og kertahlífar sem við skulum sækja okkur, tendra ljós af ljósi og ganga síðan stóran hring hér í kirkjunni meðan við syngjum sálminn nr. 108 Ó hve dýrleg er að sjá, minnug þess sem stendur í einni elstu trúarjátningunni sem við þekkjum: Og víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill.
Hann opinberaðist í holdi var réttlættur í anda birtist englum var boðaður með þjóðum var trúað í heimi var hafinn upp í dýrð. (1.Tím. 3.16)
Dýrð sé Guði, Föður og Syni og heilögum Anda um aldir alda. Amen.