Guðspjall: Matt.11:2-11 Lexia: Jes. 40 1-5 Pistill: 1. Kor 4. 1-5
Bæn: Þarfnast þú handa minna, Drottinn til að geta hjálpað sjúkum, fátækum og nauðstöddum?
Drottinn, í dag vil ég gefa þér hendur mínar. ... Þarfnast þú hjarta míns, Drottinn,til að geta elskað skilyrðislaust sérhvern mann?
Drottinn, í dag vil ég gefa þér hjarta mitt. Amen.
Móðir Teresa
Jesús lofaði starf Jóhannesar skírara og sagði að hann væri meira en spámaður. Hann var sendur til að undirbúa komu frelsarans. Þess vegna hugleiðum við þennan guðspjallstexta í kirkjunni á aðventunni til að undirbúa okkur fyrir jólin. Guðspjall dagsins kennir okkur sannan og réttan jólaundirbúning. Jesús segir um Jóhannes í guðspjallinu: "Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari." Það er rétt að hafa það í huga að Jóhannes skírari var í böndum, fangelsaður og í bráðri lífshættu, þegar Jesús sagði þetta um hann. Hann hafði barist fyrir réttlætinu, eins og svo margir fyrr og síðar, og tekur út launin fyrir það, þegar tekist er á við óréttlát stjórnvöld. En Jesús bætir við: "En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri".Hvað á Jesús við?
Lærisveinarnir spurðu hann einu sinni: Hver er mestur í himnaríki? Það er svo sem ekki óalgeng spurning meðal manna, hver er mestur og fremstur. Ef manni væri ekki gefið að skilja gæti maður haldi að lífið snérist um að klifra og klífa upp á topp frægðar og frama. En Jesús snýr þessu mannlega lögmáli við. Í Guðs ríki gilda önnur lögmál. Jóhannes hafði aðeins gefið það í skyn, sem Jesús boðaði og var. Jesús svaraði lærisveinum sínum með því að kalla lítið barn til sín og setja það inn í hringinn. Hann kenndi: "Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki. Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér." (Matt. 18:2-5).
Jesús segir að þessi minnsti í himnaríki er meiri en Jóhannes skírari sem lagði líf sitt í sölurnar fyrir réttlætið. Hvað er Jesús að meina með þessum orðum? Hann vísar okkur, eins og Jóhannesi skírara, á leið auðmýktarinnar. Hann kom til að flytja fátækum gleðilegan boðskap. Hann lýsti þá sæla sem voru fátækir í anda. Barnið er svo fátækt að það kann ekki annað en að taka á móti, þiggja líf sitt af lífi foreldra sinna. Við sem eldri erum gleymum þessu svo fljótt að lífið höfum við þegið úr hendi Guðs; hvert andartak er gjöf frá Guði; hver hjartsláttur er lífgjöf Guðs. Þetta er lögmál himnaríkis. Það kemst enginn þangað inn nema gegnum veg auðmýktarinnar. Þess vegna eru þeir sælir sem eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki.
Jóhannes skírari í fangelsinu kastar okkur inn í raunveruleikann eins og hann er. Stundum þarf að rífa þægindagrímuna frá andlitinu á okkur svo að við þorum að horfast í augu við tilveruna, heiminn sem við lifum í. Þegar maður vaknar til raunveruleikans spyr maður gjarnan eins og Jóhannes skírari hvort Jesús sé sá, sem átti að koma til að vera frelsari heimsins, eða eigum við að bíða eftir einhverjum öðrum enn um stund, eða eigum við kannski bara að spjara okkur sjálf? Svar Jesú höfum við og það verður að duga: "Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þér heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp, og fátækum er flutt fagnaðarerindið (v. 4-6). Jesús er sjálfur svarið við spurningu okkar. Hann er fagnaðarerindið. Hann gaf blindum sýn, hann lét halta ganga, hann hreinsaði líkþráa, hann gaf heyrnarlausum heyrn, reisti við dauða og boðaði fátækum fagnaðarerindið. Þetta voru tákn Guðs ríkis. Guð spyr ekki hvort við trúum á kraftaverk, heldur hvort við trúum á hann sem vinnur kraftaverk.
Hún er beinskeytt spurningin sem snýr að okkur. Trúir þú því að undur lífsins geti átt sér stað, að Guðs ríki sé til? Trúir þú því að til sé Guð sem vill öllum börnum sínum allt það besta? Hvaða afleiðingar hefur það fyrir líf okkar og samfélag? Guðspjallið svarar því til að Jesús er svarið við þessum spurningum okkar. Guðs ríki kom með Kristi. Jóhannes undirbjó aðeins veginn, en þráði að sjá brot af því ríki sem hann boðaði. Þess vegna var spurning hans brennandi sem hann beindi til Krists: Hver ert þú? Hver ert þú, Guð, sem hefur skapað mig og sett mig inn í þessa tilveru? Hver ert þú, Guð, sem hefur allt í höndum, setur mér mörk og leiðir yfir mig óskiljanlega þjáningu? Hver ert þú? Guðs ríki, sem Jóhannes skírari boðaði, að væri í nánd, snýst um eina persónu, Krist. Það er huggunin sem Guð hefur gefið okkur, huggun, sem dugar í dýpstu sorg, þegar lífsverkið er brotið í sundur mélinu smærra fyrir manni, þegar ævinni er eytt til ónýtis að virðist.
Þegar við lesum Matteusarguðspjall, sögurnar um Jesú, þá sjáum við hvernig Guð hugsar um okkur, hvað hann vill þér og mér, allt það besta, að blindir fái sýn, að hreyfihamlaðir fái notið lífsins, að alnæmissjúkir fái félagslega og líkamlega lækningu, að heyrnarlausir fái kennslu við sitt hæfi, að dauðvona geti dáið með reisn með ástvini sína í kringum sig, að fátækir fái alvöru hjálp til að bæta lífskjör sín.
Í Matteusarguðspjalli er að finna lofgjörð og bæn Jesú til síns himneska föður sem hljóðar svo: "Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum,en opinberað það smælingjum. Já, faðir svo var þér þóknanlegt". Hann sem þetta segir hefur eins og ég hef bent á snúið valdapíramýdanum á hvolf. Sá sem vill verða mikill í himnaríki, hann sé þjónn allra, heitir það. Og sá sem telur verk Krists svo mikils virði að hann vill fylgja fordæmi hans fær þetta undarlega boð að lifa sem góður samferðamaður. Sá sem tekur við einu barni eða tekur að sér einhvern smælingja, hann tekur við Kristi. Að vera kristinn er að lifa með meðbræðrum sínum og systrum sem maður. Guð hefur aldrei ætlað okkur að verða hálfguðir eða dýrlingar heldur maður, karl eða kona, meðal manna. Það sem Jesús er að kenna er að elska eins og hann gerði. Vald kærleikans er ekki drottnandi heldur þjónandi. Í því felst miklu róttækari lífsstefna en okkur órar fyrir.Sá sem sagði allt vald er mér gefið á himni og jörðu, sá sem hafði vald yfir illskunni, sá sem ögraði ranglátu yfirvaldi, tók líka börnin í faðm sér og blessaði þau. Hann setti börnin í miðdepil. Kannski er það atriði sem við höfum ekki tekið almennilega eftir. Samfélag sem er mótað af Kristi snýst um börn og lætur allt annað víkja fyrir þeim. Þess vegna eigum við að gefa börnum okkar tíma um jólin til að vera með þeim, meira þá en endranær. Tíminn er það dýrmætasta sem hver maður á. Gefðu slíkar gjafir, þá gefur þú líka sjálfan þig. Sá sem tekur við einu slíku barni tekur við mér, sagði Jesús. Það tel ég víst að börnin okkar með sínum ærlegu spurningum um Guð og lífið geta kennt okkur meira en þúsund sjónvarpsþættir um gáfuleg efni. Þá ferð þú að sjá Krist í augum barnsins þíns, dýrmætustu perlu lífsins, sem er óborganleg. Þannig eigum við líka að láta stjórnmálamenn okkar móta bæi og sveitafélög, lífið á að snúast um börn, það er kristilegt í orðsins fyllstu merkingu. Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum síðustu daga að Hjálparstarf kirkjunnar er að fylgja þessari hugsjón eftir með því að standa fyrir söfnun til handa þeim sem eru þurfandi. En þó að þú gefir þá leysir það þig ekki undan þessum börnum í fjarlægð sem eiga litla von um framtíð. Guð elskar þau börn líka. Guð elskar fátæka og þurfandi. Guð stendur með þeim. Og þú snýrð við Guði eins og þú snýrð við þeim, vegna þess að þeir eru smælingjarnir hans. Gefðu þess vegna ekki bara peninga, láttu bænir þínar fylgja peningunum á leiðarenda. Það kemur sá dagur að við verðum að svara fyrir líf okkar, líðandi stund, þegar mannsonurinn Kristur, kallar okkur fyrir sig. Segir hann þá við okkur: "Hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig. ... Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér." Lífið á að snúast um að elska náunga sinn. Ekkert er eins fyrirlitlegt og vorkunnsemi, sem segir, "aumingja,aumingja þú", en hreyfir ekki við hendi til hjálpar, þá er augljóst hatur betra. Kristur vísar okkur til veruleikans eins og hann blasir við okkur. En það þarf trú og áræði til að fylgja honum eftir og saga okkar getur orðið að píslarsögu líkri hans ef við fylgjum honum, en kærleikurinn gefur afsjálfumsér. IV. "Komið til mín", heitir stytta Thorvaldsens, frummyndin er í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn. Hún túlkar vel þjónandi kærleika Guðs. Kristur breiðir út faðminn og lútir höfði. Það er varnalaus stelling og sýnir traust hans til heimsins, þess ber hann merki að hafa breitt út faðm sinn móti heiminum á höndum, fótum og síðu. Þjónandi kærleikur þvingar ekki, heldur skapar frelsi. Sá sem krýpur í auðmýkt horfist í augu við Krist, sá sem tekur sér stöðu með þurfandi smælingjum, sér Krist, sá sem þjónar öðrum í kærleika, elskar Krist. Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.Amen. Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda.