Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera, því þér hafið verið með mér frá upphafi. Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá. Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu. Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig. Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður. Guðspjallið. Jh. 15.26- 16.4Hið hinsta kjör
Búið er að kjósa í sveitastjórnarkosningum í landinu, öll atkvæði komin í hús og spekingar sitja yfir úrslitum og spá í spilin. Frambjóðendur geta nú andað léttar. Sumir fagna yfir góðu gengi, aðrir sleikja sárin með brostnar vonir.
Lífið snýst um kosningar. Við erum alltaf að velja, taka ákvarðanir. Á hverju andartaki veljum við eitthvað. Hugsun okkar er stöðugt að í kosningavinnu.
Ég hef áður haldið því fram á þessum vettvangi að upphaf stjórnmála í nútímaskilningi eig sér rætur í því er Ísraelslýður kaus að yfirgefa Egyptaland undir forystu Móse. Hann kaus frelsið og fyrirheitin. Hann áttaði sig á að hann átti val, gat tekið ákvörðun um að hafna kúgun faraós og ráða sjálfur sínum örlögum. Kosningar snúast um að fólk velji sér framtíð. En framtíðin er ekki alltaf augljós. Hvað verður á morgun? Enginn veit það í raun? Hvað verðum um okkur? Hvert förum við? Hverjar verða aðstæður okkar? Hver verða hinstu úrslitin í lífinu? Spurningar sem þessar eru nefndar tilvistarspurningar. Þær snúast um að þekkja örlög og úrslit lífsins. Tilvistarspurningar eru eins og vangaveltur um úrslit áður en kosningar hafa farið fram. Hver verða úrslitin? Já, hver verður útkoma mín og þín í hinsta kjöri lífsins? Á hverju byggjum við kosningaspárnar?
Annars konar kosningaloforð
Í trúarlegu tilliti eru þær byggðar á kosningaloforðum himinsins sem heita reyndar ekki kosningaloforð á máli trúarinnar heldur fyrirheit. Guð gefur loforð og hann stendur við heit sín.
Í lexíu dagsins er lofað friðarsáttmála, eilífum sáttmála. Guð vitjar síns lýðs og segist munu búa hjá honum og setja helgidóm sinn á meðal hans:
„bústaður minn skal vera hjá þeim, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.“Og afleiðingin af því að Guð býr á meðal sinan verður sú að þjóðirnar munu viðurkenna
„að ég er Drottinn, sem helga Ísrael.“En allt er það skilmálum háð. Ísrael þarf að standa við sinn hluta sáttmálans og lifa í friði og sátt. Stundum tókst þjóðinni það en það ríki sem nú er kennt við Ísrael er víðsfjarri því að lifa í sáttmálanum sem Guð hefur þráð. Í reynd hefur Guð útvíkkað þetta hugtak sem við köllum Ísrael. Kristur kom til að kalla til fylgdar við sig nýjan lýð. Nú nær hugtakið Ísrael yfir alla menn sem kjósa að fylgja Kristi sem Guð sendi til að breyta þessum heimi og kalla fólk til fylgdar við kosningaloforð kærleikans. Við erum Ísrael og Guð býr á meðal okkar, hann býr meira að segja í okkur. Svo er fyrirheitinu um heilagan anda fyrir að þakka, sem við fögnum eftir viku á hátíð heilags anda, hvítasunnuhátíðinni.
Við bíðum
Þessi sunnudagur ber yfirskriftina: Söfnuðurinn bíður. Hann bíður fyrirheitisins. Við erum eins og kjósendur sem bíða þess að loforðið rætist. Og það mun rætast vegna þess að sá sem loforðið gefur er áreiðanlegur og trúfastur. Hann hefur lofað okkur heilögum anda sem Jesús kallar hjálpara í guðspjalli dagsins. Heilagan anda má skilgreina sem nærveru Guðs. Gott er að finna að Guð er með í daglegu lífi. Bænin veitir aðgang að Guði og við finnum fyrir nærveru hans þegar við lesum eða heyrum Guðs orð, kyrrum hugann, spennum greipar og biðjum.
Andinn vitnar um Jesú og hann segir að lærisveinarnir eigi að vitna um hann. Hann býr þá undir erfiðleika og mótlæti og þráir það eitt að þeir falli ekki frá. Líf þeirra í þjónustu við fagnaðarerindið var ekki eintómur dans á rósum því flestir frumvottanna létu lífið fyrir trú sína. En með því að kjósa Jesú, kusu þeir lífið, eilífa lífið.
Í framboði
En snýst þetta allt um það að kjósa Jesú? Eða snýst þetta allt um það að hann hafi kosið okkur? Bíddu nú við, var einhver að segja að við værum í framboði? Já, við erum í framboði og Kristur hefur kosið okkur. Undur kristinnar trúar felst einmitt í því.
Tvíburasysturnar, Bergljót Júlíana og Laufey Steinunn, sem skírðar voru áðan, hafa sigrað í kosningu lífsins: Kristur hefur kosið þær til lífs, til eilífs lífs. Við sem erum skírð vorum einnig kosin. Til lífs! Kosning okkar er ekki til fjögurra ára heldur til eilífðar en hins vegar er það okkar að endurnýja umboðið á hverjum degi með því að iðrast synda okkar, kannast við breyskleika okkar og rísa upp með Kristi til nýs lífs, hvern dag, hverja stund. Við eigum að lifa í sigri, kosningasigri.
Í þessu liggur fagnaðarerindið: Guð hefur kosið, hann hefur útvalið okkur. Þess vegna sendir hann anda sinn. Og postuli hans kallar okkur í pistli dagsins til að vera gætin og algáð til bæna. Hann biður okkur að vera brennandi í kærleika, hvert til annars, „því að kærleikur hylur fjölda synda.“ Hugsið ykkur, kærleikurinn hylur syndir! Já, á öðrum stað segir: „Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ (I Kor 13.7-8a). Hann er innsta eðli Guðs og lífsins og þar með okkar!
Verkefnin sem bíða hinna kosnu
Svo hvetur hann okkur til að vera gestrisin og mæta þörfum annarra. Við eigum að þjóna öðrum með hæfileikum okkar og halda á lofti gildum Guðsríkisins. Og þá sjáum við hvað trúnni er markvisst beint að lífinu sjálfu. Kristin trú snýst ekki um lífið eftir dauðann heldur lífið hér og nú, um að þjóna náunganum. Þess vegna hefur kristin trú félagslega ábyrgð. Hún er pólitísk í þeim skilningi að hún hefur ábyrgð á lífinu, lífi fólks í tíma og rúmi. En hún er ekki og verður aldrei flokkspólitísk. Hún er miklu stærri en svo að henni verði pakkað inn í stefnuskrá einhvers mannlegs flokks. Hins vegar getur fólk í öllum flokkum tekið þátt í verkefni kristinnar kirkju, í þeirri mission sem kristin trú hefur að köllum í þessu lífi. Og Guð er með okkur í öllu þessu og hefur lofað að yfirgefa okkur aldrei.
Hann kaus okkur, hann kaus þig og mig. Við erum sigurvegarar kosninganna.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.
Lexían. Esekíel 37. 26-28
Og ég mun gjöra við þá friðarsáttmála, það skal vera eilífur sáttmáli við þá, og ég mun láta þá búa að staðaldri í landinu og fjölga þeim og setja helgidóm minn meðal þeirra að eilífu. Og bústaður minn skal vera hjá þeim, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð. Og þjóðirnar skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, sem helga Ísrael, þegar helgidómur minn verður meðal þeirra eilíflega.Pistillinn. 1.Pét. 4. 7 - 11.
En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætnir og algáðir til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisnir hver við annan án möglunar. Þjónið hver öðrum með þeirri náðargáfu, sem yður hefur verið gefin, sem góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur, til þess að Guð vegsamist í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen