Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann? Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir.Matt. 7:7-12
Öfund
Í vikunni gaf ég saman bandaríkst par austur við Jökulsárlón. Nokkrum dögum fyrir athöfnina hitti ég þau að máli augliti til auglitis eftir að hafa verið í tölvupóstssambandi við þau í nokkra mánuði. Í samtali okkar kom ríkisfang við sögu. Eftir að hafa rætt þau mál fram og til baka sagði konan einlæglega við mig – “Ég öfunda þig að eiga heima hér og geta kallast Íslendingur. Þau höfðu valið island vegna þess að þau höfðu lesið og séð að landið var fallegt og öruggt fyrir bandaríkjamenn að ferðast um. Hún sagði líka á mjög sannfærandi hátt að – “Það hljóta allar dyr heimsins standa þér sem Íslendingi opnar.” Ég gat ekki svarað þessu á annan hátt en með því að brosa og hugsa til þess hvers vegna ætti ég að vera öfundaður af því að hafa fæðst hér á landi og þ.a.l. kallast íslendingur með íslenskt vegabréf og ekki nóg með það að vera öfundaður. Svo mjög öfundaður að fæstir jarðabúar hafa hugmynd hvar island er og hvað þá að island væri til. Fyrir mörgum árum var ég spurður af ítölskum landamæraverði við komuna þangað frá Austuríki “hvað ég hafi verið lengi að keyra frá íslandi.” Hann var svo vígalegurað þorði ekki hlægja af fávisku hans upp í opið geðið á honum. Ég man ég hugsaði – “þessir útlendingar eru svo vitlausir.” Hvað veit ég um Ítalíu.
Það er kannski öfundsvert hlutskipti að vita ekki hvar maður hefur verið fóstraður? Ætti mér líða vel að vera öfundaður af einhverju sem ég hafði ekkert með að gera? Fyrir tilviljun eina fæðist ég hér og fagna á þessum degi sem og aðrir íslendingar sem ekki hafa fæðst á landinu en sest hér að og öðlast ríkisborgararétt. Er það mín blessun að vera fæddur hér á landi? Er það blessun fyrir þá sem öðlast ríkisborgararétt á misauðveldlegan hátt. Ég var eiginlega knúin til að velta þessu fyrir mér og ekki síst þegar leið mín lá um sunnlenskar sveitir brosandi út að eyrum í góðviðriskasti þann dag sem ég gaf bandaríska parið saman. Landið var eitt stórt póstkort græn engi og bændur og búalið undir vomandi hvítum jökli undir brakandi sólinni og “túrhestar” sem eflaust hafa hugsað í gegnum digital myndavélaaugað að það hlyti að vera öfundsvert hlutskipti að vera íslendingur. Ég í öfundsverðu kasti gaf mér ekki tíma til að stoppa og njóta þess sem útlendingarnir sáu, annarsvegar kyrrstæða náttúruna, hreina og tæra loftið og hins vegar stressaðan íslending bruna á öðru hundraðinu á eftir þjóðvegi eitt. Létt sér fátt um finnast um fallandi fossa og hjalandi tæra læki náttúrunar sem lék sér eins og barn.
Að vega eða ekki vega?
Sem síðan leiðir til þeirrar spurningar. Hvað er það sem gerir Íslending að Íslendingi? Að fara um sveitir landsins á öðru hundraðinu og fá sér vegapylsu með remúlagði og kók á 100 km. fresti? Dragandi á eftir sér nýjasta módelið af hjóhýsi stærra en í fyrra og gæta þess að engin komist fram úr? Engin einhlít svör eru til við spurningunni. Það er líka hægt að spyrja sig að því hvað það er sem gerir þjóð að þjóð. Það er hægt að grípa til rómatíkunar og setja á sig sauðskinnskóna, draga niður hitan í upphituðuum nútímaheimilinu með sítengingu við umheiminn því að við megum ekki missa af neinu og velta sér upp úr fortíðinni og þess sem var og gerir okkur í dag að því sem við erum. Það er ekkert líkt í dag sem var. Samanburðurinn væri í flestum þáttum lífsins því sem var óhagstæður eða svo skyldi maður ætla. Væntanlega munu þeir vera á öndverðum meiði sem farnir eru eftir vinnustrit áranna og harða lífsbaráttu. Það er sama hvar drepið er niður fæti. Tungutakið, hugsunin, híbýlin, heilsufarið, atvinnuhættir, möguleikar til lífs, allt þetta er framandlegt fyrir þeim sem lifði sínu lífi og dó á þessu landi og skilaði sínu til næstu kynslóðar fyrir þetta mörgum árum eða fáum. Það eina sameiginglega sem hægt er að tala um eru væntingarnar um lífið og framvindu þess. Allar kynslóðir og allar þjóðir eiga það sameiginlegt að vilja geta lifað lífinu sæmilega örugg og í sátt. Það er eitt að vilja og annað að fá. Það er okkar sem þjóðar að gefa. Gefa þeim sem minna eiga, þeim sem ekki eiga von um eitthvað annað og betra en þeir hafa. Vissulega höfum við gefið og lagt af mörkum en við getum gert betur. Samkennd með þeim sem minna mega sín og þeim sem meira mega er hverfandi í velmegandi ástandi þjóðar. Jafnvel þótt við færum þá leið til að finna til samkenndar á þessum degi með burt kölluðum kynslóðum eins og alsiða er í ræðum fyrirmanna þjóðarinnar – jafnvel þótt við færum þá leið komum við fljótlega að þeim stað þar sem skilur að. Það eina sem sameinar er að við getum kallað okkur Íslendinga að við eigum sameiginlegt ríkisfang. Við erum ríkisborgarar þessa lands og í dag er hátíð þjóðarinnar. Þar sem fánar er dregnir á hún og lítríkar blöðrur fylltar helium kyssa himinhvolfið og á eftir þeim horfa tárvotir hvarmar barna og pabbi og mamma í nettu kasti næsta sölutjaldi að fjárfesta í klístruðum sleikibrjóstsykri í yfirstærð í staðin fyrir glataða blöðru sem horfin er sjónum manna en sýnileg englum himins sem kætast aldrei sem fyrr fyrir gjafir mannanna barna sem ekki voru gefnar af kærleik heldur vegna þess að litlir fingur gleymdu sér eina stund við það að afnotandi þeirra var að horfa á allt hitt sem í boði er og gat verið meira spennandi.
Hipp og kúl
Í samanburði þjóða erum við ung. Þegar maður er ungur er allt spennandi sem maður hefur ekki. Við Íslendingar erum svolítið þannig að við erum of upptekinn við að horfa eitthvað annað en gleymum því sem er. Kannski er það okkar gæfa sem ungrar þjóðar og þeir þekkja til sem eru eldri en “tvævetra.” Aflvakinn er að vera aldrei sátt við það sem við höfum. Við leitum lengra og teygjum okkur eftir því sem ekki þykir vera áhugavert á meðan eldri þjóðir eru værukærari. Kann það vera það sem gerir okkur kleift að lifa hér og aðrir öfunda okkur af? Hin hliðin er að við erum tilbúin að rífa upp með rótum það sem var og kasta á öskuhauga gleymskunnar til þess að geta verið númerinu stærri að við höldum í huga og augum þeirra sem við viljum helst mæla okkur við. Rutt er úr vegi ýmsu því sem hingað til hefur verið heilagt í huga margra eins og náttúra landsins ópsjölluð og hrein að sjá á ferð íslendingins á öðru hundraðinu. Við erum tilbúin að greiða götu stóriðjufyrirtækja og einstaklinga í þágu þess að bæta lifskjör í landinu. Við erum tilbúin að setja…ég kann ekki að nefna þá krónu tölu sem sett hefur verið í að fá sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á sama tíma að það eru ekki til peningar til að reka hér mannsæmandi heilsugæslu og búa þeim sem lagt hafa grunninn að því þjóðfélagi sem við búum í dag viðunandi búsetu skilyrði. Aldrað fólk er flutt hreppaflutningum eins og sagt var hér áður vegna þess að það vantar vistunarúrræði í heima í héraði og eða aldrað fólk fær ekki þá þjónustu sem því ber eins og nýlegar fréttir hafa upplýst okkur um. Sveitó
Í dag á allt að vera hipp og kúl ungt og slétt yfiborðið má ekki gárast af því sem var – því gamla. Gildir það jafn um hvort um er að ræða manneskjur eða lífvana hluti eins og hús eða bíla það passar ekki inni í þá mynd sem við viljum hafa af okkur. Flugnalifrur fortíðar skal eyðast af hinu nýja og stóra sem teigir sig óendanlega upp í himinninn og það kostar líka sitt að tryggja sér stað sem hæst uppi – verðmiðinn hljóðar upp á 230 milljónir króna. Kann að vera að forfeður og mæður okkar fyrrum höfum farið í víking og staðið stafni knerris og hoggið mann og annan; reyndar höfum við afkomdur þeirra ekki vanið okkur af þeim ósið um flestar helgar niðri í miðbæ að höggva mann og annan með tilheyrandi látum tilefnislausra likamsmeiðinga. Við erum að ná þvi að vera menn með mönnum í borg þar sem ekki lengur er óhætt að ganga um eftir ákveðin tíma sólarhringsins – loksins.
Það er öfundsvert að geta kallað sig Íslending. Allar dyr heimsins standa okkur opnar vegna smæðar þjóðar og þar af leiðandi er ábyrgðin mikil. Ábyrgð til verka til góðs ekki aðeins okkur sem þjóðar heldur og til alls heimsins. Það sem ætti að gera okkur að íslendingum er það að við mætum hverjum einstaklingi án tillits til litarháttar, trúar, kynhneigðar og hverju því sem hugsanlega kemur í veg fyrir að geta lifað lífinu á sómasamlegan hátt vegna fordóma sem við burðumst með. Ef við náum því þá getum við sannarlega sagt að það er öfundsvert að vera íslendingur meðal þjóða.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen